Ný rannsókn við Háskóla Íslands sýnir að þótt skógrækt geti gegnt hlutverki í baráttunni við hnattræna hlýnun þá hafa umfangsmiklar breytingar í gróðurfari hérlendis mikil áhrif á fjölbreytileika og þéttleika dýra, ekki síst vaðfugla.
Í grein sem birtist fyrir helgi í hinu virta tímariti J. Applied Ecology, sem er flaggskip breska vistfræðifélagsins, kemur fram að af sjö algengum vaðfuglum sem voru rannsakaðir var þéttleiki fimm þeirra, heiðlóu, spóa, tjalds, lóuþræls og jaðrakans nær helmingi minni næstu tvö hundruð metra við skógarjaðarinn samanborið við svæði sem voru fjær skóginum allt að 700 metrum. Hrossagaukur, ásamt skógarþresti sem er spörfugl, var hins vegar í meiri þéttleika nærri skógarjaðrinum en fjær honum.
Engin áhrif mældust af hæð trjáa, stærð og þéttleika skógarreita, eða hvort um barr- eða laufskóga var að ræða. Niðurstöðurnar hafa þýðingu fyrir skipulag skógræktar en þjóðir heims leggja nú mikla áherslu á að koma í veg fyrir að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum vinni gegn öðrum markmiðum í náttúruvernd.
Skógrækt er að aukast og stærð skóga getur haft mikil áhrif
Í greininni í J. Applied Ecology kemur fram að mikilvægt sé að greina áhrifin af skógrækt til að komast hjá því að valda óafturkræfum breytingum á dýrastofnum sem hafa hátt verndargildi.
„Skógrækt á Íslandi hefur aukist til muna síðustu ár og stefnt er að því að auka hana enn frekar,“ segir Aldís Erna Pálsdóttir, doktorsnemi og fyrsti höfundur greinarinnar. Rannsóknin var unnin við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ í samstarfi við East Anglia háskólann í Bretlandi. Rannsóknin er því unnin í samstarfi tveggja háskóla sem tilheyra Aurora-netinu sem er samstarfsvettvangur framúrskarandi evrópskra háskóla sem hafa það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á samfélög og lífríki með rannsóknum sínum.
„Mikill fjöldi farfugla verpir hér á landi og Íslendingar hafa skrifað undir alþjóðlega samninga og skuldbundið sig til að vernda þessa fuglastofna. Það er því mikilvægt að huga að áhrifum skógræktar á þessar tegundir og bregðast við þeim áður en áhrifin koma fram á farleiðum íslenskra fugla í Evrópu og Afríku,“ segir hún.
„Á Íslandi eru stórir hlutar heimsstofna ýmissa farfugla sem verpa á jörðu niðri í opnum búsvæðum. Ef aukin skógrækt hefur áhrif á dreifingu og stofnstærðir þessara tegunda, getur áhrifanna gætt á vetrarstöðvum þeirra í Evrópu og Afríku.“
Aldís segir að í rannsókninni hafi áhrif skóga á þéttleika og dreifingu fugla sem verpa á jörðu niðri, einkum vaðfugla, verið metin hérlendis með talningum á 161 sniðum umhverfis 118 skógarreiti það sem skógarjaðrarnir voru í háskerpu. „Tengsl fuglafjölda við fjarlægð frá skógarjöðrum voru notuð til að meta hvernig fjöldi fugla getur breyst með áframhaldandi skógrækt á láglendi Íslands og hvernig þær breytingar eru háðar skipulagi skóga, stærð þeirra og fjölda bletta.“
Í greininni kemur einnig fram að skógarreitir á Íslandi séu almennt litlir og dreifðir en útreikningar bendi til þess að fækkun fugla vegna skógræktar yrði t.d. nánast tífalt minni ef eitt þúsund hektara skógi yrði plantað í einu lagi miðað við að jafn stórum skógi væri plantað í mörgum eins hektara reitum.
Mikilvægt að huga að áhrifum skóga á fugla
Rannsakendurnir segja að skógrækt í opnum búsvæðum geti haft mikil áhrif á stofna fugla sem verpa á jörðu niðri og mikilvægt sé að hafa það í huga þegar skógrækt sé skipulögð.
„Mikill fjöldi farfugla verpir hér á landi og Íslendingar hafa skrifað undir alþjóðlega samninga og skuldbundið sig til að vernda þessa fuglastofna. Það er því mikilvægt að huga að áhrifum skógræktar á þessar tegundir og bregðast við þeim áður en áhrifin koma fram á farleiðum íslenskra fugla í Evrópu og Afríku,“ segir Aldís en hún varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands 28. júní 2022. Í doktorsrannsókninni hefur Aldís beint sjónum að áhrifum breytinga á landnotkun á norðurslóðum á þéttleika vaðfugla.
Auk Aldísar eru höfundar greinarinnar þau Tómas Grétar Gunnarsson, José Alves (sem er einnig við Háskólann í Aveiro í Portúgal), Snæbjörn Pálsson og Verónica Méndez frá Háskóla Íslands og Jennifer Gill og Harry Ewing frá East Anglia háskólanum í Norwich á Englandi.