Tilgangur sjóðsins er að stuðla að auknum áhuga á nýsköpun. Hlutverk hans er að styrkja efnilega frumkvöðla, nemendur eða vísindamenn, sem með einhverjum hætti sinna verkefnum eða rannsóknum er lúta að nýsköpun. Sjóðurinn er stofnaður til minningar um dr. Þorstein Inga Sigfússon (f. 4. júní 1954, d. 15. júlí 2019). Stofnfé sjóðsins er 1,5 milljón króna. Áætlað er að úthluta árlega úr sjóðnum á afmælisdegi Þorsteins Inga. Um dr. Þorstein Inga Sigfússon Þorsteinn Ingi lauk doktorsnámi í eðlisfræði frá Cambridge-háskóla í Englandi árið 1983 og var kjörinn „Research Fellow“ við Darwin College árið áður. Hann hóf störf sem fræðimaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands árið 1982 og síðar sem prófessor í eðlisfræði við háskólann. Fjöldi meistara- og doktorsnema stundaði rannsóknir undir hans leiðsögn. Þorsteinn Ingi vann ötullega að tengingu háskóla og atvinnulífs og kom að stofnun og stjórnarmennsku sprotafyrirtækja á mörgum sviðum. Hann var frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi, sat í stjórn Íslenskrar nýorku og var eindreginn talsmaður þess að draga úr losun koltvíoxíðs í andrúmslofti. Um árabil var Þorsteinn Ingi formaður framkvæmdanefndar alþjóðasamtakanna IPHE (International Partnership for the Hydrogen Economy) og einnig meðlimur í Samráðsþingi Columbia-háskóla um loftslagsbreytingar (Roundtable on Climate Change). Þorsteinn Ingi varð forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) við stofnun hennar 2007. Þar beitti hann kröftum sínum til uppbyggingar víðtækrar frumkvöðlastarfsemi og miðlunar þekkingar. Eftir Þorstein Inga liggur fjöldi ritrýndra vísindagreina auk annarra skrifa. Árið 2004 var Þorsteinn Ingi sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf og framlag til hátækniatvinnugreina. Hann hlaut rússnesku Alheimsorkuverðlaunin árið 2007 fyrir framlag sitt til vetnismála. Stjórn sjóðsins Rektor Háskóla Íslands skipar stjórn sjóðsins og í henni sitja: Hermann Kristjánsson, verkfræðingur og frumkvöðull dr. Þór Sigfússon hagfræðingur dr. Guðrún Pétursdóttir, dósent við Háskóla Íslands Skipulagsskrá 1. grein Nafn sjóðs, heimili og varnarþing Sjóðurinn heitir Nýsköpunarsjóður dr. Þorsteins Inga Sigfússonar. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. Sjóðurinn er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem eru í fjárvörslu Háskóla Íslands. 2. grein Tilgangur og markmið sjóðsins Tilgangur Nýsköpunarsjóðs dr. Þorsteins Inga Sigfússonar er að stuðla að auknum áhuga á nýsköpun. Sjóðurinn skal hafa það hlutverk að styrkja efnilega frumkvöðla, nemendur eða vísindamenn sem með einhverjum hætti sinna verkefnum eða rannsóknum er lúta að nýsköpun. 3. grein Stofnframlag og tekjur sjóðsins Stofnfé sjóðsins er 1.500.000 krónur – ein og hálf milljón króna. Tekjur sjóðsins eru eftirfarandi: Vextir og arður af eignum sjóðsins. Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni sjóðsins. Sjóðurinn tekur við gjöfum og framlögum frá þeim sem vilja veita markmiðum hans brautargengi skv. 2. gr. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma og taka mið af fjárfestingarstefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Stefna sjóðsins er að úthluta sem styrkjum allt að 2/3 hlutum höfuðstóls sjóðsins ásamt allri raunávöxtun hans á hverju reikningstímabili, með tilliti til verðlagsbreytinga og að frádregnum kostnaði við rekstur sjóðsins. 4. grein Stofnandi sjóðsins Sjóðurinn er stofnaður af Bergþóru Karen Ketilsdóttur f. 20. júní. 1954, til minningar um dr. Þorstein Inga Sigfússon, f. 4. júní 1954, d. 15. júlí 2019. Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon lauk doktorsnámi í eðlisfræði frá Cambridge-háskóla í Englandi árið 1983 og var kjörinn „Research Fellow“ við Darwin College sama ár. Þorsteinn Ingi hóf störf sem fræðimaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands árið 1982 og síðar sem prófessor í eðlisfræði við háskólann. Fjöldi meistara- og doktorsnema stundaði rannsóknir undir hans leiðsögn. Þorsteinn Ingi vann ötullega að tengingu háskóla og atvinnulífs og kom að stofnun og stjórnarmennsku sprotafyrirtækja á mörgum sviðum. Hann var frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi og eindreginn talsmaður þess að draga úr losun koltvíildis í andrúmslofti. Um árabil var Þorsteinn Ingi formaður framkvæmdanefndar alþjóðasamtakanna IPHE (International Partnership for the Hydrogen Economy) og einnig meðlimur í Samráðsþingi Columbia-háskóla um loftslagsbreytingar (Roundtable on Climate Change). Þorsteinn Ingi varð forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) við stofnun hennar 2007. Þar beitti hann kröftum sínum til uppbyggingar víðtækrar frumkvöðlastarfsemi og miðlun þekkingar. Eftir Þorstein Inga liggur fjöldi ritrýndra vísindagreina auk annarra skrifa. Árið 2004 var Þorsteinn Ingi sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf og framlag til hátækniatvinnugreina. Hann hlaut rússnesku Alheimsorkuverðlaunin árið 2007 fyrir framlag sitt til vetnismála. 5. grein Stjórn sjóðsins Rektor Háskóla Íslands skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Rektor tilnefnir tvo stjórnarmenn. Bergþóra Karen Ketilsdóttir, eða afkomendur hennar í beinan legg, tilnefna þriðja stjórnarmanninn. Við skipun stjórnar skal taka mið af tilgangi sjóðsins. Hlutverk stjórnar er að halda utan um málefni sjóðsins og kynningar- og umsóknarferli í samstarfi við umsjónarmann Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Stjórnin kemur saman að minnsta kosti árlega. 6. grein Fundir stjórnar Formaður stjórnar sjóðsins skal boða til stjórnarfunda sjóðsins. Stjórnin tekur ákvörðun um fjárhæð styrkja og velur styrkþega úr hópi umsækjenda. Við styrkveitingar skal taka mið af tilgangi og markmiði sjóðsins. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Stjórnin fer yfir ársreikninga sjóðsins, hefur eftirlit með ráðstöfun styrkja og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórnin setur sér nánari starfsreglur um úthlutanir, svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Stjórnin ritar starfsreglur sjóðsins og skulu þær endurskoðaðar reglulega. Sjóðsstjórn heldur fundargerðabók og skilar fundargerðum til umsjónarmanns Styrktarsjóða Háskóla Íslands til varðveislu. Stjórnin skal úthluta styrkjum á grundvelli auglýsingar. Auglýsing eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum skal gerð á þann hátt að hún nái til sem flestra sem hún getur átt erindi við. Lögð skal áhersla á að auglýsa í þeim miðlum sem talið er hverju sinni að nái til viðkomandi hóps. Áhuga dr. Þorsteins Inga á nýsköpun skal ávallt haldið á lofti með sýnilegum hætti af hálfu Háskóla Íslands í tengslum við styrkveitingarnar. Að jafnaði skal úthlutun tilkynnt við hátíðlega athöfn, á afmælisdegi dr. Þorsteins Inga, þann 4. júní árlega. Stjórn getur í ljósi ávöxtunar eða annarra aðstæðna ákveðið að safna saman leyfilegri úthlutun á milli reikningsára og úthluta í einu lagi lausum hlut samkvæmt reikningsskilum. 7. grein Umsýsla og endurskoðun sjóðsins Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Endurskoðendur sjóðsins eru endurskoðendur Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Reikningar sjóðsins skulu birtir með sama hætti og annarra sjóða í vörslu Háskóla Íslands. 8. grein Um breytingar á skipulagsskránni Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður eða gera breytingar á hlutverki hans og tilgangi af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Slíkt skal borið skriflega undir sýslumanninn á Norðurlandi vestra. Verði sjóðurinn lagður niður skulu fjármunir hans renna til málefna er tengjast tilgangi sjóðsins. 9. grein Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni. Reykjavík, 4. júní 2020 _________________________ Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands _________________________ Bergþóra Karen Ketilsdóttir Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá númer 19/1988. facebooklinkedintwitter