Háskóli Íslands veitir hvert háskólaár að jafnaði fjórum starfsmönnum viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi. Forsendur viðurkenningar eru ágæti í kennslu, rannsóknum, jafnréttismálum eða í öðrum störfum í þágu Háskólans. Rektor skipar þrjá menn í valnefnd og eiga sæti í henni fulltrúi rektors, sem er formaður, fyrrverandi fastráðinn kennari Háskólans og fyrrverandi nemandi Háskólans, sem velja úr tilnefningum og ákveða hverjir hljóta hina árlegu viðurkenningu. Nefndin er skipuð til þriggja ára í senn. Verklagsreglur um viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi voru upphaflega samþykktar af háskólaráði 19. september 2002. Endurskoðaðar reglur voru samþykktar í háskólaráði 3. nóvember 2022. Yfirlit yfir handhafa viðurkenninga: 2023Baldur Þórhallsson Baldur Þórhallsson prófessor hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna við Háskóla Íslands. Baldur Þórhallsson lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands árið 1991, meistaragráðu í vestur evrópskum stjórnmálum frá Háskólanum í Essex í Englandi 1994 og doktorsgráðu í sömu grein frá sama háskóla 1999. Ber doktorsritgerð hans heitið „The Role of Smaller States in the Decision-Making Process of the Common Agricultural Policy and the Regional Policy of the European Union“. Baldur er í dag einn af fremstu fræðimönnum á sviði smáríkjafræða (e. small state studies) og hefur birt tugi greina í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum, auk þess að skrifa og ritstýra nokkrum bókum sem fjalla um efnið. Hann hefur ætíð lagt ríka áherslu á að taka Ísland inn í rannsóknir sínar um smáríki í alþjóðasamfélaginu og þannig lagt mikið af mörkum til rannsókna á utanríkisstefnu Íslands, þ.m.t. Evrópustefnu og varnarstefnu landsins. Baldur endurreisti starfsemi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands eftir að hún hafði legið niðri um nokkurn tíma og stofnaði Rannsóknasetur um smáríki (e. Centre for Small State Studies) árið 2002. Undir hans forystu er setrið orðið eitt af virtustu rannsóknasetrum á sviði smáríkjafræða og hefur fengið ótal erlenda styrki og viðkenningar fyrir rannsóknir og kennslu. Setrið hefur hlotið stöðu svokallaðs Jean Monnet Centre of Excellence en auk þess er Baldur titlaður sem Jean Monnet Chair. Rannsóknasetur um smáríki hefur leitt og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra rannsóknaverkefna með fræðimönnum víðsvegar að úr heiminum, gefið út fræðigreinar, skýrslur og bækur, og staðið fyrir fjölda alþjóðlegra ráðstefna. Þá hefur setrið starfrækt sumarskóla við Háskóla Íslands síðan 2003 og síðar vetrarskóla víðs vegar í Evrópu. Ríflega 800 nemendur í grunn- og framhaldsnámi alls staðar að úr heiminum hafa tekið þátt. Baldur er ötull að miðla rannsóknum sínum til almennings í öllum helstu miðlum hér á landi. Hann hefur gert hlaðvarpsþætti um rannsóknir sínar á utanríkisstefnu Íslands og fengið valinkunna einstaklinga til að kafa ofan í málin. Hann gerir grein fyrir rannsóknum á virkri og vinsælli heimasíðu og notar einnig samfélagsmiðla til þess. Baldur hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á að ráða nemendur sem aðstoðarmenn við rannsóknir sínar og gefið tugum nemenda Háskóla Íslands tækifæri til að stunda rannsóknir. Margir þeirra eru meðhöfundar Baldurs í fræðigreinum og bókaköflum. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Baldri Þórhallssyni fyrir lofsvert framlag hans til rannsókna við skólann. Elsa Eiríksdóttir Elsa Eiríksdóttir hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við Háskóla Íslands. Elsa Eiríksdóttir lauk BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1999, meistaragráðu í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum 2007 og doktorsgráðu í sömu grein frá sama háskóla árið 2011. Hún hóf störf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2012 og kennir þar meðal annars námssálarfræði, þróun verklegrar kunnáttu, verkfræðilega sálfræði, tengsl skóla og atvinnulífs og námsmat. Rannsóknir Elsu snúa að því hvernig fólk lærir verklega kunnáttu, hvernig yfirfærsla þekkingar og færni á sér stað og hvernig uppbygging náms og framsetning námsefnis getur haft þar áhrif, sérstaklega í upphafi náms. Núverandi rannsóknarverkefni snúa meðal annars að námi og kennslu í verk- og starfsnámi, samspili náms í skóla og á vinnustað í iðnmenntun á Íslandi og hvernig framsetning námsefnis fyrir verkleg verkefni getur bætt frammistöðu og nám. Nýlega leiddi Elsa endurskipulagningu á námi fyrir iðnmeistara þannig að það hentaði betur þeim sem sækja námið, en það er jafnan fólk sem er starfandi í sínum iðngreinum. Elsa hefur verið öflug, framsýn og leiðandi við mótun og endurskoðun námsins auk þess að gera þróun þess að rannsóknarefni. Elsa hafði forgöngu um að breyta því í hálft nám á tveimur árum í stað þess að vera 60 eininga nám á einu ári. Einnig hefur hún leitt breytingar á inntökuskilyrðum sem gera þurfti vegna breytinga á lögum tengdum útgáfu leyfisbréfa. Elsa átti frumkvæði að því að stofna námsleið til BA-gráðu sem hentar kennurum í framhaldsskólum og styrkir þá sem leiðtoga í menntun iðnaðarmanna. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Elsu Eiríksdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til kennslu við skólann. Ásta Dís Óladóttir Ásta Dís Óladóttir prófessor hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála við Háskóla Íslands. Ásta Dís Óladóttir lauk BA-gráðu í félagsfræði og atvinnulífsfræði frá Háskóla Íslands árið 1999, meistaraprófi í stjórnun og stefnumótun 2001 og doktorsprófi í alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2010. Hún starfaði hjá Háskóla Íslands á árunum 1999-2005 og frá 2016. Ásta Dís hefur vakið athygli á mikilvægi jafnra tækifæra kynjanna til stjórnunarstarfa hér á landi, með rannsóknum, kynningum og þátttöku í fjölda viðburða innan Háskóla Íslands og utan. Ásta Dís tók við formennsku í Jafnvægisvogarráði árið 2022. Auk formennskunnar hefur framlag hennar til Jafnvægisvogarinnar verið fólgið í því að styrkja umræðuna með niðurstöðum rannsókna á íslensku atvinnulífi frá sjónarhóli kynjajafnréttis. Hefur Ásta m.a. fjallað um „Arftakastjórnun” innan fyrirtækja auk þess að benda á að lífeyrissjóðirnir leika stórt hlutverk á markaði þegar kemur að jafnrétti. Í byrjun þessa árs fékk Ásta Dís og samstarfsfólk hennar verkefnastyrk Rannís, en þar leiðir hún rannsóknateymi innlendra og erlendra sérfræðinga þar sem markmiðið er að skoða hvernig loka megi kynjabilinu í atvinnulífinu. Þá hefur hún sett í loftið vefsíðu um rannsóknirnar, www.genderequality.hi.is Ásta Dís hefur skrifað fjölda ritrýndra greina og bókakafla þar sem áherslan er á jöfn tækifæri kynjanna. Einnig hefur hún margsinnis verið fengin sem viðmælandi í fjölmiðlum og verið álitsgjafi þegar fjallað er um jafnréttismál á opinberum vettvangi. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Ástu Dís Óladóttur fyrir lofsvert framlag hennar til jafnréttismála við skólann. Kristbjörg Olsen Kristbjörg Olsen verkefnisstjóri hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands. Kristbjörg Olsen lauk meistaranámi í myndlist, námi til kennsluréttinda og hefur sótt ýmis námskeið í vefhönnun, margmiðlun og kennslu. Hún hóf störf við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands árið 2003 og hefur starfað þar með hléum til þessa dags og sinnt fjölbreyttum verkefnum. Kristbjörg hefur í fjölmörg ár verið stoð og stytta kennara, nemenda og starfsmanna í stoðþjónustu Háskóla Íslands þegar kemur að stafrænni kennslu og ráðgjöf varðandi kennslukerfi skólans. Hún hefur mikinn metnað fyrir starfi sínu, er fljót að tileinka sér nýjungar á sviði stafrænna kennsluhátta og hefur náð ótrúlegum árangri í að miðla upplýsingum og leiðbeiningum til kennara og annars starfsfólks á þann hátt að það getur auðveldlega tileinkað sér tólin og lausnirnar. Það er afar dýrmætt fyrir Háskóla Íslands að hafa í þjónustu sinni svo traustan og góðan starfsmann sem Kristbjörg er, enda eru stafrænar lausnir í senn gríðarlega mikilvægar fyrir framþróun skólans og valda um leið álagi á kennara. Fullyrða má að flestir kennarar þekki til Kristbjargar og viti að þeir geti alltaf leitað til hennar. Verkefni hennar eru fjölmörg, hún svarar þjónustubeiðnum, býr til myndbönd, skrifar leiðbeiningar, heldur námskeið og er ævinlega reiðubúin að svara erindum ef einhver lendir í vandræðum. Myndbönd og leiðbeiningar Kristbjargar hafa vakið verðskuldaða athygli og eru ekki einungis notuð innan Háskóla Íslands heldur hafa aðrir háskólar einnig nýtt þau í ríkum mæli. Stuðningur við kennara er ávallt í forgangi hjá Kristbjörgu og þolinmæði hennar eru lítil takmörk sett. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Kristbjörgu Olsen fyrir lofsvert framlag hennar til stjórnsýslu og stoðþjónustu við skólann. 2022Pétur Henry Petersen Pétur Henry Petersen prófessor hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við Háskóla Íslands. Pétur Henry lauk doktorsprófi í sameindalíffræði og taugavísindum frá Yale-háskóla í Connecticut í Bandaríkjunum og var ráðinn lektor við Háskóla Íslands 2009, dósent 2012 og prófessor 2020. Pétur Henry hefur verið mjög virkur í margvíslegri kennsluþróun á undanförnum árum. Hann hefur beitt sér í umræðu um kennslumál á vettvangi Læknadeildar og Heilbrigðisvísindasviðs, hefur unnið að innleiðingu kennsluforrita og setið í kennsluráði og kennslumálanefnd sviðsins. Hann hefur einnig lagt sig sérstaklega eftir fræðilegri hlið kennslunnar og hefur lagt stund á nám í kennslufræði fyrir háskólakennara sem hefur eflt hann til kennsluþróunar. Pétur Henry hefur haft frumkvæði að breytingum á námi læknanema og annarra heilbrigðisvísindanema og m.a. þróað nýjar leiðir til að virkja nemendur í námi sínu. Hann hefur tekið þátt í þróun lausnaleitarnáms (e. problem based learning) í Læknadeild í því skyni að tengja það betur við grunngreinar og almenna þætti í þjálfun læknanema. Slík kennsla er mjög nemendamiðuð og eflir færni nemenda í að samþætta nám sitt. Pétur Henry hefur einnig haft frumkvæði að því að taka upp hópavinnufyrirkomulag (e. team based learning) í námskeiðum sínum í því skyni að virkja nemendur til náms og hefur hann stutt aðra kennara við að innleiða slíkt námsfyrirkomulag. Jafnframt leggur Pétur Henry sig fram um að tengja kennsluna við framtíðarstarf nemenda, enda hafa þeir jafnan mikinn áhuga á klínískum tengingum þótt oft reynist örðugt að koma til móts við það í grunnnámi. Loks hefur Pétur Henry gert tilraunir með fjölbreyttara námsmat en almennt tíðkast með því að byggja á verkefnum fremur en lokaprófi og með því að nota einkunnina staðið/fallið í stað tölulegrar lokaeinkunnar sem beinir sjónum frekar að inntaki námsins og þýðingu þess. Slíkar og aðrar breytingar hvetja í sjálfu sér til umræðu um kennslumál og hvernig best megi tryggja gæði menntunar. Í stuttu máli hefur Pétur Henry hvatt til umræðu um kennslu, tekið þátt í umræðu um kennslu, haft frumkvæði að bættri eða breyttri kennslu og þannig unnið á fjölbreyttan hátt að auknum gæðum náms. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Pétri Henry Petersen fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann. Hanna Ragnarsdóttir Hanna Ragnarsdóttir prófessor hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna við Háskóla Íslands. Hanna lauk dr. Philos. prófi í menntunarfræðum frá Háskólanum í Ósló 2007. Hún var ráðin lektor við Kennaraháskóla Íslands 1998 og hlaut framgang í starf prófessors 2013 við Háskóla Íslands. Árið 2022 tók Hanna jafnframt við stöðu prófessors við Inland Norway University of Applied Sciences í Noregi til þriggja ára, sem er til marks um það álit sem hún nýtur fyrir fræðistörf sín. Rannsóknir Hönnu hafa miðað að mögulegum jöfnuði og umbótum í íslensku menntakerfi. Þær hafa einkum beinst að börnum og fullorðnum af erlendum uppruna og ýmsum þáttum fjölmenningarlegs skólastarfs. Hún hefur birt fjölda greina og bókarkafla í alþjóðlegum og innlendum tímaritum og bókum. Auk þess hefur hún ritstýrt sjö bókum. Hanna hefur tekið þátt í og stýrt alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, meðal annars stýrði hún norræna rannsóknarverkefninu Learning Spaces for Inclusion and Social Justice: Success Stories from Immigrant Students and School Communities in Four Nordic Countries árin 2013-2015. Verkefnið hlaut styrk frá NordForsk og Rannís og var samvinnuverkefni 27 fræðimanna og nemenda í fimm háskólum í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. Meðal annarra rannsóknarverkefna sem Hanna hefur leitt má nefna Væntingar og tækifæri innflytjenda á Íslandi til háskólamenntunar og áskoranir henni tengdar, sem hlaut styrk frá Rannís 2016-2018. Hanna tók einnig þátt í verkefninu Inclusive Early Childhood Education, sem leitt var af European Agency for Special Needs and Inclusive Education og fór fram í 28 Evrópulöndum. Árið 2021 hlaut Hanna styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins fyrir verkefnið Promoting cultural diversity in primary and lower-secondary schools (DIVERS-CULT) sem miðar að því að auka þekkingu nemenda og kennara á fjölbreytni í skólum. Einnig hlaut hún styrk úr Erasmus+ áætluninni 2021 fyrir verkefnið Global Teacher Education (GatherED). Fyrr á þessu ári fékk hún síðan verkefnisstyrk Rannís vegna rannsóknarinnar Tungumálastefna og starfshættir fjölbreyttra fjölskyldna innflytjenda á Íslandi og áhrif þeirra á menntun. Hanna stofnaði Rannsóknastofu í fjölmenningarfræðum ásamt hópi rannsakenda á Menntavísindasviði árið 2007 og leiddi hana fyrstu árin. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Hönnu Ragnarsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til rannsókna við Háskóla Íslands. Anna Helga Jónsdóttir Anna Helga Jónsdóttir dósent hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála við Háskóla Íslands. Anna Helga lauk BS-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2003, meistaraprófi í hagnýtri stærðfræði frá Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn 2005 og doktorsprófi í tölfræði frá Háskóla Íslands árið 2015. Anna Helga var ráðin dósent í tölfræði við Háskóla Íslands 2018, en var aðjunkt og áður stundakennari í mörg ár. Anna Helga Jónsdóttir hefur, ásamt Bjarnheiði Kristinsdóttur, stutt dyggilega við bakið á námsbúðunum Stelpur diffra, en námsbúðirnar eru hugarfóstur Nönnu Kristjánsdóttur stærðfræðinema. Markmið búðanna er að auka þátttöku stúlkna og stálpa í heimi stærðfræðinnar þar sem hlutfall kvenkyns nemenda lækkar mikið á hærri menntunarstigum. Í búðunum er stærðfræðin skoðuð í nýju ljósi og lögð áhersla á að kynna þær fræðikonur sem hafa lagt sitt af mörkum innan stærðfræðinnar. Námsbúðirnar eru einnig mikilvægar til að vekja áhuga ungra stúlkna og stálpa á stærðfræði og raungreinum og skapa samfélag fyrir stelpur innan þessara greina þar sem talsverður kynjamunur hefur verið til staðar. Námsbúðirnar voru tilnefndar til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands fyrr á þessu ári. Anna Helga hefur einnig verið virkur þátttakandi í verkefninu Education in a suitcase í samstarfi við Gunnar Stefánsson prófessor, sem byggir m.a. á notkun kennsluhugbúnaðar í stærðfræði og tölfræði, Tutor-Web, sem Anna Helga og Gunnar hafa þróað. Verkefnið hjálpar nemendum á fátækustu svæðum Afríku til að komast í háskóla sem nýtist ekki síst stúlkum og stálpum. Anna Helga sýnir í verki að stærðfræði er ekki aðeins grein fyrir karla heldur er hún opin einstaklingum af öllum kynjum. Með framlagi sínu hefur hún verið sýnileg og mikilvæg fyrirmynd og hvatning fyrir aðra. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Önnu Helgu Jónsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til jafnréttismála við skólann. Kristinn Ingvarsson Kristinn Ingvarsson ljósmyndari hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands. Kristinn lauk BA-prófi í ljósmyndun frá Harrow College of Higher Education í London árið 1989 og starfaði sem ljósmyndari hjá Þjóðviljanum 1989-1992 og hjá Morgunblaðinu 1992-2015 er hann réð sig til starfa hjá Háskóla Íslands. Ljósmyndir Kristins hafa verið sýndar á sýningum, í bókverkum og eru í eigu listasafna erlendis. Kristinn er framúrskarandi ljósmyndari sem hefur skráð sögu Háskóla Íslands í myndum um árabil. Hann hefur vakið áhuga almennings á Háskóla Íslands með myndum sem prýða jafnt prentað sem stafrænt kynningarefni skólans. Hann hefur myndað stærstu gleðistundir í lífi háskólaborgara, s.s. brautskráningarathafnir, doktorsvarnir og innsetningarathafnir, auk þess sem hann er vakinn og sofinn við ljósmyndun margvíslegra viðburða, undirritun samninga og móttöku erlendra og innlendra gesta. Myndir hans hafa sögulegt gildi til framtíðar. Ljósmyndir Kristins bera vott um einstaka listræna nálgun og næman skilning á sögunni. Hann spilar vel með ljós, skugga, glampa og speglun og fáir hafa jafnmikið vald á gerð potrettmynda og Kristinn. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Kristni Ingvarssyni fyrir lofsvert framlag hans til ljósmyndunar og miðlunar við skólann. 2021Matthew James Whelpton Prófessor við Mála- og menningardeild og kennsluþróunarstjóri Hugvísindasviðs Háskóla Íslands Matthew James Whelpton lauk doktorsprófi í enskum málvísindum frá Oxford-háskóla árið 1995 og var ráðinn sama ár í starf lektors í ensku við Hugvísindadeild Háskóla Íslands. Síðan þá hefur hann kennt við Háskólann og gegnir nú starfi prófessors í ensku við Mála- og menningardeild á Hugvísindasviði. Matthew hefur kennt námskeið á ýmsum sviðum enskra og almennra málvísinda, bæði inngangsnámskeið og sértækari námskeið í málvísindum. Hann hefur frá upphafi verið afar farsæll kennari og hefur lagt sig fram við að tileinka sér nýjungar, kynna sér tækni og laga kennsluna að nýjum þörfum og kröfum. Nemendur hrósa honum í kennslukönnunum fyrir smitandi áhuga í kennslu, framúrskarandi undirbúning og leikni við að útskýra flókna hluti á einfaldan hátt fyrir nemendum. Haustið 2019 var Matthew ráðinn í hálft starf kennsluþróunarstjóra Hugvísindasviðs. Í því starfi hefur Matthew byggt á áralangri reynslu sinni sem kennari og unnið markvisst að því að auka gæði kennslu og náms á sviðinu. Á meðan heimsfaraldur geisaði vann hann þrekvirki við að leiðbeina kennurum í öllum deildum Hugvísindasviðs við að nýta sér hin ýmsu rafrænu kerfi við kennsluna. Það er ljóst að frumkvæði Matthews skipti sköpum á erfiðum tímum í starfi sviðsins og skólans alls. Matthew var tekinn inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna haustið 2021 og er þar með einn af stofnfélögum hennar. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Matthew James Whelpton fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann. Guðmundur Hrafn Guðmundsson Prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands Guðmundur Hrafn Guðmundsson lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 1983 og lagði stund á framhaldsnám í sömu grein við sama skóla 1983-1984. Að því búnu stundaði hann doktorsnám við Houstonháskóla í Texas í Bandaríkjunum og við Stokkhólmsháskóla og lauk þaðan doktorsprófi árið 1992. Að námi loknu starfaði hann við rannsóknir í Svíþjóð til ársins 1999 er hann var ráðinn dósent í ónæmisfræði við Karolinsku stofnunina og starfaði þar til ársins 2000. Guðmundur Hrafn var ráðinn prófessor í frumulíffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands árið 2001 og hefur gegnt því starfi síðan. Óhætt er að segja að Guðmundur Hrafn hafi sýnt mikinn metnað og elju við uppbyggingu rannsókna og aðstöðu við Háskóla Íslands. Hann leiðir öflugan rannsóknarhóp og hefur gefið nemendum tækifæri til að taka þátt í sameindalíffræðilegum rannsóknum á heimsmælikvarða. Guðmundur Hrafn er vinsæll leiðbeinandi og hefur reynst nemendum mikil fyrirmynd. Hann er víðsýnn og hugmyndaríkur vísindamaður og nýtu mikillar virðingar á sínu fagsviði. Guðmundur Hrafn er brautryðjandi í rannsóknum á bakteríudrepandi peptíðum og einn af fremstu fræðimönnum heims á sviði innbyggða ónæmiskerfisins. Þannig rannsakar hann fyrstu varnir manna og dýra við sýkingum og samspil hýsils og sýkils. Í því sambandi hefur hann m.a. sýnt fram á að margir sýklar draga úr tjáningu bakteríudrepandi peptíða í þekjum sem auðveldar þeim innrás í líkamann. Guðmundur Hrafn er höfundur tæplega eitthundrað vísindagreina á sviði tilraunavísinda og margar þeirra hafa birst í tímaritum með háan áhrifastuðul og eru skráðar um níu þúsund tilvitnanir í verk hans. Guðmundur Hrafn er gestaprófessor við Karolínsku stofnunina og annar stofnandi sprotafyrirtækisins Akthelia sem sérhæfir sig í að koma efnum er örva framleiðslu bakteríudrepandi peptíða á markað, sem nýrri tegund lyfja með breiðvirk áhrif á sýkla. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Guðmundi Hrafni Guðmundssyni fyrir lofsvert framlag hans til rannsókna við skólann. Kennarar og nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun er tveggja ára fullt nám. Tilgangur námsins er að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku. Markmið námsins er að undirbúa nemendur til starfa, m.a. í skólum, leikskólum, félagsmiðstöðvum og á öðrum vettvangi þar sem fatlað fólk sækir þjónustu. Námið byggir á hugmyndafræði um menntun fyrir alla og er skipulagt í samræmi við yfirlýsta alþjóðlega stefnu hagsmunasamtaka fólks með þroskahömlun, mannréttindasáttmála og stefnu Háskóla Íslands. Námið hófst í Kennaraháskóla Íslands árið 2007 og hefur haldið áfram í Háskóla Íslands eftir sameiningu þessara tveggja menntastofnana 2008. Námið er án aðgreiningar og stunda diplómanemendur það með öðrum háskólanemum. Það er þverfaglegt og samanstendur af námskeiðum frá mismunandi deildum. Námið er sniðið og skipulagt út frá þörfum og áhuga hvers nemanda til undirbúnings fyrir störf á sviði menntavísinda og störf er snúa að valdeflingu, hagsmunabaráttu og þátttöku fatlaðs fólks. Sérstök áhersla er lögð á tengingu nemenda við almennan vinnumarkað. Nemendur í diplómanáminu, í samstarfi við kennara, hafa verið mjög virkir og sýnilegir í jafnréttisstarfi Háskóla Íslands, m.a. á árlegum Jafnréttisdögum. Þau hafa staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum, s.s. sýningum, málþingum og myndböndum sem vakið hafa athygli fjölmiðla. Með þessu hafa nemendur virkjað þekkingu og reynslu sína til að vekja athygli á málefnum fatlaðs fólks. Með baráttu sinni hafa nemendur veitt Háskóla Íslands og samfélaginu öllu uppbyggilegt aðhald, oft með hugmyndaauðgi og kímnigáfu að vopni eins og þekkt er í mannréttindabaráttu um víða veröld. Diplómanámið er liður í því að Háskóli Íslands sé opinn sem breiðustum hópi nemenda og standi þannig undir því að vera háskóli allrar þjóðarinnar. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka kennurum og nemendum í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun fyrir lofsvert framlag þeirra til jafnréttismála við skólann. Kristín Magnúsdóttir Deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands Kristín Magnúsdóttir lauk prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 1974 og hóf störf á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) árið eftir. Kristín er einn af frumkvöðlum í réttarefnafræðilegum rannsóknum á Íslandi og hefur verið virkur þátttakandi í starfi og uppbyggingu stofnunarinnar frá upphafi, en þar fara fram greiningar á ávana- og fíkniefnum, lyfjum og eiturefnum sem þurfa m.a. að standast strangar kröfur um áreiðanleika fyrir dómstólum. Innan RLE hefur byggst upp mikil reynsla og þekking á réttarefnafræði fyrir lögreglu og dómsyfirvöld og þar hefur Kristín verið lykilstarfsmaður áratugum saman. Kristín er jafnframt helsti starfandi sérfræðingur Íslands í rannsóknum á ölvunarakstri, bæði hvað varðar uppsetningu og þróun rannsóknaraðferða, úrvinnslu gagna og túlkun niðurstaðna. Hún er okkar helsti sérfræðingur um áhrif lyfja og fíkniefna á ökumenn og hefur þannig verið kölluð sem vitni margsinnis ár hvert til að gefa sérfræðiálit í óteljandi dómsmálum. Í gegnum árin hefur hún verið meðhöfundur að nokkrum rannsóknagreinum og hefur kynnt rannsóknir sínar bæði hér heima og erlendis. Síðustu ár hefur Kristín verið ein af þremur yfirstjórnendum RLE og tekið á sig ábyrgð á rekstri rannsóknastofunnar. Þá hefur hún tekið þátt í ráðningum starfsfólks til fjölda ára og stuðlað að frábæru vinnuumhverfi sem best sést á löngum starfsaldri flestra sem vinna á RLE. Undanfarin ár hefur farið fram mikil vinna við að afla RLE vottunar skv. ISO 14001 og ISO 45001. Tókst það ferli afskaplega vel og er það ekki síst því að þakka hversu vel hefur verið staðið að öllu verklagi og öguðum vinnubrögðum innan RLE og á Kristín þar stóran hlut að máli. Kristín lauk störfum fyrir aldurs sakir í lok október síðastliðins og er hún í hópi þeirra sem hafa átt hvað lengstan og farsælastan starfsferil hjá Háskóla Íslands. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Kristínu Magnúsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands. 2020Amalía Björnsdóttir Amalía Björnsdóttir lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1990 og ári síðar prófi í uppeldis- og kennslufræðum. Árið 1994 lauk hún MS-prófi í sálfræði frá University of Oklahoma í Bandaríkjunum og 1996 PhD-gráðu í sálfræði frá sama háskóla. Amalía starfaði sem lektor við Kennaraháskóla Íslands frá árinu 1996, varð dósent við Kennaraháskóla Íslands 2000 og prófessor 2016. Amalía hefur verið leiðandi í kennslu megindlegra rannsóknaraðferða á Menntavísindasviði. Hún hefur glætt kennslu sína lífi og hrifið nemendur inn í heim tölfræðinnar. Auk þess kemur hún að fjölmörgum rannsóknarverkefnum nemenda þar sem megindlegum aðferðum er beitt. Amalía hefur verið í fararbroddi við að tileinka sér og nýta nýjar áherslur í kennslu og lagt sig fram um að veita nemendum stuðning, hvort sem er í stað- eða fjarnámi. Hún hefur í kennslu sinni um langt skeið sett með markvissum hætti stuðningsefni fyrir nemendur á netið, bæði upptökur og myndskeið. Meðal annars setti hún árið 2006 upp tölfræðivef með fjölbreyttu efni sem nemendur hafa nýtt sér í ríkum mæli, á heimasíðu hennar er margs konar kennsluefni og hún hefur tekið upp fjölda vandaðra og hnitmiðaðra myndbanda og birt á Youtube. Amalía hefur á kennsluferli sínum lagt sig fram um að laga kennsluhætti að aðstæðum á hverjum tíma og nýta tækninýjungar við kennslu. Hún var m.a. í prófunarhópi vegna innleiðingar nýs námsumsjónarkerfis í Háskóla Íslands og lagði síðan á sig ómælda vinnu við að hanna notendavæna námsvefi. Þegar COVID-19 veirufaraldurinn skall á snemma á þessu ári var Amalía því vel undirbúin. Hún tók þá að sér að leiðbeina og aðstoða fjölmarga samkennara við fjarkennslu og uppsetningu CANVAS-vefja í námskeiðum auk þess sem hún tók upp leiðbeiningarefni fyrir aðra kennara um kennslu á vefnum. Amalía hefur í rannsóknum sínum látið sig kennslu og aðstæður nemenda og kennara varða. Þá hefur hún fjallað um kulnun og starfsaðstæður kennara og skólastjórnenda. Hún hefur rannsakað reynslu nemenda í háskólanámi og verið vakandi fyrir því að gæta að stöðu nemenda af landsbyggðinni. Amalía er fagmanneskja fram í fingurgóma, gerir miklar kröfur til nemenda en þó umfram allt til sjálfrar sín. Þannig leggur hún sig fram um að finna lausnir fyrir nemendur og leiða þá áfram í heimi tölfræðinnar sem oft er vandrataður. Gavin Murray Lucas Gavin Murray Lucas lauk BA-prófi í fornleifafræði við University College London í Englandi 1988 og doktorsprófi frá Cambridge-háskóla 1995. Næstu ár starfaði hann við ýmis rannsóknarverkefni á Íslandi, í Suður-Afríku, í Tyrklandi og í Bretlandi. Gavin var ráðinn lektor í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2006, varð dósent 2010 og prófessor 2012. Hann hefur verið bæði farsæll kennari og afkastamikill rannsakandi í starfi sínu hjá Háskóla Íslands. Gavin er mjög fjölhæfur vísindamaður, hefur stjórnað fornleifauppgröftum og skrifað bækur og fjölda vísindagreina um kenningar í fornleifafræði. Þannig hefur hann haslað sér völl sem leiðandi fræðimaður á alþjóðlegum vettvangi í rannsóknum á tengslum tíma og fornleifafræði, en árið 2005 kom út bók eftir hann hjá Routledge-forlaginu um fornleifafræði tímans. Áratug síðar var hann valinn til að skrifa kafla um tímann í sögulegri fornleifafræði í bók sem birtist í ritröðinni Cambridge Companions (Cambridge University Press, 2015) og um tímann í The Oxford Handbook of Archaeological Theory 2014. Í bókunum Writing the Past. Knowledge and Literary Production in Archaeology (Routledge, 2019), Understanding the Archaeological Record (Cambridge University Press, 2012) og Critical Approaches to Fieldwork: Contemporary and Historical Archaeological Practice (Routledge, 2002), sem komu út hjá tveimur af virtustu akademísku forlögum heims í hugvísindum, nýtir Gavin sér reynslu sína af frumrannsóknum við ritun grunnbóka um aðferðafræði í fornleifafræði. Svipuðu máli gegnir um fræðibókina An Archaeology of Colonial Identity: Power and Material Culture in the Dwars Valley, South Africa (Springer, 2006), en þar setur Gavin niðurstöður grunnrannsókna sinna í Suður-Afríku inn í umræður um „eftirlendufræði” (Post-colonialism) innan fornleifafræðinnar. Loks hefur Gavin kynnt niðurstöður íslenskra rannsókna í fornleifafræði fyrir alþjóðlegum fræðaheimi, m.a. í bókinni Hofstaðir: Excavations of a Viking Age Reasting Hall in North-Eastern Iceland (Fornleifastofnun Íslands, 2009), sem hann ritstýrði. Rannsóknir Gavins Murray Lucas hafa vakið verðskuldaða athygli í alþjóðlegum fræðaheimi. Þannig sést af alþjóðlegum skrám um tilvísanir, s.s. Google Scholar (5320 tilvísanir) og Scopus (811 tilvitnanir) að hann ber höfuð og herðar yfir aðra núverandi starfsmenn Háskóla Íslands innan hugvísinda hvað þetta varðar, en fjöldi tilvitnana er almennt mun færri þar en á öðrum sviðum vísinda. Helga Steinunn Hauksdóttir Helga Steinunn Hauksdóttir lauk BA-prófi í sagnfræði 1992. Hún hóf störf við Háskóla Íslands haustið 2012 og hefur starfað sem verkefnastjóri á skrifstofu Lagadeildar Háskóla Íslands frá 2014 og nú síðast einnig í nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs. Í starfi sínu fyrir Lagadeild og Félagsvísindasvið hefur Helga Steinunn m.a. umsjón með málefnum nemenda. Óhætt er að segja að hún ræki það starf af einstakri alúð og trúmennsku. Helga Steinunn er vakin og sofin yfir velferð skjólstæðinga sinna. Hún kemur fram við nemendur eins og jafningja, er ráðagóð og ævinlega til staðar til að leiðbeina um hvaðeina sem viðkemur náminu. Hún er örlát á upplýsingar og hefur ævinlega á reiðum höndum svör við spurningum nemenda. Helga Steinunn ber hag nemenda Lagadeildar og Félagsvísindasviðs mjög fyrir brjósti, er ósérhlífin og vandvirk í störfum sínum, fús að leysa úr málum nemenda og gefur sér til þess góðan tíma. Hún er vel heima á sínu starfssviði, svarar erindum fljótt og vel, er hvetjandi og ávallt reiðubúin til aðstoðar þegar til hennar er leitað, auk þess sem hún er glaðleg og kurteis í viðmóti jafnt við nemendur sem samstarfsfólk. Helgu Steinunni vaxa viðfangsefnin ekki í augum heldur lítur hún á þau sem verkefni til að leysa. Irma Jóhanna Erlingsdóttir Irma Jóhanna Erlingsdóttir lauk doktorsprófi í samtímabókmenntum og menningarfræði frá Sorbonne háskóla árið 2012. Hún var ráðin lektor í frönskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands 2009 og hefur verið dósent frá 2013. Irma hefur verið forstöðumaður RIKK – rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands frá árinu 2000 og stýrt Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna frá stofnun hans árið 2009, en skólinn hefur brautskráð samtals 152 nemendur frá 25 löndum með diplómagráðu á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Þá leiðir Irma einnig rannsóknaklasann EDDU sem er samstarfsvettvangur fræðimanna sem sinna gagnrýnum samtímarannsóknum með áherslu á jafnrétti og margbreytileika í hug- og félagsvísindum. Irma hefur stýrt stórum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum, m.a. á sviði jafnréttismála og samtímafræða. Árið 2018 fékk hún ásamt norrænum samstarfssystkinum veglegan styrk frá NordForsk til fimm ára til að koma á fót rannsóknasetrinu ReNEW. Þar eru norrænu ríkin og velgengni þeirra skoðuð með gagnrýnum augum en margar þjóðir horfa til ríkjanna vegna árangurs þeirra á sviði jafnréttismála, nýsköpunar, samkeppnishæfni og almennrar velsældar. Hún er einnig þátttakandi í öðru stóru samnorrænu verkefni, Nordic Branding, þar sem fjallað er um ímynd Norðurlandanna, m.a. út frá sjónarhorni jafnréttis. Auk kennslu og rannsókna hefur Irma gegnt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum. Hún situr m.a. í útgáfustjórn norræna femíníska tímaritsins NORU og ráðgjafastjórn tímaritsins The European Journal of Politics and Gender. Hún á jafnframt sæti í framkvæmdastjórn RINGS, alþjóðlegra samtaka rannsóknastofnana á sviði kynja- og jafnréttisfræða. Irma er einnig í samstarfi við rannsóknastofnanir í Frakklandi, þ.á.m. École des Hautes Études en Sciences Sociales (EHESS) í París. Eftir Irmu liggja bækur, greinar og bókarkaflar sem snerta franskar samtímabókmenntir, samtímaheimspeki og kynjafræði. Hún var á síðasta ári í hópi 100 áhrifamestu einstaklinga heims í jafnréttismálum samkvæmt lista Apolitical, alþjóðlegs fræðslu- og stefnumótunarvettvangs fyrir ríkisstjórnir og aðra opinbera aðila. Hún var þar í hópi með heimsþekktu baráttufólki fyrir jafnrétti kynjanna. 2019Silja Bára Ómarsdóttir Silja Bára Ómarsdóttir lauk BA-prófi í alþjóðasamskiptum frá Lewis & Clark College í Portland í Bandaríkjunum, 1995, MA-prófi í sömu grein við University of Southern California í Bandaríkjunum 1998, viðbótardiplóma í aðferðafræði félagsvísinda við Háskóla Íslands 2011, viðbótardiplóma í kennslufræði háskóla frá Háskóla Íslands 2012 og doktorsprófi í stjórnmálafræði við University College Cork á Írlandi 2018. Hlaut hún Basil Chubb verðlaunin fyrir bestu doktorsritgerð á því sviði á Írlandi 2018. Hún starfaði sem verkefnisstjóri og sviðsstjóri á Jafnréttisstofu, sem forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknaseturs um smáríki og er nú dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Silja Bára hefur alla tíð haft brennandi áhuga á kennslu og kennsluþróun á háskólastigi. Hún hefur sérlega skapandi nálgun á kennslumál og hefur verið óhrædd við að fara nýjar leiðir til þess að virkja nemendur í kennslustofunni. Hún leggur mikið upp úr því að vekja áhuga nemenda á viðfangsefninu og tengja það við daglegt líf þeirra. Í því skyni notar hún m.a. samfélagsmiðla til að benda á efni sem tengist viðfangsefninu hverju sinni auk þess sem hún nýtir vendikennslu með árangursríkum hætti. Silja Bára hefur verið mjög farsæll kennari bæði í kennslustofunni og sem leiðbeinandi í lokaverkefnum, en nemendur hennar hafa hvað eftir annað unnið til verðlauna fyrir ritgerðir sínar. Hún hefur jafnframt sinnt kennsluþróun á Félagsvísindasviði af mikilli alúð og áhuga og var formaður kennslunefndar sviðsins frá 2015 til 2017. Jafnframt hefur Silja Bára tekið þátt í fjölda verkefna sem styrkt hafa verið af kennsluþróunarsjóði, nú síðast verkfærakistu leiðbeinandans þar sem hún og samstarfskona hennar tókust á við þær áskoranir sem leiðbeinendur lokaverkefna standa frammi fyrir. Silja Bára var upphafs-maður að svokölluðu „kennsluborði“ Stjórnmálafræðideildar þar sem kennarar deildarinnar ræða kennslu og fá til sín sérfræðinga til skrafs og ráðagerða. Thor Aspelund Thor Aspelund lauk BS-prófi í stærðfræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands 1994, MS-prófi í tölfræði frá University of Iowa í Bandaríkjunum 1998 og doktorsprófi í sömu grein frá sama háskóla 2002. Að námi loknu hóf hann störf sem tölfræðingur hjá Hjartavernd. Hann var ráðinn dósent við Háskóla Íslands 2007, fyrst við stærðfræði-skor Raunvísindadeilar og síðar við Læknadeild og Miðstöð í lýðheilsuvísindum. Hann varð prófessor 2015. Hagnýt stærðfræði og tölfræði eru lykilgreinar í margvíslegum vísindastörfum. Líftölfræði skipar stóran og mikilvægan sess í heilbrigðisvísindum. Þekking á aðferðum til að skoða tengsl á milli hvers kyns breyta er nauðsynleg til að vinna megi rétt og áreiðanlega úr rannsóknagögnum og koma réttum skilaboðum á framfæri jafnt í vísindagreinum, kennslu og leiðbeiningum hinna ýmsu faggreina á sviði lýðheilsu, forvarna og meðferðar sjúkdóma. Thor Aspelund á að baki glæsilegan vísindaferil með vísindamönnum Hjartaverndar og Háskóla Íslands og hefur hann m.a. birt hátt á þriðja hundrað vísindagreina. Samkvæmt gagnagrunninum Web of Science sem geymir m.a. upplýsingar um fjölda birtra vísindagreina einstakra vísindamanna við Háskóla Íslands frá upphafi, er Thor í 5. sæti yfir þá sem flestar greinar hafa birt. Árið 2018 var hann í hópi efsta 1% vísindamanna í heiminum sem teljast til svokallaðra „highly cited researchers“ í „cross-field“. Í rannsóknum sínum hefur Thor komið að gerð spálíkana fyrir sjúkdóma sem m.a. nýtast við forvarnir. Á því sviði tók hann þátt í hönnun áhættureiknis Hjartaverndar fyrir hjartasjúkdóma sem er aðgengilegur á vefnum hjarta.is og er mikið notaður. Einnig tók hann þátt í að hanna áhættureikni fyrir skimanir í sykursýki og stofnaði ásamt fleirum sprotafyrirtæki um það verkefni. Áhættureiknirinn er nú aðgengilegur almenningi bæði á vef og í snjalltækjum og hefur verið sannreyndur í Danmörku, Spáni og Englandi. Loks hefur Thor tekið þátt í leiðbeiningu fjölda doktorsnema. Rannveig Traustadóttir Rannveig Traustadóttir lauk BA-prófi í félagsfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands 1985 og doktorsprófi í fötlunarfræðum frá Syracuse háskólanum í New York í Banda-ríkjunum 1992 og diploma í kynjafræði frá sama skóla. Hún var ráðin lektor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1995, varð dósent 1997 og prófessor við núverandi Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild 2003. Rannveig er brautryðjandi á sviði jafnréttismála við Háskóla Íslands og hefur nálgast málaflokkinn á breiðum grundvelli margbreytileika. Hún var meðal fyrstu kennara skólans til að kenna um mannréttindi, margbreytileika og minnihlutahópa snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Rannveig tók virkan þátt í að byggja upp nám í kvenna- og kynjafræði, var fyrsti umsjónarkennari þess og vann að ráðningu fyrsta lektorsins í kvennafræðum. Auk þess sat hún um tíma í stjórn og veitti formennsku Rannsóknastofu í kvennafræðum og ritstýrði ásamt Helgu Kress bókinni Íslenskar kvennarannsóknir sem kom út árið 1997. Rannveig beitti sér fyrir því að stofnað var starf jafnréttisfulltrúa Háskóla Íslands, sat í jafnréttisnefnd og ráði um málefni fatlaðs fólks um árabil og tók virkan þátt í að vinna fyrstu jafnréttisáætlun Háskóla Íslands og síðar stefnu skólans gegn mismunun. Rannveig var jafnframt frumkvöðull í kennslu eigindlegra rannsóknaraðferða við Háskóla Íslands. Á síðustu árum hefur Rannveig helgað fötlunarfræðinni krafta sína. Hún byggði upp námsbraut í fötlunarfræðum og var fyrsti prófessorinn við námsbrautina. Hún hefur veitt Rannsóknasetri í fötlunarfræðum forstöðu frá upphafi. Þá var hún ritstjóri fyrsta íslenska ritsins sem kom út á sviði fötlunarfræða árið 2003. Í gegnum árin hefur hún unnið ötullega með samtökum fatlaðs fólks og beitt sér fyrir því að koma málefnum þess og réttindum á framfæri. Hafa rannsóknir hennar ekki síst beinst að innleiðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann er einn helsti mannréttindasáttmáli okkar tíma. Hjalti Már Stefánsson Hjalti Már Stefánsson útskrifaðist með sveinspróf í skrúðgarðyrkju af skrúðgarðyrkju-braut Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1998. Árið 2014 öðlaðist hann iðnmeistararéttindi eftir nám í Meistaraskóla Tækniskólans. Hjalti stofnaði fyrirtækið Lystigarðar ehf. árið 2000 og starfrækti það til 2016 er hann hóf störf hjá Háskóla Íslands. Þegar gengið er um háskólalóðina að sumri, hausti, vetri eða vori er áberandi hversu snyrtileg og falleg lóðin er ásýndum. Sá sem á heiðurinn af því er Hjalti Már Stefánsson, garðyrkjustjóri Háskóla Íslands, ásamt öðru starfsfólki garðyrkjudeildar Háskólans. Starfssvið Hjalta er umfangsmikið og fjölbreytt og spannar alla umhirðu gróðurs og lóða Háskólans, hvort sem um er að ræða viðhald eða nýframkvæmdir. Hann hefur umsjón með því að tré og plöntur séu vel hirtar, útivistarsvæði aðlaðandi, bílastæði aðgengileg og að gangandi og akandi vegfarendur eigi greiða leið að lóðum og byggingum Háskólans jafnt að sumri sem vetri. Það sem einkennir Hjalta í starfi er fagmennska og vandvirkni. Hann er afar greiðvikinn og góður í samstarfi og á einkar auðvelt með að virkja samstarfsfólk sitt. Á yfirvegaðan hátt leysir Hjalti verkefnin hratt og vel, af natni og virðingu. Á snjóþungum vetrardögum er hann kominn til starfa á meðan flestir eru enn í fastasvefni til að tryggja að nemendur og starfsfólk komist greiðlega að byggingum Háskólans til að sinna námi og störfum. Hjalti er ævinlega reiðubúinn að hlusta á hugmyndir og sjónarmið annarra og er fljótur að bregðast við þeim. Óhætt er að fullyrða að lóðir Háskóla Íslands séu skólanum til sóma. Auk fegurðargildisins stuðla þær að vellíðan háskólafólks og jákvæðri ímynd skólans. Þá felur góð umhirða háskólasvæðisins ekki síður í sér mikilsvert framlag til öryggis starfsmanna, nemenda og gesta. Hjalti hefur sinnt öllum þessum verkefnum af slíkri samviskusemi, smekkvísi og alúð að eftir er tekið. 2018Terry Adrian Gunnell Terry Adrian Gunnell, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu. Hann lauk BA-prófi í leiklistarfræði frá háskólanum í Birmingham í Englandi 1977, kennsluréttindanámi í ensku og leiklist frá sama skóla 1978, Bacc. Phil. í íslensku fyrir erlenda stúdenta frá Háskóla Íslands 1981 og doktorsprófi í íslenskum fræðum frá háskólanum í Leeds í Englandi 1991. Terry hefur kennt við Háskóla Íslands í aldarfjórðung, fyrst sem stundakennari í þjóðfræði og bókmenntafræði, þá sem lektor í þjóðfræði frá 1998, sem dósent í sömu grein frá 2001 og sem prófessor frá 2010. Þegar Terry var ráðinn lektor gegndi hann eina fasta starfinu í þjóðfræði við Háskóla Íslands en hann hefur síðan þá leitt, þróað og eflt námið með þeim ágætum að nú starfa við greinina fjórir fastir kennarar. Mörg þeirra námskeiða sem kennd eru í þjóðfræði mótaði Terry og kenndi fyrstur en fékk svo aðra til að taka við af sér. Þar að auki stofnaði Terry til meistaranáms bæði í safnafræði og norrænni trú við sömu námsbraut. Terry hefur einstakt lag á að kveikja brennandi áhuga hjá nemendum sínum og vekja hjá þeim metnað til að standa sig í námi. Hann lætur sér annt um þá og gefur sér alltaf tíma til að sinna þeim. Hann er þekktur fyrir að gera miklar kröfur til nemenda sem hann leiðbeinir, en um leið að blása þeim í brjóst trú á að þau geti staðið undir kröfunum og að veita þeim þá leiðsögn sem þau þurfa til að gera það. Terry hefur komið vel út úr kennslukönnunum sem sjá má af eftirfarandi lykilorðum sem tekin eru út úr opnum athugasemdum undanfarinna ára: kröfur, umhyggja, hvatning, metnaður, örlæti, sanngirni, orka, útgeislun, neisti, hlýindi, traust, einlægni, eldmóður, hugmyndaauðgi og fagmennska. Terry byggði snemma upp öflugt net erlends samstarfs til að auka námskeiðaúrval í lítilli grein og víkka sjóndeildarhring nemenda, en í námsbrautinni eru að jafnaði kennd 3-5 sendikennaranámskeið (Erasmus og Fulbright) á hverju ári. Hann hefur tekið þátt í móttöku skiptinema á Félagsvísindasviði ásamt því að bjóða upp á námskeiðið Being Icelandic: Icelandic Folktales, Beliefs and Popular Culture Past and Present sem er sérstaklega ætlað skiptinemum og erlendum nemum. Anna Sigríður Ólafsdóttir Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Hún lauk BS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands 1997, meistaraprófi í næringarfræði frá háskólanum í Vín í Austurríki árið 2000 og doktorsprófi í næringarfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Anna Sigríður var ráðin lektor við Kennaraháskóla Íslands 2006, síðar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, varð dósent 2010 og prófessor frá 2016. Hún gegndi starfi forseta Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar frá 1. júlí 2016 og hefur verið forseti hinnar nýju Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda frá 1. júlí. Anna Sigríður er mikilvirkur, frjór og um leið vaxandi vísindamaður sem vinnur að rannsóknum sem hafa mikið vísindalegt og samfélagslegt gildi. Í rannsóknum sínum hefur hún stuðlað að samvinnu þvert á fræðasvið jafnt innanlands sem á erlendum vettvangi. Sérsvið Önnu Sigríðar er samspil næringar og hreyfingar hjá börnum og unglingum og hefur hún birt fjölda greina um rannsóknir sínar í virtum fræðitímaritum. Rannsóknir hennar eru mikilvægt framlag til þekkingar á heilsutengdri hegðun íslenskra barna og unglinga og hún hefur verið leiðandi í rannsóknum á mataræði barna og ungmenna innan skólakerfisins. Anna Sigríður hefur tekið þátt í að skapa þýðingarmikla þekkingu á þeim þáttum sem hafa áhrif á líf og vellíðan barna og unglinga auk þess að þróa markviss inngrip sem bætt geta heilsu þeirra. Hún hefur einnig verið ötul við að kynna rannsóknir sínar um næringu og heilsu fyrir almenningi. Það er til marks um þá virðingu sem Anna Sigríður hefur öðlast fyrir störf sín að hún var fengin til að vinna að viðmiðum um næringu fyrir Swedish Nutrition Foundation og að stefnumótun fyrir embætti Landlæknis. Anna Sigríður hefur tekið þátt í gerð fjölda umsókna í innlenda og erlenda samkeppnissjóði. Fyrir hönd Háskóla Íslands leiðir hún verkefni sem er styrkt af Horizon 2020 og miðar að því að vinna að inngripum sem bætt geta andlega líðan ungmenna í skóla. Styrkurinn er afar þýðingarmikil viðurkenning jafningjasamfélagsins á hæfni Önnu Sigríðar sem vísindamanns. Ásdís Guðmundsdóttir Ásdís Guðmundsdóttir, kennslustjóri Hugvísindasviðs, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu. Hún lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1981 og námi í námsráðgjöf frá Háskóla Íslands 1994. Hún hefur starfað um árabil í stjórnsýslu Háskóla Íslands, fyrst við námsráðgjöf skólans en síðar sem skrifstofustjóri Guðfræðideildar. Starfaði hún á þeim vettvangi þar til deildin sameinaðist Hugvísindadeild í nýju Hugvísindasviði árið 2008. Frá þeim tíma hefur Ásdís gegnt starfi verkefnisstjóra Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, jafnframt því sem hún er kennslustjóri Hugvísindasviðs. Ásdís hefur um áraraðir sinnt starfi sínu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild með einstakri prýði og fagmennsku. Hún er afkastamikil og fórnfús og ávallt reiðubúin að takast á við þau verkefni sem fyrir henni kunna að liggja, af hvaða toga sem þau eru. Samstarfshæfni hennar er með eindæmum góð og viðmót hennar einkennist af jákvæðni og gleði. Stundum hafa kennarar deildarinnar það á orði að hún sé „límið“ í deildinni. Í stuttu máli sagt hefur starf hennar í þágu Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar reynst ómetanlegt. Auk verkefnastjórnar fyrir Guðfræði- og trúarbragðafræðideild starfar Ásdís sem kennslustjóri Hugvísindasviðs. Í því hlutverki hefur hún haft forystu um þróun nýrra kennsluhátta og bætta stjórnsýslu á sviði kennslumála á sviðinu, bæði í samstarfi við kennslunefnd sviðsins og einstaka kennara og nemendur. Miklar og örar breytingar hafa orðið í þessum málaflokki á undanförnum árum með skýrari reglum og verklagi og hefur Ásdís komið þeim í ágætan farveg innan sviðsins. Er í raun undravert hversu vel henni hefur tekist til við að samþætta tvö erfið hlutverk, þ.e.a.s. kennslustjórn á heilu fræðasviði og alla umsýslu fyrir deild. Að síðustu hefur Ásdís gegnt lykilhlutverki á skrifstofu Hugvísindasviðs við að efla góðan starfsanda og skilvirka þjónustu. Hún hefur langa reynslu af stjórnsýslu við Háskóla Íslands og þekkir innviði hennar vel og hefur miðlað af þeirri þekkingu sinni af örlæti til nýrra starfsmanna. Þannig gegnir Ásdís Guðmundsdóttir lykilhlutverki í því að Hugvísindasvið hefur getað rekið árangursíka en fámenna stjórnsýslu og stuðlað um leið að einstaklega góðum starfsanda á skrifstofunni. 2017Fjóla Jónsdóttir Fjóla Jónsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við skólann. Fjóla lauk B.S.-prófi í vélaverkfræði frá University of Minnesota í Bandaríkjunum 1990, M.S.-prófi frá Brown University í Bandaríkjunum 1992 og doktorsprófi í sömu grein frá sama háskóla árið 1994. Fjóla var ráðin dósent í vélaverkfræði við Háskóla Íslands árið 2000 og prófessor 2012. Hún hefur bæði kennt fjölmenn grunnnámskeið á sviði burðarþolsfræði og efnisfræði og fámennari framhaldsnámskeið, svo sem um tölvuvædda greiningu. Auk þess hefur Fjóla leiðbeint myndarlegum hópi meistara- og doktorsnema. Fjóla hefur frá fyrstu tíð lagt mikla alúð og einlægni í sína kennslu. Hún er alltaf með þeim hæstu í kennslukönnunum innan sinnar deildar. Hún nær strax persónulegu sambandi við nemendur sína sem hvetur þá til að helga sig náminu og að leggja sig fram til að verðskulda stolt kennara síns. Fjóla hefur gert sér far um að flétta rannsóknir sínar inn í þau námskeið sem hún kennir, en þær beinast meðal annars að notkun snjallefna í stoðtækjum. Fjóla hefur einnig verið ómetanleg fyrirmynd fyrir kvennemendur sem lagt hafa stund á nám í véla- og iðnaðarverkfræði og hefur það átt sinn þátt í að fjölga konum og þannig að rétta kynjahlutfall nemenda í þeim greinum. Vilhjálmur Árnason Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild á Hugvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna við skólann. Vilhjálmur Árnason lauk B.A.-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1978, meistaraprófi frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum 1980 og doktorsprófi frá sama háskóla árið 1982. Vilhjálmur starfaði sem stundakennari við Háskóla Íslands frá 1983, varð lektor í heimspeki 1990, dósent 1991 og prófessor 1996. Hann hefur verið farsæll kennari og hefur sinnt margháttuðum stjórnunarstörfum. Var hann m.a. formaður Siðaráðs Landlæknis 1998-2000 og forseti Heimspekideildar Háskóla Íslands 2000-2002. Vilhjálmur var leiðandi í uppbyggingu Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og hefur verið stjórnarformaður hennar frá 1997. Vilhjálmur á að baki glæsilegan rannsóknaferil og hefur um árabil verið einhver afkastamesti rannsakandi á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Hann hefur verið leiðandi rödd í alþjóðlegum vísindaheimi á sviði siðfræði, ekki síst lífsiðfræði þar sem hann hefur verið í fremstu röð meðal evrópskra fræðimanna í áraraðir. Vilhjálmur hefur einnig verið virkur í rannsóknum á lýðræði og hefur þar fléttað saman athuganir á íslensku samfélagi og alþjóðlegt sjónarhorn. Árangur Vilhjálms endurspeglast í fjölda ritverka sem hann hefur birt á vettvangi þar sem gerðar eru ýtrustu kröfur til gæða, í innlendum og alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem hann hefur tekið þátt í og í þeim fjölda styrkja sem hann hefur aflað hérlendis og erlendis. Vilhjálmur hefur ævinlega lagt áherslu á að miðla rannsóknum sínum til almennings og að efla fræðilega umræðu um heimspeki á Íslandi með því að birta rannsóknir sínar á íslensku í greinum og bókum. Þá hefur Vilhjálmur tekið virkan þátt í íslenskri samfélagsumræðu og þannig leitast við að nýta í almannaþágu þekkingu sína á siðfræði, stjórnmálaheimspeki og öðrum sviðum heimspekinnar. Veigamesta framlag hans í þá veru er starf hans í rannsóknanefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Er þar fjallað af yfirvegun og hlutlægni um pólitískt viðkvæm viðfangsefni. Sigríður Harðardóttir Sigríður Harðardóttir, aðalritstjóri Háskólaútgáfunnar, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands. Sigríður lauk B.A.-prófi í enskum bókmenntum frá Jacksonville University í Bandaríkjunum 1972 og lagði að því búnu stund á cand. mag.-nám í enskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1982. Auk kennslu og skrifstofustarfa hefur hún starfað við bókaútgáfu frá árinu 1982, m.a. við ritstjórn orðabóka og annarra viðamikilla bókverka. Hún var deildarstjóri Orðabókadeildar Arnar og Örlygs 1990-1995 og ritstjóri hjá Vöku-Helgafelli 1997-1999. Á næstu árum var hún aðalritstjóri Genealogia Islandorum og síðan meðstofnandi og aðalritstjóri JPV útgáfu uns hún gekk til liðs við Háskólaútgáfuna, en þar hefur hún starfað sem ritstjóri frá upphafi árs 2009. Á þeim tíma hefur Sigríður leitt ritstjórnarvinnu útgáfunnar og tekið þátt í að lyfta grettistaki í átt til gæðastjórnunar bóka með ritrýningu og ritstjórn. Í starfi sínu hefur Sigríður iðulega sannfært höfunda um að betur sjá augu en auga og að umfangsmikil reynsla af textarýni og ritstjórn skilar betri afurð en ella. Þá hefur hún unnið mikið starf og gagnlegt fyrir Háskóla Íslands með því að gera bækur starfsmanna og stofnana hans aðgengilegri öllum almenningi. Þetta hefur leitt til þess að í ritstjórnartíð Sigríðar hefur Háskólaútgáfan hlotið fleiri verðlaun, viðurkenningar og tilnefningar til verðlauna en nokkru sinni fyrr. 2016Eiríkur Rögnvaldsson Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við skólann. Eiríkur lauk B.A.-prófi í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1979 og cand. mag.-prófi í íslensku og málvísindum frá sama skóla árið 1982. Eiríkur hefur kennt við Háskóla Íslands í 35 ár, fyrst sem stundakennari frá 1981, síðan sem lektor í íslenskri málfræði frá 1986, sem dósent frá 1988 og sem prófessor frá 1993. Á þessum tíma hefur hann kennt hátt í 90 námskeið og námskeiðshluta í íslensku og almennum málvísindum á öllum námsstigum. Eiríkur hefur alla tíð verið meðal framsæknustu kennara Háskóla Íslands og haft forystu í sinni deild og á Hugvísindasviði um þróun nýjunga í kennsluháttum. Hann var til að mynda frumkvöðull í þróun fjarkennslu í íslensku á árunum í kringum síðustu aldamót og hefur frá þeim tíma innleitt ýmsar nýjungar á Hugvísindasviði, svo sem vendikennslu, notkun veffyrirlestra í tímum og símat í námskeiðum. Hann hefur verið ötull í að miðla af reynslu sinni til annarra og lagt þannig sitt af mörkum til breytinga á kennsluháttum. Í gegnum tíðina hefur Eiríkur einnig samið og þróað kennsluefni í íslenskri málfræði. Eiríkur er afar vinsæll og vel látinn kennari. Hann hefur nær undantekningarlaust fengið mjög góða einkunn í kennslukönnunum og er þar langt yfir meðaltali bæði fræðasviðs og háskóla. Umsagnir nemenda eru líka afar lofsamlegar og hæla þeir Eiríki meðal annars fyrir brennandi áhuga, hlýlegt viðmót, fagmennsku og nýjungar í kennsluháttum. Eiríkur hefur verið í fararbroddi í þróun máltækni á Íslandi og tekið þátt í fjölda rannsóknar- og þróunarverkefna á því sviði. Hann hefur nýtt sér þessar rannsóknir í kennslu og byggt upp nám í máltækni við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Brautryðjendastarf Eiríks í máltækni hefur mikið gildi fyrir framtíð íslensks máls og möguleika þess til að dafna í tæknivæddum heimi. Páll Einarsson Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna við skólann. Páll lauk Vordiplom-prófi í eðlisfræði frá Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi árið 1970 og doktorsprófi í jarðskjálftafræði frá Columbia University í Bandaríkjunum árið 1975. Páll varð sérfræðingur við Raunvísindastofnun árið 1975, fræðimaður 1987 og vísindamaður frá 1997. Hann var stundakennari við Háskóla Íslands á árunum 1975-1994. Frá árinu 1994 hefur Páll verið prófessor við Háskóla Íslands. Rannsóknir Páls eru á sviði jarðskjálftafræði, landmælinga og jarðskorpuhreyfinga. Hann er frumkvöðull í mælingum á jarðskorpunni og átti þátt í að setja upp umfangsmikið mælanet strax að loknu doktorsprófi. Páll skipulagði rannsóknir á Kröflueldum 1975-1989 og á jarðskjálftum á Suðurlandi og á Reykjanesi. Hann hefur skipulagt rannsóknir á fjölmörgum eldfjöllum og jarðskorpuhreyfingum, nú síðast í Bárðarbungu og Holuhrauni. Páll er brautryðjandi í beitingu jarðskjálftafræði og landmælingafræði í rannsóknum á kviku- og jarðskorpuhreyfingum á Íslandi og í Norður-Atlantshafi. Rannsóknir hans hafa markað tímamót í könnunum á sjávar- og eldfjallahryggjakerfum. Páll er afar virtur vísindamaður meðal starfsfélaga sinna hérlendis og erlendis. Hann hefur gefið út mikinn fjölda vísindagreina í samstarfi við breiðan hóp fræðimanna og er mjög óeigingjarn á tíma sinn og sérþekkingu. Hann er vinsæll og virtur kennari grunnnema, framhaldsnema og nýdoktora og er annt um hag og þróun starfsferils þeirra. Sem helsti sérfræðingur landsins í eldfjöllum og jarðskjálftum hefur Páll verið ötull að útskýra eðli þeirra og framvindu atburða fyrir almenningi. Einnig hefur hann verið ráðgjafi Almannavarna ríkisins. Áhrifamiklar birtingar Páls, handleiðsla tveggja kynslóða afburða vísindamanna, óeigingjarnt samstarf og þjónusta í þágu almennings eru ótvíræður vitnisburður um að Páll er vísindamaður í fremstu röð. Erna Sigurðardóttir Erna Sigurðardóttir, deildarstjóri Læknadeildar á skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands. Erna er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með MS-próf á sviði stjórnunar og stefnumótunar frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem deildarstjóri Læknadeildar frá árinu 2009 en áður starfaði hún við Verkfræði- og náttúruvísindasvið skólans. Eitt af helstu verkefnum Ernu er að stýra fjármálum Læknadeildar og rannsóknastofa sem undir hana heyra. Einnig gegnir hún mikilvægu hlutverki á sviði mannauðsmála hjá deildinni. Erna er mjög skipulögð og hefur lag á að koma málum í réttan farveg. Hún er úrræðagóð, lausnarmiðuð og fljót að greiða úr málum. Auðvelt er að leita til hennar með álitamál og flókin úrlausnarefni. Erna er greiðvikin, glaðvær og ætíð reiðubúin að aðstoða. Hún hefur lagt sig fram um að skapa þægilegt vinnuumhverfi fyrir nemendur og starfsmenn. Erna er traustur starfsmaður, afkastamikil og ósérhlífin. Hún sýnir mikið frumkvæði og nálgast öll verkefni á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Hún er þjónustulunduð, ákveðin og drífandi og jafnframt nákvæm og samviskusöm. Erna er ævinlega áhugasöm um að bæta við sig nýrri þekkingu sem hún nýtir síðan í starfi sínu fyrir Háskólann. Erna hefur endurtekið sýnt í verki að það er ómetanlegt fyrir akademíska starfsmenn að hafa öflugt starfsfólk í stjórnsýslu sem vinnur af þekkingu og fagmennsku. 2015Elva Ellertsdóttir deildarstjóri Stjórnmálafræðideildar á skrifstofu Félagsvísindasviðs Elva Ellertsdóttir hefur starfað sem deildarstjóri Stjórnmálafræðideildar frá því að sú deild varð til þegar nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands tók gildi árið 2008, en áður starfaði Elva sem deildarstjóri í Félagsvísindadeild. Elva hefur sýnt einstaka færni í starfi sínu sem deildarstjóri. Hún hefur yfirgripsmikla þekkingu jafnt á innviðum Háskólans sem og því umhverfi sem skólinn starfar í. Hún er vel að sér í innri málefnum Stjórnmálafræðideildar hvort heldur sem er á sviði rannsókna, kennslu eða stjórnunar og heldur afar vel utan um fjárhagsleg málefni deildar. Hún hefur mikla skipulagshæfileika, er raunsæ og útsjónarsöm. Á það hefur ekki síst reynt í þeim áskorunum sem skólinn hefur staðið frammi fyrir á árunum eftir efnahagshrunið árið 2008. Elva hefur til að bera einstaka samskiptahæfileika. Hún er öflugur samstarfsmaður og hefur verið deildinni mikilvæg kjölfesta. Hún reynist samstarfsmönnum sínum stoð í stóru og smáu og leysir úr vanda fólks í senn á faglegan og persónulegan máta. Þá ber Elva sig eftir góðum tengslum við nemendur og er einkar vel lagið að greiða úr erindum þeirra og álitamálum á sanngjarnan hátt en þó ætíð innan þess ramma sem háskólastarfinu er settur. Þetta kemur ekki aðeins fram í samskiptum við nemendur heldur sést það einnig ótvírætt í niðurstöðum viðhorfskannana þar sem yfirgnæfandi meirihluti nemenda við Stjórnmálafræðideild svarar því játandi að hafa getað leitað til kennara eða annars starfsfólks þegar á hefur þurft að halda. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Elvu Ellertsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til stoðþjónustu við skólann. Hannes Jónsson prófessor við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands Hannes Jónsson lauk BS-prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1980, doktorsprófi frá University of California San Diego árið 1985 og starfaði síðan sem nýdoktor við Stanford-háskóla. Hann gegndi einnig starfi lektors, dósents og síðar prófessors við University of Washington Seattle. Frá árinu 2000 hefur hann starfað sem prófessor við Háskóla Íslands. Þá hefur hann verið gestaprófessor við Danmarks Tekniske Universitet (DTU), SLAG/Stanford í Kaliforníu, Brown-háskóla á Rhode Island og Aalto-háskóla í Finnlandi. Rannsóknasvið Hannesar er einkum á sviði reikniefnafræði og reiknieðlisfræði sem gengur út á það að spá fyrir um eiginleika efna með tölvureikningum sem byggjast á grundvallarlíkingum eðlisfræðinnar. Nýjar reikniaðferðir eru þróaðar til að meta gang og hraða umraðana á atómum og segulvigrum sem og aðferðir til að lýsa grundvallareiginleikum rafeindakerfa. Hagnýt beiting þessara aðferða er m.a. í rannsóknum á nanókerfum, efnahvötum, hálfleiðurum, vexti kristalla og atóm-klasa og leit að betri efnum fyrir sólhlöður. Hannes Jónsson er meðal mikilvirkustu vísindamanna Háskóla Íslands og hefur hann ásamt samstarfsfólki sínu birt fjölda vísindagreina í alþjóðlegum vísindaritum. Fyrir utan afburða ritvirkni eru áhrif birtinga hans mikil. Tilvitnanir í verk Hannesar í Web of Science eru rúmlega 13.000 og þar af tæplega 9.000 frá árinu 2008. Í Google Scholar eru um 20.000 tilvitnanir í birtingar hans. Hannes hefur leiðbeint fjölda framhaldsnema og hefur hann verið aðalleiðbeinandi 21 doktorsnema. Hannes hefur gegnt margvíslegum stjórnunarstörfum innan og utan Háskóla Íslands og m.a. setið í stjórn Raunvísindastofnunar, í fjármálanefnd háskólaráðs og í stjórn Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Þá hefur Hannes verið ötull í öflun styrkja. Alls hafa styrkir fyrir hátt í 70 m.kr. runnið til Háskóla Íslands vegna þátttöku Hannesar í samstarfsverkefnum með aðilum frá Evrópu og þá einkum Norðurlöndunum og Rússlandi. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Hannesi Jónssyni fyrir lofsvert framlag hans til rannsókna við skólann. Urður Njarðvík dósent við Sálfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands Urður Njarðvík lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1993, MA-prófi í klínískri barnasálfræði frá Louisiana State University árið 1997 og doktorsgráðu í sömu grein frá sama háskóla árið 2000. Hún hlaut jafnframt löggildingu sem sálfræðingur árið 2001 og sérfræðiviðurkenningu í klínískri barnasálfræði frá heilbrigðisráðuneytinu árið 2005. Urður starfaði sem sálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans frá árinu 2000 og sem yfirsálfræðingur 2003–2005, auk þess sem hún starfrækti eigin sálfræðistofu á árunum 2006–2008. Urður hefur starfað við Háskóla Íslands í hálfan annan áratug, fyrst sem stundakennari á árunum 2000–2008, sem lektor 2008–2013 og sem dósent frá 2013. Hún hefur haft með höndum kennslu, bæði í grunn- og framhaldsnámi, ýmist í fjölmennum fyrsta árs námskeiðum, vinsælum valnámskeiðum eða klínískum framhaldsnámskeiðum. Urður er ákaflega vinsæll kennari og hefur tekið að sér mikla kennslu og sinnt henni af einstakri alúð og ósérhlífni. Hún á auðvelt með að glæða áhuga nemenda á viðfangsefninu og lætur sig hag þeirra varða, umfram skyldur og rútínu. Hún hefur fengið mjög góða umsögn í kennslukönnunum bæði fyrir grunn- og framhaldsnámskeið. Urður hefur jafnframt sinnt kennslustjórn í framhaldsnámi og farist það einkar vel úr hendi í góðu samstarfi við nemendur. Jafnframt hefur Urður verið ötul við að sinna eigin rannsóknum og náð að tengja þær vel kennslunni. Urður Njarðvík tekur virkan þátt í góðum hópi kennara í Sálfræðideild sem lyftir grettistaki árlega í kennslu og miðlun efnis til gríðarlegs fjölda nemenda. Hún er frábær fulltrúi hópsins sem lætur sér annt um starf sitt, nemendur og orðstír Háskóla Íslands. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Urði Njarðvík fyrir lofsvert framlag hennar til kennslu við skólann. Fyrri ár2014Kristín Loftsdóttir prófessor við Félags- og mannvísindadeild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands Kristín Loftsdóttir lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 1992, MA- prófi í mannfræði frá University of Arizona 1994 og doktorsprófi í sömu grein frá sama háskóla árið 2000. Í doktorsrannsókn sinni fjallaði Kristín um sjálfsmyndir WoDaaBe hirðingja og farandverkamanna í Níger, með áherslu á þjóðerni og kyn. Í rannsókninni beindi hún sérstaklega sjónum að tengslum WoDaaBe samfélagsins við hnattrænar breytingar og ríkisvaldið í sögulegu samhengi. Rannsóknasvið Kristínar er fjölbreytt og beinist meðal annars að fjölmenningu, kynþáttahyggju, sjálfsmynd, þjóðerni og hnattvæðingu, en á síðustu misserum hafa rannsóknir hennar í auknum mæli beinst að efnahagshruninu 2008. Kristín hefur hlotið fjölda styrkja til rannsókna sinna. Meðal annars hlaut hún á síðasta ári styrk úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs fyrir verkefnið „Sjálfsmynd í kreppu: Skörun kyns og kynþáttahyggju“. Rannsóknir Kristínar Loftsdóttur eru mikilvægt framlag til umræðu um þjóðernislega sjálfsmynd á Íslandi í kjölfar efnahagskreppunnar og veita mikilvæga innsýn í stöðu fólks af erlendum uppruna. Kristín hefur verið virkur meðlimur í evrópsku samtökunum ATGENDER sem leggja áherslu á alþjóðlegar rannsóknir á sviði kyngervis, nýlendustefnu og kynþáttahyggju. Einnig hefur hún verið meðstjórnandi í samstarfsnetinu The Nordic Colonial Mind sem hlaut styrk Norrænu samstarfsnefndarinnar um hug- og félagsvísindarannsóknir (NOS-HS) árið 2009-2010. Þá hefur Kristín tekið þátt í að skipuleggja vinnustofur um norræna sjálfsmynd og kreppu og var það verkefni styrkt af NOS-HS árið 2011-2012. Kristín Loftsdóttir hefur verið frjór og afkastamikill vísindamaður eins og glöggt má sjá af þeim fjölmörgu ritverkum sem birst hafa eftir hana á síðustu árum. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga vegna rannsókna sinna. Enn fremur hefur Kristín unnið ötullega að leiðbeiningu meistara- og doktorsnema og með því lagt fram dýrmætan skerf til uppbyggingar framhaldsnáms á fræðasviðinu. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Kristínu Loftsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til rannsókna við skólann. Rögnvaldur Möller prófessor við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands Rögnvaldur Möller lauk BS-prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1988 og doktorsprófi í stærðfræði frá Oxford-háskóla árið 1991. Hann starfaði sem sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands á árunum 1991-2006, en tók við starfi prófessors í stærðfræði á árinu 2006. Rannsóknasvið Rögnvaldar er grúpufræði, grúpverkanir á net, rúmfræðileg grúpufræði og granngrúpur. Fjölmargar rannsóknarritgerðir eftir Rögnvald hafa birst á alþjóðlegum vettvangi. Í starfi sínu við Háskóla Íslands hefur Rögnvaldur sinnt fjölbreyttri kennslu sem mótast hefur af virðingu fyrir nemendum jafnt sem fræðum. Hann hefur m.a. haldið fjölmenn námskeið fyrir breiðan hóp nemenda í flestum deildum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Þar á meðal eru stórir hópar nemenda sem þurfa að uppfylla ríkar kröfur um lágmarksárangur í stærðfræði til að öðlast rétt til áframhaldandi náms í þeim faggreinum sem hugur þeirra stendur til. Þessi staðreynd hefur breytt litlu um vinsældir Rögnvaldar sem kennara. Hann þykir framúrskarandi kennari og hefur hlotið afar lofsamleg ummæli nemenda sinna og samkennara. Það sem einkennir feril Rögnvaldar er brennandi áhugi á kennslumálum á breiðum grundvelli og mikill metnaður fyrir fræðigrein sína. Hann hefur tekið þátt í víðtæku samstarfi við lægri skólastigin í landinu með það að markmiði að samræma kröfur og kunnáttu við inntöku nemenda í Háskóla Íslands og til að bæta og efla kennslu í stærðfræði við grunn- og framhaldsskóla. Rögnvaldur hefur tekið virkan þátt í að skipuleggja stærðfræðikeppni framhaldsskólanna um árabil og árin 1995-1998 tók hann þátt í samningu námskrár fyrir grunnskóla. Þá hefur hann staðið fyrir könnunarprófum meðal nýnema er varða kunnáttu í stærðfræði og undirbúning náms við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Rögnvaldi Möller fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann. Þórhallur Aðalsteinsson starfsmaður hjá rekstri fasteigna Þórhallur Aðalsteinsson hóf störf við Háskóla Íslands haustið 2003. Starfsstöð Þórhalls er í Öskju og þar má segja að hann vinni allt sem vinna þarf á sviði umsjónar með fasteignum og er hann í reynd eins konar miðpunktur Öskju. Allir sem hafa aðsetur í Öskju vita hver Þórhallur er og þeir þekkja hann af góðu einu. Þórhallur hefur einnig komið að afleysingu starfsfólks í stoðþjónustu í öðrum byggingum Háskóla Íslands og sinnt þeim störfum af sömu alúð. Þórhallur þrífur og þvær allt sem þrífa þarf, leysir umsjónarmann af, aðstoðar kennara með tölvur og skjávarpa í kennslustofum og hjálpar nemendum með hvað eina sem í hans valdi stendur. Hann tekur á móti pósti og öðrum sendingum til akademískra starfsmanna í Öskju og kemur þeim á rétta staði. Þórhallur hugsar af alúð um kaffistofu starfsfólks, sér til þess að hún sé skínandi hrein svo tekið er eftir og er hann ævinlega búinn að hella upp á könnuna áður en nokkur maður birtist í Öskju á morgnana. Þórhallur er einkar liðlegur í öllum samskiptum og vill allt fyrir alla gera. Hann er ævinlega glaður og ljúfur í viðmóti og finnst sjálfsagt að reyna að koma til móts við þarfir þeirra sem til hans leita. Mörg þeirra verka sem Þórhallur innir af hendi eru ekki skráð í starfslýsingu hans, en eru engu að síður ómissandi í hringrás starfsemi Háskóla Íslands. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Þórhalli Aðalsteinssyni fyrir lofsvert framlag hans til stoðþjónustu við skólann. 2013Baldur Sigurðsson dósent við Kennaradeild á Menntavísindasviði Háskóla Íslands Baldur Sigurðsson lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1975, MA-prófi í slavneskum málum og málvísindum frá Uppsalaháskóla 1982 og námi til kennslu-réttinda frá Háskóla Íslands 1984. Baldur hefur fengist við kennslu í grunn- og framhaldsskólum og verið sérfræðingur hjá Íslenskri málstöð. Hann var ráðinn lektor í íslensku við Kennaraháskóla Íslands 1994 og dósent 2001. Frá sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands hefur hann starfað við Kennaradeild á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er forstöðumaður Ritvers Menntavísindasviðs. Rannsóknasvið Baldurs er íslenska og íslenskukennsla. Hann hefur m.a. fengist við rannsóknir á lesþroska, lestri og lestrarörðugleikum, stafsetningu, málfræði og ritun. Þá hefur hann setið í íðorðanefnd um menntunarfræði frá stofnun hennar. Baldur hefur verið farsæll kennari. Hann hefur lagt mikla áherslu á góð tengsl við vettvang og hefur þróað og leiðbeint um skapandi aðferðir í ritun, stafsetningar- og málfræðikennslu og haldið fjölda erinda og námskeiða um þetta efni. Eitt viðamesta framlag hans var að koma á fót og leiða Stóru upplestrarkeppnina. Undirbúningur og þátttaka í keppninni er nú fastur liður í starfi flestra grunnskóla landsins og samkvæmt úttektum hefur hún haft afar jákvæð áhrif á framsögn og lestur skólabarna. Baldur hefur verið frumkvöðull í þróun námsmats í háskólakennslu og verið óþreytandi við að miðla öðrum af reynslu sinni. Hann er einn af helstu sérfræðingum Háskóla Íslands um Bologna-ferlið og hefur veitt háskólakennurum dýrmæta fræðslu, m.a. um einingamat námskeiða. Á undanförnum misserum hefur Baldur unnið að stofnun og þróun Ritvers við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þangað geta stúdentar leitað ráða um ritsmíðar sínar, smáar og stórar. Ritverið skipuleggur fræðslufundi og námskeið um ýmsa þætti fræðilegra skrifa og starf-rækir vandaða heimasíðu þar sem m.a. er að finna leiðbeiningar um meðferð heimilda. Þessi starfsemi hefur vakið verðskuldaða athygli langt út fyrir Menntavísindasvið. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Baldri Sigurðssyni fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann. Gréta Björk Kristjánsdóttir rannsóknastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands Gréta Björk Kristjánsdóttir lauk B.Sc.-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1997, M.Sc.-prófi í sömu grein frá sama skóla árið 1999 og doktorsprófi í jarðfræði frá University of Colorado í Boulder í Bandaríkjunum árið 2005. Eftir doktorsprófið starfaði hún sem nýdoktor að rannsóknum við Cambridge-háskóla í Bretlandi. Í námi og starfi, bæði austan hafs og vestan, öðlaðist Gréta Björk dýrmæta þekkingu á styrkjakerfi vísindarannsókna og var hún ráðin til starfa sem rannsóknastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands árið 2009. Í starfi sínu sem rannsóknastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hefur Gréta Björk sýnt að hún hefur einstakan skilning á þörfum vísindamanna. Hún gerir ríkar kröfur jafnt til sjálfrar sín sem annarra. Þannig hvetur hún starfsmenn með reglulegum hætti til að sækja um styrki til rannsóknaverkefna og aðstoðar þá við skrif á umsóknum og utanumhald um rekstur verkefna. Á þeim tíma sem Gréta Björk hefur starfað sem rannsóknastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hefur fjöldi styrkumsókna aukist verulega, skýr yfirlit um umsóknir liggja fyrir á hverjum tíma, allir samningar eru vistaðir í skjalakerfi háskólans, verkferlar hafa verið gerðir fyrir umsóknaskrif og upphafsfundum hefur verið komið á fyrir alla sem taka þátt í verkefnavinnu, svo nokkuð sé nefnt. Að frumkvæði Grétu Bjarkar hafa orðið miklar breytingar á þjónustu við vísindamenn og einnig á miðlægri þjónustu og er Gréta Björk að því leyti fyrirmynd annarra í starfi sínu. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Grétu Björk Kristjánsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til stoðþjónustu við rannsóknir í skólanum. Þorsteinn Loftsson prófessor við Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands Þorsteinn Loftsson lauk lyfjafræðiprófi frá lyfjafræðideild Kaupmannahafnar-háskóla árið 1975, meistaraprófi í lyfjaefnafræði frá University of Kansas árið 1978 og doktorsprófi í sömu grein frá sama háskóla 1979. Þorsteinn hóf störf sem lektor í lyfjafræði við Háskóla Íslands síðla árs 1979, varð dósent 1983 og prófessor í eðlislyfjafræði árið 1986. Helstu rannsóknasvið Þorsteins eru notkun sýklódextrína í lyfjaform, leysanleiki lyfja, stöðugleiki lyfja og flutningur lyfja í gegnum lífrænar himnur. Einnig hefur hann rannsakað forlyf, mjúk lyf og notkun kalixaren efna. Þorsteinn hefur um árabil verið einn afkastamesti vísindamaður Háskóla Íslands. Hann hefur ritað yfir 200 greinar í ritrýnd alþjóðleg vísindarit, auk bókakafla og annarra greina. Til marks um hve öflugur vísindamaður Þorsteinn er má nefna að vitnað hefur verið um 6.500 sinnum í verk hans samkvæmt Web of Science, sem er með því allra mesta sem gerist meðal íslenskra vísindamanna. Þorsteinn hefur einnig verið iðinn við að hagnýta rannsóknaniðurstöður sínar. Hann hefur fengið 13 alþjóðleg einkaleyfi og var stofnandi og stjórnarmaður sprotafyrirtækjanna Cyclops ehf. 1993-2000, Oculis ehf. frá 2003 og Lipid Pharma-ceuticals ehf. frá 2009. Þorsteinn hefur verið frumkvöðull í tengslum við uppbyggingu doktorsnáms á Heilbrigðisvísindasviði og hefur hann jafnframt leiðbeint fjölda meistara- og doktorsnema. Þá hefur hann tekið virkan þátt í stjórnun og setið í mörgum nefndum á vegum Lyfjafræðideildar, Heilbrigðisvísindasviðs og Háskóla Íslands. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Þorsteini Loftssyni fyrir lofsvert framlag hans til vísinda við skólann. 2012Brynhildur Davíðsdóttir dósent við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs og Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands Brynhildur Davíðsdóttir lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1991, tvöföldu MA-prófi í alþjóðatengslum og umhverfis- og orkufræði frá Boston University árið 1995 og doktorsprófi frá sama skóla í umhverfis- og orkufræði árið 2002. Frá árinu 2006 hefur hún verið dósent við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs og Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs auk þess sem hún er umsjónarmaður náms í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Hefur Brynhildur unnið þrekvirki við uppbyggingu námsins, en geta má þess að 12 af 25 deildum Háskóla Íslands standa að því í sameiningu. Helstu sérsvið Brynhildar eru umhverfishagfræði, kostnaðar- og ábatagreining, verðlagning náttúrugæða, vistfræðileg hagfræði, sjálfbær orkuþróun og iðnaðarvistfræði. Brynhildur er öflugur og vinsæll kennari sem fer óhikað nýjar leiðir. Hún hefur markvisst leitast við að samþætta rannsóknir og kennslu og hefur verið iðin við að skapa nemendum sínum tækifæri til að vinna að verkefnum í tengslum við atvinnu- og þjóðlíf. Hún hefur auk þess verið ötul við að byggja upp eigin rannsóknir, afla rannsóknastyrkja og gefa nemendum sínum þannig kost á að taka þátt í spennandi rannsóknum á sviði umhverfis- og auðlindafræða. Í kennslukönnunum hefur Brynhildur fengið einstaklega lofsamleg ummæli frá nemendum sínum en jafnframt er ljóst að hún gerir miklar kröfur til þeirra. Brynhildur er leikin í mannlegum samskiptum og nýtur virðingar og trausts nemenda og samkennara. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Brynhildi Davíðsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til kennslu við skólann. Grettir Sigurjónsson verkefnisstjóri hjá Kennslumiðstöð Háskóla Íslands Grettir Sigurjónsson lauk sveinsprófi í símsmíði frá Póst- og símaskólanum árið 1996. Hann hóf störf við rekstur fasteigna við Háskóla Íslands árið 1998, varð verkefnisstjóri hjá nemendaskrá árið 2000 og hefur starfað sem tæknimaður við fjarkennslu á kennslusviði og við Kennslumiðstöð í meira en áratug. Verkefni hans hafa einkum falist í umsjón með fjarkennslu, tæknimálum og tæknilegri þjónustu við fræðasvið, deildir og starfsfólk háskólans. Grettir hefur oft unnið við erfiðar tæknilegar aðstæður en jafnan leyst allar þrautir af hugvitssemi. Greiðvikni og þjónustulund einkenna öll hans störf og hefur margsinnis komið fyrir að hann hafi komið utan vinnutíma til að aðstoða kennara við að leysa hvers kyns tæknileg vandamál. Grettir hefur rækt starf sitt af stakri ljúfmennsku. Hann hefur tekið þátt í mikilvægu uppbyggingarstarfi á tæknisviðinu og er einn þeirra starfsmanna sem stofnunin öll hefur notið góðs af. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Gretti Sigurjónssyni fyrir lofsvert framlag hans til stoðþjónustu við kennslu í skólanum. Ivan Shelykh prófessor við Raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands Ivan Shelykh lauk doktorsprófi frá Tækniháskólanum í St. Pétursborg árið 2001 og gegndi þar starfi dósents til ársins 2008. Doktorsritgerð hans fjallaði um samfasa fyrirbæri í skammtavírum úr hálfleiðurum. Frá árinu 2002 hefur Shelykh stundað rannsóknastörf við Blaise Pascal-háskólann í Frakklandi, Southampton-háskólann á Bretlandi og alþjóðlega rannsóknastofnun í eðlisfræði þéttefnis við Rio Grande do Norte-háskólann í Brasilíu. Viðfangsefni hans eru margvísleg innan eðlisfræði þéttefnis, einkum á sviði fjöleindakerfa í skertri vídd, ljósfræði skammtahola, eðlisfræði spunakerfa og Bose-Einsteinþéttingar skauteinda. Ivan Shelykh var ráðinn til starfa við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur frá þeim tíma kennt mörg námskeið í almennri og kennilegri eðlisfræði á grunn- og framhaldsstigi, auk þess að leiðbeina doktorsnemum. Rannsóknir Shelykh falla afar vel að rannsóknastarfi á sviði eðlisfræði við Raunvísindastofnun Háskólans og auka jafnframt fjölbreytni þeirra. Einnig er mikill fengur að rannsóknasamvinnu hans við fjölmarga innlenda og erlenda hópa vísindamanna. Þá er eftirtektarverð virkni Ivans Shelykh á sviði birtinga í alþjóðlegum vísindaritum í fremstu röð. Samkvæmt Web of Science hafði Shelykh birt 108 greinar með 1.124 tilvitnunum í árslok 2011. Enn fremur hefur hann aflað umtalsverðra styrkja úr innlendum og erlendum rannsóknasjóðum. Ber þar hæst tvo stóra styrki. Annars vegar öndvegisstyrk Rannsóknasjóðs árin 2010-2012 til verkefnisins Öndvegissetur í ljósskauteindatækni en að því standa, auk Shelykh, samstarfsmenn hans við Háskóla Íslands, University of Southampton á Englandi og Université Blaise Pascal í Frakklandi. Hins vegar hlaut Ivan Shelykh styrk úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins til rannsóknasamstarfs um Polarization Phenomena in Quantum Microcavities (Skautun ljóss í skammtafræðilegum örholum) í samstarfi við vísindamenn í Rússlandi og Mexíkó. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Ivan Shelykh fyrir lofsvert framlag hans til vísinda við skólann. 2008Höskuldur Þráinsson prófessor við íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Höskuldur Þráinsson lauk kandídatsprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands 1974 og doktorsprófi frá Harvard University í Bandaríkjunum 1979. Frá 1980 hefur hann verið prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, en var í leyfi árin 1991-1995 og gegndi þá stöðu gistiprófessors við Harvard. Hann hefur verið forseti og varaforseti heimspekideildar, forstöðumaður Málvísindastofnunar og er nú stjórnarformaður Hugvísindastofnunar. Meginrannsóknarsvið Höskuldar hefur alla tíð verið íslensk setningafræði. Hann hefur skrifað greinar í ýmis virtustu málfræðitímarit heims, s.s. Linguistic Inquiry, Natural Language and Linguistic Theory og Syntax og kafla í ritrýnd safnrit auk þess að ritstýra safnritum sem gefin hafa verið út hjá mikilsmetnum erlendum forlögum. Viðamikið rit hans á ensku um íslenska setningafræði, The Syntax of Icelandic er að koma út þessa dagana hjá Cambridge University Press. Hann á langstærstan þátt í því að vekja athygli erlendra fræðimanna á íslenskri setningagerð og sérkennum hennar. Höskuldur er líka brautryðjandi í rannsóknum og kynningu á færeysku. Hann er aðalhöfundur viðamesta yfirlitsrits sem til er um færeysku, Faroese: An Overview and Reference Grammar, og hefur skrifað greinar um færeysku bæði á íslensku og erlendum málum. Höskuldur er ritstjóri og aðalhöfundur bókarinnar Setningar sem kom út árið 2005. Þar er í fyrsta skipti ritað á íslensku um mörg svið íslenskrar setningagerðar frá fræðilegu sjónarmiði. Hann hefur líka skrifað fjölda greina á íslensku um íslenska setningafræði, hljóðfræði, mállýskur o.fl. Höskuldur hefur um árabil verið ritstjóri tímaritsins Íslenskt mál. Frá því snemma á níunda áratugnum hefur Höskuldur tekið virkan þátt í norrænu samstarfi á sviði setningafræðirannsókna og er hann nú stjórnandi íslensku rannsóknarhópanna í þremur norrænum samstarfsnetum. Í tengslum við þetta samstarf hefur Höskuldur stjórnað íslenska rannsóknarverkefninu Tilbrigði í setningagerð sem hlaut öndvegisstyrk Rannís árin 2005-2007. Í þessu verkefni hafa meistara- og doktorsnemar fengið ómetanlega vísindalega þjálfun. Höskuldur hefur enn fremur verið afkastamikill við miðlun rannsóknarniðurstaðna til skólakerfisins og almennings og hann hefur samið kennslubækur og handbækur fyrir grunn-, framhalds- og háskólastig. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Höskuldi Þráinssyni fyrir lofsvert framlag hans til vísinda við skólann. Sesselja Sigurborg Ómarsdóttir lektor við lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Sesselja S. Ómarsdóttir lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Hún stundaði doktorsnám á sviði lyfja- og efnafræði náttúruefna við sama skóla og að hluta til í Lyfjafræðiháskólanum í Kaupmannahöfn, sem nú er orðinn hluti af Kaupmannahafnarháskóla, árin 2001-2005. Hún varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands vorið 2006. Sesselja hefur gegnt lektorsstöðu við lyfjafræðideild Háskóla Íslands síðan 2005 og hefur sinnt umfangsmikilli kennslu í lyfja- og efnafræði náttúruefna auk þess að sinna endurmenntun, rannsóknum og stjórnun. Sesselja er leikin í mannlegum samskiptum og nýtur virðingar og trausts nemenda og samkennara. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og m.a. lagt mikið af mörkum varðandi endurskoðun náms og námsmats í lyfjafræði. Hún hefur auk þess verið ötul við að byggja upp eigin rannsóknir, afla rannsóknastyrkja og gefa nemendum sínum þannig kost á að taka þátt í spennandi rannsóknum á lífvirkum náttúruefnum úr íslensku lífríki. Sesselja er öflugur og vinsæll kennari sem fer óhikað nýjar leiðir. Hún nýtur þess að kenna, enda kveikir hún áhuga nemenda sinna með lifandi og skemmtilegri framgöngu sem laðar fram vinnusemi og dugnað þeirra. Hún er hjálpsöm og vinsamleg í viðmóti við nemendur og gerir ekki síður ríkar kröfur til sjálfrar sín en til þeirra. Þrátt fyrir ungan starfsaldur hefur hún þegar getið sér orð sem frábær kennari. Sesselja hefur leiðbeint fjölda rannsóknanema með góðum árangri og tvinnar þannig saman kennslu og rannsóknir eins og sönnum háskólakennara sæmir. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Sesselju S. Ómarsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til kennslu við skólann. Sverrir Guðmundsson verkefnisstjóri á vísindasviði Háskóla Íslands. Sverrir Guðmundsson lauk BA-prófi í fjölmiðlafræðum frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð árið 1993. Hann hóf störf sem verkefnisstjóri á vísindasviði Háskóla Íslands árið 1997. Verkefni hans hafa einkum falist í umsjón með rannsóknatengdum sjóðum Háskólans, ásamt vinnu með vísindanefnd háskólaráðs. Sverrir hefur með sjóðsstjórnunum haft umsjón með úthlutunum úr sjóðum eins og Aðstoðarmannasjóði, Tækjakaupasjóði, Rannsóknasjóði Háskólans, Doktorssjóði Rannsóknasjóðs og Háskólasjóði Eimskipafélagsins. Einnig hefur hann sinnt margvíslegum störfum í tengslum við uppbyggingu meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands á undanförnum árum. Þá hefur hann annast sérstakan vef um staðtölur fyrir Háskóla Íslands, þar sem er að finna allar helstu tölulegar upplýsingar um starfsemi skólans. Sverrir Guðmundsson hefur með störfum sínum lagt af mörkum dýrmætan skerf til vandaðra og faglegra vinnubragða við umsjón og umsýslu með rannsóknatengdum sjóðum Háskóla Íslands. Það liggur í hlutarins eðli að þegar fjölbreyttar umsóknir um styrki úr samkeppnissjóðum eru metnar og teknar eru ákvarðanir um úthlutanir úr þeim er mikilvægt að geta rökstutt fyrir umsækjendum þau sjónarmið sem að baki búa og hvetja þá til enn frekari dáða. Það er ekki síst á þessu sviði sem styrkleikar Sverris njóta sín, enda býr hann yfir ríkri samskiptahæfni, þjónustulund og þolinmæði. Hann er sérlega jákvæður og samviskusamur starfsmaður og hefur með mannkostum sínum lagt fram mikilvægan skerf til uppbyggingar þess öfluga rannsóknaumhverfis sem Háskóli Íslands býr yfir í dag. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Sverri Guðmundssyni fyrir lofsvert framlag hans til stoðþjónustu við vísindastarf skólans. 2007Eva Dagmar Steinsson deildarstjóri launadeildar Háskóla Íslands Eva Dagmar Steinsson hóf störf við Háskóla Íslands sem fulltrúi á starfsmannasviði árið 1994. Eva Dagmar hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum á starfsmannasviði og launadeild og frá byrjun árs 2003 hefur hún gegnt starfi deildarstjóra launadeildar. Áður en Eva Dagmar hóf störf hjá Háskóla Íslands starfaði hún hjá Fjársýslu ríkisins og hefur í starfi sínu hjá Háskólanum miðlað og nýtt mikið af þeirri reynslu sem hún öðlaðist þar. Í starfi sínu vinnur Eva með viðkvæmar trúnaðarupplýsingar og leysir hún það af hendi bæði faglega og af mikilli trúmennsku. Hún stýrir launakeyrslu allra starfsmanna við Háskóla Íslands, en á síðasta ári voru greidd laun til um 3500 einstaklinga við skólann. Þá hefur Eva unnið ötullega að innleiðingu launakerfis í Oracle undanfarin ár. Árangur Evu Dagmar í starfi við Háskólann má rekja til færni hennar og þekkingar auk þeirra mannkosta sem hún er gædd og því óskoraða trausti sem hún nýtur meðal samstarfsmanna. Hún er sérlega samviskusöm, ávallt reiðubúin til að leggja sig alla fram um að ljúka verkefnum á tilskildum tíma og afar bóngóð við úrlausn þeirra flóknu verkefna sem upp koma í dagsins önn. Þá hefur Eva Dagmar vaxið með hverju verkefni sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Undir hennar stjórn hefur launadeild Háskólans eflst og er starfsandi og vinnulag hjá deildinni til fyrirmyndar. Eva Dagmar hefur leitast við að afla sér viðbótarmenntunar sem nýtist við stjórn og eflingu deildarinnar og lauk hún diplómanámi í verkefnastjórnun- og leiðtogaþjálfun við Endurmenntun Háskóla Íslands í vor með góðum árangri. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Evu Dagmar fyrir lofsvert framlag hennar til góðra starfshátta og starfsmannamála við skólann. Gylfi Zoëga prófessor við viðskipta- og hagfræðideild. Gylfi Zoëga lauk cand. oecon. prófi frá Háskóla Íslands árið 1987 og hélt að því búnu til náms í Columbia-háskóla í Bandaríkjunum. Þar lauk hann meistaraprófi í hagfræði árið 1989, M.Phil prófi 1991 og doktorsprófi árið 1993. Að námi loknu lagði Gylfi stund á rannsóknir og háskólakennslu erlendis. Hann var ráðinn prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands árið 2002 og kennir þar bæði í grunn- og framhaldsnámi, einkum þjóðhagfræði og vinnumarkaðshagfræði. Gylfi er skorarformaður í hagfræðiskor og varadeildarforseti við viðskipta- og hagfræðildeild. Auk þess gegnir hann stöðu gestaprófessors við Birkbeck College, University of London þar sem hann starfaði um árabil áður en hann hóf störf við Háskóla Íslands. Gylfi hefur yfirburðaþekkingu á sínu sviði og hefur einstakt lag á að miðla fræðunum til nemenda sinna. Hann er yfirvegaður og áhugasamur kennari og sérstaklega skipulagður og skýr í framsetningu. Hann hefur næma tilfinningu fyrir stöðu nemenda sinna og tekur einlægt tillit til þeirra. Þannig eflir hann traust og kveikir fræðilegan áhuga nemenda sem finna að hann ber hag þeirra fyrir brjósti. Kennsla hans er blandin kímni og hann tengir viðfangsefnin oft við hversdagslegan veruleika með lifandi og skemmtilegum hætti. Hann virkjar nemendur í tímum með vel völdum spurningum og tekst þannig að gera námsefnið athyglisvert, lifandi og skemmtilegt. Auk þess að vera framúrskarandi kennari er Gylfi mikilvirkur vísindamaður á ýmsum sviðum þjóðhagfræði. Þrátt fyrir tiltölulega skamman feril er hann tvímælalaust kominn í hóp fremstu vinnumarkaðshagfræðinga í heimum og í fararbroddi evrópskra hagfræðinga. Hann hefur um árabil verið í rannsóknasamstarfi við Edmund S. Phelps sem hlaut nóbelsverðlaun í hagfræði árið 2006. Þá hefur hann gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í tengslum við rannsóknir sínar og vísindastörf. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Gylfa Zoëga fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann. Jórunn Erla Eyfjörð prófessor við læknadeild. Jórunn Erla Eyfjörð innritaðist til náms í líffræði við Háskóla Íslands 1968 og lauk þaðan B.Sc. prófi árið 1971. Strax á þessum fyrstu námsárum mótaðist áhugi Jórunnar á því viðfangsefni sem hefur verið rauði þráðurinn í rannsóknum hennar allar götur síðan, þ.e. erfðaefninu, skemmdum á því og aðferðum frumunnar til að gera við slíkar skemmdir. Að loknu grunnnámi hélt Jórunn til framhaldsnáms við háskólann í Sussex í Englandi og lauk þaðan doktorsprófi árið 1976. Jórunn hefur verið háskólakennari um langt árabil, fyrst við háskólann í Sussex og síðar við raunvísindadeild og læknadeild Háskóla Íslands. Hún varð lektor við raunvísindadeild 1982, dósent við læknadeild 1988 og prófessor við sömu deild árið 2005. Jórunn hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa og hlotið viðurkenningar fyrir vísindastörf sín bæði hér á landi og erlendis. Fyrir rúmlega tuttugu árum hóf Jórunn að taka þátt í uppbyggingu rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði (nú rannsóknastofa Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði). Rannsóknastofan hefur verið leiðandi á Íslandi í krabbameinsrannsóknum og er vel þekkt á alþjóðlegum vettvangi sem er að stórum hluta framlagi Jórunnar að þakka. Jórunn og samstarfsfólk hennar átti drjúgan þátt í að finna annað af tveimur þekktum áhættugenum fyrir brjóstakrabbamein og hafa niðurstöður rannsókna þeirra vakið heimsathygli. Þetta gen, sem nefnist BRCA2, hefur reynst skýra meiri hluta ættlægra brjóstakrabbameina á Íslandi. Einnig hefur komið í ljós að það skiptir máli fyrir krabbamein í blöðruhálskirtli, bæði hvað varðar áhættu á að fá sjúkdóminn og lífshorfur sjúklinga. Jórunn Erla er afar öflugur vísindamaður og í fararbroddi á sínu fræðasviði hérlendis sem erlendis. Hún hefur birt fjölda fræðigreina, margar þeirra í virtustu alþjóðlegu tímaritum. Hún hefur verið mjög virk í alþjóðlegu samstarfi og aflað stórra erlendra vísindastyrkja í harðri samkeppni. Síðast en ekki síst hefur hún verið farsæll leiðbeinandi fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi og var meðal brautryðjenda á því sviði við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Jórunni Erlu Eyfjörð fyrir lofsvert framlag hennar til vísinda við skólann. 2006Guðrún Helga Agnarsdóttir verkefnisstjóri á skrifstofum verkfræði- og raunvísindadeilda Guðrún Helga Agnarsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1969 og B.A.-prófi í félagsvísindum frá Háskóla Íslands 1993. Haustið 1994 réðst hún til starfa á sameiginlegri skrifstofu verkfræði- og raunvísindadeilda og hefur starfað þar síðan. Guðrún er hamhleypa til verka. Hún gengur jafnt að öllum störfum og lýkur þeim ævinlega þannig að hvorki þarf að endurtaka né endurgera. Hún er á heimavelli í flestum verkefnum hjá verkfræði- og raunvísindadeildum, stórum sem smáum. Hún gjörþekkir króka og kima Háskólans og miðlar kennurum og stúdentum skilmerkilega af þekkingu sinni, á ýmsum tungumálum. Stúdenta og kennara umgengst hún af móðurlegri umhyggju og strangleika. Alltaf fús að liðsinna þeim en vandar um við þá sem þess þurfa. Hún fylgist vel með stúdentum og ekki síst þeim sem standa höllum fæti, til dæmis vegna sjúkdóma eða annarra erfiðleika. Ekki skirrist hún við að hringja heim til þeirra sem hún veit að hafa misst móðinn og tala í þá kjark og eru mörg dæmi um stúdenta sem Guðrúnu hefur tekist að drífa í próf. Guðrún hefur mikinn metnað fyrir hönd sinna deilda og Háskólans í heild. Hún hefur vakandi auga með kerfum og verkferlum og er óþreytandi að koma á framfæri ábendingum um hvar mætti bæta eða hagræða. Öll framganga Guðrúnar í starfi einkennist af hreinskiptni, hjartanleika, góðum hug og hressileika í fasi. Sé starfsmaður heiðraður fyrir störf sín hlýtur það að vera fyrir að gera meira og betur en að sinna skyldu sinni. Guðrún Helga Agnarsdóttir er sannarlega vel að slíkum heiðri komin. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Guðrúnu Helgu Agnarsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til góðra starfshátta, hvatningar og stuðnings við nemendur skólans. Helgi Valdimarsson prófessor við læknadeild Helgi Valdimarsson lauk embættisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1964. Hann lagði stund á sérnám í lyflæknisfræði og ónæmisfræði við Royal Postgraduate Medical School í London árið 1968 og í Stokkhólmi 1970 og hlaut sérfræðileyfi í ónæmisfræði árið 1975. Helgi var Wellcome styrkþegi og lektor í lyflækningum og ónæmisfræði við skóla sinn í Bretlandi 1971-1975 og tók við stöðu sérfræðings og dósents við St. Mary's sjúkrahúsið í London árið 1975 og gegndi henni til ársins 1981 þegar hann varð fyrsti prófessorinn í ónæmisfræði við Háskóla Íslands og jafnframt yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítala-háskólasjúkrahúss. Ónæmisfræðin er fremur ung fræðigrein sem hefur verið í örum vexti frá síðari helmingi 20. aldar. Helgi hefur byggt upp kennslu og rannsóknir í fræðigreininni af framúrskarandi dugnaði. Hann hefur ásamt samstarfsfólki sínu í Háskóla Íslands og á Landspítala-háskólasjúkrahúsi byggt upp rannsóknastofu Háskóla Íslands í ónæmisfræði með ómetanlegum stuðningi háskólasjúkrahússins. Rannsóknastofan er nú orðin vel þekkt sem slík á alþjóðavettvangi. Meginviðfangsefni Helga innan ónæmisfræðinnar hafa verið gigtsjúkdómar og sjálfsofnæmissjúkdómar og eftir hann liggja 154 greinar skráðar í alþjóðlegan gagnagrunn um birtar greinar í læknisfræði. Sem vísindamaður er Helgi hugmyndaríkur og fljótur að henda á lofti nýjungar og hann lætur ekki vantrú annarra aftra sér frá að fylgja þeim eftir. Fyrir u.þ.b. 20 árum setti Helgi fram hugmyndir um meingerð og tilurð psoriasis fyrir tilstilli T-eitilfrumna í húð og nokkru síðar hóf hann að rannsaka hugsanlegan þátt streptókokkasýkinga í hálsi í tilurð psoriasis. Helgi hefur laðað til sín marga afburða meistara- og doktorsnemendur og með því unnið ötullega að framgangi ónæmisfræðinnar á Íslandi. Hann var með þeim fyrstu sem hvöttu til þess að Háskóli Íslands tæki upp rannsóknatengt framhaldsnám, fyrst meistaranám og síðar doktorsnám. Auk þess sem hér hefur verið getið hefur Helgi gegnt ótal trúnaðarstörfum, bæði á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Helga Valdimarssyni fyrir lofsvert framlag hans til rannsókna við skólann. Róbert Ragnar Spanó dósent við lagadeild Róbert Ragnar Spanó útskrifaðist með meistarapróf á sviði ríkisréttar frá lagadeild Oxfordháskóla árið 2000. Hlaut hann ágætiseinkunn og vann til Clifford-Chance verðlauna fyrir heildarnámsárangur í meistaranámi. Róbert var ráðinn lektor við lagadeild Háskóla Íslands árið 2002 og ráðinn dósent 2004. Helstu rannsóknarsvið hans hafa verið lögskýringarfræði, stjórnarskrá Íslands og refsiábyrgð, stjórnsýslu-réttur og réttarfarsreglur í málum þar sem ríki og sveitarfélög eru aðilar. Róbert hefur kennt almenna lögfræði sem er hornsteinn lögfræðinnar þar sem kennd er lögfræðileg aðferðarfræði, réttarheimildir og lögskýringar. Þá hefur hann einnig kennt greinar í meistaranámi og verið ötull leiðbeinandi við smíði meistararitgerða. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Róbert Ragnar Spanó öðlast umtalsverða kennslureynslu. Með eldmóði sínum og kennsluaðferðum hefur honum tekist að vekja áhuga nemenda sinna á afar erfiðu efni í aðferðafræði lögfræðinnar sem fjallar um eðli og innra samhengi lögskýringa. Róbert er leiðtogi innan sinnar fræðigreinar og smitar samkennara sína ekki síður en nemendur af áhuga sínum á viðfangsefninu. Hann hefur jafnframt verið í fararbroddi við uppbyggingu metnaðarfulls meistaranáms í lagadeild og er ávallt reiðubúinn að aðstoða nemendur sem til hans leita. Það er mat nemenda að Róbert sé framúrskarandi kennari. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Róberti Ragnari Spanó fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann. 2005Bjarnheiður Kristín Guðmundsdóttir vísindamaður við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Bjarnheiður Kristín Guðmundsdóttir var í fyrsta árgangi líffræðinga sem útskrifuðust með BS-próf frá Háskóla Íslands. Árið 1986 réðst Bjarnheiður til nýstofnaðrar fisksjúkdómadeildar Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og hefur gegnt þar rannsóknar- og stjórnunarstörfum síðan. Á fisksjúkdómadeildinni hafa frá upphafi verið stundaðar metnaðarfullar rannsóknir sem auka við grundvallarþekkingu á sýkingum og ónæmisvörnum í hryggdýrum auk þess sem þær hafa mikið hagnýtt gildi. Bjarnheiður hefur átt stóran þátt í að byggja upp þessar rannsóknir og þannig stuðlað að því að fisksjúkdómadeildin á Keldum hefur skipað sér á bekk með fremstu rannsóknastofnunum á sínu sviði. Bjarnheiður var með þeim fyrstu sem innrituðust í formlegt doktorsnám við læknadeild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi árið 1997 og fjallaði ritgerð hennar um sýkingarmátt bakteríunnar sem veldur kýlaveikibróður, en sá sjúkdómur er mikill skaðvaldur í laxeldi. Að loknu doktorsprófi hefur verið jöfn stígandi í rannsóknum Bjarnheiðar. Hafa þær orðið til þess að auka mjög skilning á sýkingarmætti ýmissa baktería, sem jafnframt er forsenda fyrir þróun nýrra sjúkdómavarna. Bjarnheiður hefur ýmist tekið þátt í eða stjórnað fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum á Norðurlöndum og á vegum Evrópusambandsins. Hún hefur verið iðin við að birta niðurstöður rannsókna sinna og flutt fjölda fyrirlestra á ráðstefnum. Bjarnheiður er viðurkennd á alþjóðavettvangi sem sérfræðingur með víðtæka þekkingu á sjúkdómum og sjúkdómsvörnum í fiskeldi og hefur flutt boðsfyrirlestra um þau efni víða um lönd. Síðast en ekki síst hefur hún tekið mjög virkan þátt í þjálfun meistara- og doktorsnema og leggur sérstaka alúð við handleiðslu nemenda sinna. Af ofanskráðu er ljóst að Bjarnheiður Kristín Guðmundsdóttir hefur unnið ötullega að sköpun nýrrar þekkingar á sviði sem hefur mikið fræðilegt og hagnýtt gildi og hún hefur verið ötul við að koma þessari nýju þekkingu á framfæri jafnt á alþjóðlegum vettvangi sem og með þjálfun ungra vísindamanna. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Bjarnheiði Kristínu Guðmundsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til rannsókna við skólann. Páll Melsted garðyrkjustjóri Háskólans. Páll Melsted stundaði nám við Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi, sem síðar varð hluti af Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, og brautskráðist þaðan sem skrúðgarðyrkjufræðingur. Hann lagði stund á framhaldsnám við landbúnaðarháskólann í Alnarp í Svíþjóð og lauk þaðan prófi sem Trädgårdstekniker árið 1978. Meðfram námi starfaði Páll við Háskóla Íslands frá 1976 og var ráðinn garðyrkjustjóri skólans árið 1985. Því starfi hefur hann gegnt til þessa dags. Starfssvið Páls er umfangsmikið og fjölbreytt og spannar í reynd alla umhirðu gróðurs og lóða Háskólans, hvort sem um er að ræða viðhald eða nýframkvæmdir. Hann hefur umsjón með því að tré og plöntur séu vel hirtar, útivistarsvæði séu aðlaðandi, bílastæði aðgengileg og að gangandi og akandi vegfarendur eigi greiða leið að lóðum og byggingum Háskólans jafnt að sumri sem að vetri til. Óhætt er að fullyrða að lóðir Háskóla Íslands hafa verið skólanum til sóma allan þann tíma sem Páll Melsted hefur haft umsjón með þeim. Auk fegurðargildisins stuðla þær að vellíðan háskólafólks og jákvæðri ímynd skólans. Þá felur góð umhirða háskólasvæðisins ekki síður í sér mikilsvert framlag til öryggis starfsmanna, nemenda og gesta og er forsenda þess að starfsemi skólans geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti. Páll hefur sinnt öllum þessum verkefnum af slíkri samviskusemi, smekkvísi og alúð að eftir er tekið. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Páli Melsted fyrir lofsvert framlag hans til garðyrkjumála og umhirðu lóða skólans. Runólfur Smári Steinþórsson dósent við viðskipta- og hagfræðideild Runólfur Smári Steinþórsson lauk cand. oecon. prófi frá Háskóla Íslands árið 1986, meistaraprófi frá Copenhagen Business School 1990 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1995. Hann var skipaður lektor við Háskóla Íslands 1. ágúst 1993 og dósent 1. ágúst 1996. Runólfur Smári hefur einkum kennt námskeið á sviði stjórnunar og stefnumótunar. Auk þess að vera forstöðumaður MBA-námsins við Háskólann og einn af brautryðjendum þess kennir hann við Endurmenntunarstofnun og í BS- og MS-námi í viðskipta- og hagfræðideild. Runólfur Smári hefur átt verulegan þátt í uppbyggingu framhaldsnáms við viðskipta- og hagfræðideild. Hann hefur sinnt kennslu sinni af einstakri alúð, sem sýnir sig t.d. í góðum og miklum samskiptum hans við nemendur. Allt starf Runólfs Smára einkennist af árvekni og ódrepandi eljusemi, þolinmæði og hlýju viðmóti. Hann hefur yfirburða faglega þekkingu sem hann miðlar til nemenda af eldmóði auk þess að ögra nemendum sífellt til að hugsa út fyrir það efni sem er til umfjöllunar á hverjum tíma til að þeir megi öðlast dýpri skilning á viðfangsefninu. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Runólfi Smára Steinþórssyni fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann. 2004Ásgeir Haraldsson prófessor við læknadeild Ásgeir Haraldsson lauk embættisprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands 1982 og hlaut lækningaleyfi á Íslandi 1984. Sérfræðiviðurkenningu í barnalæknisfræði fékk hann 1990 og í ónæmisfræði barna 1991. Hann lauk doktorsprófi við háskólann í Nijmegen í Hollandi 1993 þar sem hann stundaði sérfræðinám sitt að mestu. Ásgeir starfaði sem sérfræðingur á deild háskólasjúkrahússins í Nijmegen fyrir ónæmisfræði og beinmergsflutninga og var yfirlæknir þar frá 1993 til 1994. Samtímis varð hann fastur kennari við Leiden-háskóla en hafði áður verið dósent í tvö ár. Hann var skipaður prófessor í barnalækningum við læknadeild Háskólans 1. janúar 1995 og er yfirlæknir barnaspítala Hringsins á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Hann hefur skrifað fjölda greina á fræðasviði sínu. Ásgeir er forstöðumaður fræðasviðsins barnalækningar sem einkum er kennt á 5. ári læknanámsins. Auk þess hefur hann mörg undanfarin ár verið leiðbeinandi nemenda í rannsóknarverkefnum á 3. ári í læknisfræði og verið umsjónarmaður umræðufunda í námskeiði í ónæmisfræði á 3. ári. Ásgeir á einkar auðvelt með að vekja áhuga nemenda á barnalæknisfræðinni með eldmóði sínum og kennsluaðferðum. Hann er leiðtogi innan síns fræðasviðs og smitar samkennara sína ekki síður en nemendur af áhuga sínum á námsefninu. Hann nýtir sér tæknina við kennsluna og er einkar lagið að koma torskildu efni til skila. Ásgeir heldur fagmannlega utan um alla þá nemendur sem eru á hans ábyrgð og er ávallt reiðubúinn að aðstoða ef nemendur leita til hans. Það er mat nemenda að Ásgeir sé framúrskarandi og sérlega fjölhæfur kennari. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Ásgeiri Haraldssyni fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann. Elísabet Þorsteinsdóttir starfsmatsstjóri við Háskóla Íslands Elísabet Þorsteinsdóttir hóf störf við Háskóla Íslands 1. október 1990 sem verkefnisstjóri á starfsmannasviði og varð deildarstjóri frá 1. janúar 1991. Elísabet hefur starfað við fjölbreytt verkefni á starfsmannasviði allt frá upphafi og má þar m.a. nefna gerð handbókar fyrir starfsmenn, verkefni er tengjast vinnumati kennara, launamálum og þróun tölvumála við deildina. Frá 1. febrúar 2003 var Elísabet ráðin sem starfsmatsstjóri til tveggja ára. Fólst verkefnið í því að meta starfsfólk skólans eftir sérstöku matskerfi sem sérstaklega var búið til fyrir störf við stjórnsýslu og þjónustu í Háskóla Íslands og tengdum stofnunum, sem ekki falla undir stigamatskerfi kennara og sérfræðinga. Frá upphafi lágu tvö markmið til grundvallar matinu. Annars vegar var lögð áhersla á að koma á hlutlægum og gagnsæjum mælikvörðum við ákvörðun launa í stjórnsýslu- og þjónustustörfum, hliðstætt því sem gert er við ákvörðun launa akademískra starfsmanna. Matskerfið skyldi tryggja samræmda og réttláta launaröðun og þess sérstaklega gætt að starfsfólki væri ekki mismunað í launum vegna kynferðis eða annarra ómálefnalegra þátta. Hins vegar var lögð áhersla á að laun í Háskóla Íslands og hjá tengdum stofnunum stæðust samanburð við laun viðmiðunarhópa. Bæði þessi markmið eru liður í því að framfylgja starfsmanna- og launastefnu Háskólans og jafnréttisáætlun hans. Það er skemmst frá því að segja að Elísabet hefur leyst þetta verkefni af hendi með miklum sóma. Hefur henni tekist að vinna mjög vandasamt verk, en gerð sambærilegs starfsmats við háskóla á Norðurlöndum hefur tekið mun lengri tíma, kostnaður farið úr böndum og erfitt reynst að fylgja því eftir. Árangur Elísabetar í starfi við Háskólann má ekki aðeins rekja til færni hennar og þekkingar, heldur ekki síður þeirra mannkosta sem hún er gædd, enda nýtur hún óskoraðs trausts samstarfsmanna sinna. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Elísabet L. Þorsteinsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til starfsmannamála við skólann. Guðmundur G. Haraldsson prófessor við raunvísindadeild Guðmundur G. Haraldsson lauk BS-prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1976. Að því loknu starfaði Guðmundur sem kennari í efnafræði við Menntaskólann í Kópavogi um tveggja ára skeið. Guðmundur stundaði doktorsnám í lífrænni efnafræði við Oxfordháskóla í Englandi 1978-1982. Þá stundaði Guðmundur rannsóknir sem nýdoktor við Ohio State University í Columbus Ohio 1982-1983. Guðmundur var svo ráðinn sérfræðingur við efnafræðistofu Raunvísindastofnunar í ársbyrjun 1985 og sama ár í hálfa stöðu dósents í lífrænni efnafræði við efnafræðiskor. Guðmundur var síðan ráðinn í fullt starf dósents 1991 og loks skipaður í starf prófessors við efnafræðiskor frá 1996. Sérsvið Guðmundar er lífrænar efnasmíðar (synthetic organic chemistry) og hefur hann fengist við nýsmíði á margvíslegum porfyrinsamböndum, efnasmíðar náttúruefna og þróun aðferða við lífrænar efnasmíðar. Mest hefur Guðmundur þó fengist við líf-lífrænar efnasmíðar (bio-organic synthesis) á fituefnum í rannsóknum sínum. Þar hefur hann beitt í bland aðferðum líftækni með ensímum og hefðbundnari aðferðum lífrænna efnasmíða. Rannsóknir hans, sem hafa beinan snertiflöt við læknis- og lyfjafræði og næringarfræði, hafa einkum beinst að ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum er einkenna fituefni sjávarfangs. Hann hefur fengist við að einangra þessi efni í hreinu formi úr lýsi og öðru sjávarfangi og tengt inn á margvísleg fituefni, t.d. þríglyseríð, fosfólípíð og eterlípíð. Sum þeirra fituefna sem Guðmundur hefur fengist við reyndust hafa mjög áhugaverð áhrif á lífverur. Má þar nefna áhrif lípíða með ríku innihaldi ómega-3 fjölómettaðra fitusýra á þroskun lúðulirfa yfir í lúðuseiði. Samsvarandi áhrif hafa einnig fengist í eldi annarra fisktegunda, t.d. þorsks. Niðurstöður rannsókna Guðmundar á astaxanþíni hafa einnig reynst afar áhugaverðar fyrir laxeldi. Allt frá árinu 1985 hefur Guðmundur í ríkum mæli verið í samvinnu við bæði innlend og erlend fyrirtæki sem tekið hafa þátt í fjármögnun á rannsóknum hans. Má þar nefna Lýsi hf, Natural AS, Norsk Hydro og dótturfyrirtæki þess Pronova Biocare í Noregi, auk Novo Nordisk í Danmörku. Guðmundur hefur leiðbeint fjölda nemenda í rannsóknum og rannsóknatengdu framhaldsnámi. Rannsóknir Guðmundar hafa vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi og gefið af sér fjölda tímaritsgreina og bókarkafla, auk einkaleyfaumsókna. Guðmundur hefur setið í stjórnum samtaka fituefnafræða, m.a. Lipidforum (Nordic Forum of Lipid Research and Technology) frá 1989 og Euro Fed Lipids (European Federation for the Science and Technology of Lipids) og ISF (International Society of Fat Science and Technology). Guðmundur er núverandi formaður stjórnar Lipidforum. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Guðmundi G. Haraldssyni fyrir lofsvert framlag hans til rannsókna við skólann. Ragnar Stefán Ragnarsson deildarstjóri hugbúnaðarþróunar Reiknistofnunar Háskóla Íslands Ragnar Stefán Ragnarsson hóf störf hjá Reiknistofnun Háskóla Íslands haustið 1995 í notendaþjónustudeild þar sem ábyrgðarsvið hans var einmenningstölvur og tölvuver. Við lok ársins 2000 var hann síðan ráðinn deildarstjóri hugbúnaðarþróunardeildar þegar hún var stofnuð. Fyrsta verkefni hans við deildina var að koma skipulagi á hugbúnaðargerð Reiknistofnunar og fórst honum það einkar vel úr hendi. Á sama tíma var farið að huga að endurnýjun og endurbótum á nemendakerfi Háskólans. Í upphafi voru fengnir utanaðkomandi ráðgjafar til að greina kerfið og meta nauðsynlegar framkvæmdir. Tveimur árum síðar, haustið 2002, var Reiknistofnun falið að taka verkið að sér og var það jafnframt upphafið að núverandi vefkerfi Háskólans sem hefur hlotið nafnið Ugla og háskólafólk þekkir vel. Áætlað var að verkið tæki 2 ½ ár og bendir allt til þess að sú tímaáætlun muni standast þótt það taki nú einnig til Kennaraháskóla Íslands og Endurmenntunar Háskólans. Þegar svo flókið verkefni á í hlut fer vitaskuld ekki hjá því að upp koma fjölmörg óvænt úrlausnarefni sem of langt mál væri að telja upp hér. Í stað þess að láta vandamálin vaxa sér í augum hafa Ragnar Stefán og samverkamenn hans leyst þau jafnóðum og auðgað með því möguleika og afkastagetu vefkerfisins. Þá eru framundan mörg ögrandi verkefni sem reyna munu á styrka verkefnastjórn Ragnars Stefáns og má þar nefna reikninga- og þjónustukerfi Reiknistofnunar og frekari þróun innri vefs Háskólans. Það er einróma álit allra sem notað hafa vefkerfi Háskólans að það er sérlega kennara- og nemendavænt og hefur hróður þess ekki aðeins borist út fyrir Háskóla Íslands heldur einnig til annarra landa. Ragnar Stefán hefur sýnt einstaka framsýni, staðfestu og skipulagshæfileika við úrlausn þessa flókna verkefnis. Það liggur í hlutarins eðli að slíkt verkefni verður ekki unnið af einum manni, enda hefur hugbúnaðarþróun Reiknistofnunar Háskólans á að skipa sveit úrvals fagmanna. Hefur Ragnar Stefán haft einkar gott lag á að virkja samstarfsmenn sína hjá Reiknistofnun og efla þá til dáða. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Ragnari Stefáni Ragnarssyni fyrir lofsvert framlag hans til uppbyggingar vefkerfis við skólann. Rannveig Sverrisdóttir lektor við heimspekideild Rannveig Sverrisdóttir lauk B.A.-prófi í almennum málvísindum við Háskóla Íslands árið 1997 og cand. mag prófi í almennum málvísindum með áherslu á málfræði táknmáls frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2001. Hún vann á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra árið 1999 við gerð námsefnis í táknmáli fyrir byrjendur og var ráðin lektor í táknmálsfræði við heimspekideild Háskólans 1. janúar 2002. Allt frá því að Rannveig hóf störf við Háskóla Íslands hefur hún byggt upp nýtt fræðasvið af einstakri eljusemi og um leið lagað það að séríslenskum aðstæðum. Hún hefur verið vakin og sofin í starfi sínu sem kennari og aðalskipuleggjandi táknmálsfræðinnar við bókmenntafræði- og málvísindaskor heimspekideildar. Oft hefur sérstaklega mætt á henni sökum þess að hún er eini fasti kennarinn í greininni og byggja þurfti námið upp svo gott sem frá grunni. Um leið og Rannveig hefur barist fyrir tilvist námsgreinarinnar innan Háskólans hefur hún unnið ötullega að því að kynna táknmálsfræðina innan samfélags heyrnarskerta og heyrnarlausra, á sama tíma og henni hefur tekist að vekja áhuga ungs fólks á greininni sem sér í henni verðugan atvinnu- og fræðavettvang. Allt starf Rannveigar einkennist af árvekni og ódrepandi eljusemi, þolinmæði og hlýju viðmóti. Hún hefur áunnið sér virðingu nemenda og samkennara, jafnt innan skorar sem utan. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Rannveigu Sverrisdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til kennslu við skólann. Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor við félagsvísindadeild Sigrún Aðalbjarnardóttir lauk BA-prófi í uppeldisfræði frá Háskóla Íslands árið 1983. Hún lauk mastersgráðu í þroskasálfræði frá Harvard University Graduate School of Education árið 1984 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1988. Sigrún var ráðin lektor við félagsvísindadeild árið 1989 og skipuð prófessor árið 1994. Rannsóknir Sigrúnar í uppeldis- og menntunarfræði hafa mest verið á þremur sviðum: Áhættuhegðun unglinga og ungs fólks, félagsþroska og samskiptahæfni nemenda og fagvitund kennara. Í rannsóknum hefur hún verið mjög virk í alþjóðlegu samstarfi. Allt frá 1988 hefur Sigrún unnið með rannsóknahópi í Harvard á grunni þroskakenninga Selman's. Þau Selman hafa átt í samstarfi í mörg ár og hafa skrifað saman greinar og bókakafla. Líkan það sem Sigrún hefur verið að þróa um fagvitund kennara og um áhættuhegðun ungs fólks byggja m.a. á þessum kenningum. Sigrún hefur einnig verið þátttakandi í evrópsku samvinnuverkefni um borgaravitund barna í Evrópu allt frá 1997. Hún hefur virkjað framhaldsnema í rannsóknum sínum og hefur birt með þeim fjölda bókakafla og greina í ritrýndum tímaritum. Rannsóknarverkefni Sigrúnar hafa ekki einungis mikið vísindalegt gildi heldur eru þær einnig hagnýtar. Hún hefur verið ötul við að koma niðurstöðum rannsókna sinna á framfæri við kennara, þá sem standa að kennaramenntun sem og leikmenn. Rannsókn hennar á tengslum uppeldishátta foreldra og tilhneigingu til áhættuhegðunar unglinga hefur vakið verðskuldaða athygli. Sigrún fylgist vel með nýjungum í rannsóknum á sínu sviði og hún hefur til dæmis nýlega hafið þátttöku í evrópsku rannsóknarverkefni fimm landa um fjölmenningu í skólastarfi. Sigrún hefur verið frjór og afkastamikill fræðimaður eins og glöggt má sjá af þeim fjölmörgu ritverkum sem birst hafa eftir hana. Virkni hennar á undanförnum árum hefur verið afar mikil. Á árunum 2000 til 2003 birti hún sex greinar í ritrýndum tímaritum á alþjóðavettvangi, níu bókakafla og tíu kafla í ritrýndum ráðstefnuritum. Sigrún hefur einnig kynnt rannsóknir sínar á mörgum alþjóðlegum ráðstefnum. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Sigrúnu Aðalbjarnardóttur fyrir lofsvert framlag hennar til rannsókna við skólann. 2003Arnfríður Guðmundsdóttir dósent við guðfræðideild. Arnfríður Guðmundsdóttir lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1986. Hún stundaði doktorsnám í guðfræði við University of Iowa, University of Chicago og Lutheran School of Theology at Chicago. Hún lauk doktorsprófi í guðfræði (Ph.D.) frá síðastnefnda skólanum árið 1996 og fjallaði doktorsritgerð hennar um femíníska endurskoðun á hefðbundinni Kristsfræði í ljósi guðfræði krossins. Á árunum 1996-1999 var hún stundakennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og kenndi bæði trúfræði og siðfræði. Hinn 1. janúar árið 2000 var hún ráðin lektor í sérstakt tímabundið starf í guðfræði með áherslu á kvennaguðfræði. Arnfríður var síðar fastráðin og hefur nú hlotið framgang í starf dósents. Er hún fyrsta konan sem ráðin hefur verið í fast kennarastarf við guðfræðideild. Arnfríður hefur kennt á mörgum fræðasviðum, auk trú- og siðfræði (samstæðilegrar guðfræði) hefur hún einnig kennt almenna kirkjusögu og gamlatestamentisfræði. Áður en Arnfríður flutti til Íslands hafði hún stundað kennslu í Bandaríkjunum samtals í um fjögur ár. Arnfríður þykir einstaklega góður kennari. Hún hefur hlotið mikið lof sem leiðbeinandi með lokaverkefnum. Þá er mat nemenda á kennslu hennar í kennslukönnunum einróma og sýnir miklar vinsældir hennar. Auk háskólakennslu hefur Arnfríður haldið námskeið um kvennaguðfræði og jafnréttismál í ýmsum söfnuðum þjóðkirkjunnar, á vegum ýmissa félagasamtaka og Leikmannaskóla þjóðkirkjunnar sem rekinn er í samvinnu við guðfræðideild. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Arnfríði Guðmundsdóttur fyrir lofsvert framlag hennar til kennslu við skólann. Helgi Björnsson vísindamaður við raunvísindadeild Helgi Björnsson lauk cand. mag.-prófi frá jarðeðlisfræðideild Oslóarháskóla 1966 og cand. real.-prófi frá sama skóla í árslok 1969. Á árinu 1988 hlaut hann doktorsgráðu við Oslóarháskóla fyrir bókina Hydrology of Ice Caps in Volcanic Regions. Helgi starfaði hjá Norges Vassdrags og elektricitetsvesen 1970-1971 áður en hann kom til starfa sem sérfræðingur á Raunvísindastofnun árið 1971, þar sem hann hefur starfað síðan, að undanskildu einu og hálfu ári (1974-1975) er hann var post-doctoral fellow við eðlisfræðideild Bristolháskóla. Helgi hlaut fyrstur sérfræðinga framgang í starf vísindamanns, haustið 1993. Rannsóknir Helga hafa verið fjölþættar. Hann hefur aflað grundvallargagna um alla helstu jökla Íslands. Meginverkefni hans hefur verið kortlagning á yfirborði og botni jökla með íssjármælingum og könnun á hegðun þeirra bæði í nútíð og fortíð, en einnig hvernig ætla má að loftlagsbreytingar hafi áhrif á þá til framtíðar. Annar áberandi þáttur í rannsóknum Helga hefur snúið að eldvirkni undir jökli og eðli háhitasvæða undir jöklum, rennsli vatns undan þeim, afmörkun vatnasvæða til einstakra jökulfljóta, uppsöfnun vatns í geyma undir jöklum, jökulstífluð lón og eðli jökulhlaupa. Íssjármælingar hófust hérlendis árið 1976 þegar Helgi og samstarfsmenn hans þróuðu fyrstir manna nothæfan búnað til mælinga á þíðjöklum. Auk þessa hefur Helgi aflað sér alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir rannsóknir á jökulhlaupum og framhlaupsjöklum. Með kortlagningu á þykkt jökla og landslagi undir þeim má rekja feril vatns í jökulhlaupum. Auk vísindalegs gildis slíkra rannsókna hafa þær og mikið gildi fyrir almannavarnir og mannvirkjagerð í nágrenni jökla. Í grein sem birtist í tímaritinu Nature í desember 1998 nýtir Helgi gögn frá hlaupum úr Grímsvötnum niður á Skeiðarársand fyrir og eftir framhlaup Skeiðarárjökuls í byrjun árs 1991. Með einstæðum gögnum úr Grímsvötnum og ánum á Skeiðarársandi var í fyrsta sinn hægt að sýna fram á með óyggjandi hætti hvernig hefðbundið vatnsrásarkerfi jökulsins brotnar niður við framhlaup jökla. Helgi vinnur nú að því að meta stærð jökla hérlendis og umfang jöklabreytinga undanfarin 300 ár og gerð korta af þrívíðri hreyfingu þeirra með túlkun bylgjuvíxlmælinga úr gervitunglum (SAR) ásamt punktmælingum á jöklunum sjálfum. Helgi hefur sinnt kennslu í jöklafræði og grunnvatnsfræði við raunvísindadeild. Hann var formaður Jöklarannsóknafélags Íslands 1989-1998 og ritstjóri tímaritsins Jökuls 1977-1998. Helgi er varaforseti alþjóðlega jöklarannsóknafélagsins og var nýlega sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Stokkhólmsháskóla. Hann hefur birt samtals um 30 SCI vísindagreinar auk tæplega 40 greina í öðrum ritrýndum tímaritum og doktorsritgerðar hans. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Helga Björnssyni fyrir lofsvert framlag hans til rannsókna við skólann. Ingjaldur Hannibalsson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, formaður fjármálanefndar háskólaráðs og fyrrv. framkvæmdastjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs sameiginlegrar stjórnsýslu Háskólans Ingjaldur Hannibalsson lauk B.Sc.-prófi í eðlisfræði og stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1974 og doktorsprófi í iðnaðarverkfræði við The Ohio State University í Bandaríkjunum árið 1978. Ingjaldur hefur gegnt fjölmörgum störfum, bæði innan og utan Háskólans. Hann var deildarstjóri tæknideildar Félags íslenskra iðnrekenda 1978-1983, forstjóri Iðntæknistofnunar Íslands 1983-1986, forstjóri Álafoss hf. 1986-1987 og framkvæmdastjóri Útflutningsráðs Íslands 1988-1993. Frá 1978 hefur Ingjaldur verið kennari við Háskóla Íslands, fyrst sem stundakennari, þá sem dósent í hlutastarfi 1982-1993 og frá 1997 sem prófessor við viðskipta- og hagfræðideild. Ingjaldur hefur tekið gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hönd Háskólans. Hann var formaður viðskiptaskorar 1994-1996, formaður stjórnar Reykjavíkurapóteks 1996-1999, í fjármálanefnd háskólaráðs frá 1996 (formaður frá 1997), í stjórn Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands frá 1996 (formaður 1996-1999), í stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands 1997-2001, formaður stjórnar Tækniþróunar hf. frá 1998, í stjórn Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands frá 1999 og í skipulags- og húsnæðisnefnd Háskólans 2001-2003 og er nú formaður bygginganefndar Háskólatorgs. Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs hafði Ingjaldur yfirumsjón með málefnum er lúta að rekstri Háskólans og framkvæmdum á hans vegum. Var það hlutverk hans að tryggja að rekstur skólans væri skilvirkur og í samræmi við markmið hans. Eitt mikilvægasta verkefni Ingjaldar á þessum vettvangi var að hafa yfirumsjón með lokaáfanga byggingar náttúrufræðahúss Háskólans í Vatnsmýrinni. Ingjaldur hefur áunnið sér virðingu og traust starfsmanna Háskólans fyrir ósérhlífni, sanngirni og málefnalega afstöðu til þeirra verkefna sem honum hefur verið trúað fyrir. Háskóli Íslands vill með þessari viðurkenningu þakka Ingjaldi Hannibalssyni fyrir lofsvert framlag hans til stjórnunar rekstrar og framkvæmda við skólann. 2002Brynhildur Brynjólfsdóttir deildarstjóri Nemendaskrár Háskóla Íslands. Brynhildur Brynjólfsdóttir hóf störf í Nemendaskrá Háskóla Íslands í september 1976. Haustið 1977 var starfsemi Nemendaskrárinnar tölvuvædd og var Brynhildur þátttakandi í tölvuvæddri skipulagningu hennar og uppsetningu frá upphafi. Brynhildur hefur verið deildarstjóri Nemendaskrárinnar síðan. Starfsemi Háskólans hefur breyst mikið á þessu tímabili sem liðið er, námsmöguleikum hefur fjölgað til mikilla muna og fjöldi stúdenta nær þrefaldast. Háskólaárið 1976-1977 voru 2.816 stúdentar við nám við Háskólann en eru nú um 8.000. Umfang starfsemi Nemendaskrárinnar hefur að sama skapi vaxið og þjónusta hennar við deildir, stúdenta, kennara og aðra sífellt verið að aukast. Upplýsingar úr nemendaskránni eru notaðar til þess að skipuleggja kennslu, próf, bókakaup og fl. og því skiptir þar öllu máli að færslur séu nákvæmar, öruggar og aðgengilegar. Tölvukerfi Nemendaskrárinnar hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga nokkrum sinnum á þessu tímabili þar sem hratt flýgur stund í heimi tölvubúnaðarins – og nú er enn í deiglunni slík endurskipulagning. Brynhildur hefur ávallt verið áhugasöm um slíkar breytingar og endurbætur sem oft hafa kallað á uppstokkun vinnuaðferða. Hún hefur ætíð lagt kapp á að gera Nemendaskrána eins öfluga og góða deild og frekast er kostur svo hún megi veita háskólasamfélaginu sem besta þjónustu. Brynhildur hefur alla tíð axlað ábyrgð sína af kostgæfni og sinnt erilsömu starfi af einskærri samviskusemi. Viðmót hennar er hlýtt og jákvætt og hún leitast ávallt við að greiða götu þeirra sem til hennar koma, stundum langt út yfir það sem starfsskyldan býður. Hún er þekkt um allt háskólasamfélagið – og út fyrir það – sem Bimma í Nemendaskránni, sem allir stúdentar þekkja af góðu einu. Því vill Háskóli Íslands veita Brynhildi viðurkenningu fyrir gæfuríkt starf í þágu skólans. Stefán Svavarsson dósent við viðskipta- og hagfræðideild. Stefán Svavarsson var skipaður lektor við Háskóla Íslands haustið 1982 og síðar dósent vorið 1989. Af núverandi starfsliði hefur Stefán kennt manna lengst við viðskipta- og hagfræðideild. Hann hefur kennt nær öllum starfandi endurskoðendum landsins og hefur verið burðarás í uppbyggingu náms í endurskoðun við Háskólann. Stefán nýtur mikillar virðingar hjá nemendum og langt út fyrir veggi Háskólans. Hann hefur ávallt séð til þess að kennt væri það nýjasta í fræðunum. Félög endurskoðenda og opinberir aðilar ráðfæra sig gjarnan við hann ef breytingar eða álitamál varðandi menntun endurskoðenda koma upp. Afburðaárangur Stefáns um áratuga skeið í kennslu staðfestist m.a. í sterkri stöðu endurskoðenda frá Háskóla Íslands við störf hérlendis og erlendis og við framhaldsnám erlendis. Meðal nýmæla Stefáns er að tengja tölvuhald og upplýsingakerfi við endurskoðun sem hann hefur útfært í kennslu. Þá má nefna að hann var fyrstur til að kenna alþjóðleg reikningsskil hérlendis. Stefán hefur lengi verið skorarformaður viðskiptaskorar í deildinni og er nú m.a. fulltrúi viðskipta- og hagfræðideildar, félagsvísindadeildar og lagadeildar í háskólaráði. Hann hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir opinbera aðila og er nú m.a. formaður Fjármálaeftirlitsins. Háskóli Íslands vill þakka Stefáni Svavarssyni fyrir lofsvert framlag hans til kennslu við skólann með þessari viðurkenningu. Viðar Guðmundsson prófessor við raunvísindadeild Viðar Guðmundsson lauk B.Sc. prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands, vorið 1978, M.Sc. prófi frá háskólanum í Alberta, Kanada árið 1980 og doktorsprófi í fræðilegri eðlisfræði (theoretical physics) frá sama skóla 1985. Að prófi loknu starfaði Viðar við Max-Planck stofnunina í Stuttgart til ársins 1988 þegar hann var ráðinn sem sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans. Viðar tók síðan við lektorsstöðu hér árið 1991, fékk framgang í dósentsstöðu ári síðar og prófessorsstöðu árið 1996. Hann er jafnframt forstöðumaður eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans. Rannsóknir Viðars eru í þéttefnisfræði, nánar tiltekið á eiginleikum miðsærra rafeindakerfa í hálfleiðurum, en hálfleiðarar eru m.a. notaðir í örgjörva og minniseiningar í tölvur og fjarskiptatæki. Innan þéttefnisfræðinnar er einnig fjallað um ofurleiðara, málma lofttegundir, vökva, ofurvökva, tauganet, einangrara, fjölliður, knattkol og kristalla. Þéttefnisfræðin fléttar saman tilraunir, líkanreikninga og tækni, sem m.a. varð til þess að hún óx hraðar en nokkur önnur grein eðlisfræðinnar á seinni hluta 20. aldarinnar. Raftækniiðnaðurinn, sem grundvallast að stórum hluta á þéttefnisfræðinni, stendur nú á bak við nokkur prósent af efnahagsveltu heimsins. Búist er við að þetta hlutfall aukist í 12-15% á næsta áratug. Það tekst þó aðeins ef nægt framboð verður á menntuðum einstaklingum, eðlisfræðingum, rafmagnsverkfræðingum, tölvunarfræðingum og öðru tæknimenntuðu fólki en Viðar hefur unnið ötullega að eflingu rannsóknanáms í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Viðar hefur einbeitt sér að rannsóknum á eiginleikum lotubundinna rafeindakerfa, s.s. ljósísogi, seglun og leiðni og vinnur hann aðallega með miðsæ rafeindakerfi en þeim er venjulega lýst með skammtafræði. Þessar rannsóknir krefjast m.a. umfangsmikilla líkanreikninga sem geta tekið vikur eða mánuði og unnir eru á miðlægum tölvum rannsóknahópa. Viðar var í forsvari fyrir uppsetningu á þyrpingu 16 Citum tölva fyrir þunga samhliða reikninga í eðlisfræði þéttefnis og eðlisefnafræði við Raunvísindastofnun Háskólans. Viðar hefur birt tugi vísindagreina á sínu fagsviði í samvinnu við öfluga tilraunahópa í Þýskalandi. Einn meðhöfunda Viðars, Klaus von Klitzings, fékk nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1985. Auk þessa hefur Viðar verið ötull við að kynna eðlisfræði hérlendis. Háskóli Íslands vill þakka Viðari Guðmundssyni fyrir lofsvert framlag hans til rannsókna við skólann með þessari viðurkenningu. 2001Gísli Pálsson prófessor við félagsvísindadeild og forstöðumaður Mannfræðistofnunar Gísli Pálsson lauk MA prófi í mannfræði frá University of Manchester árið 1974 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1982. Gísli var ráðinn lektor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1982, dósent frá árinu 1987 og síðan prófessor frá árinu 1992. Hann hefur verið forstöðumaður Mannfræðistofnunar Háskóla Íslands síðastliðin þrjú ár. Viðamesta framlag Gísla til rannsókna er á sviði mannfræði sjávarútvegs, en um það fjallaði doktorsritgerð hans. Honum hefur tekist vel upp við að nýta frumrannsóknir sínar um þekkingu íslenskra sjómanna til að fjalla á nýstárlegan og spennandi hátt um þennan mikilvæga þátt í íslensku þjóðlífi. Framlag Gísla til umræðunnar um félagsleg áhrif fiskveiðistjórnunarkerfisins hefur verið mikilvægt. Hann hefur birt fjölda ritverka á þessu sviði og tekið þátt í þeirri alþjóðlegu umræðu sem átt hefur sér stað um kvótakerfi í sjávarútvegi á undanförnum árum. Góð vísbending um þann árangur sem Gísli hefur náð á þessu sviði er að hann var beðinn um að setjast í nefnd á vegum löggjafarþings og vísindaráðs Bandaríkja Norður-Ameríku. Þó Gísli hafi einkum fengist við rannsóknir sem tengjast sjómönnum og sjávarútvegi á einn eða annan hátt hefur hann einnig fengist við önnur viðfangsefni. Hann hefur meðal annars fjallað um íslenskar fornbókmenntir og á síðustu árum hefur hann tekið til sérstakrar athugunar dagbækur Vilhjálms Stefánssonar. Í skrifum Gísla hefur komið fram mikill áhugi á að rannsaka og fjalla um mörk náttúru og samfélags og hann hefur tekið virkan þátt í þeirri kenningarlegu umfjöllun sem átt hefur sér stað alþjóðlega á þessu sviði. Þennan áhuga mátti sjá í umfjöllun hans um kvótakerfið og einnig í nýrri rannsóknum hans um „líkamlegan varning“. Þar er sjónum beint að siðferðilegum deilum um söfnun, varðveislu og sölu líffæra, lífsýna og erfðaupplýsinga. Gísli Pálsson á skilið að hljóta viðurkenningu vegna rannsókna sinna. Hann hefur verið einstaklega frjór og afkastamikill fræðimaður á sviði félagslegrar mannfræði, eins og glöggt má sjá af þeim fjölmörgu ritverkum sem birst hafa eftir hann. Hann hefur verið virkur í alþjóðlegu samstarfi, hefur ritstýrt mörgum bókum og birtir niðurstöður rannsókna sinna í viðurkenndustu tímaritunum innan mannfræðinnar. Ólöf Ásta Ólafsdóttir lektor Ólöf Ásta Ólafsdóttir lauk ljósmóðurprófi frá Ljósmæðraskóla Íslands árið 1978 og námi í hjúkrunarfræði við námsbraut í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands vorið 1985. Hún lauk meistaraprófi í hjúkrunarfræði frá School of Nursing Studies, University of Wales, College of Medicine vorið 1992. Ólöf Ásta kom til starfa við námsbraut í hjúkrunarfræði árið 1995 og var ráðin til að undirbúa ljósmæðranám og semja námsskrá fyrir námið. Hún var ráðin lektor í ljósmóðurfræði 1996. Áður hafði hún verið stundakennari í fæðingarhjúkrun árin 1985-1986. Ólöf Ásta hefur af miklu kappi og með góðum árangri náð að vinna menntun í ljósmóðurfræðum sess innan Háskólans. Hún hefur stjórnað uppbyggingu kennslunnar og tekist að innleiða mjög vel skipulagt og hnitmiðað akademískt klínískt nám í ljósmóðurfræðum. Fjöldi erlendra kennara hefur heimsótt hjúkrunarfræðideildina til að læra af þessu fordæmi. Ólöf Ásta hefur hlotið lof bæði meðal stúdenta sinna og samkennara fyrir störf sín að kennslu og kennslumálum fyrir ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands. Sérstaklega má nefna viðleitni hennar til að tengja landsbyggðina við starfsemi Háskólans í kennslu í ljósmóðurfræðum. Rannveig Traustadóttir dósent við félagsvísindadeild Rannveig Traustadóttir lauk B.A. prófi í félagsfræði (aðalgrein) og heimspeki (aukagrein) frá Háskóla Íslands árið 1985 og doktorsprófi frá Syracuse háskólanum í Bandaríkjunum árið 1993. Árin 1993 til 1995 gegndi hún rannsóknastöðu á vegum Vísindaráðs hjá Rannsóknastofnun Kennaraháskóla Íslands. Árið 1995 var hún ráðin lektor í uppeldisfræði við Háskóla Íslands og varð dósent árið 1997. Rannveig hefur fengið mjög góða viðurkenningu frá nemendum og hún hefur sýnt góða viðleitni til fjölbreytilegra kennsluhátta. Hún sameinar metnað í kennslu, gott samband við nemendur og frumkvæði í beitingu nýrra kennsluaðferða. Þar að auki hefur hún verið mjög öflug við uppbyggingu nýrra námsleiða í deildinni. Hún hefur haft forystu um uppbyggingu eigindlegrar aðferðafræði, sem hefur verið á dagskrá lengi í deildinni, en það er fyrst með Rannveigu að frumkvæði er tekið í uppbyggingu greinarinnar. Í þessu efni hefur hún átt gott samstarf við fólk í öðrum skorum félagsvísindadeildar og öðrum deildum. Hún var í fararbroddi í uppbyggingu M.A.-náms í uppeldis- og menntunarfræði og vann í því máli mikið og mjög gott verk. Hún hefur einnig verið ein af ötulustu forsvarskonum kennslu og rannsókna í kynjafræði og átti mikinn þátt í að móta þær línur sem þar hafa verið lagðar og koma því námi af stað. Sigurður Ingvarsson prófessor og forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum Sigurður lauk B.S. prófi í líffræði við Háskóla Íslands árið 1979, viðbótarnámi (BS120) árið 1980, og prófi í kennslufræði 1981, einnig frá Háskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám í sameinda- og krabbameinslíffræði við krabbameinslíffræðideild Karólínsku Rannsóknastofnunarinnar í Stokkhólmi árin 1984-1989 og lauk þaðan doktorsprófi (Dr.Med.Sc.) árið 1989. Hann vann síðan að rannsóknum við sameindalíffræðideild sömu stofnunar árin 1998-1991. Frá 1991 starfaði Sigurður sem sérfræðingur við frumulíffræðideild Rannsóknastofu Háskólans í Meinafræði á Landspítala. Hann varð dósent við læknadeild Háskóla Íslands árið 1998, en hafði áður verið stundakennari við líffræðiskor í nokkur ár. Í sumar var Sigurður ráðinn prófessor við læknadeild og forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í Meinafræði á Keldum. Sigurður er afburða vísindamaður með yfirgripsmikla þekkingu á grunnvísindum, frumu- og sameindalíffræði. Rannsóknir hans til doktorsprófs beindust að krabbameinsgenum og hvernig örvun þeirra leiðir til æxlismyndunar. Í framhaldi af þeim vann hann að kortlagningu erbA krabbameinsgenanna og staðsetningu þeirra á litningum. Frá því að hann kom til Íslands hefur hann unnið að rannsóknum á sameindalíffræði og erfðafræði krabbameina í mönnum, einkum brjóstakrabbameins og ristilkrabbameins. Hann hefur lagt áherslu á kortlagningu krabbameinsgena og krabbameinsbæligena, óstöðugleika erfðaefnis og tap á arfblendni í æxlum, en einnig samspil erfðaþátta við krabbameinsvöxt og genatjáningu, svo og við áhættuþætti og horfur. Sigurður hefur leiðbeint nemendum í rannsóknanámi til meistara- og doktorsprófs. Hann hefur verið mjög afkastamikill í rannsóknum sínum og birt um 70 greinar í ritrýndum erlendum tímaritum. Sigurður hefur flutt fjölmarga fyrirlestra á ráðstefnum utanlands og innan. Enn fremur hefur hann hlotið fjölda rannsóknastyrkja. Sigurður P. Gíslason deildarstjóri á fjárreiðusviði Háskóla Íslands. Sigurður réðist til starfa við Háskóla Íslands árið 1982. Honum hefur verið falin umsjón með sjóðum Háskólans, þar á meðal Háskólasjóði, Háskólasjóði Hf. Eimskipa, Almanakssjóði, auk fjölmargra annarra. Honum var einnig falið að sjá um fjárreiður Sáttmálasjóðs og afgreiðslu styrkja úr honum. Sigurður tók við sjóðunum árið 1982 þegar heildarverðmæti þeirra nam um 50 milljónum króna að nafnvirði (eða tæplega 500 milljónum kr. á núvirði, reiknað með lánskjaravísitölu). Með virku eftirliti hefur Sigurður tryggt að þau gjöld, sem sjóðunum ber, hafa skilað sér. Þannig hafa Háskólasjóður og Almanakssjóður vaxið drjúgt í hans höndum og almenn ávöxtun allra sjóða verið með því besta sem skilyrði á markaði hafa leyft hverju sinni. Jafnframt hefur það orð sem fer af stjórnun sjóða Háskólans vakið tiltrú annarra sem hafa viljað styrkja Háskólann með gjöfum. Sigurður hefur sýnt frumkvæði í nýjum tekjuöflunarleiðum. Nú er heildarverðmæti sjóðanna nær einn milljarður króna þrátt fyrir að um 5% af andvirði þeirra hafi verið úthlutað á ári hverju. Sigurður hefur unnið störf sín í kyrrþey af einstakri kostgæfni. Háskólinn vill þakka honum framúrskarandi stjórnunarstörf með þessari viðurkenningu. Valdimar Örnólfsson fimleikastjóri Háskóla Íslands. Valdimar Örnólfsson hefur verið fimleikastjóri Háskóla Íslands síðan 1967. Í því starfi hefur hann stóreflt íþróttaiðkun og líkamsrækt af ýmsu tagi meðal stúdenta og starfsmanna skólans, bæði í keppni og leik. Sjálfur var hann m.a. Íslandsmeistari stúdenta í nokkrum greinum íþrótta og Frakklandsmeistari stúdenta á skíðum. Þeir eru ófáir, jafnt innan Háskólans sem utan, sem hann hefur kennt á skíðum. Framlag hans til félagslífs í skólanum er vel þekkt. Því vill Háskólinn verðlauna Valdimar Örnólfsson fyrir framlag hans til íþróttamála og félagslífs í skólanum í áratugi. 2000Guðmundur Þorgeirsson prófessor við læknadeild Guðmundur lauk cand med et chir prófi við læknadeild Háskóla Íslands árið 1973. Hann stundaði framhaldsnám við Case Western Reserve University, Graduate School, í Ohio á árunum 1975-1978 og lauk þaðan doktorsprófi (Ph.D.) 1978. Guðmundur lauk bandarísku sérfræðiprófi í lyflækningum 1980 og í hjartasjúkdómum 1993. Guðmundur varð prófessor í klínískri lyfjafræði við læknadeild árið 1998, en hann hafði áður gegnt starfi lektors frá 1987-1990 og dósents 1990-1998, einnig við læknadeild. Hann hefur jafnframt starfað sem sérfræðingur í lyflækningum og hjartasjúkdómum við lyflækningadeild Landspítalans frá 1982 og einnig sem yfirlæknir bráðamóttökudeildar og göngudeildar Landspítalans frá 1988. Guðmundur er mjög virkur vísindamaður og vinnur jafnt að klínískum rannsóknum á hjarta- og æðasjúkdómum og grunnrannsóknum á starfsemi æðaþelsfrumna. Guðmundur hefur leiðbeint fjölda nemenda í rannsóknanámi. Hann hefur byggt upp öflugt rannsóknasamstarf við sérfræðinga innan lands og utan, m.a. hjá Hjartavernd, en hann hefur verið formaður Rannsóknastjórnar Hjartaverndar frá 1988. Guðmundur hefur gegn mikilvægum trúnaðarstörfum í þágu íslensks vísindasamfélags. Rannsóknir Guðmundar spanna vítt svið. Þær beinast að faraldsfræði kransæðasjúkdóma, áhættuþáttum eins og reykingum, blóðfitu og járnbúskap, sjúkdómsgreiningum og forspárgildi áhættuþátta og afdrifum sjúklinga með kransæðasjúkdóma. Þá hefur Guðmundur unnið að viðamiklum rannsóknum á blóðfitulækkandi lyfjum og meðferð við kransæðasjúkdómum og æðakölkun. Guðmundur hefur einnig unnið að grunnrannsóknum á starfsemi æðaþelsfrumna, einkum þeim boðkerfum sem virkjast innan frumnanna við örvun, hvernig þær bregðast við áreiti til losunar boðefna sem hafa víðtæk áhrif á æðakerfið, svo og áhrifum lyfja á þessi ferli. Truflun á starfsemi æðaþelsins tengist fjölmörgum sjúkdómum, s.s. æðakölkun, æðastíflum og háþrýstingi, og beinast rannsóknir Guðmundar að því að auka skilning á starfrænum og sjúklegum breytingum æðaþelsins og áhrifum lyfja á þær. Guðmundur hefur verið mjög afkastamikill í rannsóknum sínum og birti á sl. 5 árum 18 ritrýndar greinar í erlendum tímaritum og 7 ritrýndar greinar á innlendum vettvangi, auk fjölmargra útdrátta. Guðmundur er afburða vísindamaður með yfirgripsmikla þekkingu á grunnvísindum og mikilsvirtur sérfræðingur í lyflækninum og hjartasjúkdómum. Rannsóknir hans hafa ótvírætt fræðilegt og hagnýtt gildi. Þær auka skilning á innanfrumuboðkerfum, starfsemi æðaþels, og meingerð hjarta- og æðasjúkdóma. Þær bæta meðferð, efla forvarnir og stuðla að bættri heilsu. Hjálmtýr Hafsteinsson dósent við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands. Hjálmtýr útskrifaðist vorið 1984 frá Háskóla Íslands með BS-gráðu í tölvunarfræði og hlaut doktorsgráðu í tölvunarfræði frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum haustið 1988. Hann var sérfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands þar til hann var ráðinn í stöðu lektors við tölvunarfræðiskor raunvísindadeildar í byrjun árs 1990. Árið 1994 hlaut hann síðan framgang í dósentsstöðu. Helstu rannsóknasvið Hjálmtýs tengjast samhliða algóriþmum og rýrum fylkjum. Hann hefur unnið að því að finna betri aðferðir til að leysa rýr jöfnuhneppi á samhliða tölvum. Einnig hefur hann áhuga á algóriþmum fyrir strengi, gröf og dulmálskóðun. Hjálmtýr hefur kennt ýmis undirstöðunámskeið í tölvunarfræðiskor auk dæmatímakennslu í stærðfræðiskor. Helsta kennsluefni sem hann hefur fjallað um er tölvuarkitektúr, stærðfræðimynstur, gagnaskipan, algóriþmar, formleg mál, reiknanleiki og tölvugrafík. Hjálmtýr nýtir hefðbundnar kennsluaðferðir (töflu og krít) og nýjustu kennslutækni (upplýsingamiðlun á heimasíðum og spjallrás) jöfnum höndum. Hann vandar mjög til kennslunnar og hefur fullt vald á því sem hann kennir hvort sem um ræðir hefðbundna tölvunarfræði eða nýjustu tækni. Hann er einkar laginn við að vekja áhuga nemenda á því sem hann kennir. Undanfarin ár hefur hann til dæmis gengist fyrir keppni meðal nemenda. Hún felst í því að skrifa hraðvirkasta 8086-forritið sem leysir tiltekið verkefni. Hjálmtýr hefur náð frábærum árangri við tölvunarfræðiskor. Margrét S. Björnsdóttir framkvæmdastjóri samskipta- og þróunarsviðs Háskóla Íslands Margrét hóf störf sem endurmenntunarstjóri Háskóla Íslands árið 1983 en tók á síðasta ári við starfi framkvæmdastjóra samskipta- og þróunarsviðs. Starf Margrétar sem endurmenntunarstjóra fór í fyrstu fram á vegum Endurmenntunarnefndar Háskóla Íslands. Auk Háskólans stóðu að nefndinni Tækniskóli Íslands og nokkur sérfélög háskólamanna. Fyrstu árin beindist starfsemin að stökum námskeiðum um fagleg málefni en með árunum jókst framboð kennslu og varð fjölbreyttara. Árið 1991 var starfsemi á vegum nefndarinnar gerð að Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands með sömu samstarfsaðilum og áður. Auk starfstengdra námskeiða um rekstur og stjórnun, tölvunotkun, framsetningu á rituðu og mæltu máli, tölfræði, og heilbrigðis- og félagsmál, býður stofnunin öllum almenningi kvöldnámskeið um bókmenntir og listir, heimspeki, sagnfræði, kvikmyndir og tungumál. Merkt nýmæli á síðustu árum er nám samhliða starfi sem tekur tvö til fjögur misseri. Þar er m.a. boðin kennsla í rekstrar- og viðskiptafræðum, markaðs- og útflutningsfræðum, stjórnun og rekstri heilbrigðisþjónustu, og opinberri stjórnsýslu og stjórnun. Nemendur sem sækja námskeið Endurmenntunarstofnunar eru nú orðnir fleiri en allir nemendur Háskólans. Aðstaða til starfsemi stofnunarinnar hefur nýlega verið stórlega bætt með viðbyggingu við Tæknigarð þar sem stór hluti kostnaðar var greiddur með sjálfsaflafé Endurmenntunarstofnunar. Árangur Endurmenntunarstofnunar byggist á farsælu samstarfi margra aðila en á engan er hallað þótt fram sé tekið að þar hefur Margrét gegnt lykilhlutverki með einstöku frumkvæði, áræði, hagsýni og dugnaði. 1999Brynjólfur Sigurðsson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Brynjólfur Sigurðsson hóf störf við Háskóla Íslands sem stundakennari við viðskipta- og hagfræðideild háskólaárið 1969-1970. Hann varð lektor árið 1970, dósent 1975 og prófessor árið 1984. Árin 1978-1981 gegndi hann embætti hagsýslustjóra ríkisins í leyfi frá Háskóla Íslands. Brynjólfur var fulltrúi háskólaráðs í stjórn Félagsstofnunar stúdenta 1971-1975 og framkvæmdastjóri bygginganefndar Hjónagarða 1971-1978. Þá var hann varaformaður Starfsnefndar háskólaráðs um nýbyggingar á háskólalóð frá 1978 og hefur verið formaður hennar frá 1991 til þessa dags. Brynjólfur hefur, ásamt Ragnari Ingimarssyni, verið einn helsti ráðgjafi rektors og háskólaráðs um byggingaráætlanir og nýbyggingar, viðhald og breytingar á húsnæði svo og kaup og sölu fasteigna. Meðal þeirra verkefna sem Brynjólfur hefur sinnt má nefna byggingu Hjónagarða, Odda, húsa verkfræði- og raunvísindadeilda, Tæknigarðs, lúkningu Læknagarðs og byggingu Náttúrufræðahúss, sem nú stendur yfir. Brynjólfur hefur ennfremur haft umsjón með umfangsmiklum og vandasömum viðgerðum á Árnagarði og Aðalbyggingu, kaup og endurbyggingu Haga, Neshaga 16 og Nýja Garðs, viðgerð og sölu Austurstrætis 16, sem hýsti Reykjavíkurapótek Háskólans, sölu á Loftskeytastöð fyrir tæknisafn Landsímans og Jarðfræðahúsi til þarfa Þjóðminjasafns. Árlegt framkvæmdafé Háskólans nemur um 300 milljónum króna. Af því sést hve mikla fjárhagslega ábyrgð Brynjólfur hefur borið í þau rúmu 20 ár sem hann hefur gegnt þessum stjórnunarstörfum fyrir Háskólann. Þar hefur hann sýnt framsýni, staðfestu og þrautseigju ásamt færni í samningum sem hefur fært Háskólanum mikinn ávinning. Brynjólfur Sigurðsson hlýtur hér með viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til byggingamála Háskólans. Kesara Anamthawat-Jónsson dósent við raunvísindadeild Kesara Anamthawat-Jónsson hefur verið dósent við líffræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands frá árinu 1996. Hún lauk BS-námi frá Chulalongkornháskóla í Thaílandi árið 1973 og stundaði síðan framhaldsnám við Kansasháskóla í Bandaríkjunum. Hún lauk meistaraprófi frá Kansasháskóla árið 1979 og stundaði síðan nám við Cambridgeháskóla í Bretlandi og lauk þaðan doktorsprófi árið 1992. Til Háskóla Íslands kom Kesara frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, þar sem hún starfaði sem sérfræðingur á árunum 1982-1988 og 1992-1996. Við líffræðiskor hefur hún byggt upp rannsóknaaðstöðu og sett saman rannsóknahóp ungra vísindamanna á sviði plöntuerfðafræði. Jafnframt hefur hún notað þá tækni sem sameindaerfðafræðin býr yfir við rannsóknir á erfðafræði krabbameina. Af þessu má sjá að Kesara Anamthawat-Jónsson hefur unnið á breiðu fræðasviði, sem nær frá genarannsóknum krabbameinsfrumna til tegundablöndunar birkis. Vísindalegt gildi verkefna hennar er ótvírætt. Þau taka m.a. til tegundablöndunar plöntutegunda með mismunandi fjölda litninga, en fá dæmi um slíkt eru til. Þróun nýrrar korntegundar, melhveitis, með tegundablöndun hveitis og melgresis er dæmi um verkefni sem jafnframt hefur mikið hagnýtt gildi fyrir íslenskan landbúnað. Frammistaða Kesöru við birtingu niðurstaðna er einnig með því besta sem þekkist innan raunvísindadeildar, eða 19 ritrýndar vísindagreinar á árunum 1995-1998, auk tveggja bókarkafla, tveggja ráðstefnugreina og fjögurra greina í íslenskum fræðiritum. Kesara Anamthawat-Jónsson hlýtur hér með viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til rannsókna við Háskólann. Páll Hreinsson dósent við lagadeild Páll Hreinsson hefur verið dósent við lagadeild frá 1. september 1997. Hann var stundakennari á árunum 1988-1990 og 1991-1996 og aðjúnkt árið 1996 til 1. september 1997 er hann tók við starfi dósents. Hann hefur einnig kennt á fjölmörgum námskeiðum á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskólans og á vegum forsætisráðuneytisins. Auk þess er hann eftirsóttur fyrirlesari um lögfræðileg málefni. Kennslugreinar Páls eru stjórnsýsluréttur, sem er stór kjarnagrein við lagadeild, og auk þess kröfuréttur og sveitarstjórnarréttur. Hann er mjög virkur og virtur fræðimaður á þessum fræðasviðum. Sem kennari í lagadeild hefur Páll Hreinsson fengið afbragðsgóðan vitnisburð frá stúdentum fyrir kennslu, kennsluefni, framsetningu, undirbúning, nýjungar í kennsluháttum og viðmót. Í stað hefðbundinna fyrirlestra hefur hann lagt mikla áherslu á verkefnavinnu stúdenta og sjálfstæði í vinnubrögðum. Svo dæmi sé tekið, hefur hann iðulega lagt fyrir nemendur sína raunhæf verkefni í stjórnsýslurétti og látið þá taka þátt í fyrirlestrum og kennslu í þjálfunarskyni. Þessi nýbreytni Páls í kennslu hefur mælst mjög vel fyrir á meðal stúdenta og þjálfað þá í sjálfstæðum vinnubrögðum. Við upphaf námskeiðs leggur hann fram mjög ítarlegar kennsluáætlanir og lista yfir námsefni, svo stúdentar þurfa ekki að velkjast í vafa um til hvers er ætlast af þeim og hvert ferðinni er heitið á námskeiðinu. Páll Hreinsson hlýtur hér með viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til kennslu við Háskólann. Tengt efni facebooklinkedintwitter