Get ég sótt um þótt fresturinn sé liðinn? Já, það má sækja um starfsþjálfun allan ársins hring, en þeir sem sækja um fyrir 1. apríl fyrir komandi skólaár njóta forgangs um úthlutun styrkja. Meðan fjármagn er til staðar er úthlutað til allra sem sækja um að því gefnu að öll skilyrði starfsþjálfunar séu uppfyllt og öllum tilskildum gögnum sé skilað inn. Nemendur sem eru að brautskrást verða að sækja um styrkinn eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir brautskráningu. Ekki er tekið á móti umsóknum um styrkinn eftir útskrift ef sótt er um eftir þann frest. Hvenær fæ ég svar við umsókn minni? Umsóknum sem berast fyrir 1. apríl verður svarað um mánaðamótin maí - júní. Umsóknir sem berast eftir frestinn verður svarað eins fljótt og auðið er. Hvenær er styrkurinn er greiddur út? Fyrri úthlutun styrksins (70%) fer fram um tveimur vikum fyrir brottför að því gefnu að eftirfarandi gögnum sé skilað til Alþjóðasviðs: Undirritaður styrksamningur. Undirrituð yfirlýsing nemanda sem fylgir svarbréfi við umsókn . Nemandi hafi lokið OLS tungumálaprófi ef við á. Seinni úthlutun styrksins (30%) fer fram eftir heimkomu þegar nemandi hefur skilað inn eftirfarandi gögnum: Útfylltu og undirrituðu skjali „After the Mobility“ (aftast í námssamningi). Lokaskýrslu Erasmus+ sem er send sjálfkrafa á netfang nemanda við lok starfsþjálfunarinnar. Nokkrir dagar geta liðið frá afgreiðslu styrks þar til greiðsla berst inn á reikning nemenda og eru nemendur beðnir um að sýna biðlund. Athugið að tafir geta einnig orðið á greiðslu styrkja vegna sumar- og jólaleyfa. Leitast er við að greiða fyrri úthlutun ekki seinna en við brottför. Hvert get ég farið í starfsþjálfun? Hægt er að sækja um styrk fyrir starfsþjálfun í einu af þátttökulöndum Erasmus+. Flest ríki EES/ESB og yfirráðasvæði þeirra eru jafnframt þátttakendur í Erasmus+. Ekki eru styrktar námsdvalir innanlands eða í ríkjum utan ESB/EES. Ég hef ekki fengið Erasmus+ lokaskýrsluna – af hverju? Skýrsluformið er sent sjálfkrafa á lokadegi starfsþjálfunarinnar skv. styrksamningnum þínum. Ekki er hægt að fá lokaskýrsluna senda fyrr þótt óskað sé eftir því. Hafi skýrslan ekki verið send þótt liðinn sé sólarhringur frá lokadegi starfsþjálfunar skal hafa samband við Alþjóðasvið. Hverjir geta sótt um Erasmus+ starfsþjálfunarstyrk? Allir skráðir nemendur við Háskóla Íslands geta sótt um Erasmus+ styrk fyrir starfsþjálfun. Nemendur í diplómanámi geta sótt um starfsþjálfunarstyrk ef námsleið er a.m.k. 60 ECTS. Starfsþjálfunardvöl erlendis er þó alltaf háð samþykki deildar. facebooklinkedintwitter