Skip to main content

Opinn aðgangur

Háskóli Íslands hefur sett sér stefnu um opinn aðgang að vísindum. Starfsmenn eru hvattir til að birta fræðigreinar sínar á vettvangi þar sem aðgangur er opinn, svo sem í tímaritum, í varðveislusöfnum eða á annan aðgengilegan hátt. Hún nær til birtinga í ritrýndum tímaritum en tekur ekki til bóka eða bókarkafla.

Stefnan var samþykkt í háskólaráði 6. febrúar 2014 og tók gildi 1. september 2015. Stefnan nær til birtinga eftir gildistöku hennar, en undanskildar eru greinar sem vinna var hafin við fyrir þann tíma og um gilda skilmálar sem ekki falla að stefnunni.

Undanþága frá birtingu í opnum aðgangi eða töf á birtingu er heimil að uppfylltum skilyrðum sem tilgreind eru í verklagsreglum stefnunnar.  Óskir um undanþágur skulu sendar til Vísinda- og nýsköpunarsviðs á sérstöku eyðublaði.

Stefnan er í samræmi við lög um stuðning við opinberar rannsóknir og tekur mið af alheimshreyfingu í þá átt að niðurstöður rannsókna sem kostaðar eru að hluta eða í heild af almannafé skuli vera opnar og öllum aðgengilegar í rafrænu formi án endurgjalds.

Meðal kosta opins aðgangs er að hann stuðlar að auknu samstarfi vísindamanna og greiðir fyrir þverfaglegri samvinnu. Hann dregur úr tvíverknaði og eykur skilvirkni og stuðlar þannig að ábyrgari nýtingu opinberra fjármuna. Opinn aðgangur eykur sýnileika vísinda í samfélaginu og stuðlar að aukinni útbreiðslu þess vísindastarfs sem unnið er af starfsfólki háskólans.

Með stefnunni um opinn aðgang skipar Háskóli Íslands sér í röð vaxandi fjölda háskóla og rannsóknastofnana um allan heim. Á vefsíðunni ROARMAP eru tilgreindir hátt í 800 aðilar sem hafa sett sér stefnu um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum:

Í september 2016 voru skráðar þar upplýsingar um 80 rannsóknasjóði, 567 háskóla og rannsóknastofnanir, auk 71 háskóladeildar eða -sviðs.  Háskóli Íslands undirritaði  Berlínaryfirlýsinguna um opinn aðgang 1. júlí 2016 og staðfesti þar með vilja skólans til að vinna að framgangi opinna vísinda.

Stefna Háskóla Íslands er í samræmi við lög um stuðning við opinberar rannsóknir. Hún tekur mið af alheimshreyfingu í þá átt að niðurstöður rannsókna sem kostaðar eru að hluta eða í heild af almannafé skuli vera opnar og öllum aðgengilegar í rafrænu formi án endurgjalds.

""
Tengt efni