Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, í þeirri mynd sem hún er í dag, var stofnuð árið 2000 en hafði fram að því verið námsbraut í hjúkrunarfræði og var í tengslum við Læknadeild.
Nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands hófst árið 1973 en fram til ársins 1986 var einnig nám í hjúkrun við Hjúkrunarskóla Íslands. Frá árinu 1986 hefur nám í hjúkrunarfræði á Íslandi einvörðungu verið kennt á háskólastigi. Menntun ljósmæðra færðist frá Ljósmæðraskóla Íslands til námsbrautar í hjúkrunarfræði árið 1996.
Með því að færa hjúkrunar- og ljósmæðramenntun á háskólastig varð veruleg breyting á námi þessara starfsstétta hér á landi og hefur Hjúkrunarfræðideild (námsbraut í hjúkrunarfræði) jafnan verið í fremstu röð hvað varðar grunnmenntun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Vesturlöndum.
Líkt og með aðrar deildir innan háskólans tekur Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild mið af vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands. Við deildina starfar á fjórða tug fastráðinna kennara auk fjölda stundakennara.
Hjúkrunar- og ljósmóðurfræði eru starfsmiðaðar fræðigreinar og nemendur sem brautskrást þurfa að hafa til að bera þekkingu og færni sem er nauðsynleg til að geta veitt faglega og örugga hjúkrunar- og ljósmóðurþjónustu sem miðar að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði.
Eirberg – Hús Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar á Landspítalalóð, áður Hjúkrunarskóla Íslands, var afhent Háskóla Íslands með bréfi mennta- og menningarmálaráðherra 19. júní 1986. Kosið var um nafn á byggingunni meðal nemenda og starfsfólks, alls 60 manns. Tillaga Ingibjargar R. Magnúsdóttur, þáverandi formanns námsbrautarstjórnar í hjúkrunarfræði – Eirberg – hlaut flest atkvæði.
Eir – hefur skírskotun í norræna goðafræði, til gyðju miskunnar og lækninga.
Berg - vísar til jarðefnis – klappar, bjargs - og í yfirfærðri merkingu þess að standa föstum fótum; að hafa áreiðanlegan grunn að byggja á.