Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir Háskólatónleikum í Háskóla Íslands. Um mánaðarlega viðburði er að ræða, á haust- og vormisseri, og fara þeir fram í byggingum háskólans. Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt í félagsfræði, tók við sem umsjónarmaður og listrænn stjórnandi tónleikanna haustið 2020 og styðst hann við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ . Búast má við alls kyns tónlist á tónleikaröðinni, svo sem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni. Einnig verður sérstök áhersla á að styðja við unga og efnilega listamenn og frumflutningi nýrra verka verður og gert hátt undir höfði. Upptökur af öllum tónleikum Tónleikar skólaárið 2023-2024 Heiða Árnadóttir og Gunnar Gunnarsson - 20. mars í Eddu Heiða Árnadóttir og Gunnar Gunnarsson fluttu efni af plötu sinni Tunglið og ég sem inniheldur tónlist eftir hinn mikilvirka Frakka Michel Legrand við íslenska texta. Upptaka af tónleikunum Rebekka Blöndal og Ragnheiður Gröndal - 13. desember í Stakkahlíð Söngkonurnar Rebekka Blöndal og Ragnheiður Gröndal fluttu jólatónlist Ellu Fitzgerald á jólaháskólatónleikum í Stakkahlíð, húsnæði Menntavísindasviðs HÍ miðvikudaginn 13. desember 2023. Með tónleikunum var húsnæðið kvatt en sviðið er að færa sig yfir á Sögu á nýju ári. Með þeim Rebekku og Ragnheiði léku Guðmundur Pétursson gítarleikari og Þorgrímur Jónsson bassaleikari. Upptaka af tónleikunum Kliður - 25. október í Hátíðasal Kórinn Kliður tróð upp á fyrstu háskólatónleikum vetrarins 25. október í Hátíðasal. Þar flutti hann frumsömd kórverk og tónlist úr smiðju sinni. Kliður er óvenjulegur kór, skipaður listamönnum úr ýmsum áttum sem um nokkurra ára skeið hafa hist vikulega til að syngja saman. Upptaka af tónleikunum Tónleikar skólaárið 2022-2023 Mugison - 24. mars í Hátíðasal Mugison tróð upp á Háskólatónleikum í Aðalbyggingu HÍ föstudaginn 24. mars. Þennan ástsæla tónlistarmann þarf vart að kynna en það verður engu að síður gert. Allt frá því að hann steig fram árið 2002 með plötunni Lonely Mountain - fyrir rúmum tuttugu árum - hefur Mugison átt hug og hjörtu þjóðar. Upptaka af tónleikunum Una Torfa - 15. febrúar í Stakkahlíð Tónlistarkonan Una Torfa tróð upp í Fjöru í Stakkahlíð ásamt Hafsteini Þráinssyni á fyrstu háskólatónleikum ársins 2023 en þeir fóru fram 15. febrúar. Una var óskoruð spútniklistakona síðasta árs, heillaði heila þjóð með sérdeilis frábærri frumraun sinni, Flækt og týnd og einmana. Þar steig hún fram með nokkuð afgerandi hætti; heildartónninn hreinn og heiðarlegur, lögin björt, fögur og hrein en líka gáskafull og grallarakennd. Upptaka af tónleikunum Ösp og Örn Eldjárn - 14. desember í kapellu HÍ Tónlistarmennirnir og systkinin Ösp og Örn Eldjárn spiluðu á jólaháskólatónleikum í kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands miðvikudaginn 14. desember 2022. Upptaka af tónleikunum KUSK - 12. október 2022 á Háskólatorgi Raftónlistarkonan KUSK, eða Kolbrún Óskarsdóttir, tróð upp á Háskólatorgi miðvikudaginn 12. október. KUSK sigraði í Músíktilraunum með miklum glæsibrag vorið 2022, einungis nítján ára gömul, og þetta var í fyrsta skipti í 40 ára sögu Tilraunanna sem einstaklingur gerir það. Upptaka af tónleikunum Tónleikar skólaárið 2021-2022 Sólstafir - 25. mars 2022 í Hátíðasal Rokksveitin Sólstafir tróð upp fyrir fullum Hátíðasal Aðalbygging Háskóla Íslands föstudaginn 25. mars 2022. Sveitin á rætur í hinu svokallaða svartþungarokki en snemma var sveigt inn á ókunnar lendur og þróun tónmálsins hefur verið ævintýraleg allar götur síðan. Í dag er sveitin dýrkuð og dáð á alþjóðavettvangi, hefur farið í tónleikaferðalög um allan heim, leikið með virtustu öfgarokkssveitum samtímans og er óefað með farsælustu rokksveitum Íslandssögunnar, sé litið til þyngri afbrigða þess geira. Upptaka af tónleikunum Ásta - 16. febrúar 2022 í Fjöru í Stakkahlíð Tónlistarkonan Ásta flutti tónlist sína á fyrstu háskólatónleikum ársins 2022 miðvikudaginn 16. febrúar í Fjöru, sal í húsakynnum Menntavísindasviðs HÍ í Stakkahlíð. Ásta sló í gegn eftir að hafa komið fram á Músíktilraunum árið 2019 en heyra mátti saumnál detta er hún flutti einlægar lagasmíðar sínar með hjartað opið upp á gátt. Upptaka af tónleikunum Marína Ósk og Stína Ágústs og hljómsveit - 10. desember á Litla Torgi Söngkonurnar Marína Ósk og Stína Ágústs tróðu upp á jólaháskólatónleikum föstudaginn 10. desember 2021 á Litla Torgi Háskólatorgs. Efnisskráin var að hluta til byggð á plötu sem þær vinkonurnar gáfu út árið 2019, Hjörtun okkar jóla. Útsetningar voru í höndum Mikaels Mána sem leikur á gítar en einnig var Andri Ólafsson bassaleikari með í för. Upptaka af tónleikunum Ólafur Kram - 13. október á Háskólatorgi Sigursveit Músíktilrauna í ár, Ólafur Kram, treður upp fyrir gesti og gangandi á Háskólatorgi á fyrstu Háskólatónleikunum þetta starfsárið. Þeir fara fram miðvikudaginn 13. október kl. 12.15. Tónleikunum verður jafnframt streymt. Sveitin, sem er skipuð þeim Iðunni Gígju Kristjánsdóttur, Guðnýju Margréti Eyjólfs, Birgittu Björg Guðmarsdóttur, Eydísi Kvaran og Sævari Andra Sigurðarsyni leikur einslags kammerpönk með vísunum í gamla tíma (Spilverkið, Slits) sem nýja (Chastity Belt t.d.). Það er ómögulegt að hrífast ekki af orkunni, einlægninni og ástríðunni sem fylgir þessari sveit. Lögin eru frumleg, leitandi og hugvitssamlega samsett og textarnir glúrnir, innihaldsríkir og bráðfyndnir. Á sviði er sveitin samhent, allir syngja og gáskinn, gleðin og þetta óbilandi hugrekki - svo það sé bara sagt - er svo gott sem yfirþyrmandi. Upptaka af tónleikunum Tónleikar skólaársins 2020-2021 Mikael Máni - 21. október í Hátíðasal Háskóla Íslands Djassgítarleikarinn Mikael Máni og hljómsveit hans stíga á stokk og flytja lög af plötu hans sem kom út fyrr á þessu ári. Mikið lof hefur verið borið á leik þessa efnilega tónlistarmanns undanfarin misseri, hér heima og erlendis. Upptaka af tónleikunum Dymbrá - 11. nóvember í Hátíðasal Háskóla Íslands Ungsveitin Dymbrá stígur á stokk og flytur tónlist sína í Hátíðasal Aðalbyggingar. Sveitin vakti verðskuldaða athygli á Músíktilraunum 2018 en hana skipa þær Nína Solveig Andersen, Eir Ólafsdóttir og Eyrún Úa Þorbjörnsdóttir. Eir leikur á selló, Nína á fiðlu og Eyrún á flautu en mörg önnur hljóðfæri eru brúkuð. Meðlimir eru nú, tveimur árum síðar, ekki nema átján ára en hafa þegar gefið út burðuga plötu sem inniheldur dökkleita og draumkennda kammertónlist. Falleg, þjóðlagabundin ára leikur um hana og lög eru brotin upp óhikað með rafstemmum og öðru slíku skrauti, tilraunamennska í hávegum höfð á sama tíma og byggingu og melódíum er haldið. Stemningin er hreint út sagt ævintýraleg á köflum. Upptaka af tónleikunum Umbra - 16. desember í kapellu Aðalbyggingar Hin vel þokkaða sveit Umbra flytur jólatónlist með sínu annálaða nefi í hinni fögru Háskólakapellu í Aðalbyggingu. Sveitin var stofnuð árið 2014 af þeim Alexöndru Kjeld (kontrabassi og söngur), Arngerði Maríu Árndóttur (harpa, orgel og söngur), Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur (fiðla og söngur) og Lilju Dögg Gunnarsdóttur (söngur, ásláttarhljóðfæri og flautur), sem allar hafa brennandi áhuga á fornri tónlist. Ólíkar víddir þessarar tónlistar eru kannaðar í eigin útsetningum hópsins og í spuna og hefur hópurinn skapað sinn eigin hljóðheim sem kalla mætti tímalausan. Upptaka af tónleikunum Kælan Mikla - 28. janúar í Hátíðasal Háskóla Íslands Hljómsveitin Kælan Mikla treður upp á fyrstu Háskólatónleikum nýs árs í Hátíðasal Aðalbyggingar. Sveitin er skipuð þeim Sólveigu Matthildi, Margréti Rósu og Laufey Soffíu og hefur henni vaxið fiskur um hrygg allt frá stofnun 2013 og eljusemi meðlima hefur verið með ólíkindum. Það sem byrjaði sem uppákoma á ljóðaslammkvöldi er í dag mikilsvirt hljómsveit á alþjóðavísu sem fer reglulega í tónleikaferðalög erlendis og á aðdáendur um heim allan. Svo hávært hefur suðið verið í kringum Kæluna að Robert Smith úr The Cure handvaldi sveitina til að hita upp fyrir sig á tónleikum í Hyde Park árið 2018. Kælan Mikla spilar einslags gotneskt drungapopp og hefur ekki síst vakið athygli fyrir sjónræna, ástríðufulla tónleika. Unnendur Háskólatónleikana fá því hér einstakt tækifæri á að bergja á þessum snilldarbrunni. Upptaka af tónleikunum Sóley - 24. febrúar á Háskólatorgi Tónlistarkona Sóley kemur fram ásamt fullskipaðri sveit á Háskólatónleikum sem sendir verða út í beinni útsendingu frá Háskólatorgi miðvikudaginn 24. febrúar kl. 12.15. Þessi listakona steig fullmótuð fram árið 2010 með stuttskífunni Theater Island og náði fljótlega fótfestu á erlendri grundu sökum einstakrar, listrænnar sýnar. Plötur hennar hafa komið út á alþjóðamarkaði, hún hefur haldið tónleika víða um heim og á sér harðsnúinn hóp aðdáenda víða um lönd. Upptaka af tónleikunum Krummi - 24. mars í Stúdentakjallaranum Tónlistarmaðurinn Krummi Björgvinsson treður upp ásamt meðspilurum á Háskólatónleikum í Stúdentakjallaranum 24. mars kl. 14. Þetta verður í fyrsta sinn sem áhorfendur verða leyfðir á tónleikum í vetur en þeim verður líka streymt. Hann hefur verið starfandi sem tónlistarmaður í tvo áratugi og var hann t.d. í forvígi rokksveitarinnar Mínus upp úr aldamótum. Krummi er bæði fjölsnærður og leitandi og til marks um það hefur hann sinnt margvíslegum og ansi ólíkum tónlistarverkefnum, t.a.m. kuldarokkssnilldinni LEGEND. Sem sólólistamaður hefur hann hins vegar leitað í brunn kántrís, þjóðlagatónlistar og blús og er fyrsta breiðskífa hans með slíku efni væntanleg nú í vor. Lög með Krumma hafa ómað á öldum ljósvakanna undanfarin misseri og það verður spennandi að sjá þau viðruð í notalegum salarkynnum Stúdentakjallarans. Upptaka af tónleikunum Strokkvartettinn Siggi - 30. apríl á Litla Torgi Strokkvartettinn Siggi sló botninn í Háskólatónleikaröðina þennan veturinn með tónleikum á Litla-Torgi Háskólatorgs föstudaginn 30. apríl kl. 12.15. Kvartettinn var stofnaður árið 2012 og hefur síðan þá verið áberandi í tónleikahaldi og leikið Beethoven og Shostakovich auk fjölda nýrra verka sem samin hafa verið sérstaklega fyrir Sigga. Listamenn Sigga eru virkir sem einleikarar og kammerspilarar og leika í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur. Strokkvartettinn skipa Una Sveinbjarnardóttir og Helga Þóra Björgvinsdóttir á fiðlur, Þórunn Ósk Marinósdóttir á víólu og Sigurður Bjarki Gunnarsson á selló. Upptaka af tónleikunum MYNDIR KRISTINS INGVARSSONAR FRÁ HÁSKÓLATÓNLEIKUM Tengt efni Háskólatónleikar á Facebook facebooklinkedintwitter