Aukin sókn manna í auðlindir náttúrunnar og fólksfjölgun á heimsvísu valda því að yfir stendur ein mesta hrina útdauða tegunda í jarðsögunni. Það tímabil jarðasögunnar sem nú stendur yfir er kennt við manninn (mannöldin Anthropocene) og einkennist af tapi á lífbreytileika vegna beinna (s.s. eyðingar búsvæða og ofveiði) og óbeinna (s.s. loftslagsbreytinga) umhverfisáhrifa. Þrátt fyrir að fjöldi tegunda gegni mikilvægum og vel þekktum hlutverkum í vistkerfum og sé mikils metinn af mönnum eru engin merki á lofti um að dragi úr hnignun lífbreytileika. Að bæta skilning á eðli og áhrifum umhverfisbreytinga á lífverur og vistkerfi er eitt brýnasta verkefni mannkyns og ein helsta áskorun vistfræðinnar.
Á síðustu árum hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir við setrið sem miða að því að bæta skilning á tengslum landnotkunar og lífbreytileika. Rannsóknirnar tengjast oft náttúrulegum breytileika í umhverfi því landnotkun manna og náttúrulegur breytileiki spila saman. Íslensk landvistkerfi endurspegla breytingar sem verða á landi frá því það kemur gróðurvana undan jökli og þar til það hefur (oft) vaxið upp í skóglendi. Landnotkun manna getur gripið inn í þetta ferli með ýmsum hætti og rannsóknir okkar síðustu ár hafa meðal annars snúist um að skýra hvernig landnotkun og gróðurframvinda hafa áhrif á dýrastofna. Hér eru dæmi um nokkur verkefni sem snúa að þessu.
Landbúnaður og lífbreytileiki
Rannsóknasetrið hlaut öndvegisstyrk frá Rannís árið 2013 til að rannsaka tengsl landbúnaðar og vaðfuglastofna. Landbúnaður á Íslandi er enn stundaður af minni ákefð en víða sem endurspeglast í að landbúnaðarsvæði á Íslandi standa undir stórum stofnum vaðfugla. En það eru blikur á lofti og íslenskir bændur hyggjast flestir auka við flatarmál landbúnaðarlands á næstu árum. Verkefnið snerist um að kanna viðhorf bænda til náttúru- og fuglaverndar og að meta mikilvægi íslenska landbúnaðarlandsins fyrir fuglastofna.
Eyðimerkurmyndun og uppgræðsla
Jarðvegsrof á Íslandi er með því mesta sem gerist og þar koma við sögu ýmsir ferlar svo sem landnotkun, veðurfar og eldvirkni. Nýlegar rannsóknir sem unnar hafa verið í samstarfi við Landgræðslu ríkisins snerust um að kanna tengsl uppgræðsluaðferða og gróðurframvindu við lífbreytileika, einkum fuglalíf og smádýralíf.
Skógrækt og mannvirki
Opin búsvæði eru afar takmörkuð auðlind á heimsvísu en eru ennþá algeng á Íslandi sem endurspeglast í sérstöðu landsins hvað varðar náttúrufar. Það gengur þó hratt á opin svæði en Íslendingar breyta opnu landi nú hraðar en flestar evrópuþjóðir. Helstu gerðir landnotkunar sem ganga á opin svæði eru skógrækt og mannvirkjagerð svo sem sumarhús, nýbýli og vegagerð. Nú standa yfir rannsóknir sem meta áhrif þessara breytinga á náttúrufar.
Aukinn vöxtur runnagróðurs og beit
Gróska á norrænum svæðum er að aukast verulega vegna loftslagsbreytinga og breytinga á beitarálagi bæði villtra dýra og húsdýra. Þessar breytingar hafa keðjuverkandi áhrif á vistkerfi. Gróska hefur einnig aukist á Íslandi en áhrif þessa á lífbreytileika og lífverusamfélög eru óþekkt. Eitt einkenni aukinnar grósku er vöxtur runnagróðurs en rannsóknir á norrænum svæðum sýna að dýrasamfélög eru að breytast vegna þessa. Vöxtur runnagróðurs er að aukast mikið á láglendi Íslands með hlýnun og breyttu beitarmynstri. Rannsóknir standa nú yfir til að skilja betur tengsl þessara gróðurfarsbreytinga og fuglalífs.