Næringarfræði byggir á sterkum grunni raun-, líf- og heilbrigðisvísinda, og veitir innsýn í félagsvísindi, markaðsfræði og upplýsingatækni.
Næringarfræðin fjallar meðal annars um næringarþörf heilbrigðra og sjúkra, á ýmsum æviskeiðum, í þróuðum og þróunarlöndum, um hættu og hollustu matvæla og fæðutengdra efna og tengsl við umhverfi. Helstu áherslur eru á sviði klínískrar næringarfræði, íþróttanæringarfræði, lýðheilsunæringarfræði og rannsókna og vísinda.
Næringarfræði er heilbrigðisvísindagrein sem fjallar að töluverðu leyti um líffræði mannsins og heilsu. Næringarfræðin tekur einnig mið af umhverfinu, sjálfbærri nýtingu og býður upp á þjálfun í notkun mismunandi aðferðafræði. Næringarfræðingar hafa hæfni til að vinna í heilbrigðisþjónustu, að forvörnum eða næringarmeðferð, auk verkefna- og rannsóknavinnu.
Örsaga náms í næringarfræði á Íslandi
Um árabil hafði verið boðið upp á nám í matvælafræði innan Raunvísindadeildar Háskóla Íslands, en með breyttu skipulagi varð skorin að sjálfstæðri deild á Heilbrigðisvísindasviði. Matvæla- og næringarfræðideild er ein sex deilda Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og varð til við breytingar á stjórnskipulagi Háskóla Íslands 1. júlí 2008 en það sama ár var í fyrsta skipti boðið upp á grunnnám í næringarfræði og útskrifuðust fyrstu nemarnir vorið 2011.