Nemendur Háskóla Íslands eiga kost á að sækja um Erasmus+ styrk til starfsþjálfunar eða rannsóknarvinnu í háskólum, fyrirtækjum eða stofnunum í Evrópu. Þeir geta þannig öðlast dýrmæta alþjóðlega starfsreynslu sem getur komið sér vel síðar meir. Ávinningur af starfsþjálfun er margvíslegur. Nemendur fá hagnýta starfsreynslu og geta fengið starfsþjálfunina metna sem hluta af náminu við Háskólann, hluta af lokaverkefni eða skráða í skírteinisviðauka. Starfsþjálfun getur einnig brúað bilið milli brautskráningar úr háskóla og fyrsta starfs þar sem nú er hægt að fara í starfsþjálfun að lokinni brautskráningu. Það er verðmætt að geta sýnt fram á alþjóðlega starfsreynslu á ferilskránni þegar sótt er um störf á nútíma vinnumarkaði sem verður sífellt alþjóðlegri. Dvölin þarf að standa yfir í að lágmarki tvo mánuði og að hámarki í tólf mánuði. Einnig er möguleiki á styttri dvölum eða í 5-30 daga. Hægt að fara í starfsþjálfun að loknu námi en sækja þarf um áður en nemandi brautskráist frá Háskóla Íslands og skal starfsþjálfun vera lokið eigi síðar en sex mánuðum eftir brautskráningu. Nemendur sem eru að brautskrást verða að sækja um styrkinn eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir brautskráningu Ferða- og dvalarstyrkir Upphæð styrkja fer eftir áfangastað og lengd dvalar (athugið að upphæðirnar geta verið breytilegar eftir skólaárum). Ferðastyrkur er 275-820 evrur Styrkur fyrir styttri dvalir (5-30 dagar) er 70 evrur á dag fyrstu 14 dagana, síðan 50 evrur á dag Styrkur fyrir lengri dvalir (2-12 mánuðir) er 640-690 evrur á mánuði Nemendur sjá sjálfir um að hafa samband við háskóla, fyrirtæki eða stofnanir og útvega sér vilyrði fyrir starfsþjálfun. Þeir geta einnig sótt um auglýsta starfsþjálfun, ýmist í gagnagrunnum fyrirtækja sem halda úti vefsíðum með starfsþjálfunarmöguleikum eða möguleika sem Alþjóðasvið vekur sérstaka athygli á. Nemendur sækja um Erasmus+ styrk til starfsþjálfunar hjá Alþjóðasviði. Frestur til að sækja um Erasmus+ styrki til starfsþjálfunar er til og með 1. apríl ár hvert (eða næsta virka dag ef umsóknarfrestur er á almennum frídegi). Heimilt er að sækja um eftir auglýstan umsóknarfrest en þeir sem sækja um fyrir 1. apríl hafa forgang við úthlutun styrkja. Nemendur sem eru að brautskrást verða að sækja um styrkinn eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir brautskráningu. Ekki er tekið á móti umsóknum um styrkinn ef sótt er um eftir þann frest. facebooklinkedintwitter