Samþykkt í stefnu- og gæðaráði 18. febrúar 2025 og staðfest af háskólaráði 6. mars 2025
Tilgangur
Gæðastefnu Háskóla Íslands (HÍ) er ætlað að tryggja og auka gæði starfsemi skólans. Gæðastefnan er vegvísir fyrir starfsfólk og nemendur og styður við heildarstefnu HÍ.
Gæðastefnan leggur grunninn að formlegu gæðakerfi HÍ. Hún lýsir áherslum og markmiðum HÍ við stjórnun gæða kjarnastarfsemi skólans til að hún uppfylli sem best væntingar nemenda, háskólasamfélagsins og ytri hagaðila.
Gæðastefnan byggir á grunngildum HÍ um akademískt frelsi, jafnrétti og fagmennsku, en jafnframt á heildarstefnu og siðareglum skólans. Kröfur og leiðbeiningar um gæðatryggingu háskóla í Evrópu (Standards and guidelines for quality assurance in the European Higher Education Area, ESG) eru einnig leiðarljós stefnunnar.
Ábyrgð og hlutverk
Rektor og háskólaráð setja gæðastefnu HÍ og stefnu- og gæðastjóri ber ábyrgð á innleiðingu hennar. Starfsfólk og nemendur bera ábyrgð á framkvæmd gæðastefnunnar.
Markmið
HÍ uppfyllir gæðakröfur sem settar eru á innlendum og alþjóðlegum vettvangi
Tryggt er að starfsemi HÍ samræmist m.a. kröfum og leiðbeiningum um gæðatryggingu háskóla í Evrópu (Standards and guidelines for quality assurance in the European Higher Education Area, ESG), lögum um háskóla nr. 63/2006 og þeim reglum sem settar hafa verið á grundvelli laganna.
HÍ framkvæmir kerfisbundið innra gæðamat á kennslu og rannsóknum
Innra gæðamat á kjarnastarfsemi HÍ fer fram á vettvangi fræðasviða, deilda, námsbrauta og annarra starfseininga eftir því sem við á.
HÍ framfylgir stefnumiðaðri stjórnun í umbótahringrás
Heildarstefnu HÍ er framfylgt með hliðsjón af innra gæðamati starfseininga og innra gæðamatið styður við framkvæmd stefnumarkandi markmiða skólans.
Ákvarðanataka innan HÍ er byggð á grunni áreiðanlegra gagna
Lykilgögnum og upplýsingum er safnað með reglubundnum hætti, þau eru áreiðanleg, árangur er metinn og ákvarðanir teknar með hliðsjón af þeim.
HÍ viðhefur samræmt og gagnsætt verklag
Vinnubrögð eru samræmd og kerfisbundin og ábyrgð er skýr um það verklag sem er sameiginlegt starfseiningum HÍ.
Innri og ytri hagaðilar eru virkir þátttakendur við framkvæmd gæðastefnunnar
Starfsfólk, nemendur og ytri hagaðilar taka virkan þátt í reglubundnu umbótastarfi innan HÍ.
Innleiðing og endurskoðun
Formlegt gæðakerfi HÍ byggir á gæðastefnu skólans og er ætlað að tryggja innleiðingu hennar. Árangur af innleiðingu gæðastefnunnar skal metinn á fimm ára fresti af stefnu- og gæðaráði og endurskoðuð í samræmi við niðurstöður innra og ytra gæðamats.
Þannig samþykkt í stefnu- og gæðaráði 18. febrúar 2025 og staðfest af háskólaráði 6. mars 2025.