1. Get ég farið í skiptinám? Nemendur í grunn- og framhaldsnámi í flestum námsgreinum geta farið í skiptinám. Grunnnemar geta farið í skiptinám eftir að hafa lokið fyrsta námsári eða 60 ECTS einingum við Háskóla Íslands. Skilyrði sviða og deilda 2. Hvers vegna ætti ég að fara í skiptinám? Skiptinám veitir tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn, efla tengslanetið og skapa forskot á vinnumarkaði en rannsóknir sýna að vinnuveitendur horfa í auknum mæli til alþjóðlegrar reynslu. Skiptinám býður upp á fjölbreyttara og sérhæfðara námsframboð en nemendur geta oft valið námskeið sem eru ekki í boði við Háskóla Íslands. Einingar í skiptinámi eru metnar inn í nám við HÍ. Skiptinám er einfaldara og ódýrara en nám erlendis á eigin vegum og margir möguleikar á ferða- og dvalarstyrkjum. Skólagjöld við gestaskóla eru felld niður. 3. Hvert get ég farið? Nemendur geta farið í skiptinám við samstarfsskóla Háskóla Íslands um allan heim – til Norðurlanda, Evrópu, Bandaríkjanna, Kanada, Suður-Ameríku, Asíu og Eyjaálfu. Á vef HÍ er að finna leitargrunn með samstarfsskólum þar sem hægt er að leita eftir landi, námsleið, námsstigi o.fl. Samningar eru ýmist opnir eða bundnir við ákveðnar námsgreinar eða námsstig. 4. Kenna allir skólar námskeið á ensku? Flestir samstarfsskólar HÍ bjóða upp á námskeið á ensku. Áður en sótt er um skiptinám þarf að skoða vel námsframboð við gestaskólann og á hvaða tungumáli námskeiðin eru kennd. 5. Hvenær get ég farið? Nemendur í grunnnámi þurfa að hafa lokið fyrsta námsári eða 60 ECTS einingum áður en skiptinám hefst. Nemendur sem eru að hefja meistara- eða doktorsnám geta farið í skiptinám strax á fyrsta misseri námsins ef samþykki deildar/doktorsleiðbeinanda liggur fyrir, eða síðar á námsferlinum. 6. Hvað get ég verið lengi? Nemendur geta almennt verið í skiptinámi í eitt eða tvö misseri á hverju námsstigi en reglur deilda og sviða eru mismunandi. Skilyrði sviða og deilda 7. Hvaða styrkir eru í boði? Í skiptinámi eru skólagjöld við gestaskólann felld niður en nemendur greiða árlegt skráningargjald við Háskóla Íslands. Ef sótt er um skiptinám í gegnum Nordplus og Erasmus+ áætlanirnar er um leið sótt um ferða- og dvalarstyrk. Hægt er að sækja sérstaklega um styrk til skiptináms í Sviss. Í sumum tilfellum bjóðast styrkir til skiptináms utan Evrópu, m.a. Watanabe styrkir til náms í Japan og Val Bjornson styrkur til náms við Minnesota-háskóla. Frekari upplýsingar um styrki Skiptinám er lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. 8. Má ég fara í skiptinám í aukagrein? Það er ekki heimilt að fara í skiptinám í aukagrein.9. Hvernig sæki ég um og hvaða gögn þurfa að fylgja? Sótt er um skiptinám rafrænt á vefsíðu HÍ og eftirfarandi gögn hengd við umsóknina: Skannað námsferilsyfirlit á ensku með röðun Tungumálapróf (ef við á), t.d. TOEFL Frestur til að sækja um skiptinám er 1. febrúar ár hvert (eða næsta virka dag ef umsóknarfrestur er á frídegi). Viðbótarumsóknarfrestur fyrir laus pláss á vormisseri er auglýstur sérstaklega í September ár hvert. 10. Þarf ég að taka tungumálapróf? Mikilvægt er að kanna tímanlega hvort gestaskóli fari fram á tungumálapróf. Hægt er að sjá hvaða skólar fara fram á tungumálapróf í leitargrunni samstarfsskóla á vefsíðu HÍ. Einnig þarf að skoða viðeigandi upplýsingar á vefsíðum gestaskólanna. Flestir skólar í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi og nokkrir í Evrópu og Japan gera kröfu um kunnáttupróf í ensku. Eina viðurkennda enskuprófið sem þreytt er á Íslandi er TOEFL. Hægt er að skrá sig í það á www.ets.org og er það haldið hjá Promennt í Skeifunni. Sífellt fleiri skólar taka Duolingo enskuprófið einnig gilt. Hægt er að taka það á netinu en afar mikilvægt er að kanna hvort gestaskólinn sem stefnt er á úti taki það gilt. Kunnáttupróf í öðrum tungumálum eru ekki nauðsynleg (með örfáum undantekningum). Nemendum í japönsku og kínversku stendur t.d. til boða að taka stöðupróf við deild sína áður en þeir fara í skiptinám. 11. Hvað er námssamningur? Námssamningur er samningur á milli nemanda, deildar í HÍ og gestaskólans í skiptináminu. Þar eru tekin fram þau námskeið sem nemandi tekur við gestaskólann og hvernig þau námskeið verða metin til baka til heimaskólans. Deild nemanda þarf að skrifa undir námssamninginn og með því samþykkir deildin að meta námskeiðin inn í námsferil nemandans. 12. Hvaða námskeið má ég velja? Nemendur velja námskeið í samráði við deild og samkvæmt reglum gestaskóla. Ætlast er til þess að nemendur taki námskeið í gestaskólanum sem tengjast námsleið nemenda í HÍ og hægt er að meta inn í námið við HÍ. Sjá upplýsingar um námssamning 13. Hvernig á hvatningarbréf/kynningarbréf að vera? Hvatningar/kynningarbréf eru yfirleitt hálf til ein blaðsíða. Þar koma fram almennar upplýsingar um umsækjandann. Til dæmis er hægt að svara spurningum eins og: Hver eru viðfangsefni þín í lífinu eins og t.d. nám, áhugamál, íþróttir o.s.frv. og hvernig skipuleggur þú tíma þinn til að sinna þeim? Hvers vegna valdirðu námið sem þú ert í? Hverjar eru áætlanir þínar varðandi náms- og starframa í framtíðinni? Einnig er gott að setja inn upplýsingar um ástæður þess að viðkomandi land og skóli voru valin, markmið í skiptináminu og áhugamál. Þegar skrifað er bréf fyrir hugsanlegan gestaskóla skal fylgja fyrirmælum frá gestaskólanum séu þau til staðar. 14. Hvernig á að afhenda meðmælabréf og hvernig eiga þau að vera? Þegar sótt er um skiptinám í Háskóla Íslands þarf alla jafna ekki að skila inn meðmælabréfi. Hins vegar fara nokkrir gestaskólar erlendis fram á það þegar sótt er um beint til þeirra í kjölfar tilnefningar. Einnig er oft farið fram á meðmælabréf í umsókn þegar nemendur sækja um styrki. Meðmælabréf eiga í langflestum tilvikum vera á ensku. Meðmælabréfin eiga að vera almenn um frammistöðu í námi, þátttöku í tímum o.s.frv. Trúnaður skal ríkja um efni meðmælabréfa og skulu meðmælendur ganga þannig frá þeim að nemendur geti ekki lesið þau. Einungis má skila inn meðmælabréfum til Alþjóðasviðs eftir tveimur leiðum: Í lokuðu innsigluðu umslagi eða sem undirrituðu skanni með tölvupósti beint úr netpósti meðmælanda á netfangið ask@hi.is. 15. Fæ ég einingar og einkunnir úr skiptinámi metnar inn á námsferilinn minn? Já, ef nemendur standast námskeið eru einingar metnar sem „staðið“ inn á námferil í stað einkunnar. 16. Hvað á ég að taka margar einingar? Skiptinám skal vera fullt nám við erlendan samstarfsskóla HÍ í eitt eða tvö misseri sem er að fullu metið sem hluti af námsgráðu nemandans við HÍ. Fullt nám er 30 ECTS á misseri eða 60 ECTS á ári. 17. Ef HÍ samþykkir umsókn mína um skiptinám er ég um leið samþykkt/ur af gestaskólanum? Nei, eftir að HÍ hefur tilnefnt nemanda í skiptinám við erlendan samstarfsskóla þarf nemandi að sækja um beint í gestaskólann skv. leiðbeiningum frá viðkomandi skóla. 18. Hvernig finn ég húsnæði? Gestaskólar veita nemendum upplýsingar um húsnæði og þá möguleika sem standa til boða. Háskóli Íslands er einnig í samstarfi við Housing Anywhere sem er leiguvettvangur þar sem nemendur HÍ geta leitað að leiguhúsnæði í yfir 400 borgum um allan heim. 19. Hvernig berast einkunnir frá gestaskólanum til Háskóla Íslands? Gestaskólar senda námsferilsyfirlit til Alþjóðasviðs HÍ. Það er á ábyrgð nemenda að ganga úr skugga um að það sé gert. Yfirlitið verður að vera staðfest frumrit einkunna þar sem formlegt einkunnayfirlit er skilyrði fyrir einingamati við HÍ. Einkunnayfirlit verður að vera á pappír eða rafrænt skjal sem sannreyna (e. verify) má á netinu. 20. Hvað þarf ég að gera þegar ég kem heim? Að ýmsu er að huga þegar heim er komið. Nemendur sjá til þess að staðfest frumrit einkunna berist Alþjóðasviði svo hægt sé að meta einingarnar. Nemendur geta svo fylgst með því hvernig einingarnar eru metnar inni á Uglunni. Þá eru nemendur einnig hvattir til að skrá sig sem mentora fyrir erlenda nemendur. Í Skiptinámsferlið: skref fyrir skref er að finna frekari upplýsingar um að hverju þarf að huga. facebooklinkedintwitter