Raddir margbreytileikans er mannfræðihlaðvarp þar sem rætt verður við íslenska mannfræðinga. Áherslurnar eru rannsóknir mannfræðinga annars vegar og störf þeirra hins vegar. Umsjónarmenn mannfræðihlaðvarpsins eru Kristján Þór Sigurðsson, aðjunkt í mannfræði og Sveinn Guðmundsson, jafnréttisfulltrúi, umboðsmaður doktorsnema og stundakennari. Fyrrum umsjónarmenn eru Hólmfríður María Ragnhildardóttir og Sandra Smáradóttir. Mannfræðihlaðvarpið frá upphafi: 1. þáttur: Hvernig sagan birtist í brjóstmyndum - Kristín Loftsdóttir Í fyrsta þætti er rætt við Kristínu Loftsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, um nýlegar rannsóknir hennar. Megin rannsóknarþættir hennar eru sjálfsmyndir í margskonar samhengi, kynþáttahyggja, rasismi, hvítleiki og hugmyndir tengdar nýlendu- og síðnýlenduhyggju. Einkum hefur hún skoðað stöðu Íslands og annarra Norðurlanda út frá stöðu þeirra og sjálfsmyndar í samhengi við nýlendutímann og arfleifð hennar. Sjálfsmynd Íslands sem sérstök í samfélagi þjóðanna, eins og lýsti sér m.a. í Útrásinni og „Inspired by Iceland“, er nokkuð sem Kristín hefur rannsakað í seinni tíð. Í þessum þætti ræðir Kristín um grein sem hún skrifaði eftir að hafa heimsótt safn á Kanaríeyjum þar sem eru geymdar gifsafsteypur og brjóstmyndir frá liðnum tíma. Kristín setur þessa safnmuni í sögulegt og pólitískt samhengi nýlendutímans og sýnir hvernig margvísleg söguleg tengsl valds, kúgunar og kynþáttahyggju skarast í þessum minjum. Síðan ræðir Kristín um væntanlega bók sem hún er meðhöfundur að, sem fjallar um „sérstöðuhyggju“ (exceptionalism), sem er einnig titill bókarinnar, en þar er fjallað um hugmyndir og sjálfsmyndir þjóðríkja um sérstöðuhugmyndir þeirra í samfélagi þjóðanna. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 2. þáttur: Vildi vera Indiana Jones - Eva Hrönn Árelíusd. Jörgensen Í öðrum þætti er rætt við Evu Hrönn Árelíusd. Jörgensen, doktorsnema við Háskóla Íslands, um mastersnám hennar erlendis og doktorsrannsókn hennar. Eva Hrönn er með MSc próf í heilsumannfræði frá UCL háskóla í London og MA próf í miðjarðarhafsfornleifafræði frá EKPA háskóla í Aþenu. Hún vinnur nú að doktorsrannsókn sinni sem fjallar um reynslu ungmenna af COVID-19 heimsfaraldrinum. Í þessum þætti ræðir Eva Hrönn um rannsóknina sína, áhrif COVID-19 á ungmenni Íslands og áhrif COVID-19 á rannsóknina sjálfa. Einnig segir hún okkur frá lífinu í Aþenu og London, hvernig hún ákvað að fara í mannfræði og upplifun sína af háskólanámi erlendis. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 3. þáttur: Rómafólk í Róm og sagan af Marskálkinum Tító - Marco Solimene Í þessum þætti er rætt við mannfræðinginn Marco Solimene, sem er ítalskrar ættar, fæddur í Róm árið 1976. Marco hefur búið á Íslandi um langt skeið. Marco er með MA gráðu í félagsfræði frá La Sapienza háskólanum í Róm og doktorsgráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands. Rannsóknir Marco hafa snúist um rómafólk frá Bosníu í Róm sem og á Balkanskaga og í Rúmeníu. Rætt er um yfirstandandi rannsókn Marco meðal rómafólks og tengsl þeirra við „gamla landið“, þ.e. Bosníu og fyrrum Júgóslavíu. Hugtök eins og minni, mýtur, nostalgía, saga og frásagnir eru einkum umfjöllunarefni þessa hlaðvarps, þar sem m.a. er fjallað um þekkta frásögn um Tító, fyrrum forseta Júgóslavíu, sögu sem rómafólk frá Bosníu hafa sagt í nokkrum útgáfum sem hluta af tengslum þeirra við gamla landið og hlut þeirra í upprunamýtu Júgóslavíu, gamla landsins og hinna gömlu góðu daga. Þátturinn er á ensku. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 4. þáttur: Fannst fyrsta önnin í mannfræði ekki skemmtileg - Jónína Einarsdóttir Gestur þáttarins er mannfræðingurinn Jónína Einarsdóttir, deildarforseti félags-, mannfræði- og þjóðfræðideildar Háskóla Íslands og prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Jónína lærði þróunarfræði í Uppsalaháskóla og kláraði BA próf og doktorspróf í mannfræði frá Stokkhólmsháskóla. Jónína hefur í gegnum starfsferil sinn lagt mikla áherslu á þróunarstarf, börn og fjölskyldur. Í þessum þætti segir Jónína okkur frá leið sinni í gegnum mannfræðinámið, störfum sínum í Gíneu-Bissaú og rannsóknum sínum hérlendis á börnum, meðal annars siðnum að senda börn í sveit. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“ - Gunnar Þór Jóhannesson Í þessum fimmta þætti sem sækir titil sinn til Hávamála er rætt við Gunnar Þór Jóhannesson mannfræðing um menningarlegt og félagslegt samhengi ferðamennsku og ferðaþjónustu. Gunnar Þór Jóhannesson fæddist 1976 á Blönduósi. Hann er með BA gráðu í mannfræði frá HÍ (1999), MA í mannfræði frá HÍ (2003) og doktorsgráðu frá RUC í þverfélagsvísindalegum greinum (mannfræði, landafræði, o.fl.). Gunnar Þór gaf út, ásamt Þórði Kristinssyni, út bókina „Mannfræði fyrir byrjendur“ (2010), sem mun verða endurútgefin og endurbætt í rafrænu formi í haust (2021). Gunnar Þór hefur stundað rannsóknir á ferðamennsku í félagslegu og menningarlegu samhengi um árabil þar sem hann hefur beitt mannfræðilegum gleraugum á viðfangsefnið. Í þessum þætti er rætt um mótun ferðaþjónustu á Íslandi, orðræður henni tengdar og hvernig ferðaþjónustan, sem menningarlegt fyrirbæri, endurspeglar mikilvæga þætti í lífsháttum okkar og samfélagi, og hvernig hún tengist hugmyndum um „okkur“ og „hina“. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 6. þáttur: Sameinar mannfræðina og lögreglufræðin - Eyrún Eyþórsdóttir Í þessum þætti er rætt við Eyrúnu Eyþórsdóttur sem er lektor á hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri þar sem hún kennir áfanga meðal annars í lögreglufræði. Eyrún er fædd árið 1973 og ólst upp á Höfuðborgarsvæðinu og í Fellabæ á Austurlandi. Hún kláraði BA í mannfræði frá HÍ árið 2003 og MA í félagsfræði, einnig frá HÍ, árið 2008. Hún er að ljúka doktorsprófi frá HÍ í haust undir leiðsögn Kristínar Loftsdóttur en ritgerðin hennar fjallar um afkomendur Íslendinga í Brasilíu. Við spjölluðum við Eyrúnu um Íslendinga í Brasilíu en einnig um hatursorðræðu og hlutverk lögreglu í fjölbreyttu samfélagi. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 7. þáttur: Við erum öll á ferð um heiminn - Katrín Anna Lund Í þessum þætti er rætt við mannfræðinginn Katrínu Önnu Lund um að ganga, gönguleiðir og göngutúra, útfrá mannfræðilegu og fyrirbærafræðilegu sjónarhorni. Pælt er í hreyfanleika og frásögnum í samhengi við landslag, um „fótaför“ manna um landið og leiðina. Skil náttúru og menningar verða óljós í þessum pælingum, þar sem efnisleg náttúra skarast við félagslega hegðun manna og menningarlegar hugmyndir. Í takt við umræðuefnið er farið út um víðan völl í þessu spjalli. Katrín Anna Lund er fædd 1964 í Reykjavík. Hún lauk BA prófi 1991 í mannfræði við HÍ, MA í mannfræði 1992 frá Háskólanum í Manchester og doktorsprófi í mannfræði 1998 frá sama skóla. Katrín Anna hefur stundað rannsóknir tengdum ferðamennsku og ferðamenningu með fyrirbærafræðilegar nálganir að leiðarljósi. Hún hefur, í samstarfi við Gunnar Þór Jóhannesson (viðtal við hann í 5. þætti þessa hlaðvarps), rannsakað ferðamál á Íslandi, mótun leiða og áfangastaða fyrir ferðamenn. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 8. þáttur: Finnst skemmtilegra að grafa skurði en skrifa greinar - Helga Ögmundardóttir Í þessum þætti er rætt við Helgu Ögmundardóttur, lektor við félagsfræði-, mannfræði-, og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og kennir meðal annars áfanga í umhverfismannfræði og rannsóknaraðferðum en er í rannsóknarleyfi núna. Helga er fædd í Neskaupstað árið 1965. Rannsóknir Helgu snúast um umhverfið og umhverfismannfræði en hún hefur unnið mikið í skógrækt og garðyrkju. Í þættinum ræðum við leið hennar í mannfræði, áhrif hamfarahlýnunar á Íslandi, hversu skemmtilegt það er að tala við blómin sín og margt fleira. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 9. þáttur: „Íkarus virti ekki viðvörunarorðin og hélt af stað“ - Gísli Pálsson Í þessum þætti er rætt við mannfræðinginn Gísla Pálsson um mannöldina og aldauðann, útrýmingu lífvera og fótspor og fingraför mannsins á plánetuna sem hann byggir ásamt ört hverfandi lífverum, þar á meðal geirfuglinum sáluga sem átti sínar lokastundir á Íslandi. Rætt er um orsakir og afleiðingar en einnig um hvernig hægt er að bregðast við þeirri þróun sem blasir í auknum mæli við okkur öllum. Gísli Pálsson fæddist árið 1949 í Vestmannaeyjum. Hann var sá fyrsti sem útskrifaðist sem mannfræðingur frá Háskóla Íslands, með BA gráðu 1972. Síðan lauk hann MA námi frá Háskólanum í Manchester og doktorsnámi frá sama skóla 1982. Gísli hefur átt langan og farsælan feril sem mannfræðingur og liggur eftir hann mikið bákn útgefins efnis. Eitt megin stef í fræðastarfi Gísla hefur verið samband náttúru og samfélags, sem greina má m.a. á því samtali sem hér fer fram. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 10. þáttur: „Þetta á eftir að gerast, ég vil vera þarna þegar þetta gerist“ - Árdís Kristín Ingvarsdóttir Í þessum þætti er rætt við Árdísi Kristínu Ingvarsdóttur sem skilgreinir sig sem félagsfræðing með mannfræðilegan bakgrunn. Árdís segir frá lífi sínu, hvað leiddi til þess að hún ákvað að hefja mannfræðinám og áföllum sem hún varð fyrir á meðan náminu stóð. Þá segir hún einnig frá upplifun sinni sem mannfræðinemi á vettvangi en hún varði 16 mánuðum í Grikklandi á árunum 2014-2015, auk átta mánaða viðveru árið 2012, fyrir doktorsverkefni sitt í félagsfræði. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 11. þáttur: „Að fara inn í íslenskan torfkofa opnar leið inn í heim iðandi ofurlífveru“ - Sigurjón Baldur Hafsteinsson Í þessum þætti er rætt við Sigurjón Baldur Hafsteinsson, mannfræðing og safnafræðing um rannsókn hans á sjónvarpstöð frumbyggja í Kanada, pælingar varðandi dauða og sorg, og um undralífheima torfhúsa. Sigurjón Baldur Hafsteinsson lauk BA prófi mannfræði frá HÍ, MA gráðu í mannfræði frá Temple háskólanum í Fíladelfíuborg í USA, og doktorsprófi í mannfræði frá sömu stofnun. Meginviðfangsefni Sigurjóns Baldurs eru sjónrænir miðlar, dauði og sorg, og safnastarf. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 12. þáttur: „To boldly go where no one has gone before“ - Sveinn Guðmundsson Gestur vikunnar í mannfræðihlaðvarpinu Raddir margbreytileikans er Sveinn Guðmundsson. Sveinn er fæddur í Reykjavík árið 1979. Hann er jafnréttisfulltrúi við HÍ, stundakennari í Mannfræði við HÍ og umboðsmaður doktorsnema. Við spjölluðum við Svein um menningarfyrirbærið Star Trek og aðdáendur þess en hann kenndi sumaráfanga sumarið 2021 um efnið. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 13. þáttur: Það er alltaf fólk reiðubúið að hjálpa manni - Kristján Þór Sigurðsson Í þessum þætti er rætt við mannfræðinginn Kristján Þór Sigurðsson, einn að þáttastjórnendum hlaðvarpsins, um feril hans í mannfræðinni. Kristján segir hlustendum frá ákvörðun sinni að hefja nám í mannfræði, mastersrannsókn hans í Ghana og hvernig það kom til þess að hann byrjaði að rannsaka líf múslíma á Íslandi. Rætt er um fordóma og staðalmyndir og í því samhengi vald orðræðu og ábyrgðarhlutverk fjölmiðla. Kristján Þór Sigurðsson er aðjúnkt í Mannfræði við Háskóla Íslands og kennsla hans hefur einkum einkennst af málefnum múslíma. Kristján er fæddur þann 25. júlí árið 1954. Hann lauk BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og mastersgráðu í mannfræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn árið 2004. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 14. þáttur: „Líkaminn er raunverulegur skynjandi, undirstaða vitundar og þekkingar okkar“ - Sveinn Eggertsson Í þessum þætti er rætt við mannfræðinginn Svein Eggertsson um rannsókn hans meðal Kwermin-fólksins á Nýju-Gíneu, rannsóknir á Páskaeyjum og fleira. Meginrannsóknaráherslur Sveins hafa snúið að efnismenningu, mannfræði skynjunar og lista út frá sjónarhóli fyrirbærafræði, sem og samskiptum manna og dýra. Rannsókn Sveins meðal Kwermin fjallaði einkum um þekkingu og skinn, um húð sem þekkingarbera og tjáningu menningarlegra þátta. Sveinn hefur einnig skoðað veggjalist (graffití) út frá mannfræði lista. Sveinn Eggertsson fæddist í Reykjavík 1954. Hann lauk BA námi í mannfræði frá HÍ 1990, MA í mannfræði frá Háskólanum í Manchester og doktorsnámi í mannfræði frá sama skóla 1997 eftir vettvangsrannsókn í Nýju-Gíneu. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 15. þáttur: Kóranskólar, COVID-19 og bólusetningarátök - Geir Gunnlaugsson Gestur þáttarins er Geir Gunnlaugsson. Hann er fæddur árið 1951 í Gautaborg í Svíþjóð og lauk námi við læknadeild Háskóla Íslands árið 1978. Hann fluttist svo til Stokkhólms þar sem hann lauk doktorsprófi í barnalæknisfræði árið 1993 og meistaraprófi við lýðheilsufræði árið 1997 í Karolinska háskólanum. Geir hefur gegnt ýmsum störfum en hann var landlæknir á árunum 2010 til 2015, barnalæknir á barnadeild Karolinska Sankt Göran sjúkrahússins, sem í dag er Astrid Lindgren sjúkrahúsið, í 8 ár og hefur eytt mörgum árum við rannsóknir í Gíneu-Bissá. Geir kennir fræðigreinina hnattræna heilsu við HÍ. Við ræddum við Geir um bólusetningar, áhrif COVID-19 faraldursins á samfélagið í Gíneu-Bissá og aðgengi að upplýsingum og samfélagsmiðlum þar í landi. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 16. þáttur: Áfangastaðir eru hreyfanlegir – eru verðandi félagslegt ferli - Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund Í þessum þætti er rætt við mannfræðingana Gunnar Þór Jóhannesson og Katrínu Önnu Lund um nýútkomna bók þeirra, sem ber titilinn Áfangastaðir. Bókin fjallar um ferðamennsku og áfangastaði út frá marglaga fræðilegum sjónarhornum og byggir einkum á rannsókn þeirra á Galdrasetrinu á Ströndum. Áður hefur verið rætt við þau bæði, í sínu hvoru lagi, í fyrri hlaðvörpum. Gunnar Þór Jóhannesson fæddist 1976 á Blönduósi. Hann er með BA gráðu í mannfræði frá HÍ (1999), MA í mannfræði frá HÍ (2003) og doktorsgráðu frá RUC í þverfélagsvísindalegum greinum (mannfræði, landafræði, o.fl.). Gunnar Þór hefur stundað rannsóknir á ferðamennsku í félagslegu og menningarlegu samhengi um árabil þar sem hann hefur beitt mannfræðilegum gleraugum á viðfangsefnið. Í þessum þætti er rætt um mótun ferðaþjónustu á Íslandi, orðræður henni tengdar og hvernig ferðaþjónustan, sem menningarlegt fyrirbæri, endurspeglar mikilvæga þætti í lífsháttum okkar og samfélagi, og hvernig hún tengist hugmyndum um „okkur“ og „hina“. Katrín Anna Lund er fædd 1964 í Reykjavík. Hún lauk BA prófi 1991 í mannfræði við HÍ, MA í mannfræði 1992 frá Háskólanum í Manchester og doktorsprófi í mannfræði 1998 frá sama skóla. Katrín Anna hefur stundað rannsóknir tengdum ferðamennsku og ferðamenningu með fyrirbærafræðilegar nálganir að leiðarljósi. Hún hefur, í samstarfi við Gunnar Þór Jóhannesson, rannsakað ferðamál á Íslandi, mótun leiða og áfangastaða fyrir ferðamenn. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 17. þáttur: „Allt fólk á sér áhugaverða sögu að segja“ - Unnur Dís Skaptadóttir Í þessum þætti er spjallað við Unni Dís Skaptadóttur, prófessor í mannfræði við HÍ, um yfirstandandi rannsókn hennar, Önnu Wojtynska og Pamelu Innes um gagnkvæm viðhorf og samskipti innflytjenda og heimafólks á mismunandi stöðum á Íslandi. Um er að ræða víðtæka og umfangsmikla langtíma vettvangsrannsókn þar sem farið er djúpt í samskipti og samlíf ólíkra hópa á ólíkum stöðum á landinu. Þetta spjall fjallar að miklu leyti um það að stunda vettvangsrannsókn – þó svo kórónuveiran hafi blandað sér í málið – og hvað það felur í sér og hvernig vettvangurinn mótar oft förina. Unnur Dís Skaptadóttir er fædd 1959 í Reykjavík. Hún lauk námi í þjóðfélagsfræði 1982 við HÍ, BA í mannfræði 1984 frá University of Massachusetts, Amerst og doktorsnámi 1995 í mannfræði frá The Graduate School and University Center of the City University of New York. Hún hefur m.a. stundað rannsóknir á stöðu kvenna í sjávarbyggðum á Íslandi, en hún hefur fyrst og fremst stundað yfirgripsmiklar rannsóknir á stöðu og reynslu innflytjenda, einkum kvenna, meðal annars í tengslum við vinnumarkaðinn á Íslandi og þær breytingar sem þar hafa átt sér stað, fyrir og eftir hrunið 2008. Eftir Unni Dís liggja viðamikil skrif, þar sem þættir eins og innflytjendur, farandfólk, hnattvæðing, fjölmenning og þverþjóðleiki eru miðlægir. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 18. þáttur: Heimurinn, geimurinn og dauðinn: mannfræði á skjánum - Jón Bjarki Magnússon Að þessu sinni heyrum við í sjónræna mannfræðingnum og heimildarmyndagerðamanninum Jóni Bjarka Magnússyni. Jón Bjarki segir okkur frá sinni sýn á mannfræðina og ferlinu á bakvið tvær heimildarmyndir sínar, annars vegar Even Asteroids Are Not Alone sem hlaut stuttmyndaverðlaun hinnar konunglegu mannfræðistofnunarinnar í Bretlandi (RAI) árið 2019 og hinsvegar Hálfur Álfur sem m.a. hlaut dómnefndarverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar 2020. Jón Bjarki er fæddur 1984 á Siglufirði og uppalinn þar. Hann nam ritlist við Háskóla Íslands og útskrifaðist með meistaragráðu í sjónrænni mannfræði við Freie Universität í Berlín 2018.Hann hefur starfað sem blaðamaður fyrir DV og Stundina auk þess sem skrif hans hafa birst í erlendum miðlum á borð við Slate í Bandaríkjunum og Correctiv í Þýskalandi. Hann hefur tvívegis hlotið blaðamannaverðlun blaðamannafélags Íslands, fyrir umfjöllun um stöðu hælisleitenda og flóttafólks á Íslandi sem og lekamálið. Kvikmyndaverk hans hafa verið sýnd á ýmsum kvikmyndahátíðum í Evrópu, svo sem Docslisboa, Transmediale í Berlín og alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tromsö, TIFF. Jón Bjarki sinnir kennslu í sjónrænni mannfræði við HMKW háskólann í Berlín, kvikmyndaverkefnum fyrir Filmmaking For Fieldwork (F4F™) verkefnið í Manchester, auk þess að vinna að eigin verkefnum í gegnum framleiðslufyrirtækið SKAK bíófilm sem hann rekur með Hlín Ólafsdóttur. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 19. þáttur: Að veiða úlfa - Stephanie Matti Gestur vikunnar í mannfræðihlaðvarpinu Raddir margbreytileikans er Stephanie Matti. Stephanie var fædd árið 1986 í Sviss en ólst upp í Nýju Suður Wales í Ástralíu. Hún kennir verkefnaáætlanir, eftirfylgni og úttektir við HÍ en hefur einnig haldið fyrirlestra um hættuástand, hörmungar og mannúðarviðbrögð. Hún er doktorsnemi við mannfræðideild HÍ þar sem hún er að rannsaka stóra sprungu fyrir ofan Svínafellsjökul og viðbrögð heimamanna við henni. Leiðbeinandi hennar er Helga Ögmundardóttir. Steph er með bachelor-gráðu í alþjóðasamskiptum frá La Trobe háskóla í Melbourne í Ástralíu. Rannsóknarefni hennar þar var námugröftur í Kongó og Kínverskar fjárfestingar. Hún er með meistaragráðu í alþjóðlegum fræðum frá Háskólanum í Genf þar sem hún rannsakaði kynferðislega hegðun starfsmanna í mannúðarviðbrögðum. Hún hefur unnið í Pakistan, Myanmar og Afghanistan. Við spjölluðum við Steph um doktorsritgerðina og lífið sem starfsmaður í Pakistan, Myanmar og Afghanistan. Stephanie Matti was born in 1986 in Switzerland but grew up in New south Wales in Australia. Steph teaches a course about project monitoring and evaluations as well as providing lectures on crises, disasters, and humanitarian response. She is a PHD student in the anthropology department and is currently doing research on a crack above Svínafellsjökull glacier and the effects on the people living and working in the area. Her supervisor is Helga Ögmundardóttir. Steph got her BIR from La Trobe university in Melbourne, Australia, where she focused on Congolese mining and Chinese investment. Her master's degree was in international studies at the University of Geneva where she focused on sexual behavior of humanitarian workers. She has worked in Pakistan, Myanmar, and Afghanistan. We spoke to Steph about her PHD study as well as life working in Pakistan, Myanmar, and Afghanistan. Þátturinn er á ensku. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 20. þáttur: „Hægt er að rekja farandmennsku frá upphafi mannkyns“ - Anna Wojtynska Í þessum þætti er rætt við Önnu Wojtynska, pólskættaðan mannfræðing, um rannsóknir hennar á farandfólki og innflytjendum í staðbundnu og hnattrænu samhengi. Þessar rannsóknir fjalla einkum um sögu, stöðu og þróun samfélags Pólverja á Íslandi og þær breytingar sem það hefur gegnið í gegnum. Rannsóknir Önnu hafa að miklu leyti fjallað um tengsl pólskra innflytjenda við íslenskan vinnumarkað, sem og hvernig þeim hefur gengið að setjast að í íslensku þjóðfélagi. Þar er komið inná aðlögun/samlögun, hlutverk tungumálatengsla og áhrif þverþjóðlegra samskipta á milli Íslands og Póllands. Einnig er rætt um leiðina frá fiskvinnslu til bókmennta og listsköpunar sem birtingarmynd breyttra aðstæðna sem einkenna hið margbreytilega samfélag pólskra innflytjenda á Íslandi. Anna Wojtyńska er fædd í Varsjá, Póllandi, 1975. Hún Lauk meistaraprófi í mannfræði við Þjóðfræði- og mannfræðideild Varsjár háskóla árið 2002 og Doktorsprófi í mannfræði frá HÍ 2019, um pólska innflytjendur á Íslandi. Anna Wojtynska kom fyrst til Íslands 1996 og hefur búið hér síðan og starfað frá 2003. Hún hefur komið að margskonar rannsóknum og vísindastörfum sem og kennslu, og auk þess sinnt ýmsum öðrum störfum (t.d. sem varaborgarfulltrúi í Reykjavíkurborg) og verkefnum, m.a. tengdum listrænni iðkun aðfluttra listamann og rithöfunda. Auk þess hefur hún skrifað fjöldann allan af greinum sem hafa einkum fjallað um þætti sem tengjast farandfólki og innflytjendum, í alþjóðlegu og íslensku samhengi. Meginrannsóknaráherslur hennar hafa verið og eru staða innflytjenda og farandfólks, einkum pólskra innflytjenda á Íslandi, um hvernig staða þeirra og störf hafa þróast í takt við aukinn margbreytileika þessa þjóðfélagshóps á Íslandi. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 21. þáttur: Mannfræði og kynjafræði: Tvískipt gleraugu - Hjálmar Gunnar Sigmarsson Gestur vikunnar er Hjálmar Gunnar Sigmarsson. Hjálmar er fæddur 1970 í Reykjavík en ólst upp að miklu leyti í Hong Kong og Lúxemborg en hefur auk þess búið í San Fransisco, Miami, Sarajevó, Utrecht, stundað nám í Budapest og Granada og unnið fyrir UNIFEM í Bosníu. Hjálmar lauk BA gráðu í heimspeki við Háskóla Íslands áður en hann fór í meistaranám í mannfræði við sama skóla. Í mannfræðinámi sínu skrifaði hann um vinnusemi Íslendinga undir leiðsögn dr. Unnar Dísar Skaptadóttur. Seinna kláraði hann aðra meistaragráðu en þá í kynjafræði við CEU í Búdapest og University of Granada. Í seinni tíð hefur hann blandað saman mannfræði og kynjafræði í rannsóknum sínum og störfum, meðal annars á Jafnréttisstofu og í UNIFEM. Við ræddum við Hjálmar um æsku hans í Hong Kong, hvernig hann rataði inn í mannfræðina og hvernig mannfræði, aktívismi og femínismi koma saman í vinnu hans en Hjálmar vinnur nú við ráðgjöf og fræðslu í Stígamót. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 22. þáttur: „Lögreglan þarf að endurspegla aukinn margbreytileika samfélagsins“ - Eyrún Eyþórsdóttir Í þessum þætti er rætt við Eyrúnu Eyþórsdóttur mannfræðing og lögreglufræðing um rannsóknir hennar og störf og ýmis mál sem komið hafa upp nýlega á Íslandi þar sem rasísk ummæli og atferli hefur verið ofarlega á baugi upp á síðkastið og vakið mikla opinbera athygli og gremju. Tengt þessu hafa meginrannsóknaráherslur Eyrúnar verið hlutverk löggæslu í fjölbreyttu samfélagi og hvernig lögreglan þarf að laga sig að síbreytilegum aðstæðum í íslensku samfélagi. Þetta tengist m.a. rannsóknum á hatursorðræðu og hatursglæpum, á Íslandi sem og í nágrannalöndunum, og uppgangi öfga hægri afla sem ala á útlendingahatri og rasisma. Rannsóknir og störf (kennsla) Eyrúnar hafa m.a. snúið að því hvernig þessir þættir hafa áhrif á störf lögreglunnar og hvort hún sé að bregðast við þessum þáttum á viðeigandi hátt. Hluti af þessum viðbrögðum er það sem kallast á ensku „racial profiling“, eða „kynþáttamiðuð greining“, þar sem kynþætt einkenni eru áberandi í því hvernig fólk er grunað um glæpi út frá ákveðnum staðalmyndum, eins og húðlit, en umræða um þetta hefur verið áberandi á Íslandi síðustu vikurnar. Kennsla í lögreglufræðum er og hefur verið mikilvægur hluti af starfi og rannsóknum Eyrúnar, þar sem áherslan er á að auka vitund, þekkingu og færni lögreglunnar þegar kemur að samskiptum við ólíka minnihlutahópa í íslensku samfélagi og hafa námskeið hennar við Háskólann á Akureyri einkum snúist um þær áherslur. Eyrún Eyþórsdóttir fæddist í Reykjavík 1973. Hún lauk BA prófi í mannfræði við HÍ 2003, MA prófi í félagsfræði við HÍ 2008 og doktorsnámi við HÍ í mannfræði 2022. Auk þess hóf hún nám í Lögregluskólanum árið 2003 og starfaði sem lögreglukona frá 2003 til 2018. Eyrún starfar nú sem lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 23. þáttur: „Mikilvægi þess að vera gagnrýnin og rífa kjaft“ - Guðrún Margrét Guðmundsdóttir Gestur þáttarins er mannfræðinginn Guðrún Margrét Guðmundsdóttir. Guðrún Margrét fæddist árið 1969 í Reykjavík. Hún lauk BA prófi í mannfræði við Háskóla Íslands árið 2000 og MA prófi í mannfræði við sama skóla árið 2004. Guðrún Margrét hefur dvalið víða og meðal annars búið í Doha í Katar, Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Kuwaitborg í Kuwait, Sana´a í Jemen og Kairó í Egyptalandi. Rannsóknasvið Guðrúnar Margrétar hafa snúið að ofbeldi á konum og jafnrétti í miðausturlöndum, en einnig hefur hún mikinn áhuga á alþjóðastjórnmálum og verkalýðsbaráttu. Guðrún Margrét hefur unnið hjá Rauða Kross Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti sem var og hét og starfar í dag sem sérfræðingur í málefnum fólks af erlendum uppruna á vinnumarkaði og jafnréttisfulltrúi hjá Alþýðusambandi Íslands. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 24. þáttur: Innflytjendur ekki viðurkenndir sem hluti af íslensku samfélagi - Pamela Innes Í þessum þætti er rætt við Pamelu Innes, dósent í mannfræði við Háskólann í Wyoming. Pamela á sér langan feril sem tungumála mannfræðingur og hefur einkum stundað rannsóknir sem tengjast tungumálum og málsamfélögum frumbyggjahópa í Norður-Ameríku. Í seinni tíð hefur hún unnið að rannsóknum með íslenskum mannfræðingum og öðru fræðafólki, einkum Unni Dís Skaptadóttur og Önnu Wojtynska, en á núlíðandi misserum hafa þær verið á vettvangi víða um Ísland við rannsóknir á samlífi innflytjenda og heimamanna. Unnur Dís og Anna Wojtynska hafa nýlega komið við sögu í þessu hlaðvarpi í tengslum við þessa miklu rannsókn. Framlag Pamelu til þessa verkefnis snýst einkum um þætti sem tengjast tungumálinu, og hvernig aðfluttum gengur að læra íslensku og tengjast samfélaginu betur með því að ná valdi á málinu. Pamela Innes fæddist 1963 í Chicago, en ólst upp í Omaha, Nebraska. Hún lauk BA námi 1986 frá Bryn Mawr College, í Bryn Mawr, Pennsylvaniu. Síðan lauk hún MA prófi 1992 frá University of Oklahoma, Norman, Oklahoma og doktorsgráðu lauk hún 1997 frá sama skóla. Doktorsritgerð hennar fjallaði um málsamfélög meðal Muskogee Stompdance fólksins. Eftir Pamelu liggur mikið magn greina og bókakafla, einkum um tungumálaþætti frumbyggjahópa í Norður Ameríku og samskipti þeirra við stjórnvöld og aðrar ráðastofnanir. Í seinni tíð hafa rannsóknir hennar í auknum mæli snúið að íslenskum aðstæðum, einkum stöðu innflytjenda hvað varðar íslenskukennslu þeirra, íslenskukunnáttu og aðgang þeirra að málsamfélagi heimamanna. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 25. þáttur: „En hvaðan ertu?“ Hið persónulega og hið pólitíska - Sanna Magdalena Mörtudóttir Gestur hlaðvarpsins er Sanna Magdalena Mörtudóttir, mannfræðingur og borgarfulltrúi. Sanna fæddist í Reykjavík 3. maí 1992 og hefur búið víða um höfuðborgarsvæðið og hér og þar í London Englandi. Hún lauk BA prófi í mannfræði árið 2015 við Háskóla Íslands og meistaraprófi í mannfræði árið 2018 við sama skóla. Rannsóknarsvið Sönnu snúa að margbreytileika, kynþáttafordómum og kynþáttahyggju en lokaritgerð hennar í meistaranáminu er um upplifun brúnna Íslendinga á því að tilheyra íslensku samfélagi. Sanna hefur unnið við ýmis störf, hún byrjaði snemma að bera út, vann sem vagtstjóri á veitingastöðum og í gestamóttöku, sem aðstoðarkennari í HÍ og aðstoðarmaður prófessors en í dag er hún borgarfulltrúi fyrir Sósíalistaflokk Íslands. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 26. þáttur: Stjórnvaldstækni ríkisvaldsins og „vofa“ móðurinnar móta karlmennskuvitund ungra flóttamanna - Árdís Kristín Ingvars Viðmælandi vikunnar er Árdís Kristín Ingvars, félags- og mannfræðingur, sem er aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands. Árdís fæddist í Reykjavík árið 1970. Hún lauk BA prófi árið 2010 í mannfræði við Háskóla Íslands og diplómu í hnattrænum tengslum, fólksflutningum og fjölmenningarfræðum árið 2013, frá HÍ. Árdís lauk MA námi í mannfræði við HÍ ári seinna. Árið 2019 lauk Árdís doktorsprófi í félagsfræði frá HÍ. Árdís hefur einkum rannsakað málefni flóttafólks, en einnig stöðu fatlaðra og atvinnuþátttöku þeirra á Íslandi. Ein helsta áhersla Árdísar hefur verið staða ungra karlkyns innflytjenda og flóttamanna, bæði hinsegin og gagnkynhneigðra, og mótun kyngervis þeirra í nýjum og framandi félagslegum og menningarlegum aðstæðum, og skörun þessara þátta við neikvætt pólitískt andrúmsloft gagnvart flóttafólki og vaxandi þjóðernishyggju. Þessir þættir hafa tengst aukinni öryggisvæðingu Evrópu þar sem ímynd karla frá Miðausturlöndum er í auknum mæli glæpavædd. Út frá þessum þáttum hafa rannsóknir Árdísar einkum fókuserað á hvernig ungum körlum á flótta hefur gengið að fóta sig í breyttum aðstæðum í framandi samfélagi sem virkir þátttakendur. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 27. þáttur: Frá Bodyshop til Malaví í skotheldu vesti með of stóran hjálm - Inga Dóra Pétursdóttir Gestur þáttarins er mannfræðingurinn Inga Dóra Pétursdóttir. Hún fæddist í Svíþjóð 8. janúar 1980 og ólst upp í Laugarás í Biskupstungum. Á fullorðinsárum hefur hún dvalið víða, meðal annars í Gvatemala, Spàni, Bandaríkjunum, Gana, Malaví og Mosambik. Hún lauk BA prófi í mannfræði árið 2004 við Háskóla Íslands og MA prófi í þróunarfræði árið 2010 við sama skóla. Í náminu beindi hún helst sjónum að heilsutengdri mannfræði með áherslu á Afríku og HIV. Í gegnum tíðina hefur Inga Dóra unnið við ýmis störf, meðal annars sem framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, sem jafnréttisfulltrúi NATO í Kabul, seinna sem jafnréttisfulltrúi World Food Programme í Mosambik og svo hjá utanríkisráðuneytinu. Í dag starfar hún sem forstöðukona sendiráðs Íslands í Malaví. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 28. þáttur: „Hóparnir sem ég hef unnið með hafna þjóðríkinu, landamærum og miðstýrðu valdi“ - Eyrún Ólöf Sigurðardóttir Eyrún Ólöf Sigurðardóttir er fædd 1982 í Reykjavík og alin upp í Hveragerði. Hún starfaði í barnastarfi Reykjavíkurborgar í nokkur ár (og þannig lenti hún í tómstundafræðinni) og hefur líka unnið mikið með öldruðum, bæði við aðhlynningu og sem tómstundafræðingur. Eyrún kom stuttlega við í unglingastarfi hjá borginni og hefur verið í grasrótarverkefninu Stelpur rokka! frá 2015 (hún skrifaði einmitt BA um kynjaskipt frítímastarf). Svo hefur hún verið talsvert á flakki um heiminn, var í fjarnámi fyrst þegar hún byrjaði í mannfræðinni og skrifaði verkefni á bókasöfnum og kaffihúsum hér og þar. Einnig hefur Eyrún unnið með No Border samtökunum fyrir réttindum flóttafólks og stundað annan aktívisma. Hún er mikið náttúrubarn og komu fjallaskálarnir inn í líf hennar sem sumarstarf þegar hún var í mannfræðinni, eitt það besta, segir hún, sem hefur komið fyrir hana er að fá að dvelja á fjöllum í langan tíma í senn. Eyrún er aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ. Megin áherslur í fræðum Eyrúnar eru: orðræður, staðalmyndir, fólksflutningar, vald og andóf, aktívismi og anarkismi, tómstunda- og félagsmálafræði. Í þessu samtali er fjallað um orðræðu tengda fólki á flótta, m.a. útfrá starfi íslensku Landhelgisgæslunnar við landamæragæslu í Miðjarðarhafinu, sem einnig fól í sér aðkomu að björgun flóttafólks í sjávarháska, en Eyrún skrifaði MA ritgerð sína um það mál. Rætt er um hervæðingu öryggismála og öryggisvæðingu mannúðarmála og útvistun verkefna því tengdu til einkaaðila, og fleira í þeim dúr, þar sem hugmyndir um þjóðernishyggju, yfirburðarhyggju og rasisma koma við sögu. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 29. þáttur: Kvikspuni, kakkalakkar og svissneskir vasahnífar - Unnur Helga Möller Viðmælandi hlaðvarpsins að þessu sinni er Unnur Helga Möller en hún er fædd á Akureyri 8. janúar 1985. Unnur Helga lauk BA prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands 2013 og MA prófi frá sama skóla 2015. Í lokaverkefnum sínum hefur hún tekist á við aðdáendasamfélög á netinu og kvikspuna á Norðurlöndum. Unnur Helga hefur búið í Austurríki, Þýskalandi, Bretlandi og Svíþjóð en er nú búsett í Hafnarfirði. Áhugasvið hennar tengjast öllum almennum nördaskap, tónlist, sviðslistum, þjóðbúningum og öllu sem er gamalt með sögu. Hún hefur í gegnum tíðina unnið sem söngvari, leiðsögumaður á söfnum, við tómstundafræðslu og efnissköpun en starfar nú sem viðburðastýra viðburða og miðlunar á Bókasafni Hafnafjarðar. Við ræddum við Unni Helgu um aðdáendamenningu, kvikspuna, bókasöfn og hvernig mannfræðin kemur inn í þetta allt saman. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 30. þáttur: „Hnattræni þróunariðnaðurinn er mjög yfirgrípandi hugtak yfir mjög fjölbreytilegan geira“ - Jónína Einarsdóttir Jónína Einarsdóttir fæddist 1954 í Reykjavík og ólst upp í Dölunum. Hún lauk BA prófi í mannfræði 1988 frá Stokkhólmsháskóla og doktorsprófi í mannfræði frá sama skóla árið 2000. Auk þess lærði hún spænsku, kennslufræði og efnafræði. Jónína er prófessor ímannfræði við Háskóla Íslands. Helstu rannsóknarsvið Jónínu hafa verið mannfræði barna og ungmenna, heilsumannfræði og rannsóknir á þróunarsamvinnu. Hún var lengi á vettvangi í Gíneu Bissá, í Vestur Afríku, þar sem hún rannsakaði margbreytilega þætti sem snéru að heilsu barna, barnadauða og sorgarviðbrögðum mæðra, brjóstagjöf og mansali á börnum. Hún hefur einnig rannsakað sögu og veruleika íslenskra barna sem voru „send í sveit“ á síðustu öld og velt fyrir sér ýmsum siðferðislegum spurningum því tengdu, t.d. hvort hægt sé að skilgreina það sem mansal. Þetta viðtal snýst einkum um söguleg og pólitísk samskipti, sem og valdaójöfnuð á milli ríkra landa og fátækra, það sem stundum er kallað tengsl Norðurs og Suðurs. Einn þáttur þessarasamskipta er þróunarhjálp, sem hefur verið umdeilt fyrirbæri meðal margra mannfræðinga. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 31. þáttur: „Frá Angóla til utanríkisráðuneytisins“ - Pétur Skúlason Waldorff Pétur Skúlason Waldorff er viðmælandi þáttarins. Pétur er fæddur 1. júlí 1979 í Reykjavík en hefur búið á Íslandi, í Angóla, Svíþjóð, Frakklandi og Kanada og dvalið hér og þar við rannsóknir m.a. í Malaví, Mósambík, og Tansaníu. Hann lauk BA námi í mannfræði við Háskóla Íslands árið 2003, MA prófi í mannfræði frá McGill University í Montreal í Kanada 2006 og svo doktorsnámi í mannfræði frá sama skóla 2015. Áhugasvið Péturs eru heimsmálin, fallegt og spennandi umhverfi, veiði og ferðalög. Hann hefur starfað sem akademískur rannsakandi, stundakennari og verkefnastjóri en í dag vinnur hann í utanríkisráðuneytinu og gegnir stöðu varafastafulltrúa Íslands gagnvart OECD í París. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 32. þáttur: „Andstæð sjónarmið skapa óvissu kringum rannsóknarstarf safna“ - Ólöf Gerður Sigfúsdóttir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fæddist 13. desember 1975 á Sauðárkróki. Hún lauk BA prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og MA í sömu grein árið 2002 frá Chicago háskóla og lauk síðan doktorsprófi í safnafræði frá Háskóla Íslands í október 2022. Í þessum þætti er rætt um doktorsritgerð Ólafar Gerðar, sem og mannfræðirannsóknir hennar. Doktorsritgerð Ólafar Gerðar beinir sjónum að rannsóknahlutverki opinberra safna, en rannsóknastarf safna er gjarnan hulið safngestum og fellur oft í skuggann af öðrum starfsþáttum eins og söfnun, skráningu, varðveislu, miðlun og fræðslu. Þannig miðar verkefnið að því að draga fram rannsóknir sem einn af grunnþáttum faglegs safnastarfs og skapa gagnrýna umræðu um hvað felst í því að stunda rannsóknir á safni. Mörg söfn, hvort sem er hér á landi eða erlendis, segjast ófær um að sinna þeim grunnþætti sem rannsóknir eru vegna skorts á starfsmönnum, tíma og fjármagni, meðan önnur líta á rannsóknir sem innbyggðan hluta af öllu því daglega starfi sem fer fram á söfnum. Þessi tvö andstæðu sjónarmið skapa andrúmsloft óvissu kringum rannsóknastarf safna, sem aftur á móti leiðir til óræðni um hvað telst til rannsókna á söfnum og hvað ekki. Doktorsritgerðin varpar ljósi á þessa óræðni með því að kanna hvernig þekking er sköpuð og henni miðlað á söfnum. Ritgerðin er byggð á fjórum ritrýndum tímaritsgreinum sem samanlagt móta mynd af safnarannsóknum gegnum fjögur sjónarhorn: hið safnafræðilega, hið stofnanalega, hið sýningarstjórnunarlega og hið þekkingarfræðilega. Undanfarin ár hefur Ólöf Gerður verið virk í opinberri umræðu um myndlist, söfn og rannsóknarpólitík hér á landi og tekið þátt margvíslegu starfi sem tengist söfnum og safnarannsóknum og tengslum þeirra við listir. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 33. þáttur: Mannleg hegðun og fjárhúsakenningin - Hildur Valdís Guðmundsdóttir Gestur þáttarins er Hildur Valdís Guðmundsdóttir. Hildur er fædd 31. október 1959 á Siglufirði en hefur auk þess búið í Húnavatnssýslu, Borgarfirði, Reykjavík, Færeyjum, Frakklandi og Fílabeinsströndinni. Hún lauk BA prófi í mannfræði árið 2005 frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í mannfræði 2007 og diplómanámi í þróunarfræðum 2009 frá sama skóla. Áhugasvið Hildar snúa að mannúðarmálum og að tilheyra.Hildur hefur unnið við sveitastörf, fiskvinnslu, skrifstofustörf, hjá Sameinuðu þjóðunum, í franska sendiráðinu á Íslandi og vinnur í dag í Kvennaathvarfinu. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. 34. þáttur: Að mynda bandalög hér og þar- Stella Samúelsdóttir Gestur hlaðvarpsins er Stella Samúelsdóttir. Stella er fædd 27. febrúar 1975 í Reykjavík en hefur auk þess búið í Ísrael, Ítalíu, Malaví og í New York og New Orleans í Bandaríkjunum. Hún lauk BA prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands 1999. Árið 2003 útskrifaðist hún með Post Graduate Diploma í alþjóðasamskiptum frá The Johns Hopkins Unversity og 2004 með Post Graduate Diploma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Einnig hefur hún D-vottun í verkefnastjórnun Endurmenntun HÍ (verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun) sem hún lauk 2010. Áhugasvið Stellu snúa að ferðalögum, mannréttindum og alþjóðamálum. Í gegnum tíðna hefur hún meðal annars starfað á verkfræðistofu, sem sérfræðingur á skrifstofu Þróunarsamvinnustofnunar í Malaví og haft yfirumsjón með ýmsum verkefnum þar, sem sérfræðingur hjá fastanefnd Íslands til Sameinuðu þjóðanna í New York, sjálfstætt starfandi ráðgjafi í þróunarmálum og rekið eigið fyrirtæki. Í dag starfar Stella sem framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify 35. þáttur: Hlutarnir og heildin - Kristín Harðardóttir og Hulda Proppé Gestir hlaðvarpsins að þessu sinni eru í fleirtölu, þær Kristín Harðardóttir og Hulda Proppé. Hulda er fædd 23. janúar 1971 í Reykjavík en alin upp í Hafnarfirði. Auk þess hefur hún búið í Champaign-Urbana í Illinois (USA), Minneapolis (Minnesota USA), New York (New York, USA), Cambridge (Massachusets (SA), Cambridge (Bretland) og býr nú í Reykjavík. Hulda lauk BA prófi í mannfræði 1997 og MA prófi í mannfræði 2002 við Háskóla Íslands en hluti af framhaldsnáminu var ár við University of Minnesota. Áhugasvið Huldu er Samfélag og menning, fólk og fjöll, ferðalög, útivist, list og handverk (mest prjónaskapur), fjölskylda og vinir. Í gegnum tíðina hefur hún unnið sem barnapía, skúringarkona, barþjónn og bóksali, stundakennari við HÍ í mannfræði, sérfræðingur hjá Sameinuðu Þjóðunum í New York og sérfræðingur hjá Rannís. Núverandi starf Huldu er sem rannsóknastjóri við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Kristín fæddist 21. júlí 1966 í Reykjavík en hún hefur auk þess búið í Garðabæ, Connecticut (USA) og Flórens (Ítalíu). Hún lauk BA námi í mannfræði 1998 og MA námi í mannfræði 2002 frá Háskóla Íslands. Áhugasvið Kristínar eru samfélag og menning, fólk, ferðalög, útivist, fjölskylda og vinir. Hún hefur unnið sem verslunarstjóri, í byggingarvinnu, sem aðstoðarmaður lögfræðings, aðstoðarmaður prófessors, verkefnastjóri Mannfræðistofnunar, við sérverkefni fyrir Stofnun Vilhjálms Stefansson, sem aðjunkt við mannfræðideild (2001-2012), sérfræðingur Félagsvísindastofnunar og forstöðumaður Mannfræðistofnunar (2005-2010) við HÍ. Í dag starfar hún sem forstöðumaður Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknastjóri við sviðið. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify 36. þáttur: „Það þarf sterkt afl til að við breytum til, afl eins og umhyggja fyrir börnunum okkar og jörðinni“ - Helga Ögmundardóttir Helga Ögmundardóttir fæddist í Neskaupstað árið 1965. Hún lauk Fil.kand. prófi 1992 frá Stokkhólmsháskóla, ásamt námi í heimspeki, vísindaheimspeki og -sögu, siðfræði, rökfræði, o.fl. frá sama skóla. Einnig lagði Helga stund á nám í lífvísindum við Háskóla Íslands og í Kaupmannahöfn, sem og garðyrkjufræði við Garðyrkjuskólann í Ölfusi. Helga lauk MA prófi 2002 í mannfræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í mannfræði 2011 frá Háskólanum í Uppsölum. Megin rannsóknaráherslur Helgu eru umhverfis- og orkumál, auðlindanýting og samskipti manna og náttúru almennt. Helga er dósent í mannfræði við Háskóla Íslands. Í þessum þætti mun vera spjallað um mannfræði og umhverfismál, loftslagsbreytingar og aðra þætti sem tengjast breyttum lífsskilyrðum á plánetunni bláu, og þeim sporum sem maðurinn er að marka á hana. Mögulegar afleiðingar þessara spora eru ræddar, sem og þeir möguleikar sem eru í stöðunni, ef ekki á að fara illa, nokkuð sem kallað hefur verið „djúp aðlögun“. Í því sambandi hefur komið fram nýtt hugtak, „vistmorð“, þar sem litið er á umhverfismál sem mannréttindamál, og þar sem glæpum gegn náttúrunni er stillt upp sem glæpum gegn mannkyni. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify 37. þáttur: „Rómafólk sem félagslegar risaeðlur á leið til glötunar“ - Marco Solimene Mannfræðingurinn Marco Solimene er viðmælandi í 37. þætti Röddum margbreytileikans. Marco er ítalskrar ættar, fæddur í Róm árið 1976 en hefur búið á Íslandi um langt skeið. Marco er með MA-gráðu í félagsfræði frá La Sapienza háskólanum í Róm og doktorsgráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa snúist um rómafólk frá Bosníu í Róm sem og á Balkanskaga og í Rúmeníu. Marco er nýráðinn sem lektor í mannfræði við HÍ. Í þessum þætti er rætt um yfirstandandi rannsókn Marco á stöðu rómafólks á Ítalíu gagnvart stjórnvöldum varðandi búsetu. Rómafólk hefur þá staðalímynd að vera varasamt flökkufólk, en staðreyndin er sú að sumt rómafólk færir sig reglulega frá einum stað til annars, á meðan margir hafa fasta búsetu. Þessi þjóðfélagshópur lifir við þá seigu hugmynd að vera sífellt á ferðinni, að „passa ekki inn“, að sniðganga lög og reglur, jafnvel að vera ógn við ríkið. Að hafa fasta búsetu er ráðandi hugmynd í flestum ríkjum og er forsenda fyrir viðurkenndri stöðu innan ríkisins og er einn af hornsteinum þjóðríkisins. Marco hefur rannsakað hvernig þessar hugmyndir hafa áhrif á þróunarverkefni ESB innan Evrópu, þar sem litið er á jaðarhópa eins og rómafólk sem „frumstætt“ og varasamt, og að vissu leyti ósjálfbjarga og hjálparþurfi. Þarna stangast á hugmyndin um stöðu „ríkisborgara“ og hóps sem fer sínar eigin leiðir við að lifa sínu lífi, og hefur sínar hugmyndir um búsetu, þar sem „þróunarhjálpin“ skilar ekki alltaf tilteknum árangri. Þessi þáttur er á ensku. Hlekkur á þáttinn. 38. þáttur: „Börnin hafna hefðbundnum leikreglum og skapa sínar eigin“ - Þóra Björnsdóttir Þóra Björnsdóttir er viðmælandi í 38. þætti mannfræðihlaðvarpsins Raddir margbreytileikans. Þóra er fædd 1986 í Reykjavík. Hún lauk BA námi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2009, MA gráðu í þróunarfræðum frá sama skóla 2011 og doktorsprófi frá HÍ 2023 sem fjallar um börn í Ghana sem ferðast frá norðurhluta landsins til höfuðborgarinnar í leit að betra lífi. Doktorsrannsókn Þóru varpar ljósi á líf barna sem flytja að heiman á eigin vegum fyrir átján ára aldur í Ghana og flutningsferli þeirra með áherslu á réttindi barnanna. Rannsóknin skoðar hvernig hefðbundin réttindi hagnast þessum börnum og hvernig þau móta sín eigin réttindi, svo-kölluð lífsréttindi, þegar hefðbundnu réttindin eru ekki fullnægjandi. Áhersla er lögð á sjónarhorn þátttakenda með raddir þeirra og atbeini í forgrunni. Þóra hefur starfað með börnum og ungu fólki í fjölda ára og starfar í dag sem verkefnastjóri frjálsra félagasamtaka þar sem hún, meðal annars, mótar og sinnir forvarnarfræðslu á ofbeldi gegn börnum. Hún hefur einnig starfað sem aðstoðarkennari og leiðbeinandi við HÍ, verið sérkennslustjóri á leikskólanum Holti, sem og verkefnastjóri Erasmus+ verkefnis sem snýst um andlega heilsu fólks. Í dag starfar Þóra sem verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheill – Save the Children in Iceland, en það verkefni snýst um kynheilbrigði barna. Hlekkur á þáttinn á Soundcloud. Hlekkur á þáttinn á Spotify. facebooklinkedintwitter