Gæðakerfi Háskóla Íslands Formlegt gæðakerfi háskóla Íslands (gæðakerfi HÍ) snýr að kjarnastarfsemi háskólans og stoðþjónustu. Í gæðakerfinu er kveðið á um gæðastefnu, ábyrgð, framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni með innra gæðamati háskólans. Gæðakerfi HÍ byggist á gæðastefnu Háskóla Íslands og er verkfæri til innleiðingar á henni. Rektor og háskólaráð bera ábyrgð á gæðakerfi HÍ og sviðsforsetar, deildarforsetar, sviðsstjórar og forstöðumenn stjórnsýslu bera ábyrgð á gæðum starfsemi þeirra rekstrareininga sem þeir stýra. Stefnu- og gæðaráð háskólaráðs hefur það hlutverk að tryggja og efla gæði náms, kennslu, rannsókna og stjórnunar við Háskóla Íslands. Í því felst m.a. að styrkja gæðakerfi HÍ og efla gæðamenningu innan háskólans. Stefnu- og gæðastjóri HÍ fylgir eftir ákvörðunum stefnu- og gæðaráðs. Ytra gæðamat á skilvirkni gæðakerfis HÍ er falið Gæðamati háskóla, en matið fer fram með stofnunarúttekt í hverri lotu rammaáætlunar um eflingu gæða í íslenskum háskólum og árlegri eftirfylgni með viðbrögðum háskólans við úttektinni. Show Grundvöllur Formlegt gæðakerfi Háskóla Íslands grundvallast á lögum um háskóla nr. 63/2006 þar sem m.a. er mælt fyrir um hlutverk háskóla og skilyrði viðurkenningar háskólastofnana á Íslandi. Samkvæmt lögunum setur ráðherra reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum (reglur nr. 1165/2024). Framkvæmd innra og ytra mats er útfærð í reglunum, en samkvæmt þeim bera háskólar ábyrgð á innra mati sem birtist í formlegu gæðakerfi þeirra á sviði kennslu og rannsókna, en ráðherra skipar sjálfstætt ráð, Gæðamat háskóla, sem fer með eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna ásamt því að móta og þróa Rammaáætlun um eflingu gæða í íslenskum háskólum. Gæðamat háskóla birtir viðmið um innra og ytra mat í handbók sem er gefin út fyrir hverja lotu áætlunarinnar. Í reglum um viðurkenningu háskóla (nr. 1067/2006) á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla er nánar kveðið á um veitingu og afturköllun viðurkenningar háskóla. Show Tilgangur Megin tilgangur gæðakerfis HÍ er að tryggja að háskólinn mæti væntingum innri og ytri hagaðila, uppfylli kröfur laga og reglna, skilgreini hlutverk og ábyrgð, takist á við áhættur og greini tækifæri til umbóta. Gæðakerfi HÍ tryggir innleiðingu gæðastefnu háskólans með reglubundinni rýni og endurskoðun sem skilar sér inn í hringrás stöðugra umbóta, sjá mynd 1. Show Ábyrgð og hlutverk Ábyrgð og hlutverkum í formlegu gæðakerfi HÍ varðandi gæði náms, kennslu og rannsókna er m.a. lýst í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Samkvæmt reglunum setja rektor og háskólaráð formlegt gæðakerfi HÍ og bera jafnframt ábyrgð á því. Samkvæmt reglunum ber forseti fræðasviðs ábyrgð á gæðum kennslu og rannsókna á sviðinu og deildarforseti ber í samráði við forseta fræðasviðs ábyrgð á skipulagi náms og gæðum kennslu og rannsókna í viðkomandi deild. Hlutverk sameiginlegrar stjórnsýslu er að skapa fræðasviðum, deildum, stofnunum og starfsfólki háskólans skilyrði til að vinna störf sín í samræmi við lög og reglur. Show Uppbygging Formlegt gæðakerfi HÍ er hannað til að framfylgja gæðastefnu Háskóla Íslands, en gæðakerfi HÍ byggist á gæðastefnunni og er verkfæri til innleiðingar á henni. Innleiðingin er tryggð með reglum háskólaráðs og gæðaskjölum í gæðahandbók HÍ sem skilgreina nánar ábyrgð og úrræði og tryggja verklag við gæðatryggingu og innleiðingu á innra gæðamati á kjarnastarfsemi háskólans og eftirfylgni skv. hringrás stöðugra umbóta. Innra gæðamat Í formlegu gæðakerfi Háskóla Íslands fer innra gæðamat fram með tvennum hætti, annarsvegar með símati, sem er stöðugt ferli þar sem fylgst er með lykilgögnum með skipulegum hætti, og hins vegar með reglulegu mati, sem er ítarlegra og fer fram reglubundið. Reglulegt mat er tvenns konar, reglulegt mat starfseininga og regluleg endurskoðun námsleiða. Símat Símat er stöðugt og skipulegt ferli sem byggir á markvissri rýni gagna og íhugun um hvernig til hefur tekist, hvað megi betur fara og hvernig skuli standa að umbótum. Ábyrgðaraðilar starfseininga (s.s. fræðasviða, deilda og sameiginlegrar stjórnsýslu) og aðrir sérfræðingar, sem tilgreindir eru af ábyrgðaraðilum, fylgjast með lykilgögnum um starfsemi sinnar starfseiningar. Gögnin eru rýnd eftir því sem þau eru aðgengileg á skólaárinu, á viðeigandi vettvangi, s.s. á deildarfundi eða í samræmi við ákvörðun ábyrgðaraðila. Í hverri starfseiningu er síðan árlega gerð grein fyrir helstu niðurstöðum rýninnar í greinagerð um símat ásamt uppfærðri aðgerðaáætlun. Sjá töflu 1, en verklagi við símat er lýst nánar í VLR 1240 Símat í gæðahandbók HÍ. Reglulegt mat Reglulegt mat byggir á símati, en fer fram reglubundið. Í reglulegu mati fara fram ítarlegri greiningar sem miða að því að kanna þörf á meiriháttar breytingum. Gerð er grein fyrir niðurstöðum reglulegs mats í greinagerð. Sameiginleg stjórnsýsla, fræðasvið og námsleiðir skulu undirgangast reglulegt mat í það minnsta einu sinni í hverri umferð Rammaáætlunar um eflingu gæða í íslenskum háskólum, í samræmi við gildandi Handbók um Rammaáætlunina. Forseti fræðasviðs leggur fram og fylgir eftir, í samráði við stjórn sviðsins og deildarforseta, áætlun um reglulega endurskoðun námsleiða og útfærir jafnframt og gerir áætlun um hvernig reglulegu mati skuli háttað innan starfseininga sviðs. Regluleg endurskoðun námsleiða Markmið með endurskoðun námsleiðar er m.a. að leiða í ljós hvort þörf sé á breytingum á viðkomandi námsleið, hvort ástæða sé til að leggja hana niður eða sameina hana öðrum námsleiðum. Reglulegt mat fræðasviða og annara starfseininga Í reglulegu mati fræðasviðs felst ítarleg greining á því hvernig tryggt er að gæðakröfur séu uppfylltar og hvort þörf sé á umfangsmiklum breytingum. Reglulegu mati fræðasviðs til grundvallar liggja m.a. greinagerðir um símat deilda og þverfræðilegra eininga og annarra starfseininga eftir atvikum, sjá töflu 1. Gerð er grein fyrir niðurstöðum í greinagerð um reglulegt mat, en verklagi er lýst nánar í VLR 1234 Reglulegt mat, í gæðahandbók HÍ. Ytra gæðamat Háskóla Íslands er gert að greina reglulega frá skilvirkni gæðakerfis HÍ í sjálfsmatsskýrslu um starfsemina og undirgangast stofnunarúttekt. Til grundvallar innra gæðamati stofnunarinnar liggja greinagerðir um reglulegt mat fræðasviða, aðrar greinagerðir og skýrslur sem kunna að liggja fyrir, auk lykilgagna um starfsemina. Fagráðuneyti felur Gæðamati háskóla ytra gæðamat, sem fer fram í samræmi við Rammaáætlun um eflingu gæða í íslenskum háskólum og lýst er í handbók um Rammaáætlunina, sem Gæðamat háskóla gefur út. Ytri úttekt á starfsemi háskólanna fer fram einu sinni í hverri lotu Rammaáætlunarinnar. Ytra gæðamat skiptist í tvo hluta: reglulegar stofnanaúttektir og árlega gæðafundi. Markmið stofnunarúttektar er að leggja óháð ytra mat á færni háskóla til að tryggja gæði starfsemi sinnar. Stofnunarúttekt skiptist í þrjá áfanga, skil stofnunar á sjálfsmatsskýrslu; vettvangsheimsókn úttektarnefndar og skýrslu um niðurstöður hennar. Á árlegum gæðafundum fer fram eftirfylgni Gæðamats háskóla með viðbrögðum háskólans við stofnunarúttekt. Show Gæðastefna Háskóla Íslands Tilgangur Gæðastefnu Háskóla Íslands (HÍ) er ætlað að tryggja og auka gæði starfsemi skólans. Gæðastefnan er vegvísir fyrir starfsfólk og nemendur og styður við heildarstefnu HÍ. Gæðastefnan leggur grunninn að formlegu gæðakerfi HÍ. Hún lýsir áherslum og markmiðum HÍ við stjórnun gæða kjarnastarfsemi skólans til að hún uppfylli sem best væntingar nemenda, háskólasamfélagsins og ytri hagaðila. Gæðastefnan byggir á grunngildum HÍ um akademískt frelsi, jafnrétti og fagmennsku, en jafnframt á heildarstefnu og siðareglum skólans. Kröfur og leiðbeiningar um gæðatryggingu háskóla í Evrópu (Standards and guidelines for quality assurance in the European Higher Education Area, ESG) eru einnig leiðarljós stefnunnar. Ábyrgð og hlutverk Rektor og háskólaráð setja gæðastefnu HÍ og stefnu- og gæðastjóri ber ábyrgð á innleiðingu hennar. Starfsfólk og nemendur bera ábyrgð á framkvæmd gæðastefnunnar. Markmið HÍ uppfyllir gæðakröfur sem settar eru á innlendum og alþjóðlegum vettvangi Tryggt er að starfsemi HÍ samræmist m.a. kröfum og leiðbeiningum um gæðatryggingu háskóla í Evrópu (Standards and guidelines for quality assurance in the European Higher Education Area, ESG), lögum um háskóla nr. 63/2006 og þeim reglum sem settar hafa verið á grundvelli laganna. HÍ framkvæmir kerfisbundið innra gæðamat á kennslu og rannsóknum Innra gæðamat á kjarnastarfsemi HÍ fer fram á vettvangi fræðasviða, deilda, námsbrauta og annarra starfseininga eftir því sem við á. HÍ framfylgir stefnumiðaðri stjórnun í umbótahringrás Heildarstefnu HÍ er framfylgt með hliðsjón af innra gæðamati starfseininga og innra gæðamatið styður við framkvæmd stefnumarkandi markmiða skólans. Ákvarðanataka innan HÍ er byggð á grunni áreiðanlegra gagna Lykilgögnum og upplýsingum er safnað með reglubundnum hætti, þau eru áreiðanleg, árangur er metinn og ákvarðanir teknar með hliðsjón af þeim. HÍ viðhefur samræmt og gagnsætt verklag Vinnubrögð eru samræmd og kerfisbundin og ábyrgð er skýr um það verklag sem er sameiginlegt starfseiningum HÍ. Innri og ytri hagaðilar eru virkir þátttakendur við framkvæmd gæðastefnunnar Starfsfólk, nemendur og ytri hagaðilar taka virkan þátt í reglubundnu umbótastarfi innan HÍ. Innleiðing og endurskoðun Formlegt gæðakerfi HÍ byggir á gæðastefnu skólans og er ætlað að tryggja innleiðingu hennar. Árangur af innleiðingu gæðastefnunnar skal metinn á fimm ára fresti af stefnu- og gæðaráði og endurskoðuð í samræmi við niðurstöður innra og ytra gæðamats. Tengt efni Gæðastefna Háskóla Íslands Prentvæn útgáfa Handbók um formlegt gæðakerfi Háskóla Íslands facebooklinkedintwitter