Verkefnið heitir Hreiðurstæðaval æðarkollna í Breiðafirði – langtíma stofnrannsókn. Um er að ræða árvisst langtíma verkefni sem fylgist með merktum æðarkollum við sunnanverðan Breiðafjörð. Gögnin eru notuð til að mæla lífslíkur, varpárangur og tryggð fuglana við hreiðurstæði. Varptími er metinn með álegustigsprófi og fjöldi eggja er skráður.
Alls er búið að merkja 1031 kollur í þessu verkefni og endurheimta 688 kollur a.m.k. einu sinni (2014-2020). Árlega hafa verið fangaðar 100-200 æðarkollur og nokkrir tugir litmerkja lesin til viðbótar. Merkt var í Landey og Hjallsey 2014 en á sjö stöðum 2015-2016 (Landey, Hjallsey, Stakksey, Þorvaldsey, Sellátri, Rifgirðingum og Elliðaey). Loks var fjórum nýjum eyjum var bætt við 2017, þ.e. Bíldsey, Höskuldsey, Gimburey og Þormóðsey.
Markmiðin eru að
- kanna hvort æðarkollur færi sig milli eyja, þ.e. sýni mismunandi átthagatryggð milli eyja og ára.
- skýra einstaklingsbreytileika í vali á hreiðurstæði og varpárangri.
- bera saman varpárangur, dagsetningu varps og álegu milli rannsóknareyjanna, sem eru ólíkar um staðhætti, gróðurfar, afræningja og tegundir varpfugla sem hafa áhrif á öryggi æðarkollnana;
- kanna hvort tryggð við hreiður eykst með hækkandi aldri merktra kvenfugla.
Merkin og litir þeirra
Landey (hvít með svörtum stöfum), Hjallsey (svört með hvítum stöfum), Stakksey (gul með svörtum stöfum), Sellátri (græn með hvítum stöfum), Þorvaldsey (appelsínugul með hvítum stöfum), Elliðaey (appelsínugul með svörtum stöfum) og Rifgirðingum (blá með hvítum stöfum). Sumarið 2016 var haldið áfram í sömu eyjum en 2017 var Þormóðsey (hvít með rauðum stöfum), Gimburey (rauð með hvítum stöfum), Höskuldsey (gulllituð með rauðum stöfum) og að lokum Bíldsey (bleik með hvítum stöfum) bætt við verkefnið. Við reynum að fara í flest allar eyjarnar á hverju ári.
Fuglarnir eru merktir á hreiðrum meðan á álegu stendur og tökum við ýmsar mælingar á fuglunum sem og á hreiðrum. Nota þarf myndavél með aðdráttarlinsu (400 mm) til að lesa merkin en þó má lesa þau með sjónauka af 50 metra færi standi fuglinn kyrr. Ætlan okkar er að með vökulum augum og góðri skráningu verði metið hvers oft fuglarnir færi sig milli varpa eða innan varpa.