
Hallormsstaðaskóli var stofnaður árið 1930 af Sigrúnu P. Blöndal og Benedikt G. Blöndal. Fyrsta skólasetningin fór fram 1. nóvember það ár, þar sem skólinn bauð upp á einstakt tveggja ára húsmæðranám með áherslu á bókleg fræði, menningu og handverk.
Árið 1970 þróaðist námið í eins árs hússtjórnarnám og var síðar stytt í eitt misseri. Í anda frumkvöðlastarfs Sigrúnar var árið 2019 sett á laggirnar nýtt nám í skapandi sjálfbærni, byggt á grunni upprunalegrar námskrár hennar. Námið var kennt á 4. hæfniþrepi framhaldsskólastigs en er nú á háskólastigi frá og með hausti 2025.
Frá upphafi hefur skólinn verið fræðslu- og menningarsetur þar sem kennsla hefur ávallt byggst á sjálfbærnihugsjón. Hagnýt handverksþekking er ofin saman við siðferði náttúrunytja, vísindi, staðbundna þekkingu og nýtingu hráefna, með næmni fyrir samtíma, samfélagi, menningu og sögu.

Með því skrefi sem nú er stigið heldur skólinn áfram að vera miðstöð nýsköpunar, sjálfbærni og skapandi menntunar, þar sem arfleifð stofnendanna lifir í gegnum framtíðarsýn skólans.
Skólahúsið á Hallormsstað er fallegt steinsteypt hús teiknað af Jóhanni Fr. Kristjánssyni og var það friðað árið 2016. Skólinn er staðsettur í hjarta Hallormsstaðaskógar um 27 km frá Egilsstöðum.
Hallormsstaðaskóli að sumri.