Komið getur í ljós á námstíma til doktorsprófs að nemandi muni ekki ljúka doktorsnámi á tilsettum tíma að mati nemandans eða doktorsnefndar. Undir sérstökum kringumstæðum (sbr. nánar skilyrði í 19. tölulið 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands) getur þá doktorsnefnd mælt með því við fastanefnd deildar eða fræðasviðs að doktorsnámi verði hætt og nemanda gefist kostur á að brautskrást með prófgráðuna M.Phil. Samþykki fastanefnd tillögu doktorsnefndar hefur nemandi 12 mánuði frá ákvörðun fastanefndar til að ljúka ritgerð/verkefni sem að mati skipaðs prófdómara stenst kröfur sem gerðar eru til M.Phil.-gráðu. Námskröfur til M.Phil.-gráðu Við stofnun námsleiðar til M.Phil.-gráðu tiltekur deild þær lágmarks-námskröfur sem gerðar eru til nemanda. Lágmarks-námskröfur geta t.d. falist í því að ljúka ritgerð sem byggir á einni birtri vísindagrein eða ítarlegri ritgerð án birtra greina (monographia). Þá getur deild einnig gert kröfu um að tilteknum námskeiðum sé lokið. Einn prófdómari metur lokaverkefni til M.Phil.-gráðu. Skal hann hafa doktorspróf og vera starfandi utan viðkomandi fræðasviðs. Að öðru leyti gilda um lokapróf til M.Phil.-gráðu reglur sviðs um stærri meistaraverkefni, þ.e. meira en 30 ECTS. facebooklinkedintwitter