Show Fyrirlestraröð vor 2025 Prófundirbúningur og próftaka: Miðvikudaginn 2. apríl, kl. 14:00 – 14:45 á Teams – Opnað fyrir skráningu 26. mars Þessi fyrirlestur fjallar um atriði sem styrkja nemendur í því að takast á við próf og prófatímabil á heilbrigðan hátt. Farið er yfir þætti sem snúa að persónulegum undirbúningi nemenda, atriði sem varða próftökuna sjálfa og hvað sé gott að hafa í huga varðandi mismunandi prófform og fjölbreytta próftöku. Show Núvituð samkennd í eigin garð Námskeiðið er á þriðjudögum frá 4. mars til 8. apríl, kl. 17:00 - 18:30 í Aðalbyggingu, A-051. Helstu efnisatriði Núvituð samkennd í eigin garð er alþjóðlegt námskeið byggt á gagnreyndum aðferðum. Höfundar eru Dr. Kristin Neff og Dr. Christopher Germer. Námskeiðið felur í sér færniþjálfun í að mæta sjálfum sér á erfiðum augnablikum með mildi, umhyggju og skilningi. Áhersla er lögð á að þjálfa samkennd í eigin garð með því að vinna með þrjá lykilþætti; núvitund, sameiginlega mennsku og góðvild í eigin garð. Núvitund hjálpar okkur að vera meðvituð um líðandi stund og að gangast við því sem er. Sameiginleg mennska hjálpar okkur að vakna til vitundar um hvernig við tengjumst öll og erum ekki ein, heldur öll á sama báti. Góðvild í eigin garð hjálpar okkur að mæta erfiðleikum og okkur sjálfum út frá því sem við raunverulega þurfum á að halda. Aukin vitund um þessa þrjá þætti og þjálfun þeirra styður við okkur á erfiðum stundum. Öll getum við lært að sýna okkur samkennd og mildi. Samkennd í eigin garð er hugrökk afstaða, hún styður okkur í að bregðast við þeim erfiðleikum sem við ómeðvitað sköpum okkur sjálf, t.d. með neikvæðri sjálfsgagnrýni, með því að einangra okkur eða með því að festast í óhjálplegum aðferðum. Aukin samkennd í eigin garð veitir tilfinningalegan styrk og þol. Hún hjálpar okkur að viðurkenna og gangast við okkur sjálfum eins og við erum, hvetja okkur áfram með vinsemd, fyrirgefa okkur þegar þörf er á, tengjast öðrum af heilum hug og leyfa okkur að vera við sjálf. Sífellt fleiri rannsóknaniðurstöður sýna sterk tengsl á milli samkenndar í eigin garð og vellíðunar, minni kvíða, þunglyndi og streitu ásamt því að efla heilbrigðar lífsvenjur og styrkja tengsl okkar við aðra. Eftir þátttöku á þessu námskeiði munt þú geta: - Iðkað núvitaða samkennd í eigin garð í daglegu lífi. - Hvatt þig áfram með góðvild í stað gagnrýni. - Höndlað erfiðar tilfinningar á mildari máta. - Umbreytt því hvernig þú nálgast erfið tengsl innra með þér. - Tekist á við kulnun. - Skilið vísindin á bak við samkennd í eigin garð. - Notið lífsins og notið samveru við þig betur. Við hverju má búast? Námskeiðið felur í sér fjölbreytta þjálfun s.s. hugarþjálfun, hugleiðsluæfingar, fræðslu, skriflegar æfingar, umræður og heimaæfingar. Markmiðið er að þátttakendur upplifi samkennd í eigin garð og geti nýtt hana í daglegu lífi. Þetta er námskeið sem eykur tilfinningalæsi, tilfinningalegt þolgæði og styrk. Lagt er upp úr því að þjálfunin sé nærandi og ánægjuleg. Námskeiðsgjald er 4000 kr. Skráning fer einungis fram á Þjónustuborðinu, Háskólatorgi. facebooklinkedintwitter