Þegar þú sækir um nám þarftu fyrst af öllu að opna umsóknagátt HÍ. Hér velur þú með hvaða hætti þú auðkennir þig við innskráningu í umsóknagáttina.
- Fólk með íslenska kennitölu auðkenna sig með innskráningu í gegnum island.is.
- Fólk sem er ekki með íslenska kennitölu notar innskráningu með netfangi. Við innskráningu með netfangi er áríðandi að fylla út alla reiti með réttum hætti og styðjast við upplýsingarnar í vegabréfinu.
- Fólk með íslenska kennitölu en lögheimili erlendis (ekki með íslenskt símanúmer) þurfa að innskrá sig með netfangi.
Umsóknin
Til að sækja um nám þarf að velja flipann:
- Ný umsókn – námsleiðir
Hér er í boði að setja inn leitarskilyrði en það er nóg að setja skilyrði í einn valreit.
- Efsti reiturinn er til að leita að ákveðinni námsleið og þar fyrir neðan er hægt að velja námsstig og fræðasvið. Ef sett er inn til dæmis grunnnám í námsstig birtist listi yfir allt grunnnám sem er í boði.
- Námsleiðir sem hægt er að sækja um hverju sinni eru með grænum hnapp: „Sækja um“.
- Einnig er hægt að velja hnappinn „i Nánar“ til að skoða upplýsingar um námsleiðina í Kennsluskrá HÍ.
- Eftir að hafa valið hnappinn „Sækja um“ opnast tímabundið nýr flipi „Umsókn“ og þar þarf að lesa vel allar upplýsingar. Fylla þarf inn í alla viðeigandi reiti og ekki er hægt að ljúka við umsókn fyrr en stjörnumerktir reitir hafa verið útfylltir.
- Fylgiskjöl þarf oftast að hengja við inn í viðeigandi reiti í umsókninni. Nánari upplýsingar um fylgiskjöl með umsókn.
Neðst á umsóknarsíðunni getur þú valið:
- Vista – ef þú vilt ekki senda umsóknina inn strax.
- Senda umsókn – þegar umsókn hefur verið send fer hún í nánari úrvinnslu hjá Nemendaskrá. Ekki er hægt að afturkalla umsókn en hún fellur niður ef skrásetningargjald er ekki greitt.
- Hætta við – ef hætt er við að sækja um. Upplýsingar vistast ekki ef hætt er við umsókn.
Athugið! Einungis erlendir umsækjendur utan svæðis (EEA/EFTA) þurfa að greiða 20.000 kr. umsóknargjald um leið og sótt er um skólavist. Greiðslumöguleikinn kemur upp þegar valið er „Senda umsókn“ og opnast greiðslusíða Valitors.
Skoða umsókn
Ef þú vilt skoða umsókn sem er vistuð eða senda hana inn þarf að fara í flipann:
- Yfirlit umsókna
Þar birtist listi yfir umsóknir. Þar þarf að fylgjast með umsóknarferlinu og afgreiðslu umsóknar.
Ef sótt er um fleiri en eina námsleið í grunnnám gildir nýjasta umsóknin í grunnnámið og aðrar falla niður.
Samþykkt skólavist og greiðsla
Þú sérð hvort umsókn er samþykkt eða ekki undir „Yfirliti umsókna." Ef umsókn er samþykkt þarf einnig að greiða skrásetningargjaldið undir þessum flipa.