Hugvísindastofnun er rannsóknastofnun sem starfrækt er við Háskóla Íslands og heyrir undir Hugvísindasvið. Hún er miðstöð rannsókna á sviðinu og aðrar rannsóknastofnanir þess starfa innan vébanda hennar.
Fastastarfsemi Hugvísindastofnunar er hluti af stjórnsýslu- og skrifstofuþjónustu sviðsins. Stofnunin veitir kennurum sviðsins ýmsa þjónustu, einkum við styrkumsóknir og fjárhagsumsýslu.
Hugvísindastofnun gefur út tímaritið Ritið, öflugt og vandað fræðirit sem er í fararbroddi menningar- og þjóðfélagsumræðu á Íslandi.
Innan Hugvísindastofnunar starfa sex grunnstofur, auk þess sem ein rannsóknastofa gegnir sambærilegu hlutverki:
- Bókmennta- og listfræðastofnun
- Guðfræðistofnun
- Heimspekistofnun
- Málvísindastofnun
- Rannsóknastofa í fornleifafræði
- Sagnfræðistofnun
- Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum
Allir fastir starfsmenn sviðsins eiga aðild að einni fræðistofu, eða grunnstofu, jafnframt því að eiga aðild að Hugvísindastofnun. Innan fræðistofanna er sameiginlegur vettvangur þeirra sem fást við rannsóknir af sama meiði. Allar stofurnar standa fyrir ráðstefnum og málþingum og flestar gefa út bækur á fræðasviðum sínum. Sumar eiga sér langa hefð í útgáfu - þannig hefur helsta ritröð Bókmennta- og listfræðastofnunar, Studia Islandica, komið út í yfir 60 ár.
Samkvæmt reglum Hugvísindastofnunar geta einnig starfað innan hennar sjálfstæðar rannsóknastofur með heimilisfesti á Hugvísindasviði. Þær eru faglega sjálfstæðar og starfa samkvæmt starfsreglum sem stjórn Hugvísindastofnunar setur að fengnu samþykki stjórnar fræðasviðsins. Innan Hugvísindastofnunar eru nú þrjár sjálfstæðar rannsóknastofur:
Enn fremur geta Hugvísindastofnun og grunnstofur, í samráði við stjórn Hugvísindastofnunar, komið á fót sérstökum rannsóknastofum sem sinna tilteknum rannsóknaverkefnum, rannsóknasviði eða samstarfi, samkvæmt starfsreglum sem stjórn viðkomandi stofu setur þeim. Þá hefur Hugvísindastofnun gert samstarfssamning við stofnanir og rannsóknasetur sem starfa á sviði hugvísinda.