Við heyrum sífellt oftar umræðu um mikilvægi menntunar til sjálfbærni á öllum skólastigum og að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun séu vegvísir þjóða heims til ársins 2030. Auk þess gefa fyrirtæki og stofnanir í auknum mæli út sjálfbærniskýrslur. En hvað er sjálfbærni? Hver er sagan að baki þessu hugtaki og af hverju er sjálfbærni mikilvæg?
Í tímamótaskýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1987, Our Common Future sem er betur þekkt sem Brundtland-skýrslan, er sjálfbær þróun skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum“. Þessi skilgreining leggur áherslu á fleira en umhverfisþætti og segir þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar vera; samfélag, efnahag og náttúru. Þessar stoðir tengjast allar innbyrðis og ef ein stoðin veikist eiga þær allar á hættu að falla.
Áður en hugtakið um sjálfbæra þróun kom til sögunnar var gjarnan litið svo á – bæði hjá stjórnvöldum og fyrirtækjum – að hinn efnahagslegi grunnur væri það sem mestu máli skipti og ef hagsmunir náttúru og samfélags rækjust á við hagræn sjónarmið yrðu hagsmunir náttúru og samfélags að víkja.
Í upphafi umræðunnar um sjálfbæra þróun var lögð áhersla á að stoðirnar þrjár væru allar jafn mikilvægar. Með aukinni þekkingu í fyllingu tímans er nú ljóst að efnahagslegur vöxtur getur ekki farið út fyrir þau endanlegu mörk sem vistkerfi Jarðar setja okkur. Auðlindir Jarðar eru takmarkaðar og með því að ofnýta þær röskum við viðkvæmu jafnvægi vistkerfa og loftslags á jörðinni eins og dæmin hafa sannað og við fáum nú daglega fréttir af víða úr heiminum.
Hinar þrjár stoðir sjálfbærni eru samfélag, náttúra og efnahagur. Náttúra og umhverfi eru vissulega undirstaða þess að sjálfbærni verði náð enda setur náttúran umsvifum okkar mannfólksins mjög ákveðnar skorður, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Sjálfbærni er þrátt fyrir það mun víðfeðmara hugtak en að það snúist einungis um náttúru og umhverfi. Hugtakið snertir heilsu og vellíðan, félagslegt réttlæti, menningarmál og efnahagslíf. Sjálfbær þróun leggur áherslu á mikilvægi heildarsýnar og langtímahugsunar – ekki skammtímalausnir og gróða.
Dæmi um ofnýtingu eru meðal annars skógareyðing, útrýming tegunda og loftslagshamfarir. Að vera sjálfbær felur í sér að skapa efnahagslegt og samfélagslegt kerfi sem skaðar ekki náttúruna. Þetta er áskorun á skala sem ekki hefur sést áður.
Við heyrum oft talað um að eitthvað sé sjálfbært, til dæmis sjálfbær nýting náttúruauðlinda, sjálfbær framleiðsla og sjálfbær neysla. Þegar sjálfbærni er notað á þennan máta er átt við að starfsemin styðji við sjálfbæra þróun, að framleiðslan, neyslan og nýtingin taki ekki meira frá náttúrunni en jörðin nær að endurnýja, með öðrum orðum að ekki sé gengið á höfuðstólinn.
Til að takast á við þær risavöxnu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem um er að ræða loftslagshamfarir, fátækt, stríð eða misskiptingu auðs, þurfum við að sýna sjálfbærni í verki. Þetta kallar á langtímasýn, þrautseigju og hugrekki. Hvert og eitt okkar, háskólar, þjóðir heims, stór og smá fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og einstaklingar, þarf að takast á við þessa áskorun í sameiningu.
En hvað getum við gert? Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til sjálfbærni og þar með skapað betri framtíð fyrir okkur öll, á Íslandi og í heiminum öllum? Lausnin liggur í að tileinka sér hugarfar sjálfbærni, að hætta að hugsa um sjálfbærni sem tískuorð og taka upp sjálfbæran lífsstíl.
Háskólastofnanir leika lykilhlutverk í að leiða mjög svo þarfar samfélagsbreytingar. Sem miðstöð fyrir leiðtoga framtíðarinnar bera háskólar mikla ábyrgð, meðal annars í að þjálfa leiðtogahæfni og hlúa að borgaravitund. Þessar miklu hnattrænu áskoranir kalla á ný sjónarmið og eru háskólar í fararbroddi við að hvetja til þarfra umbreytinga. Háskóli Íslands stefnir á að vera leiðandi á sviði sjálfbærni og hefur þess vegna innleitt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu HÍ fyrir 2021–2026 (HÍ26), þar sem sjálfbærni og fjölbreytileiki er ein af grunnstoðum stefnunnar. Okkar markmið er að stuðla að áframhaldandi vinnu við sjálfbærni innan HÍ, gera góðan háskóla enn betri þegar kemur á því að takast á við hnattrænar áskoranir og skapa sjálfbærari framtíð.