Samþykkt í háskólaráði 8. september 2022
- Stefna Háskóla Íslands er að tryggja starfsfólki og nemendum öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi.
- Markmið Háskóla Íslands er að vera slysalaus vinnustaður og að enginn bíði heilsutjón af starfi sínu eða námi innan skólans.
- Lög sem gilda um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eru lögð til grundvallar við að tryggja öruggt vinnuumhverfi og leitast er við að lágmarka áhættu og mögulegar slysagildrur á háskólasvæðinu.
- Háskólinn vill hafa góðan öryggisbrag á starfsemi sinni og að öryggismenning starfsfólks og nemenda sé sterk. Þannig getur háskólinn verið leiðandi í því að efla öryggisvitund í íslensku samfélagi.
- Starfsfólk og nemendur eiga að vera öðrum góð fyrirmynd. Þeim ber að gæta að eigin heilsu og öryggi og gæta þess að starfsemi skólans valdi ekki óþægindum eða skaða, hvort sem er innan eða utan háskólasvæðisins.
- Það er skylda starfsfólks og nemenda að benda á það sem betur má fara því aðeins með stöðugum umbótum, samráði og almennri þátttöku getur stefna háskólans náð tilætluðum árangri.
Tengt efni