Heiðursdoktorsnafnbót er veitt til að heiðra einstakling fyrir framlag sitt í tiltekinni fræðigrein, til Háskólans eða til íslensks samfélags almennt. Nánari upplýsingar um viðmið við veitingu doktorsnafnbótar í heiðursskyni má finna hér undir heiðursdoktorsnefnd. Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um þá sem hlotið hafa heiðursdoktorsnafnbót við Jarðvísindadeild. Sigfús Jóhann Johnsen, eðlis- og jöklafræðingur Sigfús Johnsen (1940-2013) var eðlis- og jöklafræðingur við Hafnarháskóla og einn af kunnustu vísindamönnum Íslendinga. Hann starfaði að borunum og rannsóknum á ískjörnum úr Grænlandsjökli um 40 ára skeið og hafa niðurstöður þeirra skilað einstökum niðurstöðum varðandi veðurfarssveiflur á norðurhveli Jarðar sl. 125,000 ár. Sigfús gegndi stöðu lektors við Hafnarháskóla frá 1969 til 2010 og á árunum 1979-1999 var hann lektor og síðar prófessor við Háskóla Íslands. Sigfús varð sjötugur 27. apríl 2010 og af því tilefni var haldin ráðstefna við Háskóla Íslands um loftslagsbreytingar í fortíð og framtíð. Áformað var að ráðstefnan yrði haldin í maí, en vegna eldgossins í Eyjafjallajökli varð að fresta henni þar til í ágúst. Sunnudaginn 29. ágúst 2010, var dagskrá í Öskju á íslensku sem ætluð var jafnt almenningi og fræðafólki. Dagana 27. og 28. ágúst var hin alþjóðlega ráðstefna haldin í Hátíðasal Háskóla Íslands með þátttöku erlendra vísindamanna, sem starfað höfðu með Sigfúsi J. Johnsen að ýmsum þáttum ofangreindra rannsókna á liðnum áratugum. Sérstök áhersla var þar á merkustu framlög Sigfúsar til könnunar á sögu veðurfars og andrúmslofts, auk þess sem fjallað var sérstaklega um ískjarnarannsóknir. Sigfúsi var sæmdur heiðursdoktorsnafnbótinni á ráðstefnunni. Við sama tækifæri var honum einnig afhent skjal frá Jöklarannsóknafélagi Íslands, en félagið gerði hann að heiðursfélaga í tilefni af sjötugsafmæli Sigfúsar og sextíu ára afmæli félagsins. Sigfús hlaut Seligman-kristallinn, æðstu viðurkenningu Alþjóðasambands jöklafræðinga (International Glaciological Society), en kristallinn er aðeins veittur þeim sem hafa unnið framúrskarandi störf á sviði jöklarannsókna. Margrét Þórhildur Danadrottning veitti Sigfúsi Dannebrogs-riddaraorðu fyrir fræðistörf sín, jafnframt því var Sigfús handhafi Hans Oeschger-orðu Evrópusambands jarðeðlisfræðinga (EGS). Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur Haraldur Sigurðsson var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót frá Jarðvísindadeild við athöfn sem fram fór í Hátíðarsal Háskólans 22. janúar 2011. Þar flutti Haraldur erindi um rannsóknir sínar á eldfjöllum víða um heim. Haraldur er fæddur 1939, nam jarðfræði við Háskólann í Belfast og lauk doktorsprófi við Háskólann í Durham 1970. Mestallan sinn starfsaldur var hann erlendis, lengst af sem prófessor við Háskólann í Rhode Island í Bandaríkjunum. Á farsælum ferli komst Haraldur í fremstu röð eldfjallafræðinga í heiminum. Í samstarfi við fjölmarga kollega sína hefur hann birt mikilvægar greinar um niðurstöður rannsókna á stórum eldgosum, m.a. um gosið í Santorini (Minoan gosið) um 1600 fyrir Krist, Öskju 1875, Vesúvíusi 79, Tambora 1815, Krakatá 1883, Mount St. Helens 1980, El Chichon 1982, Nevado del Ruiz 1985, um stórgos í Kötlu í lok síðasta jökulskeiðs (myndun Vedde gjóskunnar) og myndun Bishop túffsins í Long Valley öskjunni í Kaliforníu fyrir 760.000 árum. Hér á landi vann hann einnig að rannsóknum á gosinu í Lakagígum 1783-84, setmyndun jökulhlaupsins 1996 í hafinu undan suðurströndinni, bergfræði gosbeltanna sem og úthafshryggja. Rannsóknir Haraldar á ummerkjum um loftsteina á mörkum Krítar og Tertíer vöktu mikla athygli en einnig hefur hann rannsakað tengsl loftslags og eldvirkni, einkum áhrif brennisteins sem berst upp í andrúmsloftið í eldgosum. Haraldur var aðalritstjóri bókarinnar Encyclopedia of Volcanoes en hún er grundvallarrit í eldfjallafræði. Fyrir hana hefur hann hlotið margar viðurkenningar. Þá hefur Haraldur fengið ýmis alþjóðleg verðlaun fyrir vísindastörf og riddarkross hinnar íslensku fálkaorðu hlaut hann 2005. Þegar Haraldur lét af störfum sem prófessor við Rhode Island flutti hann til Stykkishólms. Þar hefur hann sett á stofn eldfjallasafn sem opnað var vorið 2009. Safnið er einstætt í veröldinni því það sýnir fyrst og fremst listaverk víða að úr heiminum sem Haraldur hefur safnað og tengjast eldgosum og eldvirkni. facebooklinkedintwitter