Háskóli Íslands vill efla tengsl við íslenskt samfélag og stuðla að auknum áhuga og skilningi á vísindum. Hér má sjá helstu verkefni sem tengjast þessu markmiði, ýmist á vegum háskólans eða í samstarfi við aðrar stofnanir og fyrirtæki. FLL tækni- og hönnunarkeppnin First Lego League, eða FLL-keppnin, er hönnunar- og forritunarkeppni fyrir grunnskólanema, hefur verið haldin af Háskóla Íslands um árabil. Í keppninni reyni á margskonar færni nemenda, samstarf, nýsköpun, lausnamiðaða hugsun og vísindalega aðferðarfræði. Tilgangur keppninnar er að blása ungu fólki í brjóst löngun til að láta að sér kveða á sviði tækni og vísinda. Jafnfram er lögð áhersla á að byggja upp lífsleiknihæfileika eins og sjálfstraust, samskiptahæfni og forystuhæfileika. Nánari upplýsingar eru á vef keppninnar. Háskólalestin Á hverju vori frá árinu 2011 hefur Háskólalestin ferðast um landið við miklar vinsældir. Í lestinni er lögð áhersla á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur hafa verið einkar góðar og hafa landsmenn á öllum aldri fjölmennt á viðburði Háskólalestarinnar. Heimsókn lestarinnar er ávallt undirbúin í nánu samstarfi við sveitarfélög og grunnskóla í heimabyggð. Oft eru einnig Rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni virkir þátttakendur, auk fyrirtækja á svæðinu er tengjast á einhvern hátt vísinda- og fræðastarfi og nýsköpun á staðnum. Í Háskólalestinni eru í boði valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur og er einn skóladagur helgaður þeim viðburði. Daginn eftir er slegið upp litríkum vísindaveislum fyrir alla heimamenn með stjörnuveri, sýnitilraunum, óvæntum uppgötvunum og skemmtilegum uppákomum. Upplýsingar og dagskrá má nálgast á vef Háskólalestarinnar. Háskóli unga fólksins Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur hvert sumar frá árinu 2004. Fróðleiksfúsir og fjörugir krakkar á aldrinum 12-16 ára hafa komið í nokkra daga í júní og lagt undir sig Háskólasvæðið og sett einstakan svip á umhverfið. Efni námskeiðanna tengist öllum fræðasviðum háskólans og kennarar eru úr hópi kennara, nemenda og samstarfsaðila skólans. Nánari upplýsingar er að finna á vef skólans. Með fróðleik í fararnesti Gönguferðir undir heitinu Með fróðleik í fararnesti eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum áhugaverðu gönguferðum. Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélagsins. Ferðirnar eru auglýstar í hvert skipti hér á vef Háskóla Íslands. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Nýsköpunarkeppni grunnskólanna Nýsköpunarkeppni grunnskólanna er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. - 7. bekk grunnskóla. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika. Háskóli Íslands er bakhjarl keppninnar og leggur til ýmsa sérfræðiþekkingu við undirbúning keppenda. Tilgangur keppninnar er að virkja sköpunarkraft barna og þroska, efla frumkvæði þeirra og styrkja sjálfsmyndina. Einnig hefur keppnin það markmið að efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og vekja athygli á hugviti barna í skólum og atvinnulífi Upplýsingar um keppnina eru á vef hennar. Ungir vísindamenn Ungir vísindamenn er verkefni á vegum Evrópusambandsins sem hefur það markmið að efla hæfni ungs fólks til að vinna að rannsóknarverkefnum og stuðla að auknu frumkvæði og sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda. Keppnin er opin 15 til 20 ára framhaldsskólanemum og fer í fyrstu fram á landsvísu, en sigurvegarar í landskeppninni fara síðan í Evrópukeppnina. Keppt er í nær öllum fræðigreinum; hug- og félagsvísindum, raun- og náttúruvísindum, menntavísindum og tæknigreinum. Nánari upplýsingar eru á vef keppninnar. UTmessan Háskóli Íslands stendur að UTmessunni í samstarfi við Ský og Háskólann í Reykjavík. Um er að ræða ráðstefnu og sýningu á sviði upplýsingatækni í byrjun febrúar ár hvert. Ráðstefna og sýning fyrir fagfólk í upplýsingatækni fer fram á föstudegi og tæknidagur fyrir almenning á laugardegi. Sérfræðingar Háskólans á sviði upplýsingatækni taka virkan þátt í ráðstefnunni á föstudeginum og þá er skólinn með veglegt sýningarsvæði á laugardeginum þar sem gestum gefst kostur á að fræðast á skemmtilegan og fjölbreyttan hátt um nýjustu tækni og vísindi í háskólasamfélaginu. Þá hefur hin árlega og sívinsæla Hönnunarkeppni Háskóla Íslands farið fram á UTmessu undanfarin ár en að henni standa nemendur í véla- og iðnaðarverkfræði. Þar hanna keppendur farartæki og keppa á braut þar sem reynir á hugvit, nýsköpun og frumlegheit til að leysa viðfangsefni á brautinni. Vísindasmiðjan Vísindasmiðja Háskóla Íslands var opnuð vorið 2012 í Háskólabíói og hefur verið nánast fullbókað frá fyrsta degi. Markmið smiðjunnar er að efla áhuga ungmenna á vísindum og fræðum með gagnvirkum og lifandi hætti og styðja þannig við kennslu á sviði náttúru- og raunvísinda. Smiðjan er opin skólahópum og hentar best fyrir 6. - 10. bekk grunnskóla og eru heimsóknir í grunnskólum að kostnaðarlausu. Starfsmenn og leiðbeinendur í smiðjunni eru kennarar og nemendur Háskóla Íslands. Vísindasmiðjan er opin fyrir almenning við ýmis tækifæri, svosem á Háskóladeginum, á Barnamenningarhátíð og á degi Legó keppninnar. Nánari upplýsingar og skráning eru á vef Vísindasmiðjunnar. Vísindavaka Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi, en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðasta föstudag í september ár hvert, undir nafninu Researchers' night. Markmiðið með Vísindavökunni er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Verður það gert með lifandi kynningum og boðið upp á skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Allar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi. Fréttir af Vísindavökunni og nánari upplýsingar má nálgast á vef Rannís, sem og á Facebook-síðu hennar. Vísindavefurinn Vísindavefurinn var opnaður 29. janúar árið 2000 og hefur verið opinn æ síðan. Vísindavefurinn fjallar um öll vísindi, hverju nafni sem þau nefnast, allt frá stjörnufræði til handrita og frá sameindalíffræði til sálarfræði. Gestir geta lesið á vefnum svör við spurningum um flest milli himins og jarðar og einnig lagt fram nýjar spurningar um hvaðeina sem ætla má að starfsmenn Háskólans og stuðningsmenn vefsins geti svarað eða fundið svör við. Spurningarnar fara rakleiðis til starfsmanna vefsins. Gestir geta einnig sett fram efnisorð í leitarvél sem tengjast því sem þá fýsir að vita og fengið ábendingar um svör og annað tengt efni sem þegar er komið á vefinn. Spurningar og svör við þeim má skoða á Vísindavefnum. Tengt efni Samfélagsverkefni nemenda facebooklinkedintwitter