Samstarf með Æðarræktarfélagi Íslands Forstöðumaður tók þátt í vinnu Æðarræktarfélagsins um viðbragsáætlun gegn Fuglakóleru. Þá er rannsóknasetrið reglulegur gestur á ársfundum æðarræktarfélagsins og kynnir þar rannsóknir sínar félagsmönnum. Samstarf með æðarbændum Fjöldi æðarhreiðra Frá því í febrúar 2007 hefur Rannsóknasetur HÍ á Snæfellsnesi rannsakað stofnvistfræði æðarfugls: áhrif loftslagsbreytinga og gæða búsvæða á stofnbreytingar og stöðugleika nýtingar. Verkefnið var upphaflega styrkt af Rannsóknarráði Íslands (RANNÍS), Framleiðnisjóði og Æðarræktafélagi Íslands 2007-2009. Nú á dögum er það rekið af forstöðumanni Rannsóknasetursins sem hluti af reglulegri rannsóknastarfsemi. Upphaflega var lagt upp með að kanna tengsl loftslagsbreytinga og stofnstærðar æðarfugls og kanna stofnbreytingar m.t.t. breytileika í gæðum búsvæða. Verkefnið gengur út að að safna upplýsingum um fjölda hreiðra í æðarvörpum um gervallt Ísland. Margir æðarbændur hafa haldið bókhald í gegnum árin um þessar tölur, sem sýna mikinn breytileika í fjölda varpkollna milli ára. Um 40 æðarbændur tóku fyrst þátt árin 2007-2009, en svo bættust nokkur vörp við árið 2016. Reynt er að uppfæra gagnasettin reglulega og þannig fylgjast með breytingum á stofnstærð, og tengja þær breytingum í hafinu eða stofnstærðarbreytingum rándýra eins og minks og tófu. Merkingar á æðarfugli Unnið er að því að kortleggja stærðar- og útlitsbreytileika æðarfugls á Íslandi. Kveikjan að því kemur úr ýmsum áttum, m.a. vísbendingum um að æðarfuglar á Íslandi séu breytilegir að líkamsstærð og DNA-gögnum sem benda til að í Skerjafirði og á Akureyri séu tveir aðskildir stofnar með ólíkan uppruna (Furness et al. 2010 Bird Study 57: 330-335). Stefnt er að því að merkja og mæla æðarkollur á Norðurlandi, Melrakkasléttu og Austfjörðum. Sumarið 2019 voru merktar æðarkollur í æðarvörpunum Ásbúðum á Skaga og svo í Óshólmum Eyjafjarðarár. Þrátt fyrir erfið veðurskilyrði, þ.e. stífa norðaustanátt og kulda í byrjun júní, tókst að heimsækja tvo staði af fimm og merkja þar 34 æðarkollur með hjálp heimamanna. Í Óshólmum Eyjafjarðarár var farið ásamt Sverri Thorstensen, sem merkti þarna æðarkollur á árunum 1984-2010, einnig slóst Eyþór Ingi Jónsson í hópinn. Alls voru 19 æðarkollur mældar, myndaðar og vigtaðar. Daginn eftir var farið að Ásbúðum á Skaga og þar voru handsamaðar 15 æðarkollur í viðbót með Sigríði Magnúsdóttur og Höskuldi Þráinssyni. Veður var orðið mjög óhagstætt þegar kom að Harðbak, Ytri-Nýpi eða Seyðisfirði og var ákveðið í samráði við heimamenn að geyma þær merkingar. Þessar fyrstu niðurstöður voru kynntar á Líffræðiráðstefnunni 2019. Merkingar á æðarfugli hófust í samstarfi við Smára Lúðvíksson í Rifi á Snæfellsnesi 2008-2014. Smári og Auður Alexandersdóttir kona hans hafa reynst Rannsóknasetrinu ötulir liðsmenn síðan 2007. Þórður Örn Kristjánsson hefur unnið doktorsverkefni sitt í Rifi, og þá hafa Smári og Jón Einar Jónsson unnið saman að úrvinnslu og greiningu merkingargagna, ásamt því að prófa litmerki á fætur sumurin 2011 og 2012. Grein birtist um merkingarnar í Rifi í Ornis Fennica árið 2013. Vöktunarverkefni Rannsóknasetrið vinnur að vöktun fuglastofna, ýmist á eigin vegum eða með samstarfsaðilum. Verkefnin eiga það sameiginlegt að byggja á árvissum talningum sem gefa vísitölur á ástand varps viðkomandi tegunda. Æðarungar síðan 2007 Síðan 2007 hafa æðarungar verið taldir tvisvar á sumri, á talningasvæðum við Flatey og frá Brjánslæk vestur að Reykhólum, auk eyjanna við Stykkishólm. Ávallt er talið tvisvar, í lok júní þegar kollur eru nýkomnar á sjó með litla unga og svo aftur í lok júlí þegar ungarnir eru orðnir a.m.k. eins til tveggja mánaða gamlir. Æðarungar verða fleygir tveggja til tveggja og hálfs mánaðar gamlir. Hlutfallið ungar á kollu (fjöldi unga deilt með fjölda kollna) gefur vísitölu um heildar varpárangur æðarfugls á talningarsvæðinu. Brandönd Brandönd hefur verið reglulegur varpfugl á Íslandi síðan 1992. Einn stærsti varpstaðurinn er Andakílsós í Borgarfirði, en þar má sjá nokkur hundruð fugla síðsumars, bæði pör með unga og hópa fullorðinna fugla sem verpa ekki það árið. Í júlí ár hvert hafa sést 15-20 pör með samtals 50-70 unga. Í ágúst eru brandendurnar oft orðnar 400-500 talsins og þar af hafa ungarnir verið 40-47% fuglana sem sjást. Talið er einu sinni síðsumars ti að fá hlutfall unga á móti fullorðnum. Ungahóparnir eru stórir, geta verið 1-2 á par eða 11-16 ungar í einu klaki. Álftir Álftafjörður á norðanverðu Snæfellsnesi dregur nafn sitt af mergð álfta sem heldur þar til á sumrin. Miklar marhálmsbreiður finnast í Álftafirði og nýtast sem fæða fyrir álftir og margæsir sem fara um Breiðafjörð vor og haust. Í mildari vetrum eru mörg dæmi um að álftir hafi vetursetu í Álftafirði eða nærliggjandi Vigrafirði eða Nesvogi við Stykkishólm. Árið 2007 hófust reglubundnar talningar á fjölda álfta á þessum þremur stöðum. Talið er hálfs mánaðarlega yfir sumarið en einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Þessar talningar stóðu yfir 2007-2014 en eru stöku sinnum endurteknar, aðallega um áramót og síðsumars. Vöktun bjargfugla á Íslandi Bjargfuglar á Íslandi eru vaktaðir víðs vegar um landið af starfsffólki Náttúrustofa. Verkefnið hófst með núverandi aðferðafræði 2016 en verkefninu er stýrt af Náttúrustofu Norðausturlands og er styrkt af Veiðikortasjóði. Á Snæfellsnesi starfa Rannsóknasetrið og Náttúrustofa Vesturlands saman að vöktun bjargfugla í Hvítabjarnarey, Vallnabjargi, Svörtuloftum (Hvalrauf og Skálasnaga), Þúfubjargi og Arnarstapa. Þessir staðir eru taldir tvisvar ár hvert, fjöldi hreiðra er talinn í lok júní og varpárangur metinn í lok júlí. Notast er við talningasnið sem Arnþór Garðarsson kom á fót 2006-2009, nema í Hvítabjarnarey þar sem notast er við heimagerð snið. Vatnafuglar síðan 2011 Rannsóknasetrið og Náttúrustofa Vesturlands vinna saman að vöktun vatnafugla á Snæfellsnsesi. Kveikjan að verkefninu varð 2011 þegar unnið var verkefni um fuglakoðunarstaði á Snæfellsnesi en byggt er að nokkru á eldri talningastöðum frá Náttúrufræðistofnun Íslands á sunnanverðu Snæfellsnesi (Staðarsveit og nágrenni) auk vatna á Þórsnesi norðan megin. facebooklinkedintwitter