Uppbygging Landspítalaþorpsins við Hringbraut er löngu hafin en hún snertir Háskóla Íslands með ýmsum hætti. Þar má nefna að til stendur að byggja við Læknagarð fyrir Heilbrigðisvísindasvið skólans og þá starfar margir nemendur og starfsmenn skólans einnig á Landspítala.
Jarðvinnu vegna meðferðarkjarna nýs Landspítala lauk vorið 2020 og sömuleiðis vinnu við ýmsar götur, göngustíga og bílastæði. Uppsteypa á meðferðarkjarna hófst veturinn 2020. Framkvæmdir við rannsóknahús Landspítala hófust haustið 2021 en það rís vestan Læknagarðs.
Gönguleiðir og bílastæði á framkvæmdasvæði - kort
Nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands verða varir við þessar framkvæmdir og verða upplýsingar um þær birtar á þessari síðu og á vef Nýs Landspítala. Eins verður tilkynnt ef miklar breytingar verða á umferðarfyrirkomulagi.
Framkvæmdasvæði veturinn 2021-2022 - myndband
Nýjustu framkvæmdafréttir
Í framkvæmdafréttum Hringbrautarverkefnisins, sem koma út á um tveggja vikna fresti, er farið yfir nýjustu tíðindi af framgangi uppbyggingar á Landspítalasvæðinu. Þær er hægt að nálgast á vef Nýs Landspítala.
Um verkefnið
Samkvæmt endurskoðun spítalaverkefnisins í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og viljayfirlýsingu frá nóvember 2009 er fyrirhugað að byggja upp starfsemi Landspítala (LSH) og Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands (HÍ) við Hringbraut í nokkrum áföngum. Miðað er við að þegar uppbyggingu á lóðinni ljúki verði byggingar LSH og HÍ samtals um 166 þúsund fermetrar; um 141 þúsund fermetrar undir spítalastarfsemi og 35 þúsund fermetrar sem tilheyri Háskóla Íslands og Keldum.