Tilgangur sjóðsins er að stuðla að hvers konar starfsemi Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands, sbr. 3. gr. reglugerðar Guðfræðistofnunar. Auk þess má til nefna fyrirlestrahald og námsstefnur, heimboð erlendra gesta og greiðslu ferðapeninga til kennara Guðfræðideildar, og hvað eina, sem verða má að gagni fyrir starfsemi stofnunarinnar á hverjum tíma. Samkvæmt nýju skipulagi Háskóla Íslands frá því í febrúar 2008 er Guðfræðideild ekki lengur til. Deildin heitir nú Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og heyrir undir Hugvísindasvið. Sjóðurinn er stofnaður af Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund með gjafabréfi dags. 28. desember 1982 í tilefni af 60 ára afmæli þess til minningar um stofnendur þess, Sigurbjörn Á. Gíslason, cand. theol., Flosa Sigurðsson trésmíðameistara, Harald Sigurðsson verslunarmann, Júlíus Árnason kaupmann og Pál Jónsson verslunarstjóra; enn fremur þá séra Halldór Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði, séra Lárus Halldórsson fríkirkjuprest og séra Pál Þórðarson, prest í Njarðvík. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá með sjálfstæða stjórn. Stjórn sjóðsins Stjórn Guðfræðistofnunar er jafnframt stjórn sjóðsins og tekur allar ákvarðanir varðandi val verkefna og ráðstöfun tekna. Í stjórn sjóðsins sitja: Arnfríður Guðmundsdóttir, formaður stjórnar, agudm@hi.is Gunnlaugur A. Jónsson prófessor, gaj@hi.is Pétur Pétursson prófessor, petp@hi.is Guðmundur Björn Þorbjörnsson, stud. theol. Staðfest skipulagsskrá Staðfesting forsetans á skipulagsskrá fyrir Starfssjóð Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands, útgefin á venjulegan hátt ad mandatum af dómsmálaráðherra 29. maí 1987. Skipulagsskráin er þannig:Skipulagsskrá fyrir Starfssjóð Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. 1. gr. Sjóðurinn heitir Starfssjóður Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hann er stofnaður af Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund með gjafabréfi dags. 28. desember 1982 í tilefni af 60 ára afmæli þess til minningar um stofnendur þess, Sigurbjörn Á. Gíslason, cand. theol., Flosa Sigurðsson, trésmíðameistara, Harald Sigurðsson, verslunarmann, Júlíus Árnason, kaupmann og Pál Jónsson, verslunarstjóra; ennfremur þá séra Halldór Jónsson, prófast á Hofi, Vopnafirði, séra Lárus Halldórsson, fríkirkjuprest, og séra Pál Þórðarson, prest í Njarðvík. 2. gr. Stofnfé sjóðsins er kr. 100.000. Stofnféð skal ekki skerða, og fyrstu fimm árin skal helmingur vaxta og verðbóta lagður við höfuðstólinn. 3. gr. Sjóðurinn tekur við framlögum, gjöfum og áheitum, og skal um slík framlög fara svo sem segir í 2. gr. 4. gr. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að hvers konar starfsemi Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands, sbr. 3. gr. reglugerðar Guðfræðistofnunar. Auk þess má til nefna fyrirlestrahald og námsstefnur, heimboð erlendra gesta og greiðslu ferðapeninga til kennara guðfræðideildar og hvaðeina, sem verða má að gagni fyrir starfsemi stofnunarinnar á hverjum tíma. 5. gr. Stjórn Guðfræðistofnunar er jafnframt stjórn sjóðsins og tekur allar ákvarðanir varðandi val verkefna og ráðstöfun tekna. 6. gr. Háskóli Íslands annast um varðveislu fjár sjóðsins og reikningshald. Um endurskoðun og birtingu reikninga fer sem um aðra sjóði Háskóla Íslands á hverjum tíma. 7. gr. Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari. facebooklinkedintwitter