Markmið minningarsjóðsins og hlutverk er að styrkja hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til framhaldsnáms. Úr hópi hjúkrunarfræðinga skulu þeir einstaklingar sem hyggja á framhaldsnám í ljósmóðurfræði hafa forgang umfram aðra hjúkrunarfræðinga um styrki úr sjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands 22. desember 2008 skv. fyrirmælum í erfðaskrá Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur, f. 3. júlí 1922, d. 28. febrúar 2005, frá 25. apríl 2001. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Stjórn sjóðsins Stjórn minningarsjóðsins skal skipuð af rektor Háskóla Íslands til tveggja ára í senn. Rektor Háskóla Íslands tilnefnir einn en Háskólaráð tvo. Í stjórn sjóðsins sitja frá stofnun sjóðsins: Ólöf Ásta Ólafsdóttir, ljósmóðir og lektor, gegnir starfi formanns stjórnar, olofol@hi.is. Guðlaug Einarsdóttir, gudlaugeinars@hi.is. Herdís Sveinsdóttir prófessor, herdis@hi.is. Um Soffíu Þuríði Magnúsdóttur Soffía Þuríður Magnúsdóttur var fædd 3. júlí 1922. Þuríðarnafnið fékk hún eftir móðurömmu sinni. Soffía var einkadóttir og frumburður foreldra sinna, þeirra Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar, sem bjuggu allan sinn búskap í Túngarði á Fellsströnd. Hún átti einn bróður, Gest, sem var tveimur árum yngri en hún. Soffía var snemma mjög bráðger og þegar hún var fimmta ára orti Björg móðir hennar um hana vísu: Soffía með sinni glatt, síst hún kvíðir nokkru fári. Les hún sögur leifturhratt, lítil snót á fimmta ári. Greinargerð þessi var skrifuð um Soffíu af frænku hennar Guðfinnu Birgisdóttur. Skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Minningarsjóð Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda. 1. gr. Stofnaðild, varsla o.fl. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda, hér eftir nefndur minningarsjóðurinn. Minningarsjóðurinn er stofnaður samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur, f. 3. júlí 1922, d. 28. febrúar 2005 frá 25. apríl 2001. Minningarsjóðurinn starfar á grundvelli laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Minningarsjóðurinn er í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands, Sæmundargötu 6, Reykjavík. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. 2. gr. Hlutverk minningarsjóðsins Markmið minningarsjóðsins og hlutverk er að styrkja hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til framhaldsnáms. Úr hópi hjúkrunarfræðinga skulu þær sem hyggja á framhaldsnám í ljósmóðurfræðum hafa forgang umfram aðra hjúkrunarfræðinga um styrki úr minningarsjóðnum. 3. gr. Stofnframlag minningarsjóðsins og tekjur Stofnframlag minningarsjóðsins eru allir þeir fjármunir sem Soffía Þuríður Magnúsdóttir kt. 030722-4939, ánafnaði sjóðnum í erfðaskrá sinni, samtals 25.000.000 kr. Stofnframlag minningarsjóðsins, verðbætt, er óskerðanlegt. Tekjur minningarsjóðsins eru vextir af stofnfé, svo og gjafir er sjóðnum kunna að berast. 4. gr. Stjórn minningarsjóðsins Stjórn minningarsjóðsins skal skipuð af rektor Háskóla Íslands til tveggja ára í senn. Rektor Háskóla Íslands tilnefnir einn en háskólaráð tvo. Stjórn minningarsjóðsins heldur fundargerðarbók um starf sitt og skal afritum fundargerða skilað til Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Stjórnin skal setja úthlutunarreglur og nánari starfsreglur um úthlutanir, s.s. einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, allt í samræmi við skipulagsskrá þessa. Fjöldi styrkja sem veittur er árlega skal taka mið af því að styrkþega muni um fjárhæðina. Reglur um úthlutun styrkja úr minningarsjóðnum skal endurskoða reglulega. 5. gr.Styrkveitingar úr minningarsjóðnum Stjórn minningarsjóðsins úthlutar styrkjum í samræmi við úthlutunarreglur hinn 3. júlí ár hvert, á fæðingardegi stofnanda hans, Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur. Fyrsta úthlutun úr minningarsjóðnum fer fram hið minnsta einu reikningsári eftir stofnun, enda liggi fyrir endurskoðuð reikningsskil og upplýsingar um laust fé til úthlutunar styrkja. Að jafnaði tilkynnir rektor Háskóla Íslands styrki við hátíðlega athöfn. Stjórn minningarsjóðsins getur ákveðið í ljósi ávöxtunar eða annarra aðstæðna að safna saman leyfilegri úthlutun milli reikningsára og úthluta í einu lagi lausum hlut samkvæmt reikningsskilum. Aldrei má úthluta meira en ¾ af raunávöxtun minningarsjóðsins skv. endurskoðuðumársreikningi hans. Óúthlutaðir vextir leggjast við stofnfé. 6. gr. Ávöxtun fjár og ársreikningar Styrktarsjóðir Háskóla Íslands annast ávöxtun minningarsjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma miðað við fjárfestingastefnu styrktarsjóðanna. Heimilt er að úthluta styrkjum sem nema allt að þremur fjórðu af ávöxtun hvers reikningstímabils, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Fjórðungur ávöxtunarinnar leggst við verðbætt stofnframlag og verður hluti af óskerðanlegu stofnfé. Reikningsár minningarsjóðsins er almanaksárið og hefst fyrsta reikningsár hans 1. janúar 2009. Reikningar minningarsjóðsins skulu endurskoðaðir og birtir með sama hætti og aðrir reikningar í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. 7. gr. Skráning minningarsjóðsins, breytingar á skipulagsskrá o.fl. Heimilt er að breyta skipulagsskrá þessari, en til þess þarf samþykki allra stjórnarmanna á tveimur fundum stjórnar, sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili. Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á breytingum á stofnskrá þessari. Minningarsjóðinn skal ekki leggja niður nema ríka nauðsyn beri til að mati stjórnarinnar og sýslumaðurinn á Sauðárkróki samþykki. Hrein eign hans skal þá renna til stuðnings náms í ljósmóðurfræðum. 8. gr. Staðfesting Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari. Reykjavík, 15. desember 2008 f.h. dánarbús Soffíu Þ. Magnúsdóttur, Dögg Pálsdóttir, skiptastjóri f.h. Háskóla Íslands Kristín Ingólfsdóttir, rektor Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með skv. lögum um sjóði og stofnanir, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988. facebooklinkedintwitter