Samkvæmt 4. grein stofnskrár Listasafns Háskóla Íslands gegnir safnið skyldum við þá sem stunda rannsóknir á íslenskri myndlistarsögu. Eitt af hlutverkum listasafnsins er að stuðla að rannsóknum á íslenskri listasögu, jafnt innan sem utan háskólasamfélagsins. Árið 1999 var stofnaður Rannsóknarsjóður við Listasafn HÍ , nefndur Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands, sem ætlað er, líkt og segir í stofnskrá sjóðsins, að styrkja rannsóknir "á sviði íslenskrar myndlistar, myndlistarsögu og forvörslu myndverka að fornu og nýju, svo og til birtingar á niðurstöðum slíkra rannsókna samkvæmt ákvörðun stjórnar Listasafns Háskóla Íslands sem jafnframt er stjórn sjóðsins." Árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins eru raunvextir af stofnfé og veitir sjóðsstjórnin styrki til "faglegra hæfra einstaklinga eða stofnana að fengnum umsóknum og undangenginni almennri auglýsingu". Sjóðinn stofnaði Sverrir Sigurðsson á 90 ára afmæli sínu, 10. júní 1999 með veglegu stofnframlagi. Skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Styrktarsjóð Listasafns Háskóla Íslands Í tilefni níræðisafmælis síns 10. júní 1999, færir Sverrir Sigurðsson, Bakkavör 28, Seltjarnarnesi, Háskóla Íslands að gjöf tíu milljónir króna, kr. 10.000.000, til stofnunar Styrktarsjóðs Listasafns Háskóla Íslands er starfa skal samkvæmt eftirfarandi skipulagsskrá. 1. gr. Hlutverk Styrktarsjóðs Listasafns Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á íslenskri myndlist að fornu og nýju. Í þessu skyni skulu árlega veittir styrkir af ráðstöfunarfé sjóðsins til rannsókna á sviði íslenskrar myndlistar, myndlistarsögu og forvörslu myndverka svo og til birtingar á niðurstöðum slíkra rannsókna, samkvæmt ákvörðun stjórnar Listasafns Háskóla Íslands sem jafnframt er stjórn sjóðsins. 2. gr. Stofnfé sjóðsins skal ávaxta á öruggan hátt á hæstu fáanlegum vöxtum. Árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins eru raunvextir af stofnfé sjóðsins umfram verðtryggingu, svo og aðrar tekjur og framlög sem sjóðnum kunna að áskotnast. Stofnfé sjóðsins verðtryggt má ekki skerða. 3. gr. Sjóðstjórnin veitir styrki til faglega hæfra einstaklinga eða stofnana að fengnum umsóknum og undangenginni almennri auglýsingu. Stjórn sjóðsins markar stefnu um úthlutun og setur reglur um mat á umsóknum. Stjórnin getur í auglýsingu afmarkað sérstök rannsóknarmarkmið hverju sinni. 4. gr. Skipulagsskrá Styrktarsjóðs Listasafns Háskóla Íslands skal staðfest af dómsmálaráðuneyti samkvæmt lögum nr. 19/1988. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðast af endurskoðendum Háskóla Íslands kosnum af háskólaráði auk Ríkisendurskoðunar. 5. gr. Stjórn Listasafnsins skal heimilt ef nauðsyn knýr, í samráði við rektor Háskóla Íslands, að breyta skipulagsskrá þessari þannig að sjóðurinn þjóni sem best upphaflegum tilgangi sínum að efla þekkingu á íslenskri myndlist. 6. gr. Verði tekin ákvörðun um að leggja styrktarsjóðinn niður skulu eignir hans renna til Háskóla Íslands. Seltjarnarnesi, 10. júní 1999. Sverrir Sigurðsson Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 4. nóvember 1999. F. h. r. Björn Friðfinnsson. Fanney Óskarsdóttir. facebooklinkedintwitter