Markmiðið sjóðsins er að efla og styrkja rannsóknir og nám í menntunar- og kennslufræðum. Styrkja á kennara og sérfræðinga í þessum fræðum. Jafnframt má veita nemendum styrki til skiptináms. Megintilgangur sjóðsins er að efla sérfræðiþekkingu í menntunar- og kennslufræðum með fjárstyrkjum til: Rannsókna sem fela í sér nýsköpun þekkingar á sviðinu. Þróunarverkefna sem efla fræðilegt og faglegt framlag á sviðinu. Skiptináms í menntunar- og kennslufræðum við erlenda háskóla Sjóðurinn heitir nú Sjóður Steingríms Arasonar. Sjóðurinn hét áður Columbiasjóður en hann var stofnaður með peningagjöf Steingríms Arasonar kennara árið 1939. Samkvæmt nýrri skipulagsskrá fer stjórn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands með stjórn sjóðsins. Um Steingrím Arason Steingrímur Arason (1879-1951) lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla árið 1908. Hann stundaði háskólanám í uppeldis- og menntunarfræði, fyrstur Íslendinga, við Teachers College í Columbia háskóla í Bandaríkjunum (1915-1920). Hann starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalkennslustörf hans voru við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár. Steingrímur kynntist hugmyndum John Dewey í Bandaríkjunum og kynnti þær kennurum og kennaraefnum. Steingrímur sinnti mannúðar og félagsmálum og lét auk þess flest sem tengdist mennta og uppeldismálum sig varða. Hann beitti sér fyrir nýjungum í námsefnisgerð, kennsluháttum og námsmati. Hann lagði áherslu á frjálslegar kennsluaðferðir þar sem leikurinn var í hávegum. Steingrímur var brautryðjandi í menntun ungra barna og var í forystusveit þegar fyrstu leikskólarnir á Íslandi voru settir á fót. Hann var stofnandi Barnavinafélagsins Sumargjöf og formaður þess fyrstu 15 árin. Auk handbóka um kennslu ritaði Steingrímur fjölda greina og flutti ávörp um uppeldi og kennslu. Stjórn sjóðsins Samkvæmt nýrri skipulagsskrá Sjóðs Steingríms Arasonar fer stjórn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands með stjórn sjóðsins. Staðfest skipulagsskrá SKIPULAGSSKRÁ fyrir Sjóð Steingríms Arasonar 1. gr. Nafn sjóðs og uppruni Sjóðurinn heitir Sjóður Steingríms Arasonar. Sjóðurinn hét áður Columbiasjóður en hann var stofnaður með peningagjöf Steingríms Arasonar kennara árið 1939. 2. gr. Heimilisfang Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. 3. gr. Tilgangur og markmið sjóðsins Markmiðið með stofnun sjóðsins er að efla og styrkja rannsóknir og nám í menntunar- og kennslufræðum. Styrkja á kennara og sérfræðinga í þessum fræðum. Jafnframt má veita nemendum styrki til skiptináms. Megintilgangur sjóðsins er að efla sérfræðiþekkingu í menntunar- og kennslufræðum með fjárstyrkjum til: Rannsókna sem fela í sér nýsköpun þekkingar á sviðinu. Þróunarverkefna sem efla fræðilegt og faglegt framlag á sviðinu. Skiptináms í menntunar- og kennslufræðum við erlenda háskóla. 4. gr. Stofnandi Steingrímur Arason, kennari og stofnandi sjóðsins, lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla árið 1908. Hann stundaði háskólanám í uppeldis- og menntunarfræði, fyrstur Íslendinga, við Teachers College í Columbia-háskóla í Bandaríkjunum (1915-1920). Hann starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalkennslustörf hans voru við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár. 5. gr. Stofnframlag og tekjur sjóðsins Stofnfé sjóðsins árið 1939 var kr. 12.521,99. Samkvæmt ársreikningi sjóðsins árið 2015 er eigið fé hans í árslok kr. 18.681.245. Frá árinu 2017 skal hluti höfuðstóls vera bundinn og óskerðanlegur að upphæð kr. 10.000.000. Tekjur sjóðsins eru vaxtatekjur. Aðrar tekjur sjóðsins skulu vera frjáls framlög einstaklinga, félagasamtaka eða fyrirtækja, auk fjármagnstekna af eignum sjóðsins. 6. gr. Stjórn Stjórn Menntavísindasviðs (MVS) Háskóla Íslands fer með stjórn sjóðsins. Í henni sitja 5 stjórnarmenn, þ.e. sviðsforseti MVS og deildarforsetar þeirra deilda sem heyra undir sviðið ásamt fulltrúa nemenda. Deildirnar eru þrjár en verða fjórar skv. nýrri deildarskiptingu sem kemur til framkvæmda í júlí 2018. Þá verða 6 manns í stjórn sjóðsins. Við styrkveitingar skal taka mið af tilgangi og markmiði sjóðsins. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi fjallað um málið, sé þess nokkur kostur. 7. gr. Fundarboðun Formaður stjórnar skal boða til stjórnarfunda. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Hlutverk stjórnar er að halda utan um málefni sjóðsins og kynningar- og umsóknarferli í samstarfi við umsjónarmann Styrktarsjóða Háskóla Íslands og kynningarstjóra Menntavísindasviðs. Stjórnin tekur ákvörðun umeinstakar styrkveitingar og tilnefnir styrkþega. Stjórnin hefur eftirlit með ráðstöfun og meðferð fjármuna. Stjórnin kemur saman að minnsta kosti árlega. Stjórnin fer yfir ársreikning sjóðsins og setur sér nánari starfsreglur um úthlutanir, svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Starfsreglur sjóðsins skulu endurskoðaðar reglulega. Sjóðsstjórn heldur fundargerðarbók og skilar fundargerðum til umsjónarmanns Styrktarsjóða Háskóla Íslands til varðveislu. 8. gr. Umsýsla og endurskoðun sjóðsins Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Endurskoðendur sjóðsins eru endurskoðendur Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Reikningar sjóðsins skulu birtir með sama hætti og annarra sjóða í vörslu Háskóla Íslands. 9. gr. Um breytingar á skipulagsskránni Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður eða gera breytingar á hlutverki hans og tilgangi, af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Verði sjóðurinn lagður niður, skulu fjármunir hans renna til Háskóla Íslands eða til málefna er tengjast tilgangi sjóðsins. Reykjavík, 17. mars 2017. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að vera gerðar á henni. Við staðfestingu þessarar skipulagsskrár fellur úr gildi eldri skipulagsskrá nr. 104/1951. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. facebooklinkedintwitter