Tilgangur sjóðsins er að verðlauna stærðfræðinema og nýútskrifaða stærðfræðinga fyrir góðan árangur og styrkja þá til frekari afreka í námi og rannsóknum. Sjóðurinn var stofnaður 2017 af Sigurði Helgasyni, prófessor í stærðfræði við Massachusetts Institute of Technology (MIT). Um Sigurð Helgason Sigurður Helgason fæddist á Akureyri 30. september 1927 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Eftir ársnám við verkfræðideild Háskóla Íslands hélt Sigurður til Danmerkur þar sem hann lauk Mag. Scient. prófi í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1952. Hann hélt þá til frekara náms við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi 1954. Sigurður kenndi við Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla og varð prófessor við MIT árið 1965. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar um stærðfræði. Sigurður hefur verið heiðursdoktor við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og er heiðursfélagi Íslenska stærðfræðafélagsins. Stjórn sjóðsins Stjórn sjóðsins: Ragnar Sigurðsson, prófessor og formaður stjórnar Freyja Hreinsdóttir dósent Sverrir Örn Þorvaldsson stærðfræðingur Staðfest skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar prófessors 1. grein Nafn sjóðs og uppruni Sjóðurinn heitir Verðlaunasjóður Sigurðar Helgasonar prófessors, kt. 300927-7779. Hann er stofnaður af Sigurði Helgasyni prófessor. 2. grein Heimilisfang Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun utan atvinnurekstrar og er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. 3. grein Tilgangur og markmið sjóðsins Tilgangur sjóðsins er að verðlauna stærðfræðinema og nýútskrifaða stærðfræðinga fyrir góðan árangur og styrkja til frekari afreka í námi og rannsóknum. Sjóðurinn veitir að öllu jöfnu ein eða tvenn verðlaun á hausti hverju til stúdenta í stærðfræði við Háskóla Íslands sem lokið hafa kröfum fyrstu tveggja námsára. 4. grein Stofnandi sjóðsins Sigurður Helgason fæddist á Akureyri 30. september 1927 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Eftir ársnám við verkfræðideild Háskóla Íslands fór Sigurður til Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan Mag. Scient. prófi í stærðfræði 1952. Hann hélt þá til frekara náms við Princeton-háskóla og lauk þaðan doktorsprófi 1954. Sigurður kenndi síðan við Tækniháskóla Massachusetts (MIT), Princeton-háskólann, Chicago- háskóla og Columbia-háskóla, en kom aftur til MIT 1960 og varð þar prófessor 1965. Eftir Sigurð liggur tugur bóka um stærðfræði og fjölmargar vísindagreinar. Sigurður var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1991 og hlaut Steele verðlaun ameríska stærðfræðifélagsins (AMS) 1988. Sigurður Helgason er heiðursdoktor við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og heiðursfélagi Íslenska stærðfræðafélagsins. 5. grein Stofnframlag og tekjur sjóðsins Stofnframlag sjóðsins er gjöf Sigurðar Helgasonar, kt. 300927-7779, að upphæð 11.000 bandaríkjadollarar (USD) – sem samsvarar kr. 1.155.110 (ISK) miðað við gengi dags. 30. ágúst 2017. Stofnfé sjóðsins er óskerðanlegt. Sjóðurinn tekur við gjöfum og framlögum. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma og taka mið af fjárfestingarstefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands, að öðru leyti en getið er um í 1. mgr. Tekjur sjóðsins eru árleg framlög Sigurðar Helgasonar, stofnanda sjóðsins, auk fjármuna og annarra verðmæta sem safnast í nafni sjóðsins, sbr. 3. gr. Tekjur sjóðsins verða nýttar til þess að veita viðurkenningar úr sjóðnum ár hvert. Ef stjórn ákveður að greiða ekki út verðlaun bætast þeir fjármunir sem lausir voru til veitingar verðlauna það ár við þá sem lausir eru til ráðstöfunar árið eftir, sbr. 4. mgr. 6. grein Stjórn Stjórn sjóðsins skipa þrír menn, sem hver er skipaður til þriggja ára í senn. Við skipun stjórnar skal taka mið af tilgangi sjóðsins. Rektor Háskóla Íslands skipar sjóðsstjórn samkvæmt tilnefningu formanns námsbrautar í stærðfræði við Háskóla Íslands. Við stofnun sjóðsins er hér um að ræða námsbraut í stærðfræði hjá Raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Stjórnin kemur saman að minnsta kosti árlega. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Stjórnin skipar sjálf með sér verkum og velur sér formann og ritara. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi fjallað um málið, sé þess nokkur kostur. 7. grein Fundarboðun Formaður stjórnar skal boða til stjórnarfunda. Hlutverk stjórnar er að halda utan um málefni sjóðsins og kynningu á honum í samstarfi við Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Stjórnin tekur ákvörðun um fjárhæð verðlauna og einstaka verðlaunahafa. Stjórnin hefur eftirlit með ráðstöfun og meðferð fjármuna og fer yfir ársreikning sjóðsins. Stjórnin setur sér nánari starfsreglur innan ákvæða skipulagsskrár, svo sem um veitingu verðlauna. Starfsreglur sjóðsins skulu endurskoðaðar reglulega og eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Sjóðsstjórn heldur fundargerðabók og skilar fundargerðum til Styrktarsjóða Háskóla Íslands til varðveislu. 8. grein Umsýsla og endurskoðun sjóðsins Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Endurskoðendur sjóðsins eru endurskoðendur Styrktarsjóða Háskóla Íslands, kjörnir af háskólaráði. Reikningar sjóðsins skulu birtir með sama hætti og aðrir sjóðir í vörslu Háskólans. 9. grein Um breytingar á skipulagsskránni Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður, eða gera breytingar á tilgangi hans, af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Sé tekin slík ákvörðun skal hún borin undir sýslumanninn á Norðurlandi vestra. Verði sjóðurinn lagður niður skulu fjármunir hans renna til Háskóla Íslands, eða með ákvörðun rektors Háskóla Íslands, til málefna er tengjast tilgangi sjóðsins. Reykjavík, 1. september 2017 Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands Sigurður Helgason, prófessor og stofnandi sjóðsins Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumanns Norðurlands vestra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. facebooklinkedintwitter