Tilgangur sjóðsins er að styrkja stúdenta til náms við verkfræðideild Háskóla Íslands eða til framhaldsnáms í verkfræði við annan háskóla, að loknu fyrra hluta prófi í verkfræðideild Háskóla Íslands. Samkvæmt breyttu skipulagi Háskóla Íslands frá febrúar 2008 er verkfræðideild ekki til. Verkfræðideild hefur verið skipt í þrjár deildir; Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild, Rafmagns – og tölvuverkfræðideild og Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, sem allar heyra undir Verkfræði- og náttaúruvísindasvið. Sjóðurinn er stofnaður af foreldrum Þorvalds Finnbogasonar, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, á 21 árs afmæli Þorvalds sonar þeirra, 21. desember 1952. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Stjórn sjóðsins Í stjórn sjóðsins sitja: Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði-og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands Skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Minningarsjóð Þorvalds Finnbogasonar stúdents. 1. gr. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Þorvalds Finnbogasonar stúdents. 2. gr. Sjóðurinn er stofnaður af foreldrum Þorvalds Finnbogasonar, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, á 21 árs afmæli Þorvalds sonar þeirra, 21. desember 1952. 3. gr. Stofnfé sjóðsins er kr. 50.000 – fimmtíu þúsund krónur – og stendur nú í skuldabréfi, tryggðu með veði í húseigninni nr. 10 við Brávallagötu í Reykjavík. 4. gr. Tilgangur sjóðsins er að styrkja stúdenta til náms við verkfræðideild Háskóla Íslands eða til framhaldsnáms í verkfræði við annan háskóla, að loknu fyrra hluta prófi í verkfræðideild Háskóla Íslands. 5. gr. Stjórn sjóðsins skipa rektor Háskóla Íslands, sem skal vera formaður stjórnarinnar, forseti verkfræðideildar Háskóla Íslands og Finnbogi R. Þorvaldsson prófessor, meðan hans nýtur við, en síðan kona hans, Sigríður Eiríksdóttir, eða elzti stúdent af niðjum séra Þorvalds Jakobssonar, síðast prests í Sauðlauksdal, eða elzti stúdent af niðjum systkina hans. Stjórn sjóðsins skal ávallt skipuð 3 mönnum, en verði stjórnin ekki fullskipuð eftir þeim ákvæðum, er að framan getur, kýs verkfræðideildin, til eins árs, einn mann í stjórnina úr hópi kennara deildarinnar. 6. gr. Stjórnin skal sjá um vörzlu og ávöxtun sjóðsins og annast úthlutun styrkja úr sjóðnum. Skal hún halda gerðabók fyrir sjóðinn, reikninga hans, styrkveitingar úr honum og annað, er varðar hag sjóðsins og starf. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. 7. gr. Styrk úr sjóðnum skal úthluta án umsókna og þeim einum, er kunnir eru að drengskap, dugnaði og reglusemi. Styrkinn hlýtur einn stúdent hverju sinni. 8. gr. Fyrst um sinn má veita styrk úr sjóðnum annaðhvert ár, í fyrsta sinn 21. desember 1953, en þegar ársvextir sjóðsins nema 6.700 krónum eða meiru má veita styrk úr sjóðnum á hverju ári. Styrkur úr sjóðnum skal nema 5.000 krónum í hvert sinn á tímabilinu 1953-1961. Árið 1963 og síðar má úthluta annaðhvert ár þrem fjórðu af vöxtum síðustu tveggja ára, eða þrem fjórðu af ársvöxtum á hverju ári, sbr. fyrri málsgrein. Vaxtatekjur umfram styrkveitingar skal leggja við höfuðstólinn á hverjum tíma. Nú er heimild til styrkveitingar ekki notuð eitthvert sinn, og má þá verja til úthlutunar úr sjóðnum næsta ár upphæð samkvæmt framangreindum ákvæðum. 9. gr. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram á afmælisdegi Þorvalds Finnbogasonar, 21. desember. 10. gr. Stofnendur sjóðsins áskilja sér rétt til þess, innan næstu tíu ára, að koma með tillögur um breytingar á skipulagsskrá þessari, þó svo, að þær haggi að engu tilgangi sjóðsins facebooklinkedintwitter