Viðhorf til öldrunar neikvætt
„Íslendingar eru að eldast sem þjóð.“ Þessi fullyrðing hefur verið áberandi í samfélagsumræðunni og á köflum líka í íslenskum fjölmiðlum þar sem bent er á að öldrun sé ein helsta áskorun samtímans. Til stuðnings fullyrðingunni hefur verið bent á að Íslendingar þurfi að breyta áherslum í samfélagsgerðinni í ljósi þess að sá hluti þjóðarinar sem hættir störfum vaxi nú mjög hratt.
Gjarnan er bent á neikvæðar afleiðingar af þessari þróun, t.d. kalli hækkaður aldur þjóðarinnar á aukinn kostnað í stoðþjónustu og í heilbrigðiskerfinu og einnig á breytt húsnæðisúrræði fyrir þennan ört vaxandi hóp fólks. Íslendingar eru þó ekki alveg á sama stað og aðrir Evrópubúar því í mannfjöldaspá Hafstofunnar fyrir tímabilið 2016 til 2065 segir að þótt þjóðin sé að eldast þá séu Íslendingar nú, og verði um sinn, mun yngri en flestar Evrópuþjóðir. Hagstofan spáir því að árið 2060 verði meira en þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en bara um fjórðungur Íslendinga.