Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 4. apríl 2019

04/2019

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2019, fimmtudaginn 4. apríl var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur og Rögnu Árnadóttur), Guðvarður Már Gunnlaugsson, Guðrún Geirsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Ingibjörg Gunnarsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Rektor bar upp tillögu um að liður 6 yrði tekinn fyrir fyrst og var það samþykkt. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a)    Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2018. Staða mála.
Jenný Bára gerði grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning ársreiknings Háskóla Íslands 2018. Ráðgert er að endanlegur ársreikningur geti legið fyrir á næsta fundi háskólaráðs.

b)    Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2020-2024.
Rektor gerði grein fyrir þeim hluta fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2020-2024 er lýtur að háskólastiginu almennt og Háskóla Íslands sérstaklega. Fram kom m.a. að textinn í áætluninni um háskólastigið er fremur óskýr, almenns eðlis og óljóst hvað kemur í hlut háskóla á næstu árum til styrkingar rekstrar þeirra, enda þótt vikið sé að því að ná eigi meðaltali OECD ríkja á áætlunartímabilinu og á endanum meðaltali Norðurlanda. Málið var rætt.

c)    Byggingaframkvæmdir. Fjármögnun húsnæðis, framkvæmdaáætlun 2019-2028.
Guðmundur og rektor gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma að Háskóli Íslands hefji á árinu 2019 undirbúning byggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið á svæði Landspítalans við Hringbraut. Ráðgerður kostnaður á árinu 2019 er um 300 m.kr.

d)    Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 10. janúar sl. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir málinu og framlögðum drögum að bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem eindregið er farið þess á leit að hann beiti sér fyrir því að Háskóla Íslands verði heimilað að annast áfram skipulag, uppbyggingu, viðhald, nýtingu og rekstur húsnæðis sem hýsir starfsemi Háskólans. Í þessu felst að fasteignir Háskóla Íslands verði hluti efnahagsreiknings hans.
    
Guðmundur og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Nefnd um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs Háskóla Íslands segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögu til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði skipuð Ingibjörgu Gunnarsdóttur, varaforseta háskólaráðs og fulltrúa háskólasamfélagsins, Siv Friðleifsdóttur, fulltrúa mennta- og menningarmálaráðherra, Guðvarði Má Gunnlaugssyni, fulltrúa völdum af háskólaráði, og Benedikt Traustasyni, fulltrúa stúdenta. Nefndin mun skila greinargerð sinni á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.

4.    Breytingar á innleiðingu heildarstefnu Háskóla Íslands í kjölfar úttektar Ian Creagh.
Rektor gerði grein fyrir hugmyndum að breytingum á skipulagi, framkvæmd og mögulegri tímaáætlun innleiðingar heildarstefnu Háskóla Íslands í kjölfar úttektar Ian Creagh. Meðal annars er um að ræða að auka samlegðaráhrif og forgangsraða markmiðum og aðgerðum með skýrum hætti, styrkja stoðþjónustu og stjórnunarkjarna, samþætta stefnuna við almenna starfsemi, stjórnun og áætlanagerð, efla leiðtoga- og stjórnendafærni og marka heildstæða áætlun um samskipti og skuldbindingu við innleiðingu stefnunnar. Málið var rætt og mun rektor vinna áfram að því.

5.    Endurskoðun siðareglna Háskóla Íslands og starfsreglna siðanefndar Háskóla Íslands. Drög að erindisbréfi starfshóps.
Fyrir fundinum lágu drög að erindisbréfi starfshóps um endurskoðun siðareglna og starfsreglna siðanefndar Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fulltrúi stúdenta lagði til að stúdentar ættu tvo fulltrúa í starfshópnum.
– Framlögð drög að erindisbréfi samþykkt einróma svo breytt. Rektor falið að ganga frá skipun starfshópsins.

6.    Málefni Happdrættis Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands, og fór yfir málefni fyrirtækisins. Málið var rætt og svaraði Bryndís spurningum ráðsmanna.

Bryndís vék af fundi.

7.    Jafnlaunavottun – launagreining innan Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi umsókn Háskóla Íslands um jafnlaunavottun og launagreiningu innan Háskólans. Málið var rætt og svöruðu þær Guðbjörg Linda og Guðbjörg Andrea spurningum fulltrúa í háskólaráði.

8.    Bókfærð mál.
a)    Frá Hugvísindasviði: Tillaga um fjöldatakmörkun í MA-nám í ritlist (25 nem.). Reglur nr. 153/2010.

    – Samþykkt.

b)    Persónuverndarstefna Háskóla Íslands.
    – Samþykkt.

c)    Rekstraráætlun MBA náms í Viðskiptafræðideild 2019-2020.
    – Samþykkt.

d)    Skipan Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala.
    – Samþykkt. Hugverkanefnd er skipuð þeim Kristni Andersen, prófessor, formaður, tilnefndur af rektor Háskóla Íslands, Sigríði Ólafsdóttur, lífefnafræðingi, tilnefnd af rektor Háskóla Íslands, og Torfa Magnússyni, lækni, tilnefndur af forstjóra Landspítala. Nefndin er skipuð til þriggja ára.

e)    Fulltrúar í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
– Samþykkt. Stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. er skipuð þeim Hilmari Braga Janussyni, efnaverkfræðingi, forstjóra GENÍS, formaður, Guðmundi Hafsteinssyni, frumkvöðli og formanni stefnuhóps stjórnvalda um nýsköpun, Evu Sóley Guðbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs hjá Advania og Steinunni J. Kristjánsdóttur, prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Fulltrúi Reykjavíkurborgar er Stefán Eiríksson, borgarritari. Varafulltrúar Háskóla Íslands eru Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Advania (fyrsti varamaður) og Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor og forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (annar varamaður). Stjórnin er skipuð á aðalfundi til eins árs.

f)    Fulltrúar í stjórn Keilis ehf.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf. eru Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands og sérfræðingur á skrifstofu rektors. Varafulltrúar eru Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, og Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent við Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Stjórnin er skipuð á aðalfundi til eins árs.

g)    Fulltrúar í stjórn RHnets hf.
    – Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rhnets hf. eru Anna Soffía Hauksdóttir, professor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og Þórður Kristinsson, ráðgjafi rektors. Varafulltrúar eru Fjóla Jónsdóttir, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, og Sigrún Nanna Karlsdóttir, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Stjórnin er skipuð á aðalfundi til eins árs.

9.   Mál til fróðleiks.
a)   Dagskrá ársfundar og ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, 28. mars sl.
b)   Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Hafréttarstofnunar Háskóla Íslands.
c)   Dómnefnd hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands 2019.
d)   Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2019, veitt 27. mars sl.
e)   Hugvísindaþing 2019.
f)    Fréttabréf Háskólavina, dags. 27. mars 2018.

g)   Háskóli Íslands í hópi þeirra háskóla sem hafa mest samfélagsleg áhrif á heimsvísu.
h)   Glærur rektors frá upplýsingafundi fyrir starfsfólk Háskóla Íslands 3. apríl 2019.

                                Fleira var ekki gert.
                                Fundi slitið kl. 15.55.