Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 27. júní 2024

6/2024

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2024, fimmtudaginn 27. júní var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir (á fjarfundi), Vilborg Einarsdóttir (á fjarfundi) og Þorvaldur Ingvarsson (á fjarfundi). Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson (á fjarfundi). Brynhildur K. Ásgeirsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Þar sem þetta var síðasti fundur þessa háskólaráðs þakkaði rektor í lok fundar fulltrúum í ráðinu fyrir þeirra mikilvægu störf.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri í sameiginlegri stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Nýtt reiknilíkan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi nýtt reiknilíkan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og útfærslu einstakra þátta þess. Fram kom m.a. að reiknilíkanið er enn í þróun og beðið frekari upplýsinga. Reglugerð verður að öllum líkindum sett á næstunni. Málið var rætt.

b.    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-apríl 2024.
Jenný Bára fór yfir yfirlit um rekstur Háskóla Íslands fyrstu fjóra mánuði ársins. Fram kom að rekstur Háskóla Íslands er í jafnvægi og í góðu samræmi við áætlanir. Málið var rætt.

Jenný Bára vék af fundi.

c.    Staða framkvæmda- og viðhaldsverkefna, sbr. fund háskólaráðs 11. janúar sl.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson (á fjarfundi) og fór yfir stöðu mála varðandi helstu framkvæmdir og viðhaldsverkefni sem unnið er að á þessu ári, sbr. áætlun sem var kynnt og samþykkt af háskólaráði 11. janúar sl. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum.

d.    Saga. Staða mála.
Guðmundur R. reifaði stöðu mála varðandi framkvæmdir í Sögu og ráðgerðan flutning Menntavísindasviðs og fleiri starfseininga í húsið frá komandi hausti. Málið var rætt.

3.    Skipulags- og húsnæðismál Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 2. nóvember sl. og niðurstöður háskólaþings 17. janúar sl. Staða mála.
Inn á fundinn kom Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar Háskóla Íslands.

a.    Þróunaráætlun fyrir háskólasvæðið. Staða mála og næstu skref.
Hrund fór yfir stöðu mála varðandi lúkningu þróunaráætlunar fyrir svæði Háskóla Íslands sem unnið hefur verið að á undanförnum árum í samstarfi við Reykjavíkurborg og erlenda ráðgjafa. Einnig fór Hrund yfir framlagða tillögu skipulagsnefndar um innleiðingu þróunaráætlunarinnar ásamt drögum að kostnaðaráætlun. Málið var rætt og kom m.a. fram að þróunaráætlunin var kynnt og rædd á háskólaþingi 17. janúar sl. en hefur ekki verið samþykkt af hálfu Reykjavíkurborgar sem á lokastigum málsins hefur sett fram hugmyndir að breytingum sem eru á skjön við þróunaráætlunina og hagsmuni og vilja Háskóla Íslands og annarra stofnana í nágrenninu, þ.e. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Edda), Landsbókasafn Íslands – háskólabókasafn (Þjóðarbókhlaða) og Félagsstofnun stúdenta (Saga). Fyrir fundinum lágu drög að bréfi rektors til borgarstjóra sem greinir frá afstöðu Háskóla Íslands og nágrannastofnana til þessara mála.

Að lokinni umræðu samþykkti háskólaráð að rektor sendi borgarstjóra framlagt bréf. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs, þ.m.t. verk- og kostnaðaráætlun fyrir innleiðingu þróunaráætlunarinnar.

b.    Erindi frá Reykjavíkurborg um mögulega byggingu leikskóla á lóð Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík um mögulega uppbyggingu leikskóla á háskólasvæðinu. Rektor gerði grein fyrir málinu. Fram kom að sú staðsetning fyrir nýjan leikskóla sem lögð er til í bréfinu samræmist ekki þróunaráætluninni eins og fram kemur í drögum að bréfi rektors til borgarstjóra, sbr. lið 3a. Háskólinn er hins vegar fús til áframhaldandi viðræðna við Reykjavíkurborg um hentuga staðsetningu fyrir leikskóla á háskólasvæðinu.

c.    Undirbúningur gjaldtöku fyrir bílastæði á svæði Háskóla Íslands.
Kristinn greindi frá stöðu mála varðandi undirbúning gjaldtöku fyrir bílastæði á svæði Háskóla Íslands, sbr. samþykkt háskólaráðs 7. mars sl. Fram kom að upphaf gjaldtöku næst ekki í byrjun september nk. eins og að var stefnt, en það skýrist betur þegar tímalína fyrir útboð á þjónustu við gjaldtökuna hefur verið staðfest og lóðasamningar við Reykjavíkurborg eru frágengnir. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

d.    Lóð fyrir Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar.
Rektor greindi frá viljayfirlýsingu um ráðstöfun lóðarinnar Sturlugötu 9 til Norðurslóðar, húss Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar, sem var samþykkt af háskólaráði 9. desember 2021 og undirrituð 16. desember 2021, og stöðu mála varðandi skipulagsferli sem því tengist. Málið var rætt og kom m.a. fram að þessi ráðstöfun er mikilvægur þáttur í enn frekari uppbyggingu þekkingarsamfélags í Vatnsmýrinni.

Kristinn, Hrund og Guðmundur R. viku af fundi.

Kaffihlé.

4.    Málefni háskólaráðs.

a.    Skilagrein starfshóps háskólaráðs um störf ráðsins á undangengnu starfsári, sbr. 10. gr. starfsreglna háskólaráðs.
Ólafur Pétur Pálsson, varaforseti háskólaráðs og formaður starfshóps ráðsins um störf þess á liðnu starfsári, gerði grein fyrir skilagrein starfshópsins, en hlutverk hans er að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja eftir atvikum til umbætur á starfsháttum þess. Auk Ólafs Péturs voru í nefndinni Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Málið var rætt. Rektor og ritari háskólaráðs munu fara yfir skilagreinina.

b.    Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2023-2024. Lokastaða.
Rektor fór yfir lokayfirlit funda- og starfsáætlunar háskólaráðs sem upphaflega var samþykkt í ráðinu 5. október sl. og uppfærð hefur verið reglulega á umliðnu starfsári. Málið var rætt.

5.    Um útreikning á tímafjölda að baki námskeiða og mögulega samræmingu, sbr. síðasta. fund. Niðurstaða starfshóps.
Ólafur Pétur gerði grein fyrir niðurstöðu starfshóps um útreikning á tímafjölda að baki námskeiða og tillögum um samræmingu, sbr. fund ráðsins 2. maí sl. Málið var rætt og svaraði Ólafur Pétur spurningum.

Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma eftirfarandi tillögur starfshópsins þar sem vísað er í viðauka í niðurstöðu hópsins.

I.    Reiknaður verði út heildarfjöldi kennslutíma fyrir námskeið sem fer eftir stærð námskeiðs (í ECTS) og fjölda nemenda. Undirbúningur, umsjón, kennsla, námsmat og annað er innifalið í þeirri tölu. Miðað er við fjölda nemenda þegar búið er að loka fyrir breytingar á námskeiðsskráningum að hausti og vori.

II.    Við útreikning verði lagt til grundvallar einfalt reiknilíkan sem kallað er „Grunnur, brot og beinar línur“ eða sambærilegt líkan. Sjá viðauka A.

III.    Til þess að hefja vinnuna er lagt til að samræming eigi sér stað með þeim hætti að myndað verði ásættanlegt bil fyrir sambærileg námskeið sem byggist að einhverju leyti á sögulegum gögnum. Rökstyðja þurfi frávik fyrir sérhvert námskeið sem fellur utan þessara marka.

IV.    Allar reiknireglur verði gerðar aðgengilegar starfsfólki í akademíu og stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Samhliða ofangreindu verði unnið að eftirfarandi:

V.    Sett verði viðmið um til hvers sé ætlast af kennara í hverri námskeiðsstærð (t.d. tveir “tímar“ á viku fyrir 5 ECTS námskeið o.þ.h.).

VI.    Sett sé vinna í að gera Kol villulausan og notkun fræðasviða á Kol sé samræmd.

VII.    Unnið sé að því að samræma aðstoðarkennslu fyrir fjölmenn námskeið innan háskólans, en það sé á forræði fræðasviða. Fylgja má tillögum að samræmingu sem sjá má í viðauka B.

VIII.    Unnið sé að því að samræma fjölda stunda sem reiknaður er fyrir lesnámskeið t.d. þriðjungur af grunni (G) sjá nánar í viðauka A. Fjöldamörk gætu verið mismunandi milli fræðasviða þar sem nemendahópar eru misstórir.

IX.    Skyldunámskeið séu að jafnaði reiknuð sem grunnur G, þó fjöldi nemenda fari undir lágmarksfjölda eftir að námskeiðið sé hafið.

Næstu skref: Tillögurnar verði kynntar á fræðasviðum Háskóla Íslands haustið 2024. Forsetum fræðasviðanna verði falið að innleiða samræminguna og upplýsa háskólaráð um stöðu mála innan síns fræðasviðs í árslok 2025. Aðstoðarrektor kennslumála hafi yfirumsjón með þessari vinnu.

Katrín Atladóttir vék af fundi.

6.    Nemendamál. Álit kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor og formaður kærunefndar í málefnum nemenda.

a.    Mál nr. 2024/1.
Fyrir fundinum lá álit kærunefndar í máli nr. 2024/1 og gerði Eyvindur grein fyrir því. Málið var rætt.
– Háskólaráð samþykkir samhljóða þau rök og niðurstöður sem fram koma í áliti kærunefndar í málefnum nemenda í máli nr. 2024/1. Katrín Björk sat hjá.

b.    Mál nr. 2024/2.
Fyrir fundinum lá álit kærunefndar í máli nr. 2024/2 og gerði Eyvindur grein fyrir því. Málið var rætt.
– Háskólaráð samþykkir einróma þau rök og niðurstöður sem fram koma í áliti kærunefndar í málefnum nemenda í máli nr. 2024/2.

c.    Mál nr. 2024/3.
Fyrir fundinum lá álit kærunefndar í máli nr. 2024/3 og gerði Eyvindur grein fyrir því. Málið var rætt.
– Háskólaráð samþykkir einróma þau rök og niðurstöður sem fram koma í áliti kærunefndar í málefnum nemenda í máli nr. 2024/3.

Eyvindur vék af fundi.

7.    Bókfærð mál.
a.    Endurskoðun samstarfssamnings Háskóla Íslands og Landspítalans.

– Samþykkt.

b.    Samkomulag Háskóla Íslands og Landspítalans um Miðstöð í öldrunarfræðum (fylgiskjal með samstarfssamningi).
– Samþykkt.

c.    Kennslumálanefnd. Skipun til næstu þriggja ára, frá 1. júlí 2024.
– Tilnefningar hafa borist frá öllum fræðasviðum og er rektor falið að ganga frá skipun nefndarinnar.

d.    Skipulagsnefnd háskólasvæðisins. Framlenging skipunar til 30.6.2025.
– Samþykkt. Nefndin er skipuð Hrund Ólöfu Andradóttur, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, formaður, Örnu Hauksdóttur, prófessor við Læknadeild, Stefáni Thors, arkitekt og fyrrverandi forstjóra Skipulagsstofnunar og NN, fulltrúa stúdenta. Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, starfar með nefndinni ásamt Jóni Sigurði Péturssyni, verkefnisstjóra á framkvæmda- og tæknisviði, sem er ritari nefndarinnar. Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, er áheyrnarfulltrúi rektors og Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. er áheyrnarfulltrúi af hálfu Vísindagarða.

e.    Stjórn Endurmenntunar Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð Kristni Andersen, prófessor og sviðsstjóra kennslusviðs, formaður skipaður af rektor án tilnefningar, Steinunni Hrafnsdóttur, prófessor, fulltrúa Félagsvísindasviðs (varamaður: Þórhallur Örn Guðlaugsson, prófessor), Jóni Grétari Sigurjónssyni, kennslustjóra, fulltrúa Heilbrigðisvísindasviðs  (varamaður: Erna Sigurðardóttir, rekstrarstjóri), Oddnýju G. Sverrisdóttur, prófessor, fulltrúa Hugvísindasviðs (varamaður: Jón Axel Harðarson, prófessor), Renötu Emilsson Pesková, lektor, fulltrúa Menntavísindasviðs (varamaður: Kolbrún Þ. Pálsdóttir, sviðsforseti), og Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor, fulltrúa Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (varamaður: N.N.).

f.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Fjölgun nemenda sem teknir verða inn í meistaranám í talmeinafræði 2024-2025.
– Samþykkt. Nemendum sem teknir verða inn í meistaranám í talmeinafræði háskólaárið 2024-2025 verður fjölgað úr 16 í 18.

g.    Frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Tillaga að breytingu á 27. gr. reglna um inntökuskilyrði í grunnnám nr. 331/2022. Varðar námsbraut í stærðfræði í Raunvísindadeild.
– Samþykkt.

h.    Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á 25. og 27. gr. reglna nr. 331/2022 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands. Varðar færslu ákvæðis um undirbúning undir nám í lífefna- og sameindalíffræði úr 27. gr. reglnanna (Raunvísindadeild) yfir í 25. gr. reglnanna (Líf- og umhverfisvísindadeild).
– Samþykkt.

i.    Frá Miðstöð framhaldsnáms: Endurskoðuð viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

j.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillögur að breytingum á aðgangs- og framvindukröfum í Lyfjafræðideild og lágmarkseinkunnum og inntökureglum í Læknadeild.
– Samþykkt.

k.    Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á 57. gr. reglna nr. 569/2009 vegna samræmingar kennslualmanaks Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

l.    Tillaga um niðurstöðu varðandi áskorun Stúdentaráðs varðandi endurgreiðslu skrásetningargjalds, dags. 26. október 2023.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Ársreikningur Háskóla Íslands 2023.
b.    Kynning rektors á ársfundi Háskóla Íslands 23. maí 2024.
c.    Handhafar árlegrar viðurkenningar Háskóla Íslands fyrir frumkvæði og forystu.
d.    Skýrsla starfshóps um málefni íþróttahúss Háskóla Íslands.
e.    Drög dagatals Háskóla Íslands 2024-2025.
f.    Úthlutun úr Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands.

g.    Ársreikningur Sprota – eignarhaldsfélags Háskóla Íslands ehf. 2023.
h.    Ársreikningur RHnets hf. 2023.
i.    Ársreikningur Klaks Innovit ehf. 2023.
j.    Greinargerð um störf sjálfbærninefndar 2023-2024.
k.    Samkomulag Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum um stjórnskipulag háskólasamstæðu.
l.    Persónuverndar- og upplýsingaöryggisnefnd 2024-2026.
m.    Fréttabréf háskólavina, dags. 30. maí 2024.
n.    Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 15. júní 2024.
o.    Framgangur akademískra starfsmanna í starfi.
p.    Rúmlega 20 styrkir til doktorsnema við Háskóla Íslands.

q.    Úthlutun nýdoktorastyrkja HÍ 2024.
r.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 27. júní 2024.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.