10/2020
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2020, fimmtudaginn 10. september var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Kjör varaforseta háskólaráðs, sbr. 4. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Rektor bar upp tillögu um að Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs og fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði, verði varaforseti ráðsins tímabilið 2020-2022.
– Samþykkt einróma.
3. Stefna og starfsemi Háskóla Íslands.
Rektor gerði ítarlega grein fyrir stefnu og starfsemi Háskóla Íslands. Fram kom m.a. að gildistími núverandi heildarstefnu Háskóla Íslands rennur út á næsta ári og verður mótun nýrrar stefnu fyrir tímabilið 2021-2026 eitt af meginviðfangsefnum Háskólans á þessu starfsári, sbr. dagskrárlið 4. Í stýrihópi nýrrar stefnu verða Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent, Magnús Þór Torfason, dósent og Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs. Málið var rætt.
4. Starfsáætlun háskólaráðs 2020-2021. Drög.
Rektor gerði grein fyrir framlögðum drögum að starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2020-2021. Málið var rætt og beindi rektor því til ráðsmanna að koma tillögum og ábendingum varðandi starfsáætlunina á framfæri við ritara ráðsins. Málið kemur til afgreiðslu á næsta fundi háskólaráðs.
5. Viðbrögð við ábendingum nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári, skv. 10. gr. starfsreglna ráðsins, sbr. fund ráðsins 4. júní sl.
Á fundi háskólaráðs 4. júní sl. lagði nefnd um störf ráðsins, sbr. 10. gr. starfsreglna þess, fram álit, dags. 26. maí sl., um störf ráðsins starfsárið 2019-2020. Málið var rætt og tekið undir þær ábendingar sem settar eru fram í álitinu. Sameiginlegri stjórnsýslu var falið að fara yfir þær og undirbúa mögulega útfærslu og framkvæmd og lá minnisblað þar um fyrir fundinum. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.
6. Endurskoðunarnefnd háskólaráðs og skipun hennar.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi Háskóla Íslands. Fyrir fundinum lá tillaga um að sett verði á laggirnar þriggja manna endurskoðunarnefnd sem heyri undir háskólaráð. Jafnframt lágu fyrir fundinum drög að starfsreglum fyrir nefndina. Þórður og Ingunn gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Tillagan um stofnun endurskoðunarnefndar var samþykkt einróma.
Ingunn Ólafsdóttir vék af fundi.
7. Skipulag starfsemi Háskóla Íslands háskólaárið 2020-2021 í ljósi COVID-19 faraldursins. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir skipulagi starfsemi Háskóla Íslands háskólaárið 2020-2021 í ljósi aðstæðna vegna COVID-19 veirufaraldursins. Málið var rætt. Fram kom að á næsta fundi munu fulltrúar stúdenta greina frá áhrifum COVID-19 á nám og aðstæður stúdenta.
8. Fjármál:
a. Tillaga fjármálanefndar.
Rektor gerði grein fyrir tillögu fjármálanefndar um hækkun taxta stundakennara. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.
b. Framtíðarfyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands. Staða mála.
Inn á fundinn komu Daði Már Kristófersson, prófessor við Hagfræðideild, og Einar Þór Sverrisson og Jón Örn Árnason, lögfræðingar hjá Mörkinni lögmannsstofu hf. Gerðu þeir, ásamt rektor, grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning að stofnun fasteignafélags um fasteignir Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svöruðu gestir fundarins spurningum er fram komu.
Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð svohljóðandi bókun:
„Háskólaráð leggur þunga áherslu á að fasteignir Háskóla Íslands verði færðar í einkahlutafélag í eigu skólans, sbr. fyrri umfjöllun ráðsins á mörgum fundum þess frá því í janúar 2019 og ítarleg samskipti við stjórnvöld og jákvæð viðbrögð. Háskólaráð leggur áherslu á að sjálfstæði Háskóla Íslands verði tryggt og sömuleiðis hagsmunir skólans í tengslum við innleiðingu þeirra breytinga sem unnið er að á rekstri og utanumhaldi á fasteignum í eigu ríkisins. “
– Rektor vinnur áfram að málinu á þeim forsendum sem lagt hefur verið upp með.
Daði Már, Einar Þór og Jón Örn viku af fundi.
9. Drög að endurskoðuðum reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna, sbr. fund ráðsins 7. maí sl.
Inn á fundinn kom Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og gerði grein fyrir endurskoðuðum drögum að reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna og þeim athugasemdum sem bárust í umsagnarferli í kjölfar fundarins 4. júní sl. Málið var rætt og svaraði Guðbjörg Linda spurningum og ábendingum ráðsmanna. Ráðgert er að endanlegar tillögur liggi fyrir til afgreiðslu á fundi ráðsins í október nk.
10. Bókfærð mál.
a. Auglýsing um fyrirkomulag kennslu, prófa og námsmats við Háskóla Íslands háskólaárið 2020-2021.
– Samþykkt einróma.
b. Endurnýjaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
– Samþykkt einróma.
11. Mál til fróðleiks.
a. Dagatal Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2020-2021, þ.m.t. fundaáætlun háskólaráðs.
b. Skipan starfsnefnda háskólaráðs.
c. Skipan vísindasiðanefndar.
d. Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
e. Skýrsla starfshóps um meðferð erlendra styrkja (SMES) tímabilið 1.5.2019-30.4.2020.
f. Skipan formanns kærunefndar í málefnum nemenda.
g. Bréf frá Gæðaráði háskóla vegna stofnanaúttektar á Háskóla Íslands, dags. 24. júlí 2020.
h. Aurora-háskólar fá stóran styrk frá Evrópusambandinu.
i. Staða Háskóla Íslands á Shanghai-listanum.
j. Ávarp rektors við brautskráningu, 27. júní sl.
k. Nýr sjóður til stuðnings íslenskri tungu.
l. HÍ kemur að nýju rannsókna- og nýsköpunarsetri á Akranesi.
m. Yfir 40 fá framgang í starfi.
n. Háskóli Íslands framarlega á mörgum fræðasviðum samkvæmt nýjum Shanghai lista.
o. Nýir sviðs- og deildarforsetar taka við.
p. Hátt í 40 verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni fá styrk.
q. Anna Dóra Sæþórsdóttir hlaut fálkaorðuna.
r. Sigurður Magnús Garðarsson nýr formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands.
s. Nýtt umsjónarkerfi fyrir doktorsnám.
t. Kennarar Háskóla Íslands verðlaunaðir.
u. Framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs rísi í Vatnsmýri innan fjögurra ára.
v. Rektor í hópi fremstu vísindamanna heims í tölvunarfræði.
w. Nýr sjóður styrkir nýsköpun við Háskóla Íslands.
x. Fréttabréf Háskólavina, 1. september 2020.
y. Vísinda- og tæknistefna 2020-2022.
z. Á lista Times Higher Education tíunda árið í röð.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.