Joe Wallace Walser III, doktorsnemi og stundakennari við Sagnfræði- og heimspekideild - Greypt í bein
Mögnuð en óblíð náttúra hefur sett mark sitt á líf Íslendinga gegnum aldirnar. Þessu fáum við að kynnast í nýju þáttaröðinni um Fjársjóð framtíðar. Í þáttaröðinni er fjallað um eldgos frá ólíkum sjónarhornum og á meðal þess eru bein fólks og þau merki sem þau sýna um áhrif eldsumbrota.
Bein fólks varðveita sögu hvers einstaklings vegna þess að sem lifandi vefir mótast þau í sífellu af vinnuálagi, sjúkdómum, áföllum og öðru því sem hver og einn verður fyrir á lífsleiðinni. Þá hafa erfðir einnig áhrif á það hvernig beinagrindin bregst við áreiti og utanaðkomandi áhrifum.
Joe Wallace Walser III, doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, rannsakar þessi áhrif og notar til þess mannabeinasafn Þjóðminjasafns Íslands. Í forgrunni eru áhrif búsetu á eldfjallasvæði á líkamlega heilsu fólks. Beinin koma víðs vegar af landinu og frá ýmsum tímum, allt frá landnámi og fram yfir miðaldir. Joe segir safnið einstakt; það sýni ákveðna erfðafræðilega einsleitni gegnum söguna og hvernig fólk hafi mótast af umhverfi sínu.
Joe Wallace Walser III
Bein fólks varðveita sögu hvers einstaklings vegna þess að sem lifandi vefir mótast þau í sífellu af vinnuálagi, sjúkdómum, áföllum og öðru því sem hver og einn verður fyrir á lífsleiðinni.
„Þær niðurstöður sem nú þegar liggja fyrir gefa til kynna að formæður okkar og -feður hafi orðið fyrir verulegu heilsutjóni af völdum tíðra eldgosa hér á landi en spurningar um slíkt brenna einnig á vörum fólks í dag eftir gosið í Holuhrauni. Svarið við þeim er að gosmengun hefur margháttuð áhrif á heilsufar fólks, bæði til skamms og langs tíma, en þetta hefur ekki verið rannsakað markvisst áður, hvorki á Íslandi né annars staðar í heiminum þar sem eldvirkni er til staðar. Vonir standa þess vegna til að niðurstöður rannsóknarinnar veiti ekki aðeins upplýsingar um áhrif eldgosa á heilsu fólks hérlendis á öldum áður heldur einnig hver langtímaáhrif þeirra eru hvarvetna þar sem gosmengunar gætir,“ segir Joe.
Þeir sjúkdómar sem eru mest áberandi vegna gosmengunar tengjast öndunarfærum og tannheilsu að sögn Joe en einmitt þar kemur erfðafræðin við sögu. Ákveðnir erfðafræðilegir þættir verða til þess að áhrifin eru ekki eins hjá öllum sem verða fyrir gosmengun.
„Þegar greiningu á beinunum er lokið taka við sameindarannsóknir á hinu forna erfðaefni úr einstaklingunum hjá Íslenskri erfðagreiningu og sértækar greiningar á tannsliti og tannsteini hjá Þjóðminjasafni Íslands til að fá frekari mælanlegar niðurstöður,“ bætir Joe við.
Með þessum hætti verður hægt að áætla hvar og hvernig megi varast að gosmengun hafi heilsufarsleg áhrif á fólk og þannig nýta þekkinguna til forvarna síðar meir.