Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi
Breytingar á komutíma farfugla að vori eru afar augljós merki um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar. Fjöldi rannsókna í Evrópu og Ameríku, m.a. á Íslandi, hefur sýnt að farfuglar koma æ fyrr á varpstöðvar með hlýnandi veðri. Þetta á einkum við um skammdræga farfugla en síður um langdræga. Vísindamenn hafa engu að síður átt í vandræðum með að greina ástæður breytinganna.
„Það er mikilvægt að skilja hvað veldur þessum breytingum því að á heimsvísu hefur frekar fækkað í stofnum tegunda sem ekki hafa brugðist við hlýnandi veðurfari með því að færa komutíma sinn fram,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hann kemur við sögu í nýrri þáttaröð um Fjársjóð framtíðar sem er alfarið helguð rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands. Þáttaröðin er sýnd á RÚV.
Hingað til hafa þessar breytingar helst verið skýrðar með því að einstaklingar ferðist fyrr á vorin í hlýju árferði en kaldara. Þannig getur sveigjanleiki einstaklinga gagnvart veðurfari skýrt breytingar á meðalkomutíma með hlýnandi veðri. Það er þó ekki einhlít skýring þar sem rannsóknir þar sem fylgst hefur verið með einstaklingum frá ári til árs benda til þess að einstakir fuglar fylgi yfirleitt sömu áætlun frá ári til árs og ferðist því sem næst á sama tíma ár hvert.
Tómas Grétar Gunnarsson
„Það er mikilvægt að skilja hvað veldur þessum breytingum því að á heimsvísu hefur frekar fækkað í stofnum tegunda sem ekki hafa brugðist við hlýnandi veðurfari með því að færa komutíma sinn fram.“
Rannsóknir okkar á jaðrakaninum sýna einmitt þetta, að einstaklingar eru mjög vanafastir þegar kemur að tímasetningu farflugs. Þrátt fyrir þessa vanafestu hefur meðalkomutími fyrstu fugla að vori færst fram um tvær vikur síðan 1988. Það þarfnast skýringa að einstakir fuglar virðast fylgja sömu áætlun en samt hefur meðalkomutími jaðrakana og margra annarra fugla færst fram með hlýnandi veðri. Tómas Grétar segir að jaðrakanar hafi verið einstaklingsmerktir í tæp 20 ár og fylgst hafi verið með fjölda einstaklinga á ferð um Evrópu með hjálp meira en 2000 fuglaskoðara. „Á þessum tíma höfum við merkt talsvert af fuglum á þekktum aldri. Með því að skoða komutíma fugla á fyrsta ári fundum við út að fuglar sem klöktust úr eggi á síðasta áratug síðustu aldar koma flestir til landsins í maí en fuglar sem klakist hafa úr eggi á þessari öld koma flestir í apríl. Breytingar á komutíma má sem sagt rekja til þess að nýliðar í varpstofninum koma fyrr en þeir eldri og þeir halda svo áætlun fyrsta ársins það sem eftir er ævinnar.“
Tómas Grétar og samstarfsmenn telja að líklegasta skýring þess að ungir fuglar komi fyrr til landsins en þeir eldri sé sú að varptíminn hafi færst fram.
„Ungarnir klekjast því æ fyrr úr eggi og þá hefst atburðarás sem veldur því að þeir ferðast fyrr til Íslands þegar þeir snúa aftur í fyrsta skipti en fyrri árgangar gerðu. Þetta getur líka skýrt af hverju komutími langdrægra farfugla hefur breyst minna en skammdrægra því að langdrægir farfuglar koma seinna að vorinu. Þeir hafa minni tíma til að bregðast við hlýnandi veðri með því að færa varptíma sinn fram. Þetta sjáum við einmitt hjá íslenskum vaðfuglum. Þeir sem koma seinna til landsins hafa skemmri tíma milli farflugs og varps og hafa því fært varptíma sinn minna fram en hinir eða jafnvel ekki.“
Tómas segir að skýra þurfi betur hvað stjórnar tímasetningu í ársferlinum frá því að jaðrakansungi kemur úr eggi og þar til hann flýgur í fyrsta skipti til Íslands tveimur árum seinna. „Þessi rannsókn er samt mikilvægt skref í að skilja hvernig breytingum á fartíma farfugla er háttað og hvaða áhrif þær hafa á stofnvistfræði og vernd farfuglastofna.“