Óskar Sindri Gíslason, doktor frá Líf- og umhverfisvísindadeild
Óskar Sindri Gíslason, doktor í sjávarlíffræði frá Háskóla Íslands, rannsakaði hinn norður-ameríska grjótkrabba (Cancer irroratus) sem hefur náð fótfestu á Íslandsmiðum. Krabbinn fannst við landið árið 2006 en Óskar Sindri hefur tengst rannsóknum á líffræði hans frá fyrsta degi. Markmið rannsóknarinnar var að efla skilning á stofnlíffræði og erfðasamsetningu krabbans við síðlandnám hans. Óskar Sindri er í viðtali í öðrum þætti sjónvarpsseríunnar Fjársjóðs framtíðar en í henni fylgjumst við m.a. með rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi. Fjallað er um breytingar á vistkerfum landsins samfara hækkandi hitastigi og þar skipta rannsóknir Óskars Sindra miklu máli: „Bakgrunnur dýranna var kannaður ítarlega og hvort þau mynduðu erfðafræðilega frábrugðinn stofn frá upprunasvæðinu í Norður-Ameríku. Einnig voru merki metin um landnámsáhrif á Íslandsmiðum og hvort aðskildir stofnar séu nú þegar á miðunum,“ segir Óskar Sindri.
Flutningur framandi tegunda út fyrir náttúruleg heimkynni þeirra er með stærri umhverfis- og efnahagsvandamálum nútímans að hans sögn.
Óskar Sindri Gíslason
„Grjótkrabbinn virðist vera kominn til að vera á Íslandsmiðum og þar sem um nytjategund er að ræða felast samfélagsleg verðmæti rannsókna á honum einkum í því að fá vitneskju um hvort um lífvænlegan og sjálfbæran veiðistofn sé að ræða.“
„Mönnum gefst sjaldan kostur á því að rannsaka tegundir frá upphafi landnáms þeirra, sér í lagi í sjó.“ Með þeim rökum segir Óskar Sindri að það hafi aldrei verið vafi í sínu tilfelli að skella sér í rannsóknir á þessum „áhugaverða landnema“.
Fyrstu niðurstöður benda til þess að grjótkrabbastofninn þrífist vel við Ísland en erfðabreytileiki innan hans er svipaður og hjá amerískum viðmiðunarstofnum.
„Grjótkrabbinn virðist vera kominn til að vera á Íslandsmiðum og þar sem um nytjategund er að ræða felast samfélagsleg verðmæti rannsókna á honum einkum í því að fá vitneskju um hvort um lífvænlegan og sjálfbæran veiðistofn sé að ræða.“