Leitandi málgjörðir: Að draga fram bakgrunnsþekkingu og gera hana að merkingu
Árnagarður
Stofa 101
Föstudaginn 29. mars mun Donata Schoeller halda fyrirlestur á vegum Heimspekistofnunar kl. 15:30 í stofu 101 í Árnagarði.
Titill erindisins er Leitandi málgjörðir: Að draga fram bakgrunnsþekkingu og gera hana að merkingu.
Í fyrirlestrinum verða kynntar til sögu málgjörðir sem nefna má leitandi, sem þýðir að þær öðlast ekki merkingu samstundis, heldur smám saman. Merkingin sem þær kunna að öðlast veltur á því að reyna að orða eitthvað sem reynist erfitt að koma orðum að. Það er engin endanleg ætlan, tilfinning eða hugmynd sem birtist, né heldur er mögulegt að orða það sem maður vill. Leitandi málgjörðir öðlast merkingu þegar bókstaflega er talað inn í tilfinningalegan margbreytileika, líkt og Eugene Gendlin sýnir fram á. Það sem máli skiptir varðandi þessar málgjörðir er að þekkingin verður til og þróast um leið og hún er orðuð, en hún er ekki ekki verufræðulegt ástand einhvers sem býr innra með manni. Eitthvað er í húfi í leitandi málgjörðum. Það sem maður reynir að segja í leitandi málgjörðum getur varðað samhengi og samsetningar, reynslubundnar aðstæður, „know-how“, þögla þekkingu, tiltekin smáatriði og óljósar tilfinningar sem leynast í bakgrunni hinnar verðandi reynslu. Til að geta talað um þessa margslungnu skírskotunarþætti kynnti John Dewey til sögu hugtakið „gæði aðstæðna“ (e. quality of a situation) og Eugene Gendlin hugtakið „skynjuð tilfinning“ (e. felt sense). Í fyrirlestrinum er leitað leiða til þess að nálgast leitandi málgjörðir í heimspekilega viðeigandi umhverfi og í heimspekilegri iðju.
Donata Schoeller er lektor í heimspeki við Háskólann í Koblenz og gestaprófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum fæst hún við líkamlegar nálganir á hugsun og þekkingu á grunni túlkunarfræði, fyrirbærafræði, málspeki, pragmatisma og út frá sálmeðferðarlegum sjónarmiðum sem og rannsóknum hugarfræði. Meðal bóka hennar eru Close Talking: Erleben zu Sprache bringen (De Gruyter 2019), Saying What We Mean, ásamt Ed Casey (Northwestern University Press) og Thinking Thinking, ásamt Vera Saller (Alber Verlag). Þá hefur hún þýtt meginverk Eugene Gendlins í heimspeki, A Process Model, á þýsku. Donata Schoeller hefur birt fjölmargar greinar í alþjóðlegum tímaritum eins og Continental Philosophy Review, Mind and Matter, Nietzsche Studien og Deutsche Zeitschrift für Philosophie. Hún er þjálfari í líkamlegri gagnrýnni hugsun, focusing og hugsað-á-brúninni, sem hún kennir við háskóla víða um heim. Hún hlaut þjálfun hjá Claire Petitmengin í „Elicitation“-aðferð líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar og er þátttakandi í rannsóknarstofu hennar í ör-fyrirbærafræði í París.
Donata Schoeller.