Breytt skattaumhverfi styrktarsjóða boðar góð tíðindi fyrir doktorsnema HÍ
Breytingar á skattalegri umgjörð styrktarsjóða, sem gerðar voru seint á síðasta ári, hafa mikla þýðingu fyrir Háskólasjóð h/f Eimskipafélags Íslands sem styrkt hefur doktorsnema við Háskóla Íslands í á annan áratug. Um helmingi hærri upphæð verður úthlutað úr sjóðnum næstu þrjú ár en í fyrra.
Háskólasjóður h/f Eimskipafélags Íslands var stofnaður árið 1964 til minningar um þá Vestur-Íslendinga sem hlut áttu að stofnun Hf. Eimskipafélags Íslands og hefur markmið hans frá upphafi verið að styðja efnilega stúdenta við Háskóla Íslands. Frá árinu 2005 hefur sjóðurinn verið í umsjá Landsbankans en sama ár var samþykkt að verja ákveðnum hluta af eign hans til að styðja
nemendur í rannsóknum við HÍ, einkum doktorsnema. Yfir 160 doktorsnemar á öllum fræðasviðum skólans hafa síðan þá notið stuðnings sjóðsins en hann er langstærstur styrktarsjóða Háskólans með eignir upp á fjóra milljarða króna. Þá studdi sjóðurinn uppbyggingu Háskólartorgs með 500 milljóna króna framlagi.
Skattalegt umhverfi styrktarsjóða og almannaheillafélaga hér á landi hefur lengi verið öðruvísi en tíðkast víða erlendis en í því felst m.a. að þessir aðilar hafa greitt hér fjármagnstekjuskatt, sem nú er 22%. Þetta fyrirkomulag hefur dregið mjög úr getu styrktarsjóða við Háskóla Íslands til að styðja við uppbyggingu náms, rannsókna og nýsköpunar við skólann.
Með skattalagabreytingum sem tóku gildi 1. nóvember 2021 var skattbyrði þessara aðila létt en forsvarsmenn Háskólans og fleiri aðilar höfðu lengi barist fyrir því. Breytingarnar fela m.a. í sér að styrktarsjóðir fá nú fjármagnstekjuskatt endurgreiddan sem eykur töluvert möguleika sjóða eins og Háskólasjóðs h/f Eimskipafélags Íslands til að efla stuðning sinn við vísindastarf og doktorsnema. Skattalagabreytingarnar gera jafnframt einstaklingum og fyrirtækjum kleift að draga frá tiltekna fjárhæð eða hlutfall framlaga til almannaheillafélaga og styrktarsjóða frá skattskyldum tekjum. Fyrir Háskólasjóð h/f Eimskipafélags Íslands þýða þessar lagabreytingar að um 160 milljónir króna sem hefðu að óbreyttu verið greiddar í fjármagnstekjuskatt munu á næstu árum skila sér í hærri styrkjum til doktorsnema.
120 milljónum úthlutað úr sjóðnum í ár
Þessi nýi veruleiki var ræddur á fundi stjórnar Háskólasjóðs h/f Eimskipafélags Íslands í liðinni viku en stjórnina skipa þau Helga Björk Eiríksdóttir, stjórnarformaður Landsbankans, sem er formaður, Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips. Þá starfar Vigdís S. Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, með stjórninni.
Stjórnin ákvað á fundi sínum að úthluta 80 milljónum króna úr sjóðnum í ár sem er svipuð fjárhæð og í fyrra. Breytingar á höfuðstól sjóðsins, sem m.a. eru tilkomnar vegna breytinga á skattaumgjörðinni, gera stjórninni enn fremur kleift að auka styrkveitingu næstu þriggja ára um 120 milljónir króna eða um 40 milljónir á ári. Samanlagt verður því 120 milljónum króna úthlutað í ár eða 50% meira en upphaflega var áætlað. Það má því reikna með að sjóðurinn geti styrkt mun fleiri doktorsnema í ár en í fyrra en styrkjum er úthlutað ýmist til eins, tveggja eða þriggja ára, allt eftir því hvar doktorsnemar eru staddir í sínu námi.
Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands myndar nú ásamt Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og fleiri minni sjóðum safn sjóða sem nefndur er Doktorsstyrkjasjóður Háskóla Íslands. Honum er, eins og nafnið bendir til, sérstaklega ætlað að styrkja doktorsnám við skólann en það hefur eflst gríðarlega á þessari öld og gert skólanum kleift að sækja fram í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Umsóknarfrestur um styrki úr sjóðnum fyrir yfirstandandi ár rann út í janúar síðastliðnum og úthlutað verður úr sjóðnum nú á vordögum.
Við þetta má bæta að Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fór ítarlega yfir áhrif þessara nýju skattabreytinga á styrktarsjóði Háskóla Íslands á fræðslufundi Landsbankans í liðnum mánuði. Glærur frá þeim fundi má finna hér