Markmið sjóðsins er að stuðla að því að íslenska verði áfram töluð á Íslandi. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til að efla vald á íslensku máli barna og fullorðinna, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Styrkir skulu veittir vegna verka sem styðja við og efla notkun á íslensku máli, svo sem þróunarverkefna einkum á leikskóla- og grunnskólastigi, námskeiða, bókaskrifa, bókaþýðinga og bókaútgáfu, t.d. fjölmálabóka, heimasíðna, efnis fyrir snjalltæki og annars sem álitlegt þykir til að ná markmiði sjóðsins. Íslenskusjóðurinn er stofnaður af Elsu Sigríði Jónsdóttur og Tómasi Gunnarssyni til minningar um foreldra þeirra, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson. Saga Sigríður S. Sigurðardóttir f. 1903, d. 1989. Sigríður var Austfirðingur að ætt og uppruna, lauk kennaraprófi en starfaði einkum sem húsmóðir í Borgarnesi. Jón Sigurðsson f. 1904, d. 2002. Jón var af breiðfirskum og húnvetnskum ættum, ólst upp í Borgarfirði, lauk námi frá Bændaskólanum á Hvanneyri en starfaði lengi við verslunarstörf í Borgarnesi. Björg Tómasdóttir f. 1917, d. 1990. Björg var fædd í Skagafirði austan vatna, átti ættir að rekja þangað og ólst þar upp. Björg lauk kennaraprófi en var lengst af sjúklingur. Gunnar Guðmundsson f. 1913, d. 1974. Gunnar var fæddur í Dalasýslu en var af húnvetnskum og skagfirskum ættum. Hann lauk kennaraprófi og starfaði sem kennari í íslensku og síðar skólastjóri við Laugarnesskólann í Reykjavík. Þau voru öll af ungmennafélagskynslóðinni, þar sem fullveldi Íslands og sjálfstæði voru meginmál. Íslensk tunga var þeim hjartfólgin og vildu þau veg hennar sem mestan. Stjórn Stjórn sjóðsins skipa: Samúel Lefever, dósent við Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem annað mál við Íslensku- og menningardeild, Hugvísindasviði Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Skipulagsskrá Skipulagsskrá Íslenskusjóðsins 1. gr. Nafn sjóðs, heimili og varnarþing Sjóðurinn heitir Íslenskusjóðurinn. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. Sjóðurinn er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem eru í fjárvörslu Háskóla Íslands. 2. gr. Markmið og tilgangur sjóðsins Markmið sjóðsins er að stuðla að því að íslenska verði áfram töluð á Íslandi. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til að efla vald á íslensku máli barna og fullorðinna, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Styrkir skulu veittir vegna verka sem styðja við og efla notkun á íslensku máli, svo sem þróunarverkefna einkum á leikskóla- og grunnskólastigi, námskeiða, bókaskrifa, bókaþýðinga og bókaútgáfu, t.d. fjölmálabóka, heimasíðna, efnis fyrir snjalltæki og annars sem álitlegt þykir til að ná markmiði sjóðsins. 3. gr. Stofnframlag og tekjur sjóðsins Stofnframlag sjóðsins er peningagjöf að upphæð kr. 50.000.000 – fimmtíu milljónir króna. Einn fimmti hluti stofnframlags, verðbættur, er óskerðanlegur. Tekjur sjóðsins eru eftirfarandi: Vextir og arður af eignum sjóðsins. Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni sjóðsins. Sjóðurinn tekur við gjöfum og framlögum frá þeim sem vilja vinna að markmiði hans skv. 2. gr. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma og taka mið af fjárfestingastefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Heimilt er að úthluta árlega styrkjum sem svara til 10% af upphaflegu stofnfé á 8-10 ára tímabili, sem dreifist sem jafnast á hvert ár að teknu tilliti til óskerts stofnframlags. 4. gr. Stofnendur sjóðsins Íslenskusjóðurinn er stofnaður af Elsu Sigríði Jónsdóttur kt. 180739-2629 og Tómasi Gunnarssyni kt. 240937-7199 til minningar um foreldra þeirra, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson. Sigríður S. Sigurðardóttir f. 1903, d. 1989. Sigríður var Austfirðingur að ætt og uppruna, lauk kennaraprófi en starfaði einkum sem húsmóðir í Borgarnesi. Jón Sigurðsson f. 1904, d. 2002. Jón var af breiðfirskum og húnvetnskum ættum, ólst upp í Borgarfirði, lauk námi frá Bændaskólanum á Hvanneyri en starfaði lengi við verslunarstörf í Borgarnesi. Björg Tómasdóttir f. 1917, d. 1990. Björg var fædd í Skagafirði austan vatna, átti ættir að rekja þangað og ólst þar upp. Björg lauk kennaraprófi en var lengst af sjúklingur. Gunnar Guðmundsson f. 1913, d. 1974. Gunnar var fæddur í Dalasýslu en var af húnvetnskum og skagfirskum ættum. Hann lauk kennaraprófi og starfaði sem kennari í íslensku og síðar skólastjóri við Laugarnesskólann í Reykjavík. Þau voru öll af ungmennafélagskynslóðinni, þar sem fullveldi Íslands og sjálfstæði voru meginmál. Íslensk tunga var þeim hjartfólgin og vildu þau veg hennar sem mestan. 5. gr. Stjórn sjóðsins Rektor Háskóla Íslands skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Í stjórninni skulu vera tveir fulltrúar tilnefndir af Menntavísindasviði Háskóla Íslands og skal annar þeirra vera tilnefndur af námsleiðinni Leikskólakennarafræði við Deild kennslu- og menntunarfræði. Þriðji fulltrúi er tilnefndur af námsleiðinni Íslenska sem annað mál við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Æskilegt er að einn þessara fulltrúa tali íslensku sem annað mál. Hlutverk stjórnar er að halda utan um málefni sjóðsins og kynningar- og umsóknarferli í samstarfi við umsjónarmann Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og velur sér formann og ritara. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Stjórnin kemur saman að minnsta kosti árlega. 6. gr. Fundir stjórnar og úthlutun styrkja Formaður stjórnar skal boða til stjórnarfunda sjóðsins. Stjórnin tekur ákvörðun um fjárhæð styrkja og velur styrkþega úr hópi umsækjenda. Við styrkveitingar skal taka mið af markmiði og tilgangi sjóðsins. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Stjórnin hefur eftirlit með ráðstöfun styrkja og meðferð fjármuna og fer yfir ársreikninga sjóðsins. Stjórnin setur og ritar nánari starfsreglur um úthlutanir, svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Starfsreglur sjóðsins skulu endurskoðaðar reglulega. Sjóðsstjórn heldur fundargerðabók um starf sitt og skilar afritum fundargerða til umsjónarmanns Styrktarsjóða Háskóla Íslands til varðveislu. Stjórnin skal úthluta styrkjum á grundvelli auglýsingar. Auglýsing eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum skal gerð á þann hátt að hún nái til sem flestra sem hún getur átt erindi við. Stjórn sjóðsins annast úthlutun styrkja í samráði við umsjónarmann Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Við kynningu á sjóðnum og við úthlutun styrkja skal þess sérstaklega getið að sjóðurinn sé stofnaður til minningar um foreldra Elsu Sigríðar Jónsdóttur og Tómasar Gunnarssonar, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson. Stjórn getur í ljósi ávöxtunar eða annarra aðstæðna ákveðið að safna saman leyfilegri úthlutun á milli reikningsára og úthluta í einu lagi lausum hlut samkvæmt reikningsskilum. 7. gr. Umsýsla og endurskoðun sjóðsins Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af endurskoðanda Styrktarsjóða Háskóla Íslands og þeir birtir með sama hætti og aðrir reikningar Háskóla Íslands. 8. gr. Um breytingar á skipulagsskránni Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður eða gera breytingar á hlutverki hans og tilgangi af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Slíkt skal borið skriflega undir sýslumanninn á Norðurlandi vestra. Verði sjóðurinn lagður niður skulu fjármunir hans renna til málefna er tengjast tilgangi sjóðsins. 9. gr. Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumanns Norðurlands vestra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni. Reykjavík, 2. júlí 2020 Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands Elsa Sigríður Jónsdóttir Tómas Gunnarsson Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá númer 19/1988. facebooklinkedintwitter