Skip to main content
19. desember 2019

Álfar vinnumarkaðarins

""

Nánast eingöngu er auglýst eftir sjálfboðaliðum í störf sem um gilda kjarasamningar og sem á þar af leiðandi að greiða laun fyrir. Oftast er það ungt fólk sem kemur hingað til lands í ævintýraleit sem sinnir þessum störfum. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, prófessors í félagsfræði og aðstoðarrektor vísinda, og Jónínu Einarsdóttur, prófessors í mannfræði við Háskóla Íslands. 

Erlendu starfsfólki hefur fjölgað hratt síðastliðin ár á íslenskum vinnumarkaði. Á sama tíma hefur erlendu starfsfólki sem að þiggur engin laun fyrir störf sín einnig fjölgað. Markmið rannsóknarinnar er að skoða alla þá anga sem viðkoma slíkum störfum og hvernig hægt sé að ná utan um þau en einnig að skoða hvort  menning ungs fólks í dag, sem felur m.a. í sér að ferðast um heiminn sem sjálfboðaliði, stangast á við kröfur atvinnulífsins eða aðila vinnumarkaðarins. Verkalýðshreyfingar og samtök atvinnulífsins hafa sammælst um að sjálfboðaliðastörf séu einungis réttlætanleg þegar um störf fyrir mannúðar- eða hjálparsamtök er að ræða, störf sem annars væru ekki unnin. Um öll önnur störf gilda ákvæði kjarasamninga. Gögnum var safnað þann 27. febrúar með árs millibili árin 2017, 2018 og 2019 á heimasíðunum www.workaway.info og www.helpx.net.

„Við byrjuðum á því að skoða þær leiðir sem eru farnar til að fá sjálfboðaliða inn á íslenskan vinnumarkað. Við greindum auglýsingar á tveimur vefsíðum til að sjá hverjir eru að auglýsa eftir sjálfboðaliðum og í hvers konar störf,“ segir Guðbjörg Linda.

Sjálfboðaliðar koma hingað af mismunandi ástæðum

Guðbjörg og Jónína leituðu svara við því hvers vegna erlend ungmenni vilji koma til Íslands og vinna frítt. Í viðtölum við sjálfboðaliða kom í ljós að ástæðurnar voru ýmsar. Næga vinnu er að hafa á Íslandi í samanburði við mörg önnur lönd í Evrópu þar sem oft er erfitt fyrir ungt fólk að komast inn á vinnumarkaðinn. Það getur því verið betra fyrir ferilskrána að vinna hér á landi launalaust í stað þess að gera ekkert í heimalandinu. Meginþorri þessa fólks er þó í ævintýraleit og langar að ferðast um heiminn, búa á mismunandi stöðum og fá að launum fæði og húsaskjól og ganga undir nafninu sjálfboðaferðamenn. „Þetta er orðið partur af menningu ungs fólks í dag. Þessum hópi myndi að sjálfsögðu henta betur að fá greitt fyrir en veit ekki að það er í boði,“ segir Guðbjörg Linda. 

Hingað til lands koma einnig margir frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Fyrir þau er auðveldara að koma sem ferðamaður og fara svo aftur eftir þrjá mánuði. Sem sjálfboðaliðar komast þau til landsins og þurfa ekki að greiða fyrir það að vera hér og geta svo ferðast til annars lands og gert slíkt hið sama. 
 

Sumir sjálfboðaliðana hafa gengið undir nafninu álfar en álfar eru oft ósýnilegir í sögum. Sjálfboðaliðar eru ósýnilegur hópur meðal annars vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur gengið mjög hart fram í því að þarna sé um brot á samningum að ræða, en samt sem áður starfa þeir hjá fjölmörgum fyrirtækjum,“ segir Guðbjörg  Linda Rafnsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson

Ójafn leikur

Þó svo að ungmenni séu í þessu af fúsum og frjálsum vilja án þess að fá laun skapar þetta afar flókna stöðu. Annars vegar kemur upp ójöfn samkeppnisstaða á milli fyrirtækja. „Mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem eru ekki rekin áfram af sjálfboðastörfum, kvarta undan ójöfnum leik. Þau fara eftir reglum vinnumarkaðsins og borga laun eins og vera ber. Við hliðina á þeim er sams konar fyrirtæki sem borgar engin laun,“ segir Guðbjörg. Hins vegar taka sjálfboðaliðar störf frá fólki sem virkilega þarf á launum að halda. 

Af hverju náum við ekki utan um þetta?

Á heimasíðum aðila vinnumarkaðarins kemur fram að á Íslandi séu sjálfboðaliðastörf einungis leyfð í þágu góðgerðar- og menningarmála en ekki þegar um er að ræða einhvers konar atvinnustarfsemi. ASÍ heldur einnig út heimsíðu á ensku þar sem vakin er athygli á sjálfboðavinnu á Íslandi og hvaða reglur gilda um hana. Aðilar vinnumarkaðsins hafa brýnt fyrir fyrirtækjum í ferðaþjónustu og öðrum vinnuveitendum sjálfboðaliðanna að virða kjarasamninga og greiða þeim laun og eru fyrirtæki því upplýst. 

Að sögn Guðbjargar hefur reynst erfitt að fá fólk í viðtöl, hvort sem um var að ræða þá sem ráða til sín sjálfboðaliða og sjálfboðaliðana sjálfa. Atvinnurekendur vilja oftast ekki tjá sig um málið og segja að hjá þeim séu engir sjálfboðaliðar. Þeir sjálfboðaliðar sem að þær hafa talað við virðast vita að þeir eru á gráu svæði og treysta sér ekki endilega til að vera með í rannsókninni. 

„Sumir sjálfboðaliðana hafa gengið undir nafninu álfar en álfar eru oft ósýnilegir í sögum. Sjálfboðaliðar eru ósýnilegur hópur meðal annars vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur gengið mjög hart fram í því að þarna sé um brot á samningum að ræða, en samt sem áður starfa þeir hjá fjölmörgum fyrirtækjum,“ segir Guðbjörg og bætir við að ná verði utan um málið: „Ef verkalýðshreyfingin getur ekki stoppað það sem henni finnst svo mikilvægt, hvernig getur hún þá að stoppað vinnumansal og önnur félagsleg undirboð? “ 

Höfundur greinar: Urður Örlygsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir