Styrktar- og rannsóknasjóður Þuríðar J. Kristjánsdóttur var stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til doktorsnema á Menntavísindasviði, einkum vegna verkefna á sviði kennslumála. Stofnfé sjóðsins er nærri 50 milljónir króna. Stofnframlag sjóðsins er gjöf Þuríðar Jóhönnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi prófessors við og aðstoðarrektors Kennaraháskóla Íslands, sem lést árið 2018. Í erfðaskrá sinni arfleiddi hún Háskóla Íslands að húseign sinni og öðrum peningalegum eigum með það að markmiði að stofna þennan sjóð. Stjórn sjóðsins Stjórn Menntavísindasviðs (MVS) Háskóla Íslands fer með stjórn sjóðsins. Í henni sitja sex stjórnarmenn, þ.e. sviðsforseti MVS sem er jafnframt formaður stjórnar og deildarforsetar þeirra fjögurra deilda sem heyra undir sviðið, ásamt fulltrúa nemenda. Um Þuríði Jóhönnu Kristjánsdóttur Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir fæddist á Steinum í Stafholtstungum í Borgarfirði 28. apríl 1927. Hún lauk kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands árið 1948 og var síðar við nám í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn og Cambridge-háskóla í Englandi. Hún lauk BS-prófi frá Illinois-háskóla í Urbana árið 1968, meistaraprófi 1969 og doktorsprófi í menntasálarfræði frá sama skóla árið 1971. Hún hóf störf við Kennaraháskóla Íslands árið 1971 og varð fyrsti prófessor við skólann 1973. Þá gegndi hún starfi aðstoðarrektors Kennaraháskólans á árunum 1983-1987. Þuríður lét af störfum við skólann árið 1989. Skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Styrktar- og rannsóknarsjóð Þuríðar J. Kristjánsdóttur 1. gr. Nafn sjóðs, heimili og varnarþing. Sjóðurinn heitir Styrktar- og rannsóknarsjóður Þuríðar J. Kristjánsdóttur, í skipulagsskrá þessari nefndur sjóðurinn. Sjóðurinn er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem eru í fjárvörslu Háskóla Íslands. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. 2. gr. Tilgangur og markmið sjóðsins. Tilgangur sjóðsins er að veita samkvæmt umsóknum styrki til doktorsnema á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, einkum vegna verkefna á sviði kennslumála. 3. gr. Stofnframlag og tekjur sjóðsins Stofnframlag sjóðsins er gjöf Þuríðar Jóhönnu Kristjánsdóttur, kt. 280427-4467, samkvæmt erfðaskrá, að upphæð kr. 48.776.257. Tekjur sjóðsins eru vaxtatekjur. Sjóðurinn tekur við gjöfum og framlögum frá þeim sem vilja veita markmiðum hans brautargengi skv. 2. gr. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma og taka mið af fjárfestingarstefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Ef stjórn sjóðsins ákveður að greiða ekki styrki bætast þeir fjármunir sem lausir voru til úthlutunar það ár við þá sem lausir eru til ráðstöfunar árið eftir. 4. gr. Stofnandi sjóðsins Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir fæddist á Steinum í Stafholtstungum í Borgarfirði 28. apríl 1927. Hún lauk kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands árið 1948 og var síðar við nám í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn og Cambridge-háskóla í Englandi. Hún lauk BSc-prófi frá Illinois-háskóla í Urbana árið 1968, meistaraprófi 1969 og doktorsprófi í menntasálarfræði frá sama skóla árið 1971. Hún hóf störf við Kennaraháskóla Íslands árið 1971 og varð fyrsti prófessor við skólann 1973. Þuríður lét af störfum við Kennaraháskólann árið 1989. Kennaraháskóli Íslands sameinaðist Háskóla Íslands 1. júlí 2008 og varð að Menntavísindasviði Háskóla Íslands. 5. gr. Stjórn sjóðsins Stjórn Menntavísindasviðs (MVS) Háskóla Íslands fer með stjórn sjóðsins. Í henni sitja sex stjórnarmenn, þ.e. sviðsforseti MVS sem er jafnframt formaður stjórnar og deildarforsetar þeirra fjögurra deilda sem heyra undir sviðið, ásamt fulltrúa nemenda. Hlutverk stjórnar er að halda utan um málefni sjóðsins og kynningar- og umsóknarferli í samstarfi við Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnarstörf eru ólaunuð. 6. gr. Fundir stjórnar Formaður stjórnar Menntavísindasviðs skal boða til stjórnarfunda sjóðsins. Stjórnin tekur ákvörðun um fjárhæð styrkja og velur styrkþega úr hópi umsækjenda. Við styrkveitingar skal taka mið af tilgangi og markmiði sjóðsins. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Stjórnin hefur eftirlit með ráðstöfun og meðferð fjármuna og fer yfir ársreikning sjóðsins. Stjórnin setur nánari starfsreglur um úthlutanir, svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Sjóðsstjórn heldur fundargerðabók og skilar fundargerðum til Styrktarsjóða Háskóla Íslands til varðveislu. 7. gr. Umsýsla og endurskoðun sjóðsins Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Endurskoðendur sjóðsins eru endurskoðendur Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Reikningar sjóðsins skulu birtir með sama hætti og annarra sjóða í vörslu Háskóla Íslands. 8. gr. Um breytingar á skipulagsskránni Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður, eða gera breytingar á tilgangi hans, af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Slíkt skal borið skriflega undir sýslumanninn á Norðurlandi vestra. Verði sjóðurinn lagður niður skulu fjármunir hans renna til málefna er tengjast tilgangi sjóðsins. 9. grein Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumanns Norðurlands vestra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni. facebooklinkedintwitter