Skip to main content
23. febrúar 2019

Ávarp rektors við brautskráningu 23. febrúar 2019

""

Fyrrverandi rektorar, aðstoðarrektorar, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, starfsfólk Háskóla Íslands, góðir gestir. 
Kæru kandídatar, fyrir hönd Háskóla Íslands óska ég ykkur öllum og fjölskyldum ykkar hjartanlega til hamingju með daginn.  Það er sérstakt gleðiefni að fá að ávarpa ykkur á þessari uppskeruhátíð.  Árangur ykkar, sem staðfestur er með prófskírteinum þeim sem þið takið við hér á eftir, gefur sannarlega tilefni til að fagna.  Sá áfangi sem þið hafið nú lokið markar tímamót í lífi ykkar.  Hann opnar ykkur leið að nýjum störfum, gefur ykkur færi á að dýpka skilning ykkar á heiminum, samfélaginu og ykkur sjálfum og er þannig grunnur að áframhaldandi námi og þroskagöngu sem varir alla ævi.

Í tilefni dagsins langar mig að velta upp þeirri spurningu, kæru kandídatar, hvernig heimur blasir við þeim sem brautskrást úr háskólum heimsins um þessar mundir. Hefur ungt háskólafólk ástæðu til að horfa björtum augum til framtíðar eða er allt á fallanda fæti eins og stundum virðist mega ætla af fréttaflutningi og opinberri umræðu? Nú kappkosta háskólar að búa nemendur sína sem best undir þær áskoranir og þau lífsverkefni sem alls staðar blasa við, og sífellt fleiri ungmenni fá tækifæri til að helga líf sitt vísindum, tækniþróun og nýsköpun. Aldrei fyrr hafa jafnmargir háskólamenntaðir einstaklingar unnið landi sínu gagn.  Gildir þetta um langflestar þjóðir heims. Þrátt fyrir þetta sýna rannsóknir að fjöldi fólks telur að ástandi heimsins hraki ár frá ári og allt horfi meira eða minna til verri vegar. Við getum spurt hvort draumur þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands og veðjuðu á menntun, ekki síst háskólamenntun, sem leið framfara og farsældar, hafi ekki ræst. Einnig má spyrja hvort það geti virkilega verið að við höfum ekki „gengið til góðs götuna fram eftir veg“ eins og þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson spurði í ljóði sínu „Íslandi“?

Hér er vert að staldra við og gæta að staðreyndum.  Margt bendir nefnilega til þess að hin dökka og bölsýna heimssýn standist ekki að öllu leyti skoðun. Ef við rýnum lífsskilyrði okkar í sögulegu ljósi myndu fæst okkar vilja skipta við formæður og forfeður okkar, jafnvel ekki af allra síðustu kynslóðum. Skoðum nokkur dæmi sem m.a. byggjast á tölum frá OECD.  Fyrir tvö hundruð árum, um 1820, lifðu 94% jarðarbúa við sára fátækt en á okkar tímum eru það 10%.  Árið 1820 bjuggu aðeins um 1% jarðarbúa við lýðræði; á okkar tímum tæplega 60%. Fyrir tvö hundruð árum fengu um 83% jarðarbúa enga grunnmenntun en með tímanum hefur þetta snúist við og nú njóta um 86% mannkyns grunnmenntunar.  Fyrir tveimur öldum voru um 88% mannkyns ólæs en á okkar tímum eru það 12%. Og fyrir tvö hundruð árum dóu 43% allra barna áður en þau náðu fimm ára aldri en í dag er ungbarnadauði á hinn bóginn um 4% á heimsvísu.  

Ýmislegt fleira mætti tína til. Þannig hefur vinnuvika Evrópubúa styst gríðarlega og ævilíkur jarðarbúa meira en tvöfaldast. Í reynd hafa svo stórstígar framfarir orðið á síðustu áratugum og öldum að segja má að lífsskilyrði almennings hafi aldrei verið betri en einmitt nú. Framfarirnar birtast ekki einvörðungu í bættum lífslíkum, minni vinnuþrælkun, þar með talið minni barnaþrælkun, aukinni menntun og auknu lýðræði heldur einnig í stórbættu aðgengi jarðarbúa að rafmagni, aukinni réttarvernd, meira öryggi andspænis náttúruhamförum og auknu jafnrétti. Jafnrétti kynjanna til menntunar hefur reynst eitt mesta framfaraspor mannkyns og leitt til umbóta á nánast öllum sviðum mannlífsins. 

Sé horft sérstaklega til Íslands blasir við að háskólamenntun, rannsóknir, nýsköpun og markviss hagnýting hugvits hefur fært okkur Íslendingum meiri hagsæld og öryggi en nokkurn gat órað fyrir þegar Háskóli Íslands var stofnaður af fátækri þjóð með stórar hugsjónir árið 1911.  

Kæru kandídatar, ykkur bjóðast nú tækifæri innanlands og utan sem fyrri kynslóðir gátu ekki látið sig dreyma um. Ánægjulegast er að Íslendingar sem áður gátu ekki aflað sér menntunar sökum stéttarstöðu sinnar, fátæktar eða andlegra eða líkamlegra hindrana geta nú í æ ríkari mæli látið drauma sína um betra líf rætast fyrir tilstilli háskólamenntunar. 

Það er umhugsunarefni hvers vegna fólk lítur heiminn oft dökkum augum þegar töluleg gögn og staðreyndir segja aðra sögu. Ein ástæða þessa er vafalaust réttmætar áhyggjur af loftslagsbreytingum af manna völdum sem geta stefnt gervallri siðmenningu okkar og í raun öllu lífi á jörðinni í hættu. Það kann vissulega að virðast marklaust að dásama framfarirnar andspænis svo alltumlykjandi vá. Miklu skiptir að þjóðir heimsins temji sér sjálfbæra lifnaðarhætti í sátt og samlyndi við jörðina sem við byggjum og fóstrar okkur. En við skulum þó ekki gleyma að jafnvel á þessu sviði hafa orðið umtalsverðar framfarir síðasta áratug eða svo. Þannig hefur til dæmis tekist að draga úr eyðingu ósonlagsins, við stefnum hraðbyri að orkuskiptum í samgöngum og sífellt fleiri temja sér lífsstíl sem styður við heilbrigði, náttúruvernd og sjálfbærni. 

Framfarir umliðinna alda má vafalítið rekja til aukins aðgengis alls þorra almennings að menntun. Drifkraftur nýrrar þekkingar felst í skipulegum rannsóknum á náttúrunni og mannlegu samfélagi sem byggjast á þeirri hugsjón alls háskólastarfs að hafa ætíð það sem sannara reynist. Þetta er forsenda framfara og sá ótæmandi brunnur sem við munum geta ausið úr um ókomna tíð, okkur og afkomendum okkar til hagsbóta. Með aukinni menntun og rannsóknum háskóla og rannsóknastofnana mun okkur áfram takast að vinna litla og stóra sigra í baráttunni við aðsteðjandi ógnir á borð við loftslagsbreytingar, misskiptingu auðs og valda, jarðvegseyðingu og útdauða dýrategunda. Hér skiptir mestu að finna sífellt nýjar og frumlegar leiðir til að hagnýta hugvitið. Einnig er brýnt að finna leiðir til að draga úr streitu, kvíða og þunglyndi, ekki síst hjá ungu fólki. Áskoranir framtíðarinnar kalla á menntun, jafnrétti, gagnrýna hugsun, frelsi og víðsýni – sem saman mynda kjarna háskólahugsjónarinnar sem þið, kæru kandídatar, hafið tileinkað ykkur með námi ykkar. 

Á síðustu tveimur áratugum hefur Háskóli Íslands komist í röð fremstu rannsóknaháskóla heims og hefur sá árangur skilað sér í nýjum tækifærum til samstarfs við bestu háskóla austan hafs og vestan. Einn ávöxtur þessa er aukið vægi þeirrar prófgráðu sem þið veitið nú viðtöku, kæru kandídatar.  Hún er lykill að farsælli framtíð ykkar, óháð því frá hvaða deild eða úr hvaða námsgrein þið brautskráist. Háskóli Íslands er breiður alhliða háskóli sem leggur kapp á að þjóna sem best margvíslegum þörfum íslensks samfélags og atvinnulífs. Í stefnu Háskólans er lögð rík áhersla á gæði náms og kennslu, öflugt samfélag nemenda og kennara, og fjölbreyttar leiðir til náms.  Markmiðið er sem fyrr að við Háskóla Íslands geti hver og einn fundið nám við sitt hæfi sem ávallt stenst ýtrustu alþjóðlegu gæðakröfur. Til að Háskólinn geti risið undir þessum metnaðarfullu væntingum og verið samkeppnishæfur á alþjóðlegum vettvangi þarf áfram að efla fjármögnun hans og tryggja að skólinn njóti sambærilegrar fjármögnunar og norrænir rannsóknaháskólar, eins og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Íslands kveður á um.

Kæru kandídatar.  Þið sem brautskráist frá Háskóla Íslands í dag hafið ríka ástæðu til að líta björtum augum til framtíðar. Leiksviðið er ykkar og tækifærin til að láta gott af ykkur leiða eru óþrjótandi.  

Í síðasta mánuði andaðist bandaríska ljóðskáldið Mary Oliver en í einu kunnasta kvæði sínu, „Sumardagurinn“, spyr hún: 

„Segðu mér, hvað annað hefði ég átt að gera?
Deyr ekki að lokum allt og alltof snemma?
Segðu mér, hvað áformar þú að gera
við þitt eina, villta og dýrmæta líf?“ 

Þessi tilvistarlega spurning snertir strengi í brjóstum alls ungs fólks: Hvað er það sem þú hyggst gera við þitt eina, villta og dýrmæta líf? Hvernig get ég best ræktað þann ómótaða efnivið sem mér er gefinn og hvernig getur líf mitt komið að sem mestu gagni fyrir mig og samfélagið allt? Háskólahugsjónin byggist á því að þetta tvennt, ræktun einstaklingseðlisins og uppbygging farsæls samfélags, fari saman. Engin manneskja er eyland. Djúp og varanleg ánægja fylgir því að láta gott af sér leiða og vera öðrum til gagns.

Kæru kandídatar, um leið og ég þakka ykkur samfylgdina óska ég ykkur fyrir hönd Háskóla Íslands velfarnaðar í þeim verkefnum sem þið takið ykkur nú fyrir hendur. Ég treysti því að hvert sem leiðir ykkar munu liggja verðið þið Háskóla Íslands, fjölskyldum ykkar og þjóðinni til sóma. Orðspor Háskólans er nú samofið lífi ykkar og starfi.  Þið eruð útverðir í sístækkandi sveit vina Háskóla Íslands. Njótið dagsins. Framtíðin er björt. Hún er ykkar. 
 

Jón Atli Benediktsson