Hver króna í menntun og rannsóknir verður að fimm
„Háskóli Íslands er skóli atvinnulífs framtíðarinnar. Atvinnulíf framtíðarinnar mun einkennast af hátæknistörfum, síaukinni menningarsköpun og það verður sérstök áskorun að tryggja stöðu íslenskrar tungu og menningar á tímum alþjóðavæðingar,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningu á þriðja þúsund kandídata í Laugardalshöll í dag. Þetta er næstmesti fjöldi sem brautskráðst hefur frá Háskólanum á einum degi. Úr framhaldsnámi brautskráðust 809 kandídatar og 1.278 brautskráðust úr grunnnámi.
Jón Atli sagði í ræðu sinni í dag að Háskóli Íslands hefði allar faglegar forsendur til að veita áfram ungu fólki samkeppnishæfa háskólamenntun fyrir eftirsótt og krefjandi störf. Til að svo mætti verða þyrfti hins vegar að tryggja honum sambærilega fjármögnun og háskólar fái í nágrannaríkjunum. „Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni. Samkeppnishæfni Íslands, lífskjör og farsæld samfélagsins til framtíðar er í húfi.“
Jón Atli benti máli sínu til stuðnings á nýja skýrslu frá Evrópusambandinu um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif vísinda og nýsköpunar. Þar kæmi fram að ótvírætt orsakasamband væri á milli útgjalda til rannsókna, nýsköpunar og menntunar annars vegar og framleiðniaukningar og hagvaxtar hins vegar. „Í áðurnefndri skýrslu er sýnt fram á að 10% aukning útgjalda til rannsókna og nýsköpunar skilar vexti þjóðartekna sem nemur fimmfaldri þeirri aukningu. Fjárfesting í rannsóknum og menntun skilar sér þannig margfalt til baka í auknum hagvexti og lífsgæðum.“
Í ræðu sinni sagði Jón Atli að áhrif háskólastarfs og rannsókna takmarkaðist síður en svo við tæknigreinar. „Þvert á móti hefur nýsköpun í öllum greinum bein og óbein áhrif á auðlegð, framfarir og lífsgæði. Rannsóknir í hug- og félagsvísindum eru grundvöllur skynsamlegar ákvarðanatöku á fjölmörgum sviðum í lífi okkar og almenn menntun eykur starfshæfni, þroskar okkur sem manneskjur og dýpkar skilning okkar á umhverfinu.“
Rektor ræddi gildi háskólamenntunar og benti kandídötum á að námsgreinar sem í dag virtust hafa takmarkað hagnýtt gildi gætu skyndilega komist í lykilstöðu með breyttum aðstæðum í samfélagi, atvinnulífi eða á alþjóðlegum vettvangi. „Og við þekkjum líka dæmi um hið gagnstæða. Greinar sem haft hafa mikið hagnýtt geta skyndilega mitt samkeppnisforskot sitt með breyttum atvinnuháttum eða nýjum áherslum. Því má segja að grundvöllur háskólamenntunar sé fyrst og fremst sá að miða að því að kenna nemendum að læra, að tileinka sér sífellt nýja þekkingu með fjölbreyttum aðferðum og að leita fanga sem víðast bæði innalands og utan.“
Rektor benti á að háskólarnir væru aflvaki þekkingarinnar og að fyrirtækin og atvinnulífið þurfi sífellt á nýrri þekkingu að halda sem einmitt verði til innan háskólanna. „Fyrirtæki standa sjaldnast ein og sér að þróun þeirrar grunnþekkingar sem þau byggja á. Hátæknirisar á borð við Google og Apple nýta sér tækniþróun sem iðulega er fóstruð í háskólum og rannsóknastofnunum og byggja ábatasama framleiðslu sína á þeim.“
Rektor benti þessu til stuðnings á tæknibyltingu síðustu áratuga sem öll hefði átt fyrstu skrefin innan veggja háskólanna. „Ég nefni til dæmis GPS-tæknina, snertiskjáinn og internetið,“ sagði Jón Atli. Þetta hefði „aldrei átt sér stað án opinberrar fjárfestingar í háskólamenntun, rannsóknum, þróun og nýsköpun.“
Háskólarektor sagði að þær þjóðir sem fjárfesti í sjálfbærni í víðasta skilningi muni uppskera aukinn hagvöxt, ný atvinnutækifæri og nýja þekkingu. „Hinar sem ekki byggja á menntun heldur treysta alfarið á hefðbundna nýtingu náttúruauðlinda og vélvæddan iðnað munu sitja eftir og staðna.“
Í ræðu sinni sagði rektor það alls ekki eina hlutverk háskólamenntunar að skapa atvinnutækifæri eða auka skilning á fyrirbærum náttúru og mannheims. Háskólamenntun efldi ábyrgðartilfinningu okkar gagnvart öðrum og náttúrunni sjálfri og gerði okkur þannig færari um að vera virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. „Hún hefur þannig bæði siðferðilegt og félagslegt gildi. Hér er mikilvægt að minnast þess að háskólarnir þjóna þessari leit að sannleikanum,“ en ekki einvörðungu síbreytilegum kröfum samfélagsins. „Við höfum verið rækilega minnt á þetta undanfarin misseri þegar aðför hefur verið gerð að vísindum og staðreyndum og þeim hafnað í nafni efnahagslegra eða pólitískra stundarhagsmuna.“
Í lok ræðu sinnar vitnaði Háskólarektor í fjöllistakonuna Björk Guðmundsdóttur og flutti brot úr texta úr lagi hennar „Anchor Song“.
„Ég bý við sjóinn og á nóttunni þá kafa ég niður, alveg á hafsbotninn, undir allar iður og set akkerið mitt út – hér vil ég vera, hér á ég heima,“ sagði rektor Háskóla Íslands og beindi því til þeirra sem héldu út í lífið í dag með nýárituð prófskírteini að gleyma aldrei uppruna sínum.
Háskóli Íslands brautskráði 456 kandídata í febrúar og því eru þeir orðnir 2.542 sem hafa brautskráðst frá skólanum í ár.