Verðlaunuð á 20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnunni
Fjórir efnilegir vísindamenn hlutu verðlaun fyrir rannsóknarverkefni sín á 20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands. Verðlaunin voru afhent við slit ráðstefnunnar á Hilton Nordica Hóteli þann 3. júní að viðstöddum Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Ástu Valdimarsdóttur, ráðuneytisstjóra í Heilbrigðisráðuneyti, Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs og öðrum ráðstefnugestum. Helga Jónsdóttir, formaður undirbúningsnefndar ráðstefnunnar og prófessor í hjúkrunarfræði, stjórnaði athöfninni.
Berglind Soffía Blöndal, doktorsnemi í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild, hlaut verðlaun heilbrigðisráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar fyrir verkefnið „A Randomized Controlled Trial: Nutrition Therapy and Support After Hospital Discharge in Older Adult“. Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneyti, afhenti verðlaunin.
Guðjón Reykdal Óskarsson, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefnið „GWAS on band neutrophil fraction and identification of a Pelger-Huët family“. Sigríður Klara Böðvarsdóttir, forstöðumaður Lífvísindaseturs, afhenti verðlaunin fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Salvör Rafnsdóttir, doktorsnemi í læknavísindum við Læknadeild, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar sem Félag íslenskra lífeðlisfræðinga veitir efnilegum vísindamanni fyrir verkefni á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina. Salvör hlaut verðlaunin fyrir verkefnin „Many genes contribute to temperature regulation in mammals“. Yrsa Sverrisdóttir, formaður félagsins, afhenti verðlaunin.
Kristján Godsk Rögnvaldsson, doktorsnemi í læknavísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði til efnilegs námsmanns fyrir verkefni á sviði lyfja- og eiturefnafræði, en það ber heitið „Acetýlsalicýlsýra lækkar dánartíðni sjúklinga með lungnabólgu af völdum Streptococcus pneumoniae“. Kristín Ólafsdóttir, formaður valnefndar og dósent í lyfja- og eiturefnafræði við Læknadeild, afhenti verðlaunin.
Háskóli Íslands óskar verðlaunahöfunum og öðrum efnilegum vísindamönnum sem kynntu verkefni sín á ráðstefnunni hjartanlega til hamingju með árangurinn.