Skip to main content
16. september 2020

Skimun í boði fyrir nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands hjá Íslenskri erfðagreiningu

Skimun í boði fyrir nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands hjá Íslenskri erfðagreiningu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (16. september):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Á undanförnum mánuðum höfum við náð utan um COVID-19 faraldurinn hér innanlands á grundvelli agaðra viðbragða, víðtækra rannsókna og gagnasöfnunar. Mér er því mikil ánægja að segja frá því að Íslensk erfðagreining, samstarfsaðili okkar hér í Vatnsmýrinni, hefur boðist til að skima starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands gjaldfrjálst fyrir COVID-19. Ég hvet ykkur til að nýta þetta mikilvæga boð. Með þessum skimunum munum við geta kortlagt stöðuna í Háskóla Íslands. Tekið verður á móti pöntunum strax í dag. 

Hægt er að bóka tíma hér 
Boðslykill þinn er HI_COVID

Vinsamlegat athugið að þeir sem eru í sóttkví mega ekki panta tíma hjá Þjónustumiðstöð heldur þurfa að bíða eftir fyrirmælum frá Heilsugæslunni!  Einungis er ætlast til að þeir panti tíma sem hafa verið á háskólasvæðinu undanfarna tíu daga.

Því miður voru tvö ný COVID-19 smit staðfest meðal starfsmanna Háskóla Íslands í gær, annað í Aðalbyggingu en hitt hjá starfsmanni með skrifstofu í Odda. Þótt staðan sé vissulega þyngri en við hefðum kosið þá leggjast allir á eitt við að draga úr hættu á frekari útbreiðslu veirunnar. Smitrakningarteymi almannavarna hefur farið vandlega yfir stöðuna og þeim hefur því fjölgað nokkuð sem eru í sóttkví. Starfsfólk er beðið um að tilkynna um sóttkví eða smit til næsta yfirmanns. Fræðasvið og miðlægar starfseiningar eru einnig beðnar um að upplýsa um slíkt til neyðarstjórnar í tölvupósti: neydarstjorn@hi.is.

Eðlilega eru margir kvíðnir í ljósi stöðunnar og vil ég því ítreka hvatningu mína til ykkar að nýta gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu sem í boði er, bæði fyrir nemendur og starfsfólk

Ég ítreka sömuleiðs áherslu á persónubundnar smitvarnir og fylgni við reglur almannavarna. Verum heima ef minnstu einkenna verður vart. Hlöðum niður smitrakningarappi landlæknis, verum ábyrg og hugsum á eins jákvæðan hátt og okkur er kostur í þessari stöðu sem er einungis tímabundin.

Við höfum sýnt æðruleysi og seiglu í gegnum allt þetta ferli og þannig vinnum við fullnaðarsigur.

Gangi ykkur öllum vel, kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

 

""

Íslensk erfðagreining hefur boðist til að skima starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands gjaldfrjálst fyrir COVID-19. Einungis er ætlast til að þeir panti tíma sem hafa verið á Háskólasvæðinu undanfarna tíu daga. MYND/Kristinn Ingvarsson