Rannsóknarhópur fær viðurkenningu
Á árlegri ráðstefnu Academy of Management (AOM) hlaut rannsóknarhópur við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands viðurkenningu fyrir framlag sitt til ráðstefnunnar. Grein frá hópnum var tilnefnd sem ein af bestu greinunum en þann heiður hlaut innan við 5% innsendra greina. Rannsóknarhópinn skipa Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Svala Guðmundsdóttir og Þórhallur Guðlaugsson en þau eru öll kennarar við Viðskiptafræðideild.
AOM eru ein elstu og virtustu samtök fræðimanna á sviði stjórnunar en samtökin voru formlega stofnuð árið 1936 af nokkrum bandarískum prófessorum við virta háskóla þar í landi. Í dag er skráðir félagar yfir 19 þúsund frá 120 þjóðlöndum. Starfið er umfangsmikið og skipt upp í 25 mismunandi deildir og var greinin sem fékk viðurkenningu til kynningar í deild sem sérstaklega fjallar um margvíslegar hliðar alþjóðastjórnunar (International Management, IM). Innsendar greinar í ár voru 7.042 og voru 3.203, eða um 45%, samþykktar til kynningar á ráðstefnunni. 310 greinar fengu tilnefningu sem ein af bestu greinunum sem er 4,4% af innsendum greinum. Þátttakendur á ráðstefnunni voru 11.010 frá 90 þjóðlöndum en þátttakendur frá Íslandi voru 7. Það er hópnum mikil hvatning að fá þessa viðurkenningu á vettvangi sem almennt er talinn hvað mikilvægastur fyrir fræðimenn á sviði stjórnunar.
Greinin sem fékk viðurkenningu ber heitið „The diplomatic spouse: The relationship between adjustment, social support and satisfaction with life“ en markmið rannsóknarinnar var að skoða tengslin á milli aðlögunar annars vegar og stuðnings hins vegar við lífshamingju maka útsendra starfsmanna í utanríkisþjónustu 24 Evrópulanda. Niðurstöður sýndu sterk tengsl milli þessara þátta og rannsóknarlíkan höfunda bendir til þess að hægt sé að útskýra 30% af breytileikanum í lífshamingju út frá aðlögun og tilfinningalegum stuðningi.
Rannsóknarhópurinn hefur starfað saman frá 2010 og stundað rannsóknir á sviði alþjóðastjórnunar, þjóðmenningar og vinnumarkaðsfræði. Alls hefur hópurinn birt 9 fræðigreinar í innlendum og erlendum tímaritum og fékk viðurkenningu fyrir framlag sitt á alþjóðlegri ráðstefnu árið 2015. Afrakstur þeirrar vinnu var m.a. birtur í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla árið 2015 en greinin ber heitið „Icelandic national culture compared to national cultures of 25 OECD member states using VSM94“.