Ólík sjónarhorn á Íslenska forystu
Nýverið kom út á vegum Springer bókaútgáfunnar bók um forystu á Íslandi.
Höfundar bókarinnar eru, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Svala Guðmundsdóttir, Inga Minelgaite og Olga Stangjev.
,,Að sögn Árelíu var kveikjan að bókinni starfsmannaferð Viðskiptafræðideildar sem hafði ýmsar óvæntar birtingarmyndir. Ein af þeim birtist þegar að við sátum saman í langri rútuferð með hinn fagra Borgarfjörð sem útsýni út um gluggann okkar. Í því umhverfi ræddum við um að það vantaði góða fræðilega bók um íslenska forystu. Mörg lönd og landsvæði hafa að undanförnu verið að líta í eigin barm og reyna að skilgreina hvaða þættir útskýra einstaka liði í forystu þeirra en slíkt hefur ekki áður verið gert hér á landi Eftir því sem við færðumst um innsveitir Borgarfjarðar urðum við spenntari fyrir samstarfinu og verkefninu og nú er bókin komin út.“
Bókin fjallar almennt um forystu á Íslandi út frá mörgum sjónarhornum. „Reynt var að rannsaka og fjalla um þau svið sem annaðhvort eru einstök fyrir íslenskt atvinnulíf eða marka efnahagsmál okkar og eru áhugaverð á alþjóðavísu. Fjallað er ítarlega um konur og stjórnun, menningu í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Forystu í sjávarútvegi og ferðaiðnaði og í íþróttum.“
Í bókinni leitast höfundar við að sýna fram á þá þætti sem eru einstakir eða sérstakir fyrir íslenska forystu. Það eru að sjálfsögðu þættir úr sögu okkar og menningu en einnig þættir sem hafa verið greindir með rannsóknum í viðskiptafræðum þ.e. út frá fyrirtækjabrag, stjórnunarstílum og umhverfisþáttum skipulagsheilda. Íslenskt viðskiptalíf er bæði sérstakt en líka alþjóðlegt og höfundar reyna að líta til þeirra þátta sem eru einstakir til útskýringar á bæði árangri og hefð. Árangur íslenskrar forystu fellst að hluta til í því að takast á við efnahagslegar krísur og er að mörgu leyti einstakur. Segja má að smæð þjóðarinnar endurspeglist ekki í viðhorfum forystu né starfsmanna.
Útgáfuhóf bókarinnar verður haldið þriðjudaginn 16. október næstkomandi. Hér má finna tengil á viðburðinn í viðburðadagatali Háskóla Íslands.
Hér má einnig finna tengil á bókina hjá Springer bókaútgáfunni.
Dr. Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dr. Svala Guðmundsdóttir og dr. Inga Minelgaite